Mánudagur 23.08.2010 - 14:30 - Lokað fyrir ummæli

Notendamiðað skattkerfi

Tvennt er svolítið merkilegt ef maður pælir í því:

 Við Íslendingar erum annars vegar:

— afar tortryggnir út í skatta sem hið opinbera leggur á okkur og ákveður hvernig skuli varið.  Förum umsvifalaust í það að finna glufur og leiðir til að komast hjá því að borga sjálf alla þá skatta sem á okkur á að leggja, með þeim afleiðingum að innheimta þeirra verður óskilvirk og þá þarf að hækka.

— manna reiðubúnastir til að leggja fram upphæðir (að eigin vali) til góðra málefna ef um söfnun er að ræða.  Til dæmis fyrir hópa sjúklinga sem skattkerfið getur einhverra hluta vegna ekki allskostar annast…

Hvers vegna skyldum við frekar sætta okkur við að greiða fyrir plastpoka í búð undir þeim formerkjum að tekjum af þeirri sölu verði varið til að hjálpa tilteknum þjóðfélagshópum, en að uppfylla skattskyldu okkar sem á endanum ætti að lenda á svipuðum slóðum? 

Er það vegna þess að við getum sjálf valið hversu marga poka við kaupum og þannig hversu mikið við erum tilbúin að leggja af mörkum?

Það er ekki laust við að maður velti þessu fyrir sér um þessar mundir, þegar ljóst er að skattgreiðendur (þ.e. þeir sem raunverulega uppfylla skattskylduna) eiga upp til hópa að taka á sig verulega auknar byrðar til að ná endum saman í ríkiskassanum.  Auknar byrðar sem nota bene gætu verið mun minni ef allir færu eftir reglum og greiddu skattana sína eins og til er ætlast.

Kannski væri bara þægilegra fyrir alla aðila að opna styrktar-símalínur fyrir íslenska ríkið? 

Það mætti jafnvel bjóða upp á þrjár upphæðir.

Flokkar: Dægurmál
Efnisorð: ,

»

Ummæli (1)

  • Eiríkur Kristjánsson

    Það þyrfti kannski að gera eins og Oxfam, sem sýnir manni hlut eða þjónustu sem samsvarar andvirði gjafarinnar.

    „Ertu til í að borga tíu metra af malbiki og hálfa hjartaskurðaðgerð í skattahækkun?“ (eða megum við bara fá peninginn?)

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur