Þriðjudagur 14.09.2010 - 12:46 - Lokað fyrir ummæli

Til upprifjunar – hvar eru aðalatriðin?

Ja þetta þjóðfélag sem maður býr í og „umræðan“ sem kennd er við það!

Eftir að hafa umborið maaarga mánuði af hagfræði-jargoni þar sem fjölmiðlar matreiddu – að því er virðist ofan í almenning – alls kyns fróðleik um skuldatryggingarálag, punkta og lánalínur í stærðum sem flest okkar heyrðum varla nefndar á okkar skólagöngu (ég man að minnsta kosti ekki hvernig kubburinn var á litinn fyrir milljarð í „eining, tugur, hundrað“).  Umræðu sem öll var (og er enn) á þann veg – og er enn – að hver og einn veit best, sem er oft alveg öfugt við „bestið“ sem einhver annar veit.

Þá er okkur núna boðið upp á lagaflækjutal og -túlkun afturábak og áfram.  Hvaða ákvæði hvaða laga geti alls ekki staðist í nútímanum, hverjir hafi umboð til að dæma hvern, á kostnað hvers og hvenær.  Í mín eyru hljómar þetta svipað og þegar fótboltaáhugamenn deila um hvort dómarinn hafi verið hæfur, hafi dæmt rétt eða rangt og hvort mark eða vítaspyrna hafi átt að teljast með eða ekki með, sem oftast litast af því með hvoru liðinu maður heldur.  Og að mér læðist sá grunur að áhrif þessarar umræðu verði álíka mikil á gang mála og eftirá-skoðanir þeirra sem horfðu á fótboltann heiman úr stofu.

Ætlar einhver einhvers staðar að fara að koma sér að aðalatriðunum?

Eða kannski gera eitthvað í málunum?

Þessi umræða er eins og kapphlaup í sandi – frekar þreytandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur