Miðvikudagur 29.09.2010 - 15:50 - Lokað fyrir ummæli

„Gríðarleg fjölgun“ Samtaka iðnaðarins

Í nokkra daga hef ég klórað mér í hausnum yfir meintri 3000 manna fjölgun opinberra starfsmanna, sem Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði frá í fjölmiðlum og heimfærði á gögn úr vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands. (sjá http://www.visir.is/article/20100927/FRETTIR01/231913240)

Hvar gæti þetta fólk mögulega verið að finna?  Næstum því jafnmargt og allur mannafli Landspítala?   Á tímum þegar „náttúruleg afföll“ eru látin sjá um fækkun starfsfólks hjá hinu opinbera og ráðningarbann er almennt ríkjandi.

Þetta hafði svo gjörsamlega farið framhjá mér og mér gekk svo illa að finna þessi gögn á vefsíðu Hagstofunnar að ég sendi fyrirspurn.

Og svarið:  Jú, ef maður gefur sér að Hagstofan flokki vinnuafl eftir almennum og opinberum formerkjum (sem hún gerir ekki) og gefur sér að yfirheitin „opinber stjórnsýsla“, „fræðslustarfsemi“ og „heilbrigðis- og félagsþjónusta“ tilheyri öll opinberum markaði, má lesa út úr gögnunum að starfsmenn hafi árið 2008 verið alls 51.300.

Þá víkur sögunni að því að gögn fyrir árið 2008 eru flokkuð eftir starfaflokkunarkerfinu „ÍSAT95“ en nýrri gögn fylgja nýju kerfi, eða „ÍSAT2008“.  Ekki er hægt að bera saman gögn milli þessa ólíku kerfa, þar sem skilgreiningar breyttust við yfirfærsluna.  Í nýja kerfinu, árið 2009, er að finna seinni tölu Orra, eða um 55.000. 

En, semsagt, ef maður tekur gögn úr eldra kerfinu samkvæmt fyrrgreindum formerkjum um „opinber störf“ og ber saman við ósambærileg gögn úr nýrra kerfi, kemur fram umrædd fjölgun sem Orri vísar til.

Rúsínan í pylsuendanum er svo að hér er um úrtakskannanir að ræða, með vikmörk upp á ca 1000 fyrir hvern þessara þriggja flokka.  Er ekki þrisvar þúsund 3000?

„Opinberum starfsmönnum“ hefur semsagt á umræddu tímabili fjölgað um vikmörk úrtakskönnunar Hagstofu Íslands á störfum sem ekki eru flokkuð eftir mörkuðum.

Voilá – setjum það í fréttirnar!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

 • Elías Péturson

  Segðu mér Guðlaug…án þess að ég ætli að fara að rífast við þig um opinbera starfsmenn.

  Þegar td Landspítalinn ákvað að reka eldabuskurnar sínar í fyrra (ef ég man rétt) fækkaði þá starfsmönnum ríkisins, eða færðust þeir af starfsmannalykli yfir á verktakalykilinn í bókhaldinu?

  og smá talnaleikfimi…
  Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar störfuðu 9.200 manns í opinberri stjórnsýslu á Íslandi árið 2009. Í fræðslustarfssemi voru 20.300 og í heilbrigðis- og félagsþjónustu voru 26.900. Þetta eru gróflega þeir hópar sem jafnan teljast til opinberra geirans. Þetta eru alls 56.400 eða 33,6% þeirra sem eru starfandi árið 2009. Árið 2000 voru hins vegar 37.400 starfandi í þessum sömu hópum – á níu árum er fjölgunin 50,8%. Auðvitað stækkaði allur vinnumarkaðurinn en opinberi geirinn óx hlutfallslega mest. Árið 2000 var Þessi hópur 26,6% af markaðnum en er nú 33,6%.

  Atvinnuleysi í landinu er nú um 7,5% – það eru þungar byrðar á okkar samfélag. Hins vegar ef horft er á hvaða hópar eru atvinnulausir kemur í ljós að í þessum þremur atvinnugreinaflokkum teljast opinberir mælist atvinnuleysi 1,5-2% en í einkageiranum er það í kringum 11%.

 • Guðlaug Kristjánsdóttir

  Ekki ætla ég heldur að rífast um opinbera starfsmenn, Elías, enda er ég talsmaður háskólamenntaðs fólks bæði á opinberum og almennum markaði og ekkert í stefnu BHM sem segir að félagsmenn okkar eigi frekar að vinna öðru hvoru megin girðingar.
  Ég er líka sammála því að atvinnuleysi er böl og er hef lítinn áhuga á því að það aukist á vinnumarkaði almennt.
  Þú vísar í talnaleiki og bókhaldsleiki, hvort tveggja er slæm iðja að mínu mati þegar það er notað til að villa um – bæði þegar um gervisparnað eins og tilflutning fólks úr launamennsku í verktöku er að ræða og þegar það er sett í fréttir að störfum hafi fjölgað um sem nemur +/-0 hér eða þar.
  Þegar rætt er um nauðsynlega fækkun opinberra starfsmanna finnst mér þó að menn eigi að tilgreina hvaða þjónustu þeir vilja sjá flutta milli markaða eða fellda niður. Er það löggæsla, barnagæsla, kennsla, heilsugæsla, dómsmál, fjármálaeftirlit, þjónusta við fatlaða, eða sitt lítið af hverju? Þetta er vel tímabær umræða, eins og vafalaust mun sjást við kynningu fjárlagafrumvarps í lok vikunnar, enda ekkert annað en niðurskurður á dagskrá þar.
  Helst vildi ég sjá niðurskurðinn framkvæmdan þannig að möguleikar til starfa skapist utan hins opinbera, sem gerist ekki ef stjórnvöld ætla bæði að halda og sleppa. Því vildi ég sjá raunverulegt val hvað opinber umsvif varðar, þannig að það sem eftir sé standi undir nafni og að brotthvarf úr umsvifum „kerfisins“ skapi atvinnutækifæri í annars konar rekstri.
  Við stöndum að mínu mati öll frammi fyrir vali, sem notum og þiggjum opinbera þjónustu, annars vegar um hvað við megum missa og hins vegar um hvað við vildum sjá flutt til.
  Að lokum get ég ekki að því gert að því að velta því fyrir mér hvort til sé einhver sérstök tala yfir atvinnuleysi opinberu megin sem mönnum myndi hugnast betur en 2%. Ég hef ekki þá trú að í þessum efnum séu tveir mínusar plús.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur