Laugardagur 02.10.2010 - 15:48 - Lokað fyrir ummæli

Töff að blása á bíla?

Ég var að festa son minn í bílstólinn um daginn fyrir utan hús. 

Undir húsgaflinum stóð ungur maður og reykti.

„Mamma, hann er að blása á bílinn okkar!“ – sagði barnið. 

Móðirin varð stolt og glöð að þriggja ára gamalt barnið skyldi ekki einu sinni vita hvað reykingar væru, fagnaði breyttum tímum þar sem reykingar væru ekki sjálfsögð athöfn í umhverfi barna.  Sjálf óð ég sums staðar mikinn reyk í bernsku og minnist jólaboða þar sem stundum var erfitt að greina fólk í gegnum „móðuna“.

Þegar heim var komið runnu á mig tvær grímur svo ekki sé meira sagt.

Drengurinn hljóp inn í herbergi og sótti sér kyndil úr playmókastala (á stærð við hálfreykta sígarettu), bar hann fagmannlega upp að munni sér    – og „blés“.

Hann blés á dótabíla og líka á kubbahús og komst meira að segja að því að ef hann blés varlega, þá kom blístur!  Þetta fannst honum hin besta skemmtan og var bara nokkuð rogginn með sig.

Hófst nú forvarnafræðslan:

Ég: „Maðurinn var ekki að blása, hann var að reykja“.  Sonur: „Ó“

Ég: „Það er eitur að reykja, mjög hættulegt, maður verður veikur“. Sonur: „Ó“

Ég: „Það er ekki flott að reykja, eða blása á bíla eða hús“. Sonur: „Ó“

Og svo nokkru síðar:

-„Mamma, hvar er eitrið mitt?  Ég ætla að blása á kastalann.“

Af þessari reynslu hef ég dregið þá ályktun að reykingar þykja á einhvern dularfullan máta töff, sérstaklega ef maður veit ekki hvað þær eru.  Forvarnir þurfa líka að laga sig að breyttum aðstæðum, því reykingasiðir breytast – og töffarafaktorinn með.

„Ó“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur