Stéttarfélög og verkalýðshreyfing eru til vegna félagsmannanna, ekki fyrir forystuna og ekki fyrir neina hagsmuni aðra.
Þar af leiðandi tek ég gagnrýni á störf hreyfingarinnar fagnandi, enda mikilvægt að hver sá sem tilheyrir slíku samfélagi veiti því athygli og aðhald.
En eitt finnst mér alltaf jafnóþolandi – og jafnvel meira pirrandi eftir því sem ég heyri það oftar:
Að verkalýðshreyfing hugsi ekki um launamenn, hún sé mest upptekin af því að ráðskast með orlofshús!
Nú skal ég verða manna fyrst til að taka undir sjónarmið um að launakjör almennt séu allt of léleg og að hægt gangi að þoka þeim til betri vegar – eitt er víst að þetta gildir um laun míns fólks undanfarin misseri sem einkennst hafa af skerðingum og kaupmáttartapi.
En höldum því samt til haga að orlofssjóðirnir og þeirra umsýsla taka ekki athygli eða tíma frá kjarabaráttunni. Iðgjöld til orlofssjóða eru greidd af launagreiðanda – ekki dregin af kaupi hvers og eins – og allt utanumhald um þá er aðskilið frá félagssjóðum stéttarfélaga.
Ég er formaður BHM en hef ekki aðkomu að stjórn orlofssjóðs. Honum stýrir sérstök stjórn, sem veitt er aðhald af fulltrúaráði skipuðu af aðildarfélögunum sem standa að sjóðnum.
Eigur sjóðanna tilheyra félagsmönnum – þær fara ekki um hendur stjórna stéttarfélaga eða bandalaga – um þær sýslar fyrrnefnd stjórn orlofssjóðs.
Ég man ekki til þess í kjarasamningum að minnst hafi verið einu orði á orlofssjóðsiðgjald, hvorki að það þyrfti að hækka né lækka.
Sjálfsagt væri til umræðu að fella gjaldið inn í launataxta og hætta þessu „braski“ með sumarhús. Það myndi þó ekki breyta einu einasta til eða frá fyrir forystu eða fjárhag stéttarfélaga eða bandalaga þeirra.
Hins vegar yrði erfiðara – og ekki síst dýrara – fyrir félagsmenn að verða sér úti um orlofsgistingu.
Ert þú að skilja aðstæðurnar réttum skilningi?.
Er ekki fyrst og fremst verið að gagn rýna verkalýðsfélögin fyrir að „sitja hjá“ í ójafnri baráttu almennings við ofurefli fjármálavalds og stjórnvalda? Það flúga ýmsir frasar, vissulega.
En er þetta ekki meginmálið?!
Ertu semsagt að meina að verkalýðsfélögin hafi í raun enn meiri tíma til að sinna kjarabaráttunni en maður hélt?
Það segir mér bara að árangurinn er enn lélegri en ég hélt.
er ekki löngu tímabært að skoða þessa orlofssjóði o.s.frv.?
– ekki borga launþegar, bara sem dæmi, í sjóði til að fjármagna orlofsferðir og svo ýmislegt (t.d. niðurgreidd veiðkort) atvinnurekenda … af hverju á gröfukallinn í Kópavogi, sem dæmi, sem ræður aðstoðarmenn, að borga þeirra orlof (fyrir utan lögboðna orlofsdaga) ? – og þetta eru orðnir gífurlega ríkir og öflugir sjóðir, en hefur einhver farið ofan í saumanna á því í hvað peningarnir fara raunverulega? (og við erum hér að tala um milljarða, ekki smápeninga)
já og P.S. hvort er það fjöldanum í viðkomandi stéttarfélagi til góða eða örfáum einstaklingum, sem ráðskast með þessa peninga „til góða“ að fá í kjarasamningum x,x % viðbótarframlag í einhverja orlofshúsasjóði o.s.frv. – eða beinar og hreinar kjarabætur?
Fróðlegt að sjá að þú samþykkir ekki ummæli mín. Komu þau við auma taug?
Haraldur í fyrra skipti: ég bið þig að lesa upphaf pistilsins aftur.
Haraldur í seinna skipti: það líður oft talsverður tími milli innskráninga hjá mér…
Innfæddur reykvíkingur: um orlofssjóði „og svo framvegis“ – ráðstöfun fjármuna er sýnd árlega í ársreikningum, þeir sem með þá „ráðskast“ koma úr röðum félagsmanna – lítið mál að bjóða sig fram í slíka stjórn. Þetta er klárlega fjöldanum til góða, a.m.k. miðað við að rúmlega 99% nýting orlofshúsa er ekki óalgeng. Um launatengd gjöld almennt gildir að þau eru vegin inn í heildarlaunakostnað. Það ætti því ekki að skipta launagreiðandann máli hvort launin eru að hluta greidd á formi framlaga í sjóði (sé það vilji launafólks) eða beint inn á bankareikning hvers og eins. Heildarkostnaður væri sá sami, ekki satt?
Skussinn: leitt að valda þér vonbrigðum.
Og ein játning í lokin; ég er ein af þeim sem aldrei sá tilganginn með þessum orlofssjóðum, fattaði ekki út á hvað þeir gengu, var heldur ekkert að kynna mér það. Þeir eru hins vegar duglegir að senda manni tilkynningar um laus hús o.s.frv. svo stundum heldur maður að allt starf félaga snúist um þetta. Eftir yfir 10 ára aðild að orlofssjóði prófaði ég loks að kynna mér málið og hef síðan frekar skammast mín fyrir viðhorfið hér áður fyrr.
Er maður ekki oft viðkvæmastur fyrir ranghugmyndum sem maður hefur haft sjálfur og læknast af?