Miðvikudagur 24.04.2013 - 08:49 - Lokað fyrir ummæli

Heilbrigði og menntun – grundvöllur Bjartrar framtíðar

Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum þann 24. apríl 2013

Heilsa og þekking eru risastór mál, sem þó eru alltof sjaldan sett á oddinn í stjórnmálaumræðu.

Í ljósi þessa er rétt að biðjast afsökunar á afgreiða tvö risavaxin mál í 300 orða grein, en plássið er þröngt og tíminn stuttur, svo ég læt slag standa. Bendi á bjortframtid.is og býð fram beint samtal ef nánari upplýsinga er óskað.

Heilbrigði

Björt framtíð vill jafnan aðgang landsmanna að heilbrigðisþjónustu og efla til muna nærþjónustu. Annars vegar í heilsugæslunni með því m.a. að fleiri heilbrigðisstéttir eigi þar fastan sess. Hins vegar með öruggri sjúkrahúsþjónustu, annarri en þeirrar sérhæfðu sem sinnt er á Landspítala, í heimahéraði.

Í öllum tegundum heilbrigðisþjónustu þarf hlutur forvarna að aukast. Því fyrr sem gripið er inn, þeim mun minna þarf að reiða sig á hátækni- og neyðarþjónustu. Í þessu samhengi er forvarnarhugtakið víðtækt, t.d. hvað varðar undirbúning fyrir valkvæðar skurðaðgerðir. Góður undirbúningur eykur líkurnar á góðum og hröðum bata og styttir sjúkrahúslegu. Efla þarf samræmingu innan heilbrigðisgeirans, „kerfin“ þurfa að tala saman þannig að sjúklingar sitji ekki uppi með vandann við að halda utan um eigin mál.

Menntun

Að koma börnum til manns er kjarnastarfsemi þjóðfélagsins. Fjölbreytni og valmöguleikar á öllum sviðum menntakerfisins með vellíðan og námsánægju að leiðarljósi, eru mikilvæg frá leikskóla og uppúr. Virðingu fyrir störfum kennara þarf að auka og launakjör að bæta, þetta fólk geymir fjöregg okkar allra.

Brottfall úr framhaldsskólum er að verða klisja, lögum það áður en þolinmæði fyrir þeirri umræðu hverfur.

Fjöldi námsára að fyrstu háskólagráðu er meiri hér en í viðmiðunarlöndum, hann þolir endurskoðun.

Þekking er lykill að framþróun í atvinnulífinu, sérstaklega m.t.t. starfa sem ekki byggja á aukinni nýtingu náttúruauðlinda.

Framtíðin er löng, höfum hana bjarta.

 

Höfundur skipar 3. sæti á lista Bjartrar framtíðar í SV-kjördæmi.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur