Þriðjudagur 10.09.2013 - 12:24 - FB ummæli ()

Heimilin, tekjur, skuldir

Mbl.is er með stutt innslag um skuldavanda heimila, segir hann í rénum. Nýjustu tölur Hagstofunnar um fjárhagsstöðu einstaklinga eru frá lok ágúst. Ég fletti þeim upp og fór á „myndafyllerí“ til að grafa dýpra ofan í skuldavandann sem er í rénum.

Tölur Hagstofunnar flokkast eftir tíundum í hvert sinn, þ.e. þegar horft er á atriði eins og skuldir, eignir, ráðstöfunartekjur o.s.frv. Þetta þýðir að það er ekki víst að samsvörunin sé fullkomlega rétt milli hópa, þ.e. einstaklingur A sem er í 3. tíund þegar kemur að skuldum þarf ekki endilega að vera í 3. tíund þegar kemur að ráðstöfunartekjum. Hann gæti verið í nánast hvaða tíund sem er.

Ég veit ekki hversu alvarlegt þetta gagnavandamál er í tölunum sem fara hér á eftir en að því gefnu að það sé sæmileg samsvörun milli þessa hópa má leika sér töluvert með þær. Það má þó ekki taka þessar tölur algjörlega hráar en satt best að segja held ég að það sé óalgengt að t.d. einstaklingur í 1. tíund ráðstöfunartekna sé í t.d. 9. tíund nettó eigna. Þannig að vonandi er þetta ekki alvarleg nálgun.

Einnig: allar tölur sem unnið er með hafa verið verðleiðréttar með vísitölu neysluverðs. Verðlag er á verðlagi ársins 2012. Og „ráðstöfunartekjur“ eru tekjur eftir skatta og bætur frá hinu opinbera.

Myndafylleríið

Fyrst er líklega best að byrja á því sem mbl.is er að tala um. Mogginn er að tala um þessar tölur:

Inngangsmynd: Fjöldi heimila með neikvætt eigið fé í húseign

Hi9

Lítur vel út, allt að skána. Kíkjum nú á aðrar tölur.

Hér má t.d. sjá vísitölu eigna eftir tíundum, (1997 fær gildið 100 fyrir hvern hóp fyrir sig).

Mynd 1: Vísitala eigna eftir nokkrum tíundum

Hi7

1. tíund virðist vera í fljúgandi sveiflu og sem sjá má virðist samdrátturinn frá Hruni vera að snúa við fyrir einstaklinga sem heild („Alls“ línan). Eiginfjárvísitalan sem hér er fyrir neðan er líka að skána (rétt að geta þess að hluti ástæðunnar hví 1. tíundin er með svona mikla sveiflu er að heildareignir hennar eru litlar og það er auðvelt að breyta lítilli tölu hlutfallslega mikið. Ef til vill er betra að miða við 2. tíund?).

Mynd 2: Eiginfjárvísitala nokkurra tíunda

Hi6

Nú fer hins vegar að syrta í álinn.

Hér er vísitala (raun)skulda frá 1997.

Mynd 3: Vísitala raunskulda

Hi5

Svo er ekki úr vegi að reyna að gera það sem Þorvarður Tjörvi mælir með, að gera greinarmun á eigna- og greiðsluvanda. Hér má sjá vísitölu ráðstöfunartekna frá 1997.

Mynd 4: Vísitala ráðstöfunartekna

Hi8

Hún lítur ekki mjög vel út fyrir neðstu hópana (og líklega má segja að hún líti illa út fyrir 10. tíundina líka… en hún er þó allavega með meiri raunráðstöfunartekjur nú en hún var með árið 1997, öfugt við 1. tíundina, og hafa raunráðstöfunartekjur hennar hækkað meira en hjá öðrum að jafnaði). Athyglisverður samanburður væri að sjá hlutfall heildartekna einstaklinga eins og þær skiptast niður eftir tíundum. Á myndinni hér að neðan eru ráðstöfunartekjur tekjuhæstu 20% einstaklinga borin saman við ráðstöfunartekjur neðstu 20% sem hlutfall af heildar ráðstöfunartekjum allra.

Mynd 5: Hlutur 20% tekjuhæstu og hlutur 20% tekjuminnstu af heildarráðstöfunartekjum einstaklinga

HI1

Til að gera samanburðinn aðeins skýrari eru efstu 20% sett á hægri ásinn á þessari mynd.

Mynd 6: Hlutur 20% efstu og hlutur 20% neðstu af heildarráðstöfunartekjum einstaklinga en á tveimur ásum

Hi2

Hvað ef við nú kíkjum á ráðstöfunartekjur tíundanna í samanburði við skuldir þeirra? Það er gert á myndinni hér að neðan.

Mynd 7: Hlutfall skulda og ráðstöfunartekna fyrir nokkrar tíundir

Hi3

Ekki lítur þetta nógu vel út. Hér þarf vissulega að vera vel á verði fyrir forsendunni um góða samsvörun milli tíundanna (einstaklingur í 1. tíund skulda gæti verið í 10. tíund ráðstöfunartekna, svo dæmi sé tekið) en allavega er heildartalan laus við slík vandamál. Og sú tala – heildarráðstöfunartekjur heimila mót skuldum þeirra – hefur aukist um 67% síðan 1997 en þó lækkað um 13% síðan þetta hlutfall toppaði árið 2010. Rétt líka að taka það fram að þótt aðrar tíundir séu ekki sýndar á myndinni (of mikið kraðak af línum annars) er 1. tíundin langverst. Næstversta hlutfall tíundar fyrir árið 2012 var í tilviki hinnar 8. en þar var hlutfallið 2.6 (samanborið við rúmlega 10 í tilviki 1. tíundar og 2.3 yfir heildina).

Reynum að kíkja betur á greiðsluvandatölur. Hér fyrir neðan má sjá vaxtagjöld sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. Aftur þarf að vera á verði fyrir því að samsvörun sé góð milli tíundanna en aftur er heildartalan laus við slík vandamál.

Mynd 8: Vaxtagjöld sem hlutfall ráðstöfunartekna, nokkrar tíundir

Hi4

Að skána eða ekki skána?

Í vinnupappír Seðlabankans frá því í fyrra (meginhöfundur: Þorvarður Tjörvi – sjá einnig glærur) kom fram það álit að flöt skuldaniðurfelling myndi hálfpartinn missa marks sem lausn við skuldavandamálum Íslendinga því það myndi helst koma þeim til góða sem mestar tekjurnar hefðu (hægt að bregðast við slíku með því að setja lágmark og hámark á upphæð skuldaniðurfellingar sem hver og einn fengi). Greining Þorvarðar byggðist á mun ítarlegri gögnum, m.a. voru tekjur og skuldir paraðar svo sú greining átti ekki við sama vandamál að stríða og þessi snögga yfirferð hér. Þorvarður fann þó m.a. að tekjulægstu heimilin væru þau sem væru í mesta greiðsluvandanum. Það er hughreystandi, við getum þá e.t.v. treyst því að myndir 7 og 8 séu ekki svo fjarri lagi – og í raun aðeins að staðfesta það sem Þorvarður var fyrir margt löngu búinn að benda á: vandamál þeirra sem minnstu tekjurnar hafa eru mest.

Nýjar tölur um fjölda heimila með jákvætt eigið fé í húseign má taka sem merki þess að „skuldavandinn sé í rénum“ eins og Mogginn kemst að orði. Eftir stendur að ef tölurnar hér að ofan eru (a.m.k. gróflega) réttar er ljóst að neðstu tíundahlutarnir eiga enn í verulegum vandræðum. Að sjá á eftir stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í vaxtagjöld og skuldabyrði er hart.

Einhverjir myndu sjálfsagt segja að þessu fólki væri nær, það hefði ekki átt að fara á lánafyllerí á sínum tíma. Einhverjir myndu svara að bragði að fjármálastofnanir ættu að sætta sig við að þessi hópur gæti aldrei borgað skuldina til baka og að það hafi verið stofnanirnar sjálfar sem gerðu mistök; hvað voru þær að spá að veita þessu fólki lán (í þessu sambandi: „Let Them Eat Credit“ og hugtakið „Predatory Lending„)? Eftir stendur sá óhagganlegi sannleikur að skuld sem ekki er hægt að borga verður ekki borguð.

Þannig að já, vafalaust er fjöldi heimila með jákvætt eigið fé að aukast. Og já, vafalaust er skuldavandinn í rénum hjá sumum þjóðfélagshópum (annað hvort væri nú, fimm árum eftir að Lehman Brothers varð gjaldþrota). En svo virðist sem ekki allir þjóðfélagshópar séu að rétta úr kútnum og séu jafnvel að sökkva dýpra en áður.

Og þess vegna hefur fólk hátt.

P.S. Svona frá útlöndum séð finnst mér Ísland minna meir og meir á það sem Karl Marx sagði:

The history of all hitherto existing society is the history of class struggles. Freeman and slave, patrician and plebeian, lord and serf, guild-master and journeyman, in a word, oppressor and oppressed, stood in constant opposition to one another, carried on an uninterrupted, now hidden, now open fight, a fight that each time ended, either in a revolutionary reconstitution of society at large, or in the common ruin of the contending classes.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur