Fimmtudagur 22.08.2013 - 07:48 - FB ummæli ()

Íslenskar kreppur – framhald

Örstutt framhald af síðasta pósti þar sem ég bar saman þróun vergrar þjóðarframleiðslu í kreppum Íslands síðan 1900.

Í tilefni af útgáfu Peningamála setti ég inn spá Seðlabankans um þróun hagkerfisins fyrir árin 2013, 2014 og 2015. Rétt að taka það fram að SÍ spáir fyrir um landsframleiðslu en ekki þjóðarframleiðslu svo strangt til tekið er hér verið að blanda saman mismunandi mælikvörðum á framleiðslu, annars vegar lands og hins vegar þjóðar. En þar sem munurinn á vexti lands- og þjóðarframleiðslu er venjulega ekki stórkostlegur vona ég að mér fyrirgefist þessi slumpreikningur – sérstaklega þar sem efnahagsspár eru slumpreikningur hvort eð er.

Kreppur síðustu aldar. Þróun þjóðarframleiðslu í hvert skipti að viðbættum horfum fyrir árin 2013, 2014 og 2015 (appelsínugulu þríhyrningarnir, sjá texta vegna fyrirvara).

Kreppur_Iceland_1

Það virðist vera sem hið svokallaða Hrun sé einstakt í hagsögu Íslands. Allavega virðumst við eiga erfitt með að koma okkur upp úr því miðað við önnur efnahagslega erfið tímabil.

Við þetta má svo bæta þeirri staðreynd að fjármunaeign – þ.e. „magn“ þeirra tækja, tóla og verksmiðja sem notað er til að framleiða hluti – hefur aldrei dregist jafn hratt saman og hún hefur gert síðan 2008. Raunar hefur fjármunaeign aðeins einu sinni áður dregist saman samkvæmt tölum Hagstofunnar (sem ná til 1945 í þetta skiptið) en það var í byrjun 10. áratugarins. Og miðað við spá Seðlabankans um þróun fjárfestingar má búast við að fjármunaeign dragist áfram saman í ár og jafnvel næsta ár líka.

Vísitala fjármunaeignar (e. real capital stock) á Íslandi, eins aðferðafræði og á myndinni hér á undan (gildið 100 gefið fyrir árið áður en samdráttur í visitölunni á sér stað). Punktarnir eru spágildi fyrir árin 2013, 2014 og 2015, unnin upp úr nýjustu Peningamálum og sögulegri þróun fjármunaafskriftar samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Fjarmunaeign_visitala

Minni og minni fjármunaeign þýðir vitanlega að verri og færri tæki og tól eru til staðar til að framleiða hluti. Þjóðar- og landsframleiðsla munu því tæpast taka stórkostlegum framförum ef fjármunaeign er sífellt að dragast saman. Til að bæta við fjármunaeign þarf að bæta við fjárfestingu, sérstaklega frá innlendum aðilum (erlend fjárfesting eykur fjármunaeign líka en þjóðarframleiðsla eykst ekki þar sem eignarhaldið á fyrirtækinu er erlent).

En til þess þarf m.a. að tryggja nægilega ódýrt fjármagn. Þar virðist hins vegar sitthvað vanta upp á. Lífeyrissjóðirnir sitja á 2.500 milljörðum sem þeir vilja ekki lána út nema á óraunhæfri ávöxtunarkröfu sem meðalfyrirtækið ræður ekki við að borga. Meðalfyrirtækið fjármagnar sig því tæpast með fjármagni þaðan. Seðlabankinn heldur svo vöxtum háum í vindmyllubaráttu sinni gegn verðbólgu, verðbólgu sem hefur ekkert með nýfjárfestingu og of mikla eftirspurn að gera (sem myndi réttlæta háa stýrivexti) heldur of mikið magn af krónum sem búnar voru til fyrir Hrun og eru enn í kerfinu. Raunar er það líklega svo að háir stýrivextir auka á það vandamál frekar en að draga úr því þar sem bankainnistæður og fleiri fjármálalegar eignir bólgna hraðar út við hærri vexti.

Við heimatilbúna vaxtavandamálið bætast svo við gjaldeyrishöft sem óvissa er um hvenær og hvernig eigi að aflétta. Það veldur óvissu um framíðar nettó tekjuflæði og fjármagnskostnað, hvort heldur sem er í innlendum eða erlendum gjaldeyri, svo hið venjulega íslenska fyrirtæki treystir sér ekki í fjárfestingu á borð við endurnýjun tækja eða stækkun verksmiðju.

Fjárfesting fellur því niður einkum og sér í lagi vegna heimatilbúinna of hárra vaxta og óvissu um afnám gjaldeyrishafta. Á meðan vinnur tíminn á tækjunum, þau eyðileggjast og fjármunaeign rýrnar. Framleiðslugeta og framleiðsla dregst saman í kjölfarið.

Vel gert!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur