Þriðjudagur 20.08.2013 - 11:53 - FB ummæli ()

Íslenskar kreppur

Ég er ekki sá fyrsti til að gera samanburð á þróun hagkerfisins á krepputímum. Aðferðarfræðin sem hér er notuð til að bera saman þróun vergra þjóðartekna er klassísk: lands- eða þjóðarframleiðslu árið fyrir fyrsta ár samdráttar í lands- eða þjóðarframleiðslu er gefið gildið 100 og svo er raunþróunin reiknuð út frá byrjunarárinu í hvert skipti. Þannig fæst nokkurs konar samanburður á kreppum, þ.e. dýpt þeirra og hversu lengi heildarframleiðslan var fyrir neðan gildið 100, þ.e. árið áður en samdrátturinn byrjaði.

Eftir sem áður datt mér í hug að eftirfarandi gæti verið áhugavert, sérstaklega þar sem ég notast við gögn Hagstofunnar alla 20. öldina en ekki bara frá lýðveldisstofnun. Að bera saman 3. áratuginn – Kreppuáratuginn í Evrópu – við núverandi ástand er líka athyglisvert.

Hér á grafinu fyrir neðan má sjá allar kreppur frá 1900. Notast er við verga þjóðarframleiðslu. Öll gögn koma frá Hagstofunni sem fyrr segir.

Samdráttarskeið í vergum þjóðartekjum frá 1900, lengd þeirra og dýpt. Appelsínugula, feita línan er þróun vergra þjóðartekna frá 2007.

Kreppur_Iceland

Sem sjá má er það í raun eingöngu tímabilið 1915-1924 sem er samanburðarhæft við efnahagsþróun síðustu ára. Þróun efnahagsmála var basl þá svo ekki sé meira sagt. Heimsstyrjöldin fyrri varð til þess að við yfirgáfum gullfótinn og bankarnir notuðu tækifærið meðan enginn var gullfótur til að auka útlán sín töluvert. Úr varð gjaldeyrisskortur þegar nýmyndaðar krónur voru notaðar til að kaupa innfluttar vörur. Verðhækkanir á kolum og verðlækkanir á síld gerðu illt verra, alltaf var skortur á gjaldeyri. Togaraflotinn var seldur úr landi 1917 til að fá gjaldeyri og um svipað tímabil voru Bretar að skipta sér af útflutningi Íslands sem varð til þess, samfara aukinni útlánaveitingu bankanna, að gjaldeyriskreppan varð algjör 1920. Þá hafði krónan veikst um 58% gagnvart pundi síðan 1918.

Við fáum „enska lánið“ 1921 til að redda bæði Landsbankanum og Íslandsbanka sem þá voru komnir á vonarvöl vegna þess að lánin sem þeir höfðu búið til voru ekki borguð til baka. Meira fall krónunnar (27% gagnvart pundi milli 1921 og 1924) og aukinn fiskafli og -útflutningur reddaði málum.

Krónan er svo aftur sett á gullfót 1925 (í gegnum pundið, Bretar fara aftur á alltof sterkan gullfót í maí það ár) en gengið var sett of sterkt svo gjaldeyrir þurrkaðist aftur upp og hagkerfið hrundi aftur í kreppu: þess vegna kom önnur dýfa 1924-1927. Verðhjöðnun varð aftur áberandi. Íslandsbanki fer svo loksins endanlega í gjaldþrot 1930. Gjaldeyriskrísan verður algjör og innflutningshöft eru sett 1931. Þau voru til staðar fram á 7. áratuginn.

Það er raunar þema í hagsögu Íslands að alltaf skal vera skortur á gjaldeyri. Og oftar en ekki hafa bankarnir lánað út of mikið árin á undan með þeim afleiðingum að krónur í umferð aukast hratt. Þeim er svo eytt í innfluttar vörur svo skortur verður á gjaldeyri sem verður að bregðast við með gengisfellingu. Ég fjallaði lítillega um þetta í Af hverju er krónan alltaf að falla? þar sem ég ritaði:

Síendurtekið gengisfall krónunnar nánast allt frá því íslenskt bankakerfi var stofnað hefur ekkert að gera með að hún sé „ónýtur gjaldmiðill.“ Gjaldeyrisvandamál Íslendinga hafa alltaf verið afleiðing af því að bankakerfið fær að þenja út skuldir og peningamagn í umferð nánast eins og því lystir. Benjamín Eiríksson benti fyrstur á það að innflutningshöftin á 4. áratugnum og fram til 1960 voru vegna þess að lánsfjárþensla banka var sífellt vandamál. Samskonar lánsfjárþensla er í dag orsök þess að gjaldeyrishöft eru á Íslandi.

Nú er bara spurningin hvort núverandi kreppa verði jafn langvin og fyrir 90 árum síðan. Miðað við nýjustu spár um frekar slappan hagvöxt er útlitið ekki sérstaklega gott. Svo mætti alveg íhuga að endurskoða það hvernig peningar eru gefnir út á Íslandi. Ef það á að leyfa bönkum að gera það þarf a.m.k. að hafa hemil á þeim, prökkurunum að tarna!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur