Fimmtudagur 08.08.2013 - 11:01 - FB ummæli ()

AGS um gjaldeyrishöftin

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf út „selected issues“ pappír sem birtist ekki alls fyrir löngu á vef Seðlabankans. Sjá má pappírinn hér.

Pappírinn skiptist í tvennt. Fyrri hlutinn er um afnám gjaldeyrishafta og hugsanleg áhrif þess á greiðslujöfnuð (e. balance of payments). Seinni hlutinn er um hugsanlegan sparnað í heilbrigðis- og menntunarkerfunum.

Ég ætla bara að fjalla um fyrri hlutann.

Við erum í vondum málum

AGS má eiga það að þeir eru í raun ekki að tvínóna við að segja hlutina: „The orderly lifting of capital controls is a major outstanding challenge for Iceland.“

Ef þetta er þýtt af „stofnanaísku“ – alþjóðleg samskipti og stofnanir nota oft varfærið orðfæri – yfir á okkar ástkæra ylhýra væri þýðingin e.t.v. eitthvað á þessa leið: „OK, þið eru í verulega vondum málum gott fólk!“ AGS hefur raunar varað við þessu áður á álíka augljósan máta og þeir gera nú. Það gerir málefnið enn alvarlegra því AGS er svo handviss í sinni sök. (Og það mega þau alveg vera.)

AGS notast svo við eignasafnsfræði (e. portfolio theory) og m.a. samanburð við norrænar nágrannaþjóðir til að reyna að nálgast það á einhvern máta hversu mikið af fjármagni myndi flýja land ef gjaldeyrishöftin væru tekin úr sambandi.

Niðurstaðan: fjármagn ígildi 35-170% af landsframleiðslu (600-2.900 milljarðar!) gætu yfirgefið landið. Óvissa þessa mats er heldur nær neðri mörkunum að þeirra sögn. (Sjá einnig athugasemd neðst).

AGS er svo með slæmar fréttir handa þeim sem voru að vonast eftir því að hægt væri að aflétta höftunum í hvelli. Að öllu öðru óbreyttu mælir AGS með hraðahindrunum á útflæði fjármagns. Það þýðir að höftunum verði aðeins að hluta lyft í fyrstu, nokkuð sem allir bjuggust við. En tímaramminn gæti komið sumum á óvart (mín þýðing, mín feitletrun):

Ef árlegt útflæði fjármagns frá íbúum gæti verið takmarkað við 7-8% af landsframleiðslu í átta ár eftir að dregið væri úr höftunum myndi hlutfall gjaldeyrisforða af skammtímaskuldum vera fyrir ofan 100% á sama tíma. Þetta er ályktað út frá  núverandi mati á þróun greiðslujafnaðar við útlönd.

Mat AGS er því að það gæti tekið átta ár að aflétta höftunum ef Íslendingar vilja gera það hægt og varlega (þ.e. halda hlutfalli brúttó gjaldeyrisvaraforða móti skammtímaskuldum yfir 100% á sama tíma, hlutfall sem er kallað Guidotti-Greenspan reglan). Lítur út fyrir að það þurfi að endurmeta frestinn til 2015…

Hvað skal gjöra?

Vitanlega vaknar spurningin strax hvað gera skuli til þess að auðvelda afnám haftanna. Þeirri spurningu hefur verið reynt að svara síðan 2008. Seðlabankinn vinnur eftir áætlun um afnám hafta og hefur m.a. reynt að lagfæra stöðuna með útboði skuldabréf í gegnum fjárfestingaráætlunina. Þá hefur hið opinbera tekið (rándýrt) erlent lán til að sýna það og sanna að það geti tekið lán í erlendum gjaldeyri.

En þetta virðist ekki vera að virka, a.m.k. ekki miðað við mat AGS (600-2,900 milljarðar á startlínunni, bíðandi eftir því að geta hlaupið út). Ég ætla því að leyfa mér að velta upp nokkrum hugmyndum (bendi líka á pistla Friðriks Jónssonar, sérstaklega þegar kemur að skuldabréfaútgáfum í gegnum fjárfestingaleiðina):

Stýrivextir lækkaðir, lánakvótar settir á: Seðlabankinn lækkar stýrivexti í 1-2% og notar í staðinn lánakvóta til að stýra nýsköpun peningamagns í umferð. Lánakvótarnir myndu virka þannig að bankar yrðu að búa til ákveðið magn lána til fyrirtækja, hvorki meira né minna. Það ætti jafnvel að íhuga að ganga enn lengra og leyfa seðlabankanum að setja lánakvóta fyrir hverja og eina atvinnugrein með það markmið í huga að neyða bankana til að fjármagna fjárfestingu í útflutningsfyrirtækjum sérstaklega (til að ná í nettó gjaldeyri). Markmiðið væri aukin atvinnuvega fjárfesting, bættur greiðslujöfnuður og minna atvinnuleysi en ekki bara lánabóla sem endaði í húsnæði. Seðlabanki Japan gerði þetta eftir seinna stríð og gekk mjög vel í nokkra áratugi. Hættan er vitanlega að seðlabankinn klúðri kvótunum stórkostlega og geri illt verra með því að setja kvótana of lága eða of háa (eins og endaði í Japan) eða með því að misreikna skiptingu heildarlánakvótans milli atvinnugreina. (Eftir afnám hafta, sem myndi ganga hraðar yrði þetta gert og vel tækist til, ætti að viðhalda lánakvótunum en leyfa bönkunum meira frjálsræði varðandi hvar lánin enda).

Endurbætur skattkerfisins sem miða við að draga úr neyslu- og skuldahvata sumra skatta: Augljósasta dæmið er virðisaukaskattur (heldur ætti að notast við veltuskatta). Nefna má t.d. að sumir bændur hugsa með sér að til að minnka greiddan virðisaukaskatt af sinni framleiðslu þá kaupa þeir aðföng á borð við (innfluttar) dráttarvélar og tæki. Hvatinn er að aðkeypt tæki veita innskatt á móti útskattinum sem þeir þurfa annars að borga. Önnur fyrirtæki standa frammi fyrir svipuðum hvata. Ef einfaldur veltuskatur væri tekinn upp myndi þessi hvati til að kaupa aukin aðföng, sem oft eru innflutt, hverfa. Í staðinn fyrir að kaupa eitthvað nýtt væri meiri áhersla á viðhald. Skattlagning hagnaðar eftir fjármagnsliði er líka hvati til þess að notast meira við lánsfé heldur en eigið fé til að fjármagna fyrirtæki. En of miklar skuldir gera fyrirtækið opnara fyrir áföllum á borð við tekjumissi eða hækkun vaxta. Þessu þyrfti að breyta: skatturinn ætti að vera óháður fjármagnsliðum á borð við vaxtakostnað. Breyting/afnám virðisaukaskatts væri gjaldeyrisskapandi, breyting á skattlagningu fyrirtækja myndi ýta undir stöðugleika fjármálakerfisins og auðvelda fyrirtækjum að standa af sér hugsanleg áföll þegar höft væru afnumin. Mun minna væri af ónýtum lánum í bankakerfinu (e. non-performing loans) sem myndi hjálpa bönkunum þegar kæmi að afnámi hafta.

Auknar fjárfestingar hins opinbera, sérstaklega gjaldeyrisskapandi: Nokkur dæmi: uppbygging ferðamannastaða, aukinn kraftur í ferðaþjónustu og opinbert fjármagn í átök á borð við „Ísland allt árið“, uppbygging iðnaðar sem framleiðir dýrafóður úr fiskúrgangi sem í dag er að mestu hent (sauðfé er mjög hrifið af þessu, minnkar þörf á t.d. innflutningi á áburði til annarrar fóðurgerðar), saltframleiðsla með sjó og rafmagni (myndi það ganga?)

Niðurfelling skatta og gjalda á völdum innflutningsvörum: markmiðið væri að spara gjaldeyri. Augljósasta dæmið er rafmagns- og metanbílar. Einnig mætti ýta undir hvata til þess að betrumbæta bílaflotann með t.d. niðurfellingu virðisaukaskatts af metaneldsneytisviðbótum á bifreiðum.

Innlend framleiðsla á innfluttum matvörum, t.d. ávöxtum: ríkisstjórnin ætlaði að auka matvælaframleiðslu. Það mætti skoða hvort það veiti meiri nettó gjaldeyri að nota raforkuna til að auka framleiðslu á matvöru sem annars er innflutt frekar en að selja orkuna til álvera (miðað við þá staðreynd að bein erlend fjárfesting getur auðveldlega gert viðskiptajöfnuð verri en áður til langs tíma litið væri þetta vel þess virði að skoða).

 

 

*Fyrir utan að þetta mat AGS er í sjálfu sér skelfilegt þá er hugmyndin um að nota eignasafnsfræði til að meta útflæðið ekki skotheld því það er ólíklegt að nokkur maður pæli mikið í slíku þegar gjaldeyrishöftunum er lyft. Líklegra er að fólk taki ákvarðanir um hvort það eigi að kaupa erlendan gjaldeyri eða ekki á hóphegðunargrundvelli, þ.e. „behavioural“ og „bandwagon effects“ grundvelli: ákvarðanir verða teknar á grundvelli hræðslu, vantrausts, óvissu og sögusagna en staðfestu, öryggi, trausti og stærðfræðilegri nákvæmni er hent út um gluggann. Niðurstaðan gæti því verið sú að útflæðið yrði meira og/eða óstöðugra en AGS áætlar meðan mesta hræðslan gengur yfir. Þegar fólk róast kemur það að einhverju leyti aftur inn í krónuna og hún styrkist að hluta á nýjan leik. Afleiðingarnar verða eftir sem áður skelfilegar því verðbólguskot mun ganga yfir í kjölfar gengisveikingarinnar og allar viðskiptaáætlanir í inn- og útflutningi verða erfiðar vegna gengisflökts. Svo mat AGS um 35-170% er ekki heilagt, það gæti jafnvel orðið meira útflæði. Þá er líka líklegt að það verði meiri sveiflur á því en AGS virðist gera ráð fyrir í þeirra módeli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur