Fimmtudagur 30.01.2014 - 17:26 - FB ummæli ()

Verðtryggingarafnámið

Ég er kannski of seinn, svona í ljósi íslenskar umræðuhefðar að býsnast mikið yfir einhverju í stuttan tíma og snúa sér svo að einhverju öðru, til þess að fjalla um skýrslu Afnámsnefndarinnar í síðustu viku. En ég ætla samt að fjalla örlítið um skýrsluna, sérstaklega því ég sagði það „grátbroslegt“ að sjá réttlætingarnar fyrir því hví það væri ómögulegt að ganga lengra í afnáminu. Ég verð að bera rök fyrir máli mínu.

Þess vegna ætla ég einkum að einbeita mér að einum einasta hluta í skýrslunni, hluta „3.2 Fullt afnám í einu skrefi?“.

Nr. 1

Greiningar hópsins benda til þess að við afnám verðtryggingar yrðu lán með hraðbreytanlegum óverðtryggðum vöxtum ríkjandi lánaform til húsnæðiskaupa. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána er hærri en verðtryggðra í upphafi lánstíma sem þýðir að aðgengi neytenda að fjármagni minnkar og þeir tekjulægstu standast síður greiðslumat. Slíkt dregur úr eftirspurn eftir húsnæði sem lækkar fasteignaverð, en hærri greiðslubyrði dregur einnig úr einkaneyslu og þar með hagvexti.

„Greiningar… húsnæðiskaupa.“ Já, og er það ekki jákvætt? Þetta er tilgangurinn með afnámi verðtryggingar á lánum til einstaklinga!! Í slíku umhverfi hefur Seðlabankinn loksins getu til þess að hafa alvöru áhrif á greiðslubyrði lána til einstaklinga, sem gefur Seðlabankanum vald til þess að hafa alvöru áhrif á greiðsluflæði innan hagkerfisins og þar með verðbólguþróun.

Hér í UK eru svona lán kölluð „trackers“ því þau elta stýrivexti Bank of England nákvæmlega (að viðbættu álagi frá viðkomandi lánastofnun). Sumir óttast þessi lán því greiðslubyrði þeirra getur breyst hratt þegar stýrivextir breytast. Það getur svo haft neikvæð áhrif á fjármálalegan stöðugleika, líkt og Afnámsnefndin virðist óttast.

En það má ekki gleyma því, sem fyrr segir, að það er tilgangurinn með stýrivaxtabreytingum að breyta greiðsluflæðinu af þessum, og öðrum, lánum. Þá er augljóslega verið að draga úr neikvæðum áhrifum verðtryggingarinnar á fjármálalegan óstöðugleika þar sem hún hverfur. Taka þarf tillit til þeirra jákvæðu áhrifa. Þá er, eins og Whitehead og Williams bentu á, allt eins líklegt að lántakar slíkra lána hafi það bara nokk gott og jafnvel betra en lántakar „fastvaxta“ (fastir vextir í nokkur ár) lána. Þegar hagkerfið er í niðursveiflu lækkar seðlabankinn stýrivexti og vextir viðkomandi lána lækka:

Through the downturn many existing mortgagors have benefited from very low mortgage interest rates, most obviously those with ‘base rate tracker’ mortgages perhaps at 50 basis points over base rate.

Whitehead og Williams benda einnig, réttilega, á hættuna af vaxtahækkunum. En eru þau neikvæðu áhrif meiri en þau jákvæðu áhrif á fjármálalegan stöðugleika og virkni peningamálastefnunnar sem koma í kjölfar þess að skera á verðtryggingu lána til einstaklinga?

Nr. 2

„Greiðslubyrði… hagvexti.“ Já, og? Verðtrygging lána til einstaklinga heldur líka aftur af eignamyndun sem dregur úr auðsáhrifum á einkaneyslu sem dregur úr hagvexti. Var tekið tillit til þessa atriðis þegar þetta mat um áhrif þess að afnema verðtryggingu á einkaneyslu og hagvöxt var gert? Ég sé það ekki í skýrslunni en ef svo er þá endilega bendið á það.

Og þess aukin heldur má mæta þessu „vandamáli“ með því að láta ríkið borga opinberar bætur til þeirra tekjulægstu svo þeir standist frekar greiðslumat (þetta er ein af mótvægisaðgerðunum sem stungið er upp á). Það er pólitískt val. Ég sé kosningaloforðið í anda: „Við lofum að borga sérstakar húsnæðislánabætur til þeirra tekjulægstu svo þeir geti keypt íbúð.“

Nr. 3

Greining Seðlabanka Íslands, sem gerð var að beiðni hópsins, á efnahagslegum áhrifum banns við verðtryggðum neytendalánum bendir til þess að slíkt bann geti haft mjög neikvæð áhrif á hagkerfið til skamms tíma og jafnvel gætir neikvæðra áhrifa til millilangs tíma. Niðurstöður Seðlabankans og Analytica, sem hópurinn fékk einnig til greiningarvinnu, eru um margt svipaðar þótt umfang  þjóðhagslegra áhrifa sé metið mismikið og greining Analytica geri ráð fyrir vægari áhrifum.

Greining SÍ er birt í viðauka 1. Fyrir utan vafasama umfjöllun um raunvaxtamun á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum, sem ég fjallaði líka um í Verðtrygging 201, þá virðist bankinn gera þá villu að rugla saman greiðslubyrði og raunvöxtum í sinni greiningu.

Í viðauka 1 stendur:

Greiðslubyrði óverðtryggðra lána er þyngri en verðtryggðra framan af lánstímanum. Bann við verðtryggingu leiðir því að öðru óbreyttu til hærri greiðslubyrði nýrra lána sem að öðru óbreyttu dregur úr eftirspurn eftir lánsfjármögnun sem leiðir til samdráttar í eftirspurn eftir húsnæði.

Burtséð frá öllum fáranlegum „að öðru óbreyttu“ forsendum þá virðist það sem síðar er gert gallað. SÍ notar næst „húsnæðislíkan Lúðvíks og Þórarins (2009) til að meta áhrif þyngri greiðslubyrði húsnæðislána á húsnæðismarkaðinn (húsnæðisverð og íbúðafjárfestingu).“

Gallinn er að þetta líkan hefur ekkert að gera með greiðslubyrði. Í viðaukanum sjálfum frá SÍ kemur fram að líkanið er „líkan af húsnæðismarkaði sem lýsir áhrifum vaxta og skuldsetningar á húsnæðiseftirspurn og -framboð.“ Jafna 2.1 í Lúðvík og Þórarni (2009, en pappírinn sem linkurinn í viðaukanum leiðir okkur til er af pappír frá 2006) módelar eftirspurn eftir húsnæði sem fall af húsnæðisverði, almennu verðlagi, raunvöxtum, tekjum heimila eftir skatt, fjármálalegri eign heimila og skuldum heimila. Ekki er minnst á greiðslubyrði sem er margt annað og meira en vextir og skuldsetning, t.d. tímalengd lána og afborgunarform þeirra. Það sama gildir um framboð á húsnæði í líkaninu, það er ekki fall af greiðslubyrði húsnæðislána.

Svo ef greiðslubyrði húsnæðislána er ekki hluti af módelinu, hvernig getur SÍ þá notað þetta módel til að meta áhrifin af breytingu í greiðslubyrði lána á húsnæðismarkaðinn?

Svarið er að það er ekki hægt. Álit SÍ um að fasteignaverð geti lækkað um allt að 20% vegna afnáms verðtryggingar er vafasamt í meira lagi.

[Viðbót kl. 19:06. Módel bankans ristir dýpra en hér er gefið í skyn, en þó ekki dýpra en svo að t.d. virðist vera gert ráð fyrir þeirri forsendu að húsnæðislántakendur muni, að jafnaði, alltaf miða við sama hlutfall lánakostnaðar af tekjum eftir skatt. Þannig, ef greiðslubyrði minnkar einhverra hluta vegna, mun meira vera tekið að láni til að ná lánakostnaði upp í sama hlutfall af tekjum eftir skatt og hann var áður. Að sama skapi, aukist greiðslubyrðin, mun lántakan minnka af sömu ástæðu. En hví ættu lántakar ekki að breyta þessu hlutfalli? Til dæmis, ef eignamyndunin er hraðari af óverðtryggðu láni er líklegra en ekki að fólk sætti sig við hærra hlutfall í byrjun til þess að eignast eignina hraðar, eða hvað? Þessi áhrif og önnur sem geta haft áhrif á vilja lántaka til að hafa breytilegt hlutfall lánakostnaðar og tekna eru sérstaklega virt að vettugi í módelinu sem virðist vera ástæðan fyrir því að hægt er að notast við það til að meta áhrifin. En svo er notast við núverandi forsendur lána með breytilegum vöxtum frá Landsbankanum, sem mér virðist vera ceteris paribus forsenda, til að meta hver aukningin verður í greiðslubyrði. Fróðlegt væri að sjá frekari útlistun á módelinu en blaðsíðurnar fimm í viðauka 1, sem og að grafa mun betur ofan í það en klórið hér.]

Ég er ekki búinn að skoða módel Analytica.

Nr. 4

Afnám verðtryggingar á einu bretti gerir heimilin berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli, þar sem ólíklegt er að í boði verði lán með föstum vöxtum til lengri tíma. Fastir vextir til lengri tíma myndu tryggja öryggi heimilanna en íslenskur lánamarkaður er óþroskaður og ekki hægt að sjá fyrir með öryggi að slíkt yrði í boði. Því hafa ýmsir bent á að setja yrði þak á vexti. Lögbundið vaxtaþak myndi hins vegar endurspegla það fyrirkomulag sem var við lýði fyrir árið 1979 með hættu á neikvæðum raunvöxtum, stöðnun lánveitinga og rýrnun sparifjár. Illmögulegt er að fara þannig gegn markaðslögmálum án þess að valda miklum markaðsbrestum.

„Afnám verðtryggingar á einu bretti gerir heimilin berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli…“

Afsakið, af hverju? Er verið að tala um raunvexti? Þá er því auðveldlega svarað að það er alls óvíst því raunvaxtamunurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum er empíriskt breytilegur. Að slá því föstu að það verði raunvaxtaskellur er einkar svartsýn forsenda sem, með hagsöguna í huga, er ekkert vitað um. Þá er það líka ólíkleg niðurstaða út frá þeim rökum að aukin virkni peningamálastefnunnar hafi dempandi áhrif á bæði gildi og sveiflu verðbólgu, sem aftur leiðir til þess að lánveitendur þurfa ekki að hafa jafn miklar áhyggjur og í dag af óvissu þættinum í formi verðbólgu þegar óverðtryggt lán er veitt. Óvissan minnkar og því ættu raunvextir óverðtryggðra lána að lækka frá því sem nú er.

En er verið að tala um nafnvexti?

Þá er því auðsvarað með þeirri staðreynd að greiðslubyrðin af óverðtryggðum lánum er hærri í byrjun en af verðtryggðum. Sé verðtrygging afnumin af öllum nýjum lánum þá er ljóst að húsnæðismarkaðurinn verður fyrir áfalli þegar greiðslubyrði nýrra lána, ceteris paribus, hækkar. Og einmitt þess vegna mun Seðlabankinn lækka vexti: forsendan um óbreytta vexti er rugl  – líkt og raunar kemur fram í (undarlegu, líkt og þegar hefur verið minnst á) áliti Seðlabankans á helstu hagstærðir en samkvæmt því eiga stýrivextir að lækka um 0,5-1,0 prósentustig við afnám verðtryggingar, sjá töflu 2.

Svo hvernig er þá hægt að segja að heimilin verði fyrir „bröttu vaxtahækkunarferli“?? Er ekki líklegra að vextir lækki?

Svo verður að hafa það í huga að þótt verðbólguskot eigi sér stað er ekki þar með sagt að stýrivaxtahækkun og hækkun vaxta á húsnæðislánum eigi sér stað. Ástæðan er að peningamálastjórn á að vera „forward looking“, þ.e. Seðlabankanum á, í grófum dráttum, að vera alveg sama um hver verðbólga dagsins í dag er svo lengi sem útlit er fyrir að verðbólga náist niður í markmiðið í framtíðinni.

Þannig má t.d. ímynda sér að meti Seðlabankinn það sem svo að það þurfi ekki að hækka 4% stýrivexti í umhverfi 6% verðbólgu vegna þess að útlit er fyrir að verðbólga lækki í 2% innan skamms tíma þá eru stýrivextir ekki hækkaðir. Og þá hækkar greiðslubyrði óverðtryggðra lána ekki. Basta! Sú skoðun að greiðslubyrði óverðtryggðra lána muni sveiflast nákvæmlega með verðbólgu, og þar með muni verðbólguskot gera heimili gjaldþrota en masse, er röng!

Nr. 5

…en íslenskur lánamarkaður er óþroskaður og ekki hægt að sjá fyrir með öryggi að slíkt [fastir vextir til lengri tíma] yrði í boði.

Það eru allir sammála um að verðtrygging hamli virkni peningamálastefnu Seðlabankans (loksins eru allir búnir að fatta það!). Þegar verðtrygging á lánum til heimila er afnumin styrkist stefnan. Það ætti að leiða til ekki aðeins lægri stýrivaxta (sjá hér ofan) heldur stöðugri líka því hver vaxtabreyting hefur meiri áhrif á greiðslubyrði og þar með hagkerfið og þar með á verðbólgu. Því er ólíklegt að stýrivaxtabreytingar verði jafn ýktar og þær hafa verið.

Nú er það svo að fastir nafnvextir „til lengri tíma“ skerða virkni peningamálastefnunnar. Því er ekki í fyrsta lagi víst að fastir vextir séu eitthvað sem endilega ætti að stefna að, hvað þá til „lengri tíma“.

En hvað er „lengri tími“? 3 ár? 5 ár? Og af hverju ætti það að vera óöruggt að boðið væri upp á lán með fasta vexti til langs tíma? Það er þegar boðið upp fasta nafnvexti til 5 ára á óverðtryggðum lánum á Íslandi, og það í umhverfi víðfemrar notkunar á verðtryggðum lánum þar sem vaxta- og verðbólgubreytingar eru örari en í umhverfi engrar eða mjög takmarkaðrar notkunar á verðtryggðm lánum. Sannarlega eru meiri líkur á því að fleiri fastvaxtakostir verði að staðreynd þegar peningastefna SÍ hefur verið styrktt með afnámi á verðtryggingu til neytendalána.

Þess fyrir utan er ekki einu sinni boðið upp á öllu lengri lán í mun „þroskaðri“ húsnæðislánamörkuðum en á Íslandi. Helst er það í US. Hér í UK er fullt af tilboðum sem bjóða upp á fasta vexti til fimm ára en erfitt er að finna lán með föstum vöxtum til 10 ára (fjögur tilboð sem stendur skv. comparethemarket.com). Það er ekki til neitt lengra í boði og þar sem það hefur áhrif á virkni peningamálastefnunnar er ekki víst að það sé eftirsóknarvert. Það er undarleg árátta í Íslendingum að vilja alltaf vera með vexti óbreytta allan lánstímann. Það er ekki eftirsóknarvert út frá sjónarmiðinu um að hafa almennilega virkni í peningamálastefnunni.

Nr. 6

Íbúðalánasjóður er langstærsti lánveitandi húsnæðislána, en staða hans er á meðal þess sem stendur í vegi fyrir útfærslu afnáms verðtryggingar. Núverandi vandi sjóðsins felst í eldri lánum sem eru að mestu uppgreiðanleg en skuldabréfin sem fjármagna þau eru að mestu óuppgreiðanleg. Sjóðurinn hefur þegar tapað verulegum fjárhæðum og hefur ríkissjóður lagt honum til nærri 50 ma.kr. Myndi það aukast enn ef afnám verðtryggingar yrði til þess að fleiri vildu greiða upp lán sín og færa sig yfir í óverðtryggð lán með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð.

Don’t get me started!

OK, ÍLS, þ.e. viðskiptalíkan hans, er gjaldþrota: það er gjaldþrota viðskiptahugmynd að taka lán sem ekki eru uppgreiðanleg og lána út lán sem eru uppgreiðanleg. Þetta virkaði í nokkur ár en nú er þessi skelfilega hugmynd dauðadæmd!

Nú vill nefndin fara varlega í það að afnema verðtryggingu á húsnæðislánum vegna þess að Íbúðalánasjóður er langstærsti lánveitandi húsnæðislána (mælt í útistandandi lánum, en ekki í nýjum lánum!). Ástæðan: uppgreiðslurnar sem hann „yrði fyrir“ ef afnám verðtryggingar færi í gegn og ný óverðtryggð lán yrðu tekin og notuð til að greiða upp verðtryggð lán ÍLS myndu auka enn frekar á vanda hans.

Afsakið, en er betra að hafa ÍLS í gangi enn lengur og leyfa honum að grafa sér enn dýpri holu? Er ekki betra að loka batteríinu og byrja á því að vinda ofan af því frekar en að leyfa ósjálfbærri stofnun að stækka reikninginn sem verður að lokum sendur til skattborgarans enn frekar? (Þetta gildir líka um lífeyrissjóðakerfið).

Og er ÍLS svo mikilvæg stofnun á húsnæðislánamarkaði þegar allt kemur til alls?

Ritað er að ÍLS sé „langstærsti lánveitandi húsnæðislána.“ Það er rétt þegar horft er á útistandandi lán. En þegar kemur að nýjum lánum eru það bankarnir sem eru að lána mest út. Hlutur ÍLS af veittum húsnæðislánum á tímabilinu mars 2009 til og með júní 2013 var 43% og eru þá allar hans lánveitingar teknar með. Sama hlutfall fyrstu sex mánuði ársins 2013 var 17% samkvæmt tölum SÍ. Og fyrir þá sem eru að velta því fyrir sér þá er þetta hlutfall enn lægra en á tímabilinu janúar 2006 til og með desember 2008 en þá var markaðshlutdeild ÍLS 58%.

Sjóðurinn er því alls ekki „langstærsti lánveitandi húsnæðislána“ og er raunar hægt og rólega að missa markaðshlutdeild. Það eru bankarnir sem fyrst og fremst hafa haldið uppi húsnæðismarkaðinum síðan eftir Hrun. Og ef þeir gátu það þá, hví ættu þeir þá ekki að geta gert það í framtíðinni? Hefur ÍLS einhvern tilgang lengur? Og ef svo er, er það þess virði að halda lífi í afturgöngunni sem ÍLS er fyrir 17% hlut á húsnæðislánamarkaði? Eða er e.t.v. betra að hjálpa fólki að eignast húsnæði með öðrum leiðum? Það mætti nota fjármunina sem sparast við það að loka ÍLS strax í það frekar en að borga meira í þá hít.

Nr. 7

Þá myndi afnám verðtryggingar gjörbreyta fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða. Samkvæmt lögum skulu lífeyrisréttindi verðtryggð og því hafa lífeyrissjóðir sótt í verðtryggða fjárfestingarkosti. Vegna umsvifa lífeyrissjóðanna á íslenskum fjármálamarkaði er mikilvægt að tryggja áframhaldandi aðkomu þeirra að fjármögnun húsnæðislána en þeir eru langstærstu fjármögnunaraðilar verðtryggðra íbúðalána neytenda og er hlutdeild þeirra um 70% eða 800 ma.kr. Í hnotskurn leiðir afnám verðtryggingar á neytendalánum til þess að verðtryggingarhringrás íslensks hagkerfis verður lokað en veruleg óvissa er um hvort lífeyrissjóðirnir muni halda áfram að fjármagna íbúðalán heimilanna séu þau óverðtryggð, í það minnsta ef lagaumhverfi þeirra helst óbreytt.

„… tryggja áframhaldandi aðkomu [lífeyrissjóðanna] að fjármögnun húsnæðislána…“ Þessi fjármögnun er í fyrsta lagi beint í gegnum sjóðina sjálfa (sjóðfélagalán) og svo í gegnum nýjar útgáfur íbúðabréfa á vegum ÍLS. ÍLS hefur ekki gefið út ný íbúðabréf síðan á fyrsta ársfjórðungi 2012. Þá voru aðeins 3,3 milljarðar boðnir út.

Síðan þá hefur ekki króna verið boðin út! Öll íbúðalán ÍLS síðan á fyrsta ársfjórðungi 2012 hafa verið fjármögnuð af uppgreiðslum annarra lána hjá sjóðnum: svo mikið er þegar greitt upp af eldri lánum hjá ÍLS að hann þarf ekki að sækja í fjármögnun á markaði, þar sem lífeyrissjóðirnir eru, til að fjármagna ný íbúðalán. Eða eins og ÍLS orðaði það sjálfur í árshlutareikningi fyrir fyrsta árshelming 2013: „Sökum góðrar lausafjárstöðu, aukinna uppgreiðslna og minni útlána hefur engin útgáfa fjármögnunarskuldabréfa átt sér stað…“

Lífeyrissjóðirnir hafa því ekki fjármagnað nema í mesta lagi 3,3 milljarða af nýjum lánum frá ÍLS síðustu tvö ár. Hlutfallið er líklega minna en 100% því lífeyrissjóðirnir eru jú ekki aleinir á fjármagnsmarkaði þótt þeir séu, því miður, risar þar. Þá þarf að bæta við þeirra eigin lánveitingum til að sjá hversu mikilvægir þeir eru við að fjármagna húsnæðislánamarkaðinn á Íslandi.

Á tímabilinu janúar 2012 til júní 2013 voru veitt ný íbúðalán upp á 100,4 milljarða samkvæmt tölum SÍ. Þetta eru brúttó ný íbúðalán, þ.e. ekki er tekið tillit til afborgana og uppborgana eldri lána í þessum tölum. Hlutur ÍLS af þessum 100 milljörðum var 20,7 milljarðar sem mest allt (fyrir utan 3,3 milljarða verðbréfaútgáfuna á fyrsta ársfjórðungi 2012) var fjármagnað af uppgreiðslum á eldri lánum. 11,1 milljarðar voru veittir í sjóðfélagalán frá lífeyrissjóðunum á sama tímabili. Restin kom frá innlánastofnunum (68,6 milljarðar) sem fjármagna sín íbúðalán með því einu að skrifa þau samtímis sitthvorum megin á efnahagsreikning sinn – galdur bankastarfsemi í hnotskurn.

Nú verð ég að viðurkenna að ég mér finnst ekki að hlutur lífeyrissjóða á húsnæðislánamarkaði sé svo stórkostlegur (11,1 + 3,3 max = 14,4 milljarðar, eða 14,4% af veittum íbúðalánum á tímabilinu janúar 2012 til og með júní 2013) að „vegna umsvifa [þeirra] á íslenskum fjármálamarkaði er mikilvægt að tryggja áframhaldandi aðkomu þeirra að fjármögnun húsnæðislána.“

Mér sýnist húsnæðislánamarkaðurinn aðallega hafa verið drifinn áfram af lánveitingum frá innlánastofnunum síðustu tvö ár og miðað við gang hans á sama tímabili þá virðist hann spjara sig ágætlega. Hví ætti það að breytast ef verðtrygging á neytendalánum er afnumin?

Hvað varðar skortinn á verðtryggðum pappírum til handa lífeyrissjóða, einkum til að koma í veg fyrir of mikið ójafnvægi á verðtryggðum og óverðtryggðum eignum og skuldbindingum þeirra, þá hef ég áður fjallað um það álit mitt að hið opinbera eigi að gefa út verðtryggð skuldabréf „on tap“ til að mæta þessari eftirspurn.

Nr. 8

Svo án þess að fjalla um það sérstaklega þá vil ég „kvarta“ yfir því að ekki virðist vera minnst á þá staðreynd í skýrslu nefndarinnar að verðbólga er ekki rétt mæld.

Sannleikurinn er að hún er ofmetin, sem þýðir að lántakar eru að borga hærri raunvexti en það sem kemur fram á hinu verðtryggða skuldabréfi. Ég minntist sérstaklega á þetta þegar nefndin hringdi í mig og bjóst við, í ljósi þess að þetta átti að vera sanngjörn og sönn umfjöllun um verðtryggingu, að þetta kæmi í skýrsluna. En svo virðist því miður ekki. Fjallað er um þetta atriði í séráliti Vilhjálms Birgissonar.

Að lokum

Ég sagði að mér hefðu rök nefndarinnar fyrir því að ekki væri hægt að ganga lengra í afnámi verðtryggðra lána en tillögur hennar hljóðuðu upp á grátbroslegar. Ég vona að þessi umfjöllun hér varpi að minnsta kosti einhverju ljósi á ástæður þeirra orða minna. Sannast sagna finnst mér það líka grátbroslegt að ég hef í raun aðeins fjallað um eina blaðsíðu, eða rétt rúmlega það, í skýrslunni allri. Hvernig ætli full skoðun á skýrslunni myndi líta út ef þessi langloka sprettur af einni blaðsíðu?

Það er samt margt gott í skýrslunni. Ekki hefur t.d. sá skilningur oft sést á prenti hjá opinberri nefnd að verðtryggingin hafi neikvæð áhrif á virkni peningamálastefnu seðlabankans. Það er gott að skilningurinn á áhrifum verðtryggingar neytendalána er þó kominn á þetta stig. Ágætis „ceteris paribus“ greining er gerð á greiðsluflæðum mismunandi lánaforma. Og góð umfjöllun er um freistnivandann sem hlýst af verðtryggingunni, svo fátt eitt sé nefnt.

Og per se má segja að uppástungur nefndarinnar þess efnis að fara sér hægt og skoða svo málið aftur árið 2016 sé í anda þess að fara varlega. En því miður þá sé ég ekki mikla ástæðu til þess, allavega eru þær ástæður sem nefndin minnist á í kaflanum „3.2 Fullt afnám í einu skrefi?“ ekki eins alvarlegar og af er látið.

Þess vegna, með ofangreinda umfjöllun í huga, hefði ég viljað ganga lengra. Sérstaklega þar sem ég og nefndin erum alveg sammála: verðtryggingin er til trafala.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur