Þriðjudagur 14.01.2014 - 19:32 - FB ummæli ()

Íslenska lífeyriskerfið í stofnanalegu ljósi

Gunnar Tómasson er með stutta en skorinorta grein um hvernig íslenska lífeyrissjóðakerfið leiðir til þess að skuldsetning íslenskra heimila eykst. Í framhaldinu langaði mig til að bæta örlitlu við.

„Extractive“ og „inclusive“

Hægt er að horfa á íslenska lífeyrissjóðakerfið í stofnanalegu (e. institutional) ljósi, þ.e. hvernig uppbygging þess og skipulag leiða til ákveðinnar þróunar. Í frægri bók sem kom út árið 2012 – Why Nations Fail – skiptu höfundarnir, Acemoglu og Robinson, stofnanalegum þáttum hagkerfisins, sem ná yfir jafn ólík en þó tengd atriði á borð við lagaumhverfi, almennt viðskiptaumhverfi, og pólitísks skipulags í viðkomandi landi, upp í „extractive“ og „inclusive“ þætti.

Það er ekki auðvelt að þýða viðkomandi hugtök yfir á íslensku. Í staðinn fyrir að rembast við að koma með slíka þýðingu vil ég heldur útskýra hver hugmyndin að baki notkun hugtakanna er. Lesendur geta þá sjálfir hugsað út í góð íslensk orð sem grípa meiningu viðkomandi hugtaka.

„Extractive“ stofnanalegur þáttur er skipulagslegur þáttur í viðkomandi hagkerfi sem kemur einum þjóðfélagshópi augljóslega betur en öðrum.Þessi þjóðfélagshópur getur þá notað viðkomandi skipulagsþátt til að beinlínis nota aðra þjóðfélagshópa til eigin hagsbóta. Þetta leiðir til þess að hægt er að kalla viðkomandi stofnanalegan þátt „extractive“ en sagnorðið „extract“ þýðir m.a. að vinna eitthvað úr einhverju, t.d. „to extract oil from olives“. Í þessu tilviki er fyrri þjóðfélagshópurinn því að vinna efnahagslegan ábata úr hinum síðari, að sjálfsögðu til eigin hagsbóta.

„Inclusive“ stofnanalegur þáttur er hins vegar skipulagslegur þáttur þar sem tekið er jafnt tillit til allra þjóðfélagshópa: þar eru allir „meðtaldir“ (e. included) og allir hafa jöfn tækifæri. Hér gildir að enginn getur misnotað eða „unnið eitthvað úr einhverjum öðrum“ í skjóli skipulagslegs þáttar sem beinlínis býr til misskiptingu milli tveggja ólíkra aðila.

Þessi hugtök ná svo yfir allt það sem kemur skipulagi viðkomandi lands við. Dæmi um „extractive“ skipulag er (löglegt) þrælahald eða (lögfest) misskipting á aðgengi að mörkuðum og efnahagslegum sem og pólitískum tækifærum. Pólitískt skipulag er „extractive“ ef konum eða ákveðnum (fátækum) hópum karlmanna er ekki veittur atkvæðisréttur. Dæmi um „inclusive“ lagalegan þátt er að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og að atkvæðisvægi allra atkvæðisbærra manna (konur eru líka menn) skuli vera jafnt – sem gildir ekki á Íslandi þegar kemur að kosningum til Alþingis. Þumalputtareglan er að „inclusive“ þættir eru sanngjarnir en það eru „extractive“ þættir ekki. En svo má náttúrulega rífast um hvað er „sanngjarnt“ og hvað ekki.

Áhrifin af og baráttan milli „extractive“ og „inclusive“

Áhrifin af því að vera með „extractive“ skipulag á hagkerfinu eða ákveðnum hluta þess er að aðeins þröngur hópur ákveðinna aðila innan þjóðfélagsins græðir. Til skamms tíma getur þetta verið „jákvætt“: þessi þröngi sérhagsmunahópur mun hafa mikinn ábata af því að byggja viðkomandi hagkerfi upp eins hratt og hægt er til að það sé hægt að „vinna meira úr“ öðrum þjóðfélagshópum. Afleiðingin verður hagvöxtur þegar sérhagsmunahópar stækka kökuna til að geta unnið meira úr henni. Þetta kalla Acemoglu og Robinson „extractive growth“.

En slíkur hagvöxtur getur ekki gengið til lengdar. Ástæðan er einfaldlega sú að aðeins er hægt að vinna ákveðið mikið úr öðrum þjóðfélagshópum áður en þeir einfaldlega hætta eða neita að vinna – því þeir hafa ekki hvata til þess – eða gera einfaldlega uppreisn. Þeir geta líka fært sig milli landsvæða og inn í hagkerfi þar sem ekki er beinlínis níðst á þeim, þ.e. ef þeim er leyft að færa sig milli landsvæða (dæmi um hið andstæða: Norður Kórea). Aðeins „inclusive“ hagvöxtur, þar sem hver og einn hefur efnahagslega hvata til þess að gera það sem honum (henni) lystir, s.s. vinna að nýjum uppfinningum eða þróa nýja aðferðarfræði við framleiðslu á einhverri vöru eða þjónustu, getur gengið til lengdar. Slíkur hagvöxtur hefur líka víðfemari og sterkari jákvæð áhrif á efnahagslegan uppgang viðkomandi þjóðar en „extractive“ hagvöxtur.

En það er ekki víst að hagkerfið komist nokkurn tímann á braut þróunar sem við getum sagt að einkennist af „inclusive“ hagvexti. Ástæðan er vitanlega að ef „extractive“ stofnanalegur þáttur er til staðar mun sérhagsmunahópurinn sem græðir svo mikið á honum berjast eins og ljón við að viðhalda honum og helst gera hann ennþá sterkari. Slíkir sérhagsmunahópar munu miskunnarlaust nota stjórnmálamenn til þess að viðhalda sínum hagsmunum og helst auka við þá, t.d. með því að minnka skatta á viðkomandi hóp. Grímulaust dæmi um slíkan hóp á Íslandi eru útvegsmenn. Sá hópur a) berst á móti strandveiðum, b) berst á móti veiðigjaldi, c) vill fá makrílkvóta úthlutað á þann hátt að það komi viðkomandi og núverandi hópi sem best, og d) berst á móti inngöngu í ESB vegna ótta um að þurfa að deila íslenskum miðum með öðrum fiskveiðiþjóðum, svo nokkur atriði séu nefnd.

Eftir þennan langa inngang að því hvað „extractive“ og „inclusive“ þættir eru er kominn tími til að fjalla örstutt um lífeyriskerfið á Íslandi í þessu samhengi. Það er í sjálfu sér ekki lengi gert: lífeyriskerfið er „extractive“.

Af hverju er íslenska lífeyriskerfið „extractive“?

Það eru tvær áberandi ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er kynslóðum mismunað innan íslenska lífeyriskerfisins. Engin von er til þess að hinir yngri muni bera hið sama úr býtum og hinir eldri. Þannig eru hinir eldri í raun að „vinna úr“ hinum yngri. Yngri kynslóðir dagsins í dag eru þegar byrjaðar að bera kerfið uppi og það m.a.s. fyrir margt löngu. Þannig fer of stór hluti atvinnutekna fólks í að halda uppi lífeyriskerfinu sem leiðir til þess, eins og Gunnar bendir á í sínum pistli, að til að viðhalda lífsgæðum eru búin til lán og skuldir. Ekki þarf að hafa mörg orð um þau vandræði sem það hefur í för með sér.

Í öðru lagi er íslenska lífeyriskerfið of stórt, fjárhagslegur styrkur þess er orðinn of stór. Þetta eitt og sér er hættulegt en sambland þessa atriðis við þá staðreynd að atvinnurekendur og verkalýðsforkólfar skipta með sér setu í stjórnum margra sjóða, í stað þess að notast við beina og sanngjarna lýðræðislega kosningu meðal sjóðfélaga í þeim öllum, ýtir svo sérstaklega undir þá stórhættulegu stöðu að sjóðirnir geta ráðið því hvaða fyrirtæki fá „að lifa“ og hver verða að deyja. Þá geta stjórnarmenn lífeyrissjóða skyndilega fundið sig í slíkum aðstæðum að það getur verið freistandi að nota fjárhagslegan styrk viðkomandi sjóðs til að styðja við eigin fjárfestingar. Eitt eftirminnilegasta dæmið um slíkt: Marel og Lífeyrissjóður verzlunarmanna. Slíkar leikreglur og uppbygging eru ekki sanngjarnar á nokkurn hátt, líkt og hugmyndin með „inclusive“ stofnanalegu umhverfi er.

Það er einkenni „extractive“ þátta í hagkerfum að þeir eru góðir fyrir fáa en slæmir fyrir heildina. Því miður er lífeyrissjóðakerfið íslenska dæmi um slíkt. Það þarf að endurskipuleggja kerfið, hagkerfinu og þjóðinni sem heild til hagsbóta. En vitanlega er og verður þrýstingur á móti slíkum breytingum töluverður, einkum og sér í lagi frá þeim sem hagnast mest af því að halda því óbreyttu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur