Mánudagur 16.12.2013 - 16:14 - FB ummæli ()

Verðtrygging 201

Í febrúar 2012 skrifaði ég pistil sem nefndist „Verðtryggð lán eru með hærri vexti„. Nú þegar „Verðtrygging 101“ sérrit Seðlabankans er komið út finnst mér tilvalið að uppfæra þann pistil. Ástæðan er að í Verðtryggingu 101 er eftirfarandi texti í samantektinni á fyrstu blaðsíðu (mín feitletrun og undirstrikun):

Full ástæða er til að rifja upp helstu staðreyndir sem þekktar eru um verðtryggingu… Slík upprifjun getur aðeins orðið til þess að bæta umræðuna. Á meðal þess sem hér er dregið fram er að meginkostnaður við verðbólgu er ekki rýrnun kaupmáttar heldur handahófskennd tilfærsla eigna milli skuldara og sparifjáreigenda sem stafar af óvæntri verðbólgu. Verðtrygging eyðir þessari áhættu og gagnast því bæði lánveitendum og lántakendum. Þess vegna eru raunvextir verðtryggðra lána jafnan lægri en óverðtryggðra.

Fræðilega séð ættu raunvextir verðtryggðra lána að vera lægri en óverðtryggðra lána, einmitt vegna þess að verðtryggingin eyðir áhættunni (eða er það kannski óvissunni… mikilvægur munur á áhættu og óvissu!) um verðbólgu í framtíðinni. Þess vegna ættu raunvextir verðtryggðra lána að vera jafnan lægri en óverðtryggðra. En það er spurning hvort þeir séu það!

Það er auðvelt að ganga úr skugga um það: hægt er að skoða gögn og athuga hvort hin fræðilega kenning um að vextir verðtryggðra lána séu að jafnaði lægri en óverðtryggðra eigi við rök að styðjast í raunveruleikanum! Það er í anda vísindalegrar aðferðafræði sem í grófum dráttum er:

  1. Spurning
  2. Rannsókn
  3. Kenning (í þessu tilviki: „raunvextir verðtryggðra lána eru að jafnaði lægri en óverðtryggðra“)
  4. Gögnum safnað og greind
  5. Niðurstaða slíkra mælinga borin saman við niðurstöðu kenningar
  6. Endurskoðun eða staðfesting kenningar: 2.-6. endurtekin ef þörf krefur

Hér má sjá gögnin frá Hagstofu Íslands.

Raunvextir almennra útlána og verðtryggðra lána

Island_verdtryggd_overdtryggd1

 

Einfalt meðaltal raunvaxtanna, frá og með 1980 (fyrsta gildi verðtryggðu lánanna): 6,47% í tilviki óverðtryggðra lána en 7,42% í tilviki verðtryggðra lána. Verðtryggðu lánin eru semsagt að jafnaði með hærri raunvexti.

Hér má sjá hvernig höfuðstóll (raungildi) upp á 100kr. hefði þróast frá og með 1980 (innlegg 31. des 1979 svo 1980 er fyrsta vaxtaárið). Sem sjá má er hann hærri í tilviki raunvaxta verðtryggðra lána. Eitthvað er ekki í lagi: eru vextir verðtryggðra lána hærri, að jafnaði, en óverðtryggðra?

100kr. höfuðstóll lagður inn árið 1979 og raungildi hans m.v. raunvexti óverðtryggðra og verðtryggðra lána

Island_verdtryggd_overdtryggd2

En það er kannski ekki sanngjarnt að miða við frá og með 1980. Há verðbólga allan 9. áratuginn og vaxtafrelsi ekki fyrr en um miðjan þann áratug. Skoðum hvað gerist frá og með 1990. Þá snýst dæmið við: raunvextir óverðtryggðu lánanna eru að jafnaði hærri.

100kr. höfuðstóll lagður inn árið 1989 og raungildi hans m.v. raunvexti óverðtryggðra og verðtryggðra lána

Island_verdtryggd_overdtryggd3

Það er hægt að setja upp einfalt graf sem sýnir meðaltal raunvaxtanna frá og með 2012 og aftur í tímann. Grafið hér að neðan er slíkt graf (og Mynd 4 í Verðtryggingu 101 er ekki ósvipuð…). Það sýnir meðaltal vaxtanna frá og með 2012 til og með viðkomandi árs á x-ás.

Þannig eru raunvextir óverðtryggðu lánanna hærri ef tekið er meðaltal frá og með 2012 aftur til áranna 1984 fram til og með 2005. Frá og með 2006 eru raunvextir óverðtryggðra lána lægri sem og ef við tökum meðaltalið alla leið fyrir árið 1984. Svo ef þú, lesandi góður, tókst óverðtryggt lán fyrir 1984 eða eftir 2005 eru allar líkur á því að þú hafir, hingað til, borgað lægri raunvexti en ef þú hefðir tekið verðtryggt lán, a.m.k. miðað við þessi gögn.

Raunvextir verðtryggðra lána eru lægri „að jafnaði“ allt eftir því hvaða tímabil við miðum við.
Island_verdtryggd_overdtryggd4

Svo má snúa sér að mánaðarlegum gögnum Seðlabankans í stað árlegra gagna Hagstofunnar.

Hér má sjá raunvexti óverðtryggðra lána samanborið við raunvexti verðtryggðra lána frá og með 2001. Notast er við uppgefin gögn Seðlabankans um „Almenna vexti óverðtryggðra útlána“ og „Almenna vexti verðtryggðra útlána.“ Neysluverðsvísitala Hagstofunnar er notuð til að finna raungildi. (Sem, nota bene, gæti verið hættulegt! En við förum ekki í það hér þótt það væri mjög fræðandi og áhugavert viðfangsefni).

Öfugt við Hagstofu gögnin eru vextir verðtryggðra lána hærri en óverðtryggðra lána að jafnaði frá og með júlí 2001: í tilviki óverðtryggðra lána eru þeir 4,69% en 5,26% í tilviki verðtryggðu lánanna.

Raunvextir (ex-post) verðtryggðra og óverðtryggðra lána skv. gögnum SÍ og Hagstofunnar

Island_verdtryggd_overdtryggd5

Svo má gera höfuðstólasamanburðinn aftur með gögnum SÍ í þetta skiptið. Innleggið er í júní 2001.

Höfuðstólar upp á 100kr. sem bera raunvexti óverðtryggðra lána og verðtryggðra lána

Island_verdtryggd_overdtryggd6

Og svo má til dæmis setja Seðlabankagögnin upp þannig að raunvextir lánaformanna eru bornir saman yfir árin í heild. Það er gert á súluritinu hér að neðan. Athugið að í tilviki 2001 er um að ræða tímabilið júlí-desember og í tilviki 2013 erum við að tala um janúar-nóvember.

Öfugt við kenninguna virðast, miðað við þessi gögn, raunvextir óverðtryggðra lána vera lægri en verðtryggðra – að jafnaði.

Island_verdtryggd_overdtryggd7

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst það hetjulegt að halda því fram að „raunvextir verðtryggðra lána [séu] jafnan lægri en óverðtryggðra“ miðað við gögn. Það virðist fara mikið eftir því hvaða tímabil er miðað við og líka hvaðan gögnin eru tekin. Já, fræðilega séð er þetta niðurstaðan. En við lifum ekki í fræðilegum heimi, við lifum í raunverulegum heimi. Og ef fræðilegi heimurinn er ekki í samræmi við þann raunverulega þarf að endurskoða hinn fyrrnefnda, sér í lagi ef við notum hann sem grundvöll ákvarðana okkar í hinum síðarnefnda.

Ég ætla að vera svo grófur að halda því fram að það er þörf á því að fara aftur í skref 2 í listanum hér að ofan: gögnin eru ekki í samræmi við hina fræðilegu niðurstöðu um að vextir verðtryggðra lána séu að jafnaði lægri en raunvextir óverðtryggðra lána. Það er að því gefnu að ég hafi ekki gert einhverja  stórkostlega gloríu í vinnslu gagnanna sem og að notkunin á neysluverðsvísitölunni skekkji ekki niðurstöðuna um of.

En svo gætum við líka virt að vettugi gögn sem segja okkur annað en það sem við trúum. Það væri náttúrulega þægilegra… minna vesen.

Island_verdtryggd_overdtryggd8

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur