Föstudagur 26.09.2014 - 11:15 - FB ummæli ()

Sæstrengur til Bretlands?

1.

„Túrbínutrix“ (orð sem ég heyrði fyrst af í smiðju Ómars Ragnarssonar) er þegar farið er í stórinnkaup á ákveðnum þætti af virkjanaframkvæmd sem notuð eru til að réttlæta stækkun á framkvæmdinni allri. Nafnið kemur af þeirri hugmynd að kaupa skuli stórar túrbínur fyrir litla virkjanaframkvæmd sem þegar hefur verið samþykkt. Svo er reiknað upp á nýtt og komist að því að til að framkvæmdin borgi sig (eða borgi sig enn betur) verður að stækka hana alla því túrbínurnar sem er búið að kaupa eru svo stórar og dýrar!

Hugmyndina er hægt að setja fram á almennari máta en bara varðandi túrbínur. Í stuttu máli er viljandi farið í mikinn kostnað í upphafi verks til að fá sem mestan „sokkinn kostnað“ í upphafi verks áður en það gefur eitthvað af sér. Hinn hái sokkni kostnaður í upphafi kallar eftir því að verkið allt verði stækkað til að eitthvað fáist út úr því. Sérstaðan er að það var alltaf „planið“ að fara þessa leið – þótt það geti að sjálfsögðu verið kynnt almenningi á allt annan hátt.

Þetta trix er upplagt þegar farið er í framkvæmdir sem kostaðar eru með annarra manna fé og/eða eru með ábyrgð hins opinbera. Sokkinn kostnaður – t.d. kaup á alltof stórum túrbínum m.v. upphaflegar áætlanir – er notaður til að réttlæta að henda meiri peningum á eftir þeim upprunalegu, einhverjum til hagsbóta. Þetta er ekki ósvipað því að tvöfalda upphæð 50/50 veðmáls í hvert skipti sem spilað er og tapa viljandi fyrstu 2-3 umferðunum „til komast í alvöru upphæðir“ ef svo mætti segja.

2.

Lagning sæstrengs er dæmi um hugsanlegt túrbínutrix, því miður. Hugmyndir – hvort þær verði að áætlunum er annað mál – eru fyrir 700-1200MW sæstreng. 1200MW sæstrengur er ekkert smáræði og jafngildir u.þ.b. framleiðslu TVEGGJA Kárahnjúkavirkjana (framleiðsluGETA Kárahnjúka er 690MW en vatnsaflsvirkjanir ná aldrei 100% nýtingu af framleiðslugetu).

3.

Það má reikna með að til að „nýta“ sæstreng sem getur flutt 1200MW muni verða mikill þrýstingur á frekari virkjanaframkvæmdir á Íslandi eftir að strengurinn hefur verið lagður: það verður að virkja meira til að nýta strenginn! Umframorkugetuframleiðsla í íslenska raforkukerfinu í dag er ca. 100-200MW. Til að nýta strenginn allan þyrfti þá að virkja upp á ca. 1-1,5 Kárahnjúkavirkjanir í viðbót (færi eftir flutningsgetu strengsins).

4.

Þá verður einnig að flytja alla orkuna að sæstrengnum og það kallar á meiriháttar framkvæmdir vegna styrkingu raforkuflutningskerfisins innan Íslands sjálfs. Net háspennulína myndi vera á Íslandi, allt til að flytja orkuna að sæstrengnum. Eitthvað segir mér að ferðamannaiðnaðurinn yrði ekki par hrifinn: ferðamenn koma ekki til Íslands til að horfa á háspennulínur.

5.

Ríkisstyrkir Bretlands vegna grænnar orku eru til 15 ára í senn fyrir hvert verkefni sem styrkt er. Styrkirnir fara eftir því hvert verkefnið er og miðast við að borga ákveðið verð fyrir „græna“ orku, sama hvert markaðsverðið er (ef markaðsverð er hærra en viðmiðunarverð borgar orkufyrirtækið til breska ríkissjóðsins, annars borgar ríkissjóður til orkufyrirtækisins). Í tilfelli vindorku er t.d. miðað við 90 pund fyrir hverja framleidda MWh. Þetta þýðir að framleiðanda vindorku er lofað 90 pundum/MWh, sama hvert markaðsverðið á orku er (þetta er reyndar ekki alveg svona einfalt en við skulum sleppa því að grafa okkur dýpra inn í breska orkugeirann og ríkisstyrkina á bakvið hann). Þetta loforð rennur út eftir 15 ár en eftir það fæst markaðsverð fyrir orkuna. Þessir styrkir koma til vegna umhverfismarkmiða, sem hafa verið sett í lög, um myndun gróðurhúsalofttegunda. Eingöngu 2020 markmiðið er lögfest, 2030 og 2050 markmiðin eru það ekki. Mjög nýlega var ríkisstyrkjunum breytt og þeir m.a. styttir úr 20 árum í 15. Þrýstingurinn kom frá Tories (sem eru að bregðast við vinsældum UKIP sem hafa náð meiri vinsældum en Tories þola en UKIP er á móti ríkisstyrkjunum).

6.

Ríkisstyrkirnir eiga EKKI við um græna orku sem er framleidd fyrir UTAN Bretland. Breti sem á 50 vindmyllur í Kína fær ekki pund í styrki frá breska ríkinu. En aftur á móti fær kínverskt fyrirtæki – eða norskt, eins og t.d. Statoil og Statkraft – styrki frá hinu opinbera í Bretlandi ef það byggir vindmyllu innan breska raforkukerfisins.

7.

Það er algjörlega óljóst hvert orkuverðið um strenginn yrði, það getur enginn slegið því föstu hvert það yrði. Þetta er algjört samningsatriði. En til viðmiðunar: samkvæmt evrópskri skýrslu um raforkumarkaðinn í álfunni var heildsöluverð fyrir raforku á breska markaðinum ca. 50-70 EUR/MWh um mitt ár 2013. Bretar geta líka flutt inn orku frá mið-Evrópu, þar sem heildsöluverð hefur verið ca. 40-70EUR/MWh síðastliðin ár, um sæstrengi sem þegar eru til staðar. Hvergi í Evrópu hefur orkuverð á heildsölumarkaði farið upp fyrir 100EUR/MWh síðastliðin ár (ef þetta er rangt hjá mér, endilega leiðréttið mig!). Ef Bretar bjóðast til að borga 150-200 USD (ca. 120-160 EUR) fyrir hverja MWh sem framleidd er fyrir utan breska raforkukerfið og flutt inn með sæstreng yrði ég frekar hissa. En þeir borga það glaðir, í 15 ár, ef þú framleiðir megavattstundina innan breska raforkukerfisins, líkt og í tilfelli Statoil/Statkraft! En aftur: þetta verður að ræða við Breta! Þangað til vitum við ekki hvað þeir vilja bjóða. En ekki búast við að þeir bjóði tvöfalt heildsöluverð á raforku í mið-Evrópu.

7.

Hvað varðar þá sem benda á að orkuverð muni pottþétt fara hækkandi og verða nægilega hátt til að það skipti ekki máli þótt ríkisstyrkir breskra skattgreiðanda renni út er ágætt að hafa í huga að á árunum 1990-2005 lækkaði raforkuverð í Bretlandi um 25% (að raunvirði, stóð nokkurn veginn í stað að nafnvirði). Á hverjum auglýsingasnepli fyrir fjárfestingar í verðbréfum stendur að „ávöxtun í fortíð segir ekki til um ávöxtun í framtíð“. Það er ágætt að hafa það í huga öllum stundum.

8.

Burtséð frá a) lagningu sæstrengsins sjálfs þá þarf að b) leggja net strengja innanlands að sæstrengnum og c) virkja sem ígildir 1-1,5 Kárahnjúkavirkjunum til að „nýta“ strenginn. Ég hef ekki skoðað það sérstaklega hvað þetta á allt saman að kosta en ég spyr: ef hagkerfið ofhitnaði á árunum þegar Kárahnjúkar og meðfylgjandi framkvæmdir stóðu yfir, yrði þetta skárra?

9.

Það eru allar líkur á því að raforkuverð til almennings á Íslandi myndi hækka. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, benti réttilega á þetta á orkuráðstefnu í London fyrir ári síðan. Hversu mikil hækkunin yrði veit enginn en algengt raforkuverð til almennings hér í Bretlandi er í kringum 0,12 pund (ca. 23 krónur) fyrir kWh en þetta er þó breytilegt eftir landssvæðum og milli orkufyrirtækja (hér er tafla sem sýnir verðin í UK án vsk). OR býður raforku fyrir ca. 7 krónur/kWh með vsk.

10.

Í stuttu máli sagt: stígum varlega til jarðar. En það kostar vonandi ekkert mikið fyrir Íslendinga að æfa enskuna og tala við Breta. Bara ekki gleyma sér, það er ekki gulllykt í loftinu enn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur