Laugardagur 06.12.2014 - 14:40 - FB ummæli ()

Launaþróun og komandi kjarasamningar

Það er þó nokkuð rætt um launahækkanir og þörfina á þeim, að ógleymdri sanngirnina að baki þeim. Einnig er varað við því að hækka laun of mikið, betra sé að hækka þau hægt og rólega og forðast með því verðbólgu og viðlíka efnahagsleg leiðindi.

Það er þó nokkuð til í því að launahækkanir geti leitt til verðbólgu. Ein af ástæðum þess að verðbólga var jafn há og hún var á 7. og 8. áratugnum – ekki bara á Íslandi heldur í Evrópu og Norður Ameríku að sama skapi – var harka af hálfu verkalýðsfélaga sem vildu nafnlaunahækkanir og engar refjar! Þetta leiddi til „cost push“ verðbólgu: kostnaður við framleiðslu jókst og þessum kostnaði var svo velt yfir í verðlag. Ekki flókin hagfræði.

Frá 8. áratugnum hefur hins vegar almenn þróun verið svo að þótt verkalýðsfélög hafi samþykkt að halda aftur af kröfum sínum varðandi launahækkanir hefur toppurinn á ísjakanum – stjórnendur fyrirtækja – fengið góða launahækkun á sama tíma, langt umfram það sem aðrir hafa fengið. Þessar launahækkanir hafa e.t.v. ekki verið í formi reglulegra útborgaðra launa heldur bónusa og viðlíka. Þetta hefur leitt til þess að hlutfallið milli launa stjórnenda og almenns vinnufólks hefur hækkað mjög og er víða langt umfram það sem fólki „finnst“ að það ætti að vera. Þetta ósamræmi, þessi ójöfnuður, leiðir til samfélagslegs ófriðar.

Mörg lönd eru mun verri en Ísland þegar kemur að þessu atriði en það breytir því ekki að ræða verður málefnið. Á Íslandi, með gögn frá Hagstofunni að vopni, sjáum við að meðaltal heildarlauna stjórnenda hafa hækkað um 46% að raunvirði frá 1998. Á sama tíma er talan 29% á heildina – stjórnendur, sérfræðistörf, ófaglærðir, o.s.frv. – litið. Þetta má einnig bera saman á eftirfarandi hátt: að meðaltali hafa stjórnendur fengið 2,6% raunlaunahækkun á hverju ári frá 1998 meðan samsvarandi tala fyrir heildina er 1,7%. Hluflall meðaltals heildarlauna stjórnenda á móti meðaltali heildarlauna allra launamanna hefur þannig vaxið úr 164% fyrir 1998 upp í 186% fyrir 2013.

Þannig hafa stjórnendur á Íslandi, líkt og raunin er í mörgum öðrum löndum, notið þess umfram aðra hver framleiðniaukning vinnuafls hefur verið. Þetta atriði er óumdeilanlegt.

Miðgildi heildarlauna stjórnenda og launafólks alls, á föstu verðlagi ársins 2013.

Iceland_wages2

 

Meðaltal heildarlauna stjórnenda og launafólks alls, á föstu verðlagi ársins 2013.

Iceland_wages1

 

Hlutfall launa (meðaltal og miðgildi) stjórnenda og launafólks alls

 

Iceland_wages

Eins og sjá má á umræðunni er augljóst að launamenn almennt vilja leiðrétta þessa þróun. Út frá efnahagslegu tilliti yrði það líka jákvætt ef þessari þróun yrði snúið við. Ekki aðeins yrði stuðlað að samfélagslegum friði, sem einn og sér getur ýtt undir væntingar og þar með fjárfestingar, heldur yrði kaupmáttur almennra launa hærri. Slíkt leiðir til aukinnar eftirspurnar sem aftur keyrir hagkerfið áfram. Og það eru til ótal rannsóknir þess efnis að launadrifinn hagvöxtur sé betri og heilbrigðari en t.d. lánadrifinn hagvöxtur eða hagnaðar-drifinn hagvöxtur (þ.e. hagnaður fyrirtækja, sem augljóslega verður lægri eftir því sem vöxtur launa er hærri: fyrir inngang, sjá t.d. Hein, 2012.). Þá hefur ennig verið mikið rannsakað hver áhrif ójafnaðar eru á hagvöxt og almenna hagsæld (sjá t.d. Palley, 2012, og Keen, 2012, einnig IMF og OECD). Og í örskömmu máli: minni ójöfnuður og meiri hagvöxtur fara hönd í hönd – og nú má rífast um hvort komi á undan.

Það er mígrautur af atriðum sem verður að hafa í huga í næstu kjarasamningum. Það er rétt að ef laun hækka mikið endar hagkerfið á að keyra sjálft sig í verðbólgu. Á sama tíma er það staðreynd að ef laun hækka ekki nægilega mikið mun hagkerfið enda áfram í sömu sporunum og það hefur verið: keyrt áfram af erlendri eftirspurn og innlendri nýmyndun lána, sem víða hefur verið notuð til að bæta upp fyrir slappa hækkun almennra launa, hver sem ástæðan fyrir þeirri slöppu hækkun er.

 

Heimildir:

Hein, 2012. „Wage- and profit-led regimes“ í The Elgar Companion to Post Keynesian Economics (ed. J.E. King). Gefið út af Edward Elgar, Cheltenham, UK.

Keen, Steve. Growth Theory“ í ibid.

Palley, Thomas I. 2012. „Income Distribution“ í ibid.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur