Sunnudagur 21.05.2017 - 10:08 - FB ummæli ()

Maður hættir ekki að heyja þótt tíðin sé góð

Eitt sinn var bóndi sem, eftir mildan vetur, átti þó nokkuð hey eftir þegar komið var fram á vorið. Árferðið hafði raunar verið svo gott að hann hafði meira að segja borgað til baka heyskuld sem hann hafði stofnað til við nágranna sinn nokkrum árum fyrr þegar verulega hart var í ári. Hann ákvað því, í ljósi góðrar forðastöðu sinnar, að sleppa því að heyja það sumarið. Eftir að hann var búinn að ákveða að vera ekkert að heyja hafði hann að orði að það væri „mjög jákvætt að þurfa ekki að standa í þessu.“
(Hafið í huga að Seðlabankinn getur og býr til krónur eins og hann vill: það er aldrei skortur á krónum fyrir ríkissjóð eða Seðlabankann. Hins vegar, líkt og bóndinn með sitt hey, getur Seðlabankinn eða ríkissjóður ekki búið til dollara úr engu.)
Með því að ákveða að hætta að heyja er Seðlabankinn að treysta á lukkuna. Helsta áhyggjuefni þar á bæ er hvað árferðið hefur verið gott: atvinnuleysi er lágt, verðbólga er lág og hagvöxtur mikill. Því er það skoðun Seðlabankans að best sé að setja loftkælinguna á fullt: leyfum krónunni að styrkjast hratt og mikið með þá ætlun í huga að draga þannig úr komu ferðamanna og með því eftirspurn í hagkerfinu. Eða eins og aðalhagfræðingur Seðlabankans hafði að orði síðasta sumar: „[styrking krónunnar] er til að draga úr samkeppnishæfni [íslensks] útflutnings“. Hann talaði reyndar um það í sama viðtali að þau væru að hugsa um heildarhagsmuni þjóðarbúsins þegar þau leyfðu krónunni að styrkjast (athugið að síðan viðtalið var tekið í ágúst 2016 hefur krónan styrkst um ca. 15% gagnvart evru). En fyrir hvaða tímabil er maðurinn að vísa til? Og var þá tekið inn í myndina sviðsmyndin þar sem ferðaþjónusta, í dag helsta gjaldeyrisuppspretta hagkerfisins, gæti orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna of sterks gengis? Þetta er einmitt sviðsmynd sem fjármálastöðugleikasvið Seðlabankans hefur minnst á eins og við komum að síðar.
Nú ætla ég síðastur manna að bera á móti því sem aðalhagfræðingur Seðlabankans minntist á í þessu viðtali að eðlilegt væri að gengi krónunnar styrktist í kjölfar mikils vaxtar á útflutningi. Þetta er rétt. En það er spurningin hversu mikið og hversu hratt þetta eigi að gerast. Og þar er Seðlabanki Íslands að leika hættulegan leik: í stað þess að kaupa erlendan gjaldeyri þegar hann er hvað ódýrastur er ákveðið að hætta reglulegum kaupum á gjaldeyri því það er ekki talin þörf á því að safna stærri forða. Hvað með þörfina á því að ýta undir langtíma stöðugleika í útflutningsgreinum? Mikil og hröð styrking á gengi gjaldmiðils hefur áhrif á tekjur útflutningsgreina með þó nokkurri töf. Í tilviki ferðaþjónustunnar getur töfin verið upp undir ár. Erum við alveg viss um að það sé í lagi að krónan hreppi titilinn „Mesta Styrkingin„í þeirri keppni heimsins gjaldmiðla á milli?
Ferðamennska er að stórum hluta „mannorðsbisness“. Fái Ísland á sig þann stimpil að þar sé rekinn dýr ferðamannaiðnaður með litlum í gæðum í samanburði við verð er erfitt að hrista þann stimpil af sér (þetta vita forsvarsmenn veitingastaða vel). Þá er undirrituðum ekki kunnugt um sérstaka og nýlega rannsókn frá hendi Seðlabankans um hver áhrifin eru af sterkara gengi krónunnar á tekjur af ferðamönnum og á heildareftirspurn í hagkerfinu öllu. Veldur 1% styrking 1% minni tekjum? 10% minni tekjum? Hver eru áhrifin á heildareftispurnina í hagkerfinu öllu? Er örugglega rétt, líkt og gert er í dag, að treysta á efnahagsmódel af íslenska hagkerfinu sem metið er með efnhagsgögnum frá tíma löngu fyrir upprisu ferðaþjónustunnar á Íslandi? Er ekki rétt að endurskoða efnahagsmódel SÍ með þá staðreynd í huga að eðli íslenska hagkerfisins hefur breyst, punktur sem forsvarsmenn sumra fjármálafyrirtækja á Íslandi hafa réttilega velt upp þegar þeir hafa verið að benda á að vextir á Íslandi ættu að vera lægri?
Í þessu samhengi er gott að hafa það í huga að fjármálastöðugleikasvið Seðlabankans hefur varað við hættunni á því að mikill samdráttur í ferðamennsku á Íslandi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslíf Íslands og fjármálalegan stöðugleika. Að mæta styrkingu krónunnar með kaupum á gjaldeyri, a.m.k. til að hægja á styrkingunni, er eðlileg mótvægisaðgerð til þess að koma í veg fyrir að þessi sviðsmynd eigi sér stað. Svipað og að dýfa tánni ofan í heita pottinn og fara svo hægt og rólega ofan í frekar en að stökkva beint út í hann.
En í staðinn hefur SÍ ákveðið að hætta öllum reglulegum kaupum á gjaldeyri „því við eigum nóg af forða“: það á að stökkva út í heita pottinn. Með þetta í huga má spyrja sig hvort Seðlabankinn sé búinn að líta nægilega vel á heildarstöðuna til að geta ákveðið það með þessari vissu að það sé best að hætta að kaupa gjaldeyri og safna gjaldeyrisforða.
Þá má spyrja sig hvort ekki sé betra að vera útflutningsdrifið hagkerfi – líkt og Þýskaland og Sviss – frekar en hagkerfi sem er drifið áfram af innlendri eftirspurn, líkt og Ísland hefur verið í marga áratugi. Athugið að ein af lykilástæðum þess að hagkerfi Þýskalands og Sviss eru stöðug og vextir þar lágir er einmitt sú staðreynd að þau eru keyrð áfram af erlendri eftirspurn: Sviss hefur ekki verið með neikvæðan jöfnuð á viðskiptum við útlönd síðan 1980. Erum við alveg viss um að við viljum kæfa samkeppnishæfni íslenskra útflutningsgreina, er það besta hagstjórnin til langs tíma litið?
Í Sviss vita menn svarið við þeirri spurningu. Þar í landi eru menn ekki að hugsa um að hægja á gjaldeyriskaupum sínum þótt þeir „eigi nægan forða“: gjaldeyrisforði Svisslendinga er nú ríflega 100% af landsframleiðslu þeirra. Seðlabanki Íslands þyrfti að kaupa um 1.600 milljarða af erlendum gjaldeyri í viðbót til að vera á svipuðu róli. Og athugið að gengi svissneska frankans er, líkt og gengi krónunnar, ákveðið á markaði. En það stöðvar ekki svissneska seðlabankann frá því að kaupa gjaldeyri eins og honum sýnist og hafa þannig áhrif á raungengi svissneska frankans til skamms og langs tíma (aðalhagfræðingur SÍ trúir því að SÍ geti ekki haft áhrif á raungengi íslensku krónunnar til langs tíma, ég er honum innilega ósammála). Og hafið það í huga að verðbólga í Sviss hefur ekki haggast þótt þarlendur seðlabanki hafi, á 8 árum, keypt gjaldeyri að jafnvirði heillrar landsframleiðslu. Að óttast óðaverðbólgu vegna aukins grunnfjár í íslenska hagkerfinu í kjölfar kaupa Seðlabankans á gjaldeyri er ástæðulaust: aukið grunnfé leiðir ekki til aukins lánsfjár frá bankastofnunum eins og hin alranga kenning um peningamargfaldarann heldur fram. Nýlega staðfesti þýski seðlabankinn það.
Mynd 1: Svisslendingar hika ekki við að kaupa gjaldeyri sjái þeir ástæðu til þess
Gögn frá Seðlabanka Íslands, Seðlabanka Sviss, Hagstofu Íslands, Hagstofu Sviss.
Viðbrögð annarra landa við fjármálalegu áfalli er líka rétt að hafa í huga. Þegar Asíukreppan rétt fyrir aldamótin síðustu átti sér stað brugðust þessi lönd við með því að byggja upp ríflegan gjaldeyrisforða. Það var m.a. þessum gjaldeyrisforða að þakka að efnahagslíf þessara landa varð ekki fyrir meiri skaða en raun bar vitni þegar kreppan 2008 átti sér stað.
Höfum líka í huga að það er engin hætta á því að Seðlabankinn fari á hausinn þótt hann, vegna breytinga á gengi krónunnar, verði fyrir bókhaldslegum skakkaföllum vegna breytinga á gengi krónunnar. Það ætti því ekki að vera eiginfjárstaða Seðlabankans sem stöðvaði hann í því að halda áfram að kaupa gjaldeyri og safna gjaldeyrisforða láti einhver sér detta það í hug. Hafið í huga í þessu samhengi að margir seðlabankar í heiminum hafa starfað með neikvætt eigið fé svo árum skiptir án þess að það hafi komið niður á efnahagslegum stöðugleika. Má þar nefna seðlabanka Tékklands, Síle, Ísrael og Mexikó. Og ástæðan fyrir neikvæðu eigin fé þeirra? Aukin hagsæld sem leiddi til sterkara gengis gjaldmiðla þessara landa með tilheyrandi bókhaldslegum áföllum fyrir eigið fé seðlabankanna því þeir áttu gjaldeyrisforða. Íslendingar ættu að kannast við þessar aðstæður. Lágt eigið fé Seðlabankans er bara nákvæmlega ekkert vandamál.
Það má því setja stórt spurningamerki við þessa ákvörðun Seðlabankans að hætta reglulegum kaupum á gjaldeyri. Of mikil og of hröð styrking á gengi krónunnar ýtir undir hættuna á verulegum áföllum í útflutningsgreinum sem aftur setur efnahagslíf Íslands í hættu, líkt og Seðlabankinn sjálfur hefur bent á. Það er eðlilegt að raungengi krónunnar sé í framtíðinni hærra en það hefur verið í sögulegu samhengi vegna augljósra breytinga á efnahagslífi þjóðarinnar sem loksins á meira en hún skuldar í útlöndum – eins og aðrar útflutningsþjóðir.
En maður hættir ekki að heyja þótt tíðin sé góð.
(Þessi pistill birtist fyrst á Patreon síðunni minni. Þú getur stutt skrif mín um íslensk efnahagsmál með því að gerast Stuðningsmaður minn.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur