Föstudagur 07.11.2014 - 12:48 - FB ummæli ()

Efnahagslífið á Íslandi: allt í góðu lagi?

Birtist fyrst á ensku á icelandicecon.blogspot.com.

Seðlabankinn lækkaði vexti í vikunni og var bara nokkuð ánægður með hvernig hlutirnir væru að ganga fyrir sig í efnahagslífinu. Seðalbankastjóri sagði m.a.s. að aðrar þjóðir öfunduðu Íslendinga. Einhvern veginn datt mér í hug að oft mætti böl bæta með því að benda á annað verra.

Á yfirborðinu

Það er mikið rétt að á yfirborðinu er Ísland alls ekki að standa sig svo illa. Verðbólga hefur lækkað, atvinnuleysi hefur lækkað og hagvöxtur, eins ófullkominn og villandi og sá mælikvarði er á velferð, hefur aukist. Stýrivextir eru nú „ekki nema“ 5,75%.

Verðbólga (gögn og myndir: Hagstofa Íslands)
Atvinnuleysi
Hagvöxtur

En eins og svo oft áður er ekki nóg að horfa á yfirborðið. Undir hinni rósrauðu mynd sem er dregin upp af því einu að horfa á verðbólgu, atvinnuleysi og hagvexti (hvenær ætlum við annars að hætta að horfa á þennan blessaða hagvöxt, getum ekki einhvern daginn vaxið upp úr þessum ósið að stara á þennan meingallaða mælikvarða á velferð?) þá er mikið ósagt.

Undir yfirborðinu

Fyrst, af hverju hefur verðbólga lækkað?

Verðbólga hefur lækkað vegna þess að gengi krónunnar hefur verið stöðugt. Gengi krónunnar hefur verið stöðugt vegna þess að gjaldeyrishöft eru til staðar. Gengi krónunnar hefur líka verið veikt og verið haldið veiku með gjaldeyriskaupum Seðlabankans, sem er raunar mjög nauðsynleg aðgerð og ef eitthvað væri þá mætti Seðlabankinn gera meira af henni. Á sama tíma hafa nafnlaunahækkanir verið takmarkaðar.

Saman leiðir stöðugt gengi krónunnar og hóflegar launahækkanir til þess að kostnaður framleiðslu innan hagkerfisins er stöðugur og hefur lítið hækkað. Það leiðir til lítils verðlagsþrýsting á framleiðsluvörum, þ.e. neysluvörum (verðbólga á Íslandi, eins og víðast annars staðar, er mæld með verðlagsbreytingum neysluvara). En það er önnur  ástæða fyrir því hvers vegna verðbólga er lág: lítil innlend eftirspurn (sem er vegna þess að fólk hefur ekki jafn mikið af peningum milli handanna og það gerði).

Liðnir eru þeir dagar þegar hagvöxtur á Íslandi var dreginn áfram af innlendri eftirspurn og neyslu. Í lok 10. áratugarins og á árunum fyrir 2008 var vöxtur í einkaneyslu upp undir tveggjastafa prósentutala á ári. Nú er vöxturinn varla helmingurinn af því. Einkaneysla hefur líka dregist saman. Nú er hagvöxturinn dreginn áfram af túristanum.

Einkaneysla á Íslandi, vöxtur hennar (rauð lína) og magn

Þessi samdráttur í vexti einkaneyslu er fullkomlega eðlilegur. Bankakerfið er ekki að pumpa út jafn mikið af lánum og áður (vegna þess að bankarnir eru varfærnari en áður) og vöxtur launa hefur verið svo takmarkaður að það er fyrst núna sem við erum komin aftur upp í raunlaunin eins og þau voru fyrir Hrun.

Á meðan er grundvöllur langtímavelferðar – fjárfesting í framleiðslufjármagni á borð við vegi, húsnæði, verksmiðjur, tæki og tól – afar veikur svo ekki sé sterkara að orði komist. Fjárfesting í framleiðslufjármagni þyrfti að vera líklega um þriðjungi hærri en hún er til að teljast eðlileg.

Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu

Reyndar er magn fjárfestingar svo lágt að „magn“ framleiðslufjármagns er byrjað að láta á sjá. Þetta þýðir m.ö.o. að fjárfesting í hagkerfinu er ekki að ná að halda í við „ryðmyndun“ í framleiðslufjármagni Íslands: tímans tönn bítur stanslaust á vegum, húsnæði og verksmiðjum og það þarf að halda þeim við. Það er ekki að gerast m.v. þessar tölur: Ísland er að „ryðga“.

Vísitala framleiðslufjármagns í hagkerfi Íslands (2005=100)

Svo má bæta við atriðum eins og verkfalli lækna og mótmælum 4.500-6.000 einstaklinga fyrir framan Alþingishúsið. Eitthvað er ekki eins og það á að vera, þótt hagvöxtur, atvinnuleysi og verðbólga séu öll að þróast í rétta átt.

Í stuttu máli 

Ég hef sagt eftirfarandi áður og sé enga ástæðu til að breyta þessari skoðun minni.

Ytri hluti hagkerfisins, ferðaþjónusta sérstaklega, hefur verið lyftistöngin á bakvið hagvöxt síðastliðin misseri. Hóteluppbygging er t.d. ein skýring þess að fjárfesting er þó það sem hún er. Þessi uppbygging og vöxtur er bein afleiðing þess að krónan féll í verði og hefur gert Seðlabankanum það kleyft að byggja upp þó það sem hann hefur byggt upp af gjaldeyrisforða. Á meðan hefur stöðugt gengi krónunnar, afleiðing haftanna, og hógværar launahækkanir verið grundvöllur lægri verðbólgu. Eftirspurn í gegnum ytri hluta hagkerfisins hefur svo borið uppi heildareftirspurn þannig að atvinnuleysi hefur þó lækkað um það sem það hefur lækkað. Þetta er yfirborðið.

Á meðan hefur fjárfesting verið eins lág og hún hefur verið vegna þess að óvissa um áhrif afnáms gjaldeyrishafta er of mikil. Enginn veit hvenær eða hvernig gjaldeyrishöft hverfa, því er bara lofað að einhvern veginn einn daginn muni það gerast.

Þetta veldur gríðarlegri óvissu: enginn heilvita fjárfestir fer í miklar fjárfestingar í framleiðslufjármagni ef hann veit ekki hvernig og hvenær höftunum verður lyft. Ástæðan er að þegar/ef höftunum verður lyft gæti það, ef það er ekki gert „rétt“, orðið eins og að kasta stórum steini í grunnt vatn: það gusast allt út um allt. Gengi krónunnar, vaxtastig, innflæði tekna og útflæði gjalda fyrir hinn almenna fjárfesti eru aðeins nokkur af þeim atriðum sem mjög erfitt og jafnvel ómögulegt er að spá fyrir um þegar því er aðeins lofað að höftin muni hverfa „einn góðan veðurdag“.

Þetta gerir áætlanagerð sem er nauðsynlegur grundvöllur fjárfestingar ómögulega. Og þar sem áætlanagerðin er ómöguleg hættir fjárfestirinn við og enginn fjárfesting á sér stað. Það leiðir líka til þess að engin atvinnumyndun á sér stað heldur. Og Ísland heldur áfram að ryðga.

(Og ekki láta ykkur detta það í hug að „rífa plásturinn af“ eins og Samtök Atvinnulífsins hafa stungið upp á þegar kemur að afnámi gjaldeyrishafta. Í júlí bar ég það saman við að „sprengja stíflu“ og drekkja öllu því sem fyrir neðan stífluna er. Svo gleymið því!)

Að tala um langtíma efnahagsbata á Íslandi er skáldskapur meðan áætlanir eru um að afnema höftin „einhvern veginn einn góðan veðurdag“. En gjaldeyrishöftin eru nákvæmlega ástæða þess að efnahagslífið er þó það sem það er. Að baki haftanna getur fólk áætlað það með sæmilegri vissu hvert gengi krónunnar verður í nánustu framtíð; að baki haftanna þarf ekki að horfast í augu við hver sannleikurinn er um hversu mikið af fjármagni myndi gusast út úr landinu um leið og þeim yrði lyft (með tilheyrandi óvissu um gengi krónunnar, vexti, verðbólgu, launakröfur, o.s.frv.); og að baki haftanna geta pólitíkusar talað um eitthvað annað því það er jú eftir allt „útlit fyrir hagvöxt í skammtímakortunum“. Að lyfta höftunum – einn, tveir og þrír – væri hins vegar á sama tíma efnahagslegt sjálfsmorð.

Gjaldeyrishöftin, eða réttara sagt óljós loforð stjórnmálamanna um að þeim verði aflétt „einhvern veginn einn góðan veðurdag“, eru ástæða þess að fjárfesting, grundvöllur langtíma velferðar á Íslandi, er eins lítil og hún er. En það er gjaldeyrishöftunum að þakka, á sama tíma, að gengi krónunnar er stöðugt og verðbólga lág. Eða eins og minn fyrrum kennari og yfirmaður orðaði það: „Þetta hangir allt saman á höftunum.“

Nú ætla ég að vera hispurslaus. Þar sem það eru óljós loforð stjórnmálamanna um afnám hafta „einhvern veginn einn góðan veðurdag“ sem halda aftur af fjárfestingu í hagkerfinu, vegna þeirrar gríðarlegu óvissu sem slík óljós loforð leiða af sér, er þá ekki einfaldlega betra að lýsa því yfir að höftin verða til staðar til frambúðar?

Ímyndið ykkur hvað myndi gerast. Hinn almenni fjárfestir sem vill fjárfesta í tækjabúnaði til þess að auka framleiðslugetu sína gæti þá loksins gert sæmilega kostnaðar- og tekjuáætlun af fjárfestingunni. Komi slík áætlangerð út í plús mun fjárfestirinn fjárfesta og þar með skapa bæði atvinnu og aukna framleiðslugetu innan hagkerfisins. Á sama tíma er gerð ný „Þjóðarsátt“ um hóflegar launahækkanir, lækkun vaxta og fjárfestingu í opinberu fjármagni. Gjaldeyrishöftin sjá til þess að gengi krónunnar og verðbólga, samhliða hóflegum launahækkunum, verði stöðug. Atvinna og atvinnutekjur skapast í gegnum fjárfestingu í bæði opinbera og einkageiranum. Stuðla ætti sérstaklega að fjárfestingu sem leiddi af sér aukinn útflutning á vörum og þjónustu.

Annaðhvort þessi sviðsmynd eða  áframhaldandi hálfkák um afnám hafta „einhvern veginn einn góðan veðurdag“.

Nú, eða þá að fara skiptigengisleiðina og með því þurrka upp mest allt vatnið (fjármagnið) sem stíflan (gjaldeyrishöftin) sér til að æði ekki niður fjallshlíðina og drekki þorpinu (hagkerfi Íslands) fyrir neðan hana. Þá mætti sprengja stífluna í loft upp án mikilla vandkvæða. En þótt það sé efnahagslega gáfulegast getum við gleymt því að ráðandi pólitísku öfl vilji fara þá leið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur