Miðvikudagur 26.3.2014 - 09:56 - FB ummæli ()

Byr í seglum Dags

Ég er óflokksbundinn, styð góð mál og gott fólk óháð stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum.

Ég fagna því að Dagur B. Eggertsson skuli nú vera á góðri siglingu fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík í vor.

Flokkur Dags er nú með mest fylgi í borginni og um helmingur borgarbúa segir í könnunum að þau vilji helst fá Dag sem nýjan borgarstjóra.

Ég hef fylgst með Degi um árabil og kann vel að meta störf hans. Dagur er vandaður maður og vinnusamur, úrræðagóður með afbrigðum og mannasættir hinn mesti.

Það hefur verið gaman að fylgjast með verkum Dags á síðasta kjörtímabili. Flest hefur hann unnið i kyrrþey, án bægslagangs og sjálfhóls. Hann hefur tengst mörgum góðum verkum sem hafa verið að koma upp á yfirborðið, skref fyrir skref.

Það er ánægjulegt að menn skuli uppskera vel eftir gott starf. Það á við um Dag B. Eggertsson og lið hans.

“Kóngur vill sigla, en byr ræður för”, segir málshátturinn.

Það er auðvitað byrinn frá borgarbúum sem ræður valinu í Reykjavík í vor.

Þetta gæti farið vel!

 

Síðasti pistill: Klassalaus ferðaþjónusta og herferð rukkaranna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.3.2014 - 10:52 - FB ummæli ()

Klassalaus ferðaþjónusta og herferð rukkaranna

Ef fram fer sem horfir með gjaldtöku við helstu ferðamannastaði landsins þá er í reynd verið að heimila einkavæðingu á skattheimtuvaldi, til landeigenda við þessa staði.

Það er svolítið eins og var á miðöldum, þegar landeigendur gátu stöðvað ferðalanga um land sitt, t.d. við hlið og brýr, og rukkað þá eftir geðþótta. Þetta þótti hið versta fyrirkomulag og hamlaði eðlilegum samgöngum og viðskiptum.

Hitt sem fylgir því að slefandi rukkarar mæti ferðafólki við helstu náttúruperlur landsins – og bara hvar sem er – er hversu ókræsileg ásýnd þetta verður á íslenskri ferðaþjónustu.

Þetta verður “sjoppulegt”, eins og Egill Helgason segir. Bretar myndu segja “tacky” (smekklaust og klént)!

Og það sem meira er, þessu fylgir engin trygging fyrir því að landeigendur bæti aðstöðu ferðafólks almennilega á þessum stöðum. Græðgin gæti gert að verkum að þeir stingi gróðanum einfaldlega í vasann og jafnvel flytji hann úr landi þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt.

Samt er það samfélagið sem leggur vegina til þessara staða og viðheldur þeim. Vegina sem færa þeim ferðafólkið. Kanski ætti samfélagið að rukka þessa landeigendur sérstaklega fyrir það – rúturnar fara afar illa með vegina!

Það er enginn klassi á því að selja ferðafólki Ísland með þessum hætti, land þar sem helsta aðdráttaraflið er náttúran sjálf.

Við þurfum minna sýnilega gjaldtöku til að greiða fyrir nauðsynlegar úrbætur á ferðamannastöðum.

Einfaldast hefði verið að hækka virðisaukaskattinn á hótelgistingu (sem er óvenju lágur) og setja það sem þannig aflast beint í umbætur. Það hefði einkum lagst á erlenda ferðamenn. Það er líka ódýrast í framkvæmd (engin þörf fyrir her af rukkurum og eftirlitsmönnum).

Ríkisstjórnin vill það hins vegar ekki, vegna þess að vinstri stjórnin lagði það upphaflega til!

Að því slepptu er hugmynd Ragnheiðar Elínar Árnadóttur ráðherra ferðamála um náttúrupassa miklu betri hugmynd en sjálftaka landeigenda.

Nýjustu hugmyndir um útfærslu gjaldtökunnar með náttúrupassa eru líka mildari í garð Íslendinga en rukkun á staðnum.

Vonandi ná stjórnvöld tökum á málinu. Nauðsynlegt er að stöðva þessa stjórnlausu sjálftökuleið frjálshyggjunnar sem er í uppsiglingu.

 

Síðasti pistill: OECD segir: Brauðmylsnan brást í USA

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 22.3.2014 - 09:30 - FB ummæli ()

OECD segir: Brauðmylsnan brást í USA

Það fjarar enn undan nýfrjálshyggjunni.

Páfinn í Róm hefur talað kröftuglega gegn henni og fordæmt hvernig hún leiðir til aukins ójafnaðar.

Hið íhaldssama og hægri sinnaða tímarit Economist hefur sömuleiðis varað við auknum ójöfnuði og er byrjað að tala með jákvæðum hætti um velferðarríkið og jöfnunarpólitík norrænu þjóðanna.

Sífellt fleiri átta sig á því að aukin nýfrjálshyggjuáhrif á fjármálamörkuðum leiddu til óhóflegrar skuldasöfnunar og fjármálakreppunnar. Talsmenn reglunar og opinbers aðhalds eru að ná vopnum sínum á ný.

Nú nýlega bættist OECD í hópinn og segja þeir í nýrri skýrslu, með skýrum og afdráttarlausum hætti, að braumylsnukenning nýfrjálshyggjunnar hafi brugðist í Bandaríkjunum (sjá hér, bls. 5). Auknar tekjur hinna ofurríku hafa ekki skilað neinu til milli og lægri tekjuhópa. Þær hafa bara aukið ójöfnuðinn og skaðað bandaríska samfélagið.

Ég hef ítrekað bent á hina ýmsu galla og hættur sem fylgja óheftum kapítalisma nýfrjálshyggjunnar. Að ógleymdum fáránleikanum í vúdú-hagfræði hólmsteinanna.

Fáar þjóðir voru jafn illa leiknar af nýfrjálshyggjunni og Ísland.

Það skýtur því skökku við að íslenskri frjálshyggjumenn hafa ekki sýnt neinn vilja til að iðrast þeirra mistaka sem gerð voru í þeirra nafni. Þeir hafa heldur ekki lært neitt og prédika enn sömu þulurnar og fram að hruni.

Kanski íslenskir frjálshyggjumenn verði síðustu móhíkanar nýfrjálshyggjunnar á Vesturlöndum, síðustu fulltrúar misheppnaðrar hugmyndafræði, sem fyrst og fremt réttlætti gegndarlaus fríðindi og forréttindi til yfirstéttarinnar.

 

Síðasti pistill: Húsnæðiskostnaður fátækra í Evrópu og á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 20.3.2014 - 23:49 - FB ummæli ()

Húsnæðiskostnaður fátækra á Íslandi

Í tillögum ráðgjafarfyrirtækja um skipan húsnæðismála, sem birtar voru í gær, fer frekar lítið fyrir útfærslu hugmynda um félagslegt húsnæðiskerfi.

Megin áhersla tillagnanna er á fyrirkomulag fjármögnunar húsnæðislána, með sveigjanleika á uppgreiðslumöguleikum, án þess að skapa vanda fyrir lánveitanda. Það er ágætt.

Raunar hefur Íbúðalánasjóður sjálfur verið að vinna að upptöku slíks fyrirkomulags á fjármögnun undanfarið, til að komast út úr þeim ógöngum sem hann var leiddur í árið 2004.

Þá var farið inn á leið fjármögnunar sem bauð ekki upp á möguleika sjóðsins á að greiða upp sín eigin lán þegar viðskiptavinir greiddu upp lán frá sjóðnum. Það er meginrót þess vanda sem Íbúðalánasjóður glímir við í dag, auk mikils fjölda fullnustueigna, sem komu til vegna hrunsins.

Megin markmið félagslegra hluta húsnæðiskerfa er að skapa lágtekjufólki möguleika á að fá þak yfir höfuðið, í leigu eða eignarhúsnæði. Mismunandi leiðir til niðurgreiðslu húsnæðiskostnaðar eru farnar.

Á myndinni hér að neðan má sjá hversu mikill húsnæðiskostnaður fátækra er, sem % af ráðstöfunartekjum þeirra. Fátækir teljast þeir sem eru undir fátæktarmörkum ESB (Heimild: Eurostat).

Húsnæðiskostnaður fátækra í Evrópu 2011

Grikkir og Danir eru með mestar hlutfallslegar byrðar af húsnæðiskostnaði meðal fátæks fólks, en svo koma Íslendingar. Þeir sem eru undir fátæktarmörkum á Íslandi vörðu að jafnaði rúmlega helmingi ráðstöfunartekna sinna í húsnæði á árinu 2011 (52,5%), en samsvarandi tala í Danmörku var 59% og um 66% í hinu kreppuhrjáða Grikklandi.

Staðan hefur versnað á Íslandi frá 2011 vegna hækkunar húsaleigu, en margir þeirra tekjulægstu búa í leiguhúsnæði. Það er auðvitað skelfilegt að þurfa að eyða um eða yfir 60% af mjög lágum ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað. Ástandið er því afleitt.

Myndin bendir til þess, að ef við viljum gera betur við fátæka í húsnæðismálum, með umbótum á húsnæðiskerfinu, þá höfum við frekar lítið til Dana að sækja varðandi þann þátt – þó annað í kerfi þeirra gæti vel hentað.

Vænlegra virðist að fylgja fordæmum Svía og Norðmanna og enn vænlegra virðist að taka Finna til fyrirmyndar, hvað þennan þátt varðar. Annað getur gilt um aðra þætti húsnæðiskerfanna.

Myndin gefur nokkra vísbendingu um árangur húsnæðiskerfa við að halda niðri húsnæðiskostnaði fátækra. Fleiri þættir koma þó við sögu. Þannig er t.d. algengt að ungt fólk með lágar tekjur, ekki síst ungt atvinnulaust fólk, búi fram yfir þrítugt á heimili foreldra sinna á Ítalíu og í öðrum löndum Suður og Austur Evrópu. Það heldur meðaltali húsnæðiskostnaðar fátækra oft lágu í þeim löndum.

Síðan eru gæði húsnæðis fátækra einnig mismunandi milli landa, ekki síst þegar saman eru borin lönd í Norður og Suður Evrópu, eða Vestur og Austur Evrópu.

En ef borin eru saman þjóðfélög á svipuðu hagsældarstigi og okkar þá má draga ályktanir af myndinni um gæði félagslegra lausna í húsnæðismálum.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur sagt að hún vilji leggja mikla áherslu á félagslega þáttinn í nýju húsnæðiskerfi. Það er hárrétt áhersla hjá henni og afar mikilvægt að vel til takist.

 

Síðasti pistill: Er danskt húsnæðiskerfi gott fyrir okkur?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.3.2014 - 22:35 - FB ummæli ()

Er danskt húsnæðiskerfi gott fyrir okkur?

Ég er svolítið hugsi yfir því að ráðgjafarfyrirtækin KPMG og Analytica séu að leggja til að Ísland taki upp það sem þeir kalla “danska húsnæðiskerfið”. Lýsingin hljómaði reyndar nokkuð undarlega og félagslegi þátturinn í tillögunum virtist vera heldur lítilfjörlegur.

Ég á eftir að skoða tillögurnar betur, en sumt sló mig undarlega í frásögn fréttamanna af þessu.

Burt séð frá því má spyrja, hvers vegna Íslendingar ættu yfir höfuð að vera að leita til Danmerkur að fyrirmynd á þessu sviði?

Það er alls ekki augljóst að þar sé besta kerfið að finna!

Dönsk heimili eru t.d. þau skuldugustu í Evrópu, jafnvel talsvert verr stödd en þau íslensku.

Skuldabyrði vegna húsnæðis var mun þyngri í Danmörku en á Íslandi árið 2010, þegar staðan var hvað verst hér. Íslensk heimili vörðu þá um 17-18% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað en þau dönsku um 28%.

Þetta má sjá á eftirfarandi mynd frá Hagstofu Íslands. Danmörk er neðst á listanum!

Húsnæðisskuldir í Danmörku

Hlutfall heimila sem eru með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað (þ.e. þau sem verja meira en 40% af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað) er tvöfalt hærra í Danmörku en á Íslandi! Um 18% heimila voru í þeirri stöðu í Danmörku árið 2012 en um 9% á Íslandi. Þetta eru heimili í miklum vanda. (Sjá mynd hér að neðan: Heimild: Eurostat).

Íþyngjandi kostn

Skyldu þeir sem mæla með “danska kerfinu” vita af þessum „árangri“ kerfisins?

Af hverju er ekki horft á hin norrænu kerfin, sem eru með mun minni skuldabyrði en það danska? Hugsanlega er eitthvað gagnlegt við danska kerfið en er ekki ástæða til að leita fanga víðar, ekki síst í ljósi ofangreindra upplýsinga?

 

Síðasti pistill: Ragnar Árnason meinar það sem hann segir

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 17.3.2014 - 17:25 - FB ummæli ()

Ragnar Árnason meinar það sem hann segir

Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, skrifaði nýlega grein í tímarit hagfræðinema (Hjálmar), þar sem hann færir rök fyrir því, að opinberar heilbrigðistryggingar séu samfélaginu skaðlegar (sjá hér, bls. 22-23). Hvorki meira né minna!

Ragnar hefur sýnt það í gegnum tíðina að hann er róttækur í skoðunum, fer gjarnan út á jaðrana. Hann var kommúnisti áður fyrr en síðan kúventi hann og er nú með allra róttækustu frjálshyggjumönnum, náinn samstarfsmaður Hannesar Hólmsteins.

Ragnar telur nú óhefta markaði mikla guðsgjöf og vill beita þeim á sem flest samfélagshlutverk. Að sama skapi leggst hann gegn nær öllu hlutverki og starfi ríkisvalds, ekki síst ef það felur í sér inngrip á verksvið markaðarins.

Boðskapurinn er að allt sé gott við markaðinn, en allt slæmt við ríkið og fulltrúalýðræðið.

Það sem Ragnar talar sérstaklega um í þessari grein er meint skaðsemi niðurgreiðslna hins opinbera á kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Hann gefur sér forsendur um virkni markaðar á heilbrigðissviði (sem augljóslega standast ekki) og reiknar svo út frá þeim forsendum að meðalmaðurinn væri betur settur án niðurgreiðslna hins opinbera.

Þar með telur hann sig hafa sýnt að samfélagið allt skaðist af opinberum heilbrigðistryggingum. Sú fullyrðing stenst ekki, eins og ég sýni hér á eftir.

Dæmi um rangar forsendur Ragnars er þegar hann segir eftirfarandi:

“Eins og jafnan í hagfræðilegri greiningu skulum við gera ráð fyrir markaðshagkerfi. Í slíkum hagkerfum ráðstafa neytendur tekjum sínum með hliðsjón af markaðsverði.”

Ef barn slasast eða veikist spyrja foreldrar þá um “markaðsverð” áður en þau leita læknisaðstoðar eða bráðaþjónustu? Eða þegar fólk fær alvarlegan sjúkdóm? Metur fólk svo hvort það hefur efni á læknisþjónustunni út frá tekjum sínum?

Nei, ekki í opinberum kerfum eins og á Norðurlöndum og víðast í Evrópu. Opinberar heilbrigðistryggingar gera fólki kleift að sækja þá þjónustu sem þarf í bráðum heilsuvanda, óháð slíkum spurningum um afkomu fjölskyldunnar. Það er frábær kostur sem alflestir kunna að meta. Það snýst um að setja heilbrigðismál í forgang.

Raunar er stór hluti „niðurgreiðslna“ í opinberu kerfunum þannig, að fólk greiðir skatta þegar það er fullfrískt á vinnumarkaði en nýtur svo heilbrigðisþjónustu eftir þörfum og getu þegar slys, veikindi eða öldrun ber að höndum. Þá fær fólk þjónustuna að mestu án staðgreiðslu. Þetta eru tryggingar. Flestir eru búnir að greiða fyrir þjónustuna fyrr á ferlinum, með skattgreiðslum sínum. Þetta er svipað og með lífeyrisréttindi. Í slíkum tilvikum eru þetta ekki niðurgreiðslur.

Það eru einkum þeir sem eru tekjulágir alla ævi sem njóta beinnar opinberrar niðurgreiðslu á raunkostnaði. Án þess yrðu þeir og fjölskyldur þeirra af sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu og myndu tapa heilsu eða deyja fyrir aldur fram, þó hægt væri að lækna þá. Tækifæri til að njóta heilbrigðs lífs væru þá meira háð stétt en nú er.

En í algerlega einkareknum kerfum, eins og Ragnar virðist aðhyllast, myndi fólk neyðast til að spyrja sig slíkra spurninga um hvort það hefði efni á læknisþjónustu og lyfjum. Margir yrðu þar af heilbrigðisþjónustu sem allir ganga að vísri og myndu ekki vilja vera án í okkar samfélagi. Lífi þeirra tekjulágu yrði í meiri mæli fórnað.

Þegar Ragnar segir opinberar heilbrigðistryggingar skaðlegar fyrir samfélagið allt þá hugsar hann dæmið eingöngu út frá hagsmunum þeirra tekjuhærri. Hagur þeirra myndi batna í einkareknu kerfi (skattar þeirra gætu lækkað eitthvað), en Ragnar horfir framhjá því að án opinberra trygginga myndi hagur tekjulægri hópanna stórskaðast. Hvernig er þá hægt að fullyrða að hagur alls samfélagsins myndi batna með 100% einkareknum heilbrigðistryggingum, eins og Ragnar gerir?

Ragnar talar því fyrir kerfi sem þjónar hag ríka fólksins en horfir framhjá hag þeirra tekjulægri.

 

Hver er dómur reynslunnar?

Ragnar kemst að niðurstöðu sinni með vafasömum útreikningum, á grundvelli forsendna sem ekki standast í okkar samfélagi. Það var raunar fyrirséð þegar hliðsjón er höfð af róttækri frjálshyggju hans.

Mun vænlegri leið til að svara spurningunni um kosti og galla opinberra heilbrigðistrygginga er sú, að spyrja um reynslu þjóða af slíkum kerfum og af einkareknum heilbrigðistryggingum sérstaklega.

Bandaríkin eru það land sem beitir einkareknum heilbrigðistryggingum í hvað mestum mæli, þó þau nái ekki alla leið í markaðsparadís frjálshyggjumannsins. Um 45% af kostnaði við heilbrigðisþjónustu er greiddur af bandaríska ríkinu en á Norðurlöndum og í Hollandi er hlutur hins opinberra mun stærri, eða oft á bilinu 75-85% af heildarkostnaði.

Hver er reynslan af leiðinni sem Ragnar mælir með, ef við tökum Bandaríkin sem það land sem kemst næst þeirri leið?

Bandaríkin eru með lang dýrasta heilbrigðiskerfið á Vesturlöndum. Það er að auki fjarri því að vera með bestan árangur í veitingu heilbrigðisþjónustu. Því til viðbótar skilur bandaríska kerfið um 15-25% íbúa landsins eftir án sjúkratrygginga eða með ófullnægjandi tryggingar, sem ógnar fjárhag þeirra fjölskyldna þegar alvarleg slys eða veikindi verða.

Aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu er takmarkaðra í Bandaríkjunum en annars staðar á Vesturlöndum, vegna mikils kostnaðar sjúklinga. Lyfjaverð er hærra en annars staðar og einnig kostnaður sjúklinga við algengar aðgerðir. Kerfið er einnig sundurlausara og óhagkvæmara en t.d. á Norðurlöndum, í Bretlandi og  Hollandi, svo dæmi séu tekin. Stjórnunarkostnaður er margfalt meiri í USA en á Norðurlöndum.

Hér má sjá úttekt á kostnaði og árangri Bandaríska kerfisins í samanburði við önnur vestræn heilbrigðiskerfi, sem ofangreindar fullyrðingar mínar eru m.a. byggðar á. Skýrslur OECD, Health at a Glance, segja sömu sögu.

Dómur reynslunnar er sem sagt mjög skýr. Leiðin sem Ragnar mælir með er bæði dýrari, óskilvirkari og skilar lakari árangri en opinberu heilbrigðistryggingarnar á Norðurlöndum og í öðrum vestrænum löndum.

Opinberu tryggingakerfin eru betri á flesta mælikvarða. Þetta er hin hagfræðilega niðurstaða.

Félagslega niðurstaðan er ekki síður skýr.

Opinberu tryggingakerfin skila geðþekkara og heilbrigðara samfélagi þar sem tækifæri til að njóta heilbrigðs lífs eru öllum betur tryggð og heilsufarslegar afleiðingar fátæktar eru þar mun minni. Sjá nánar um það hér.

Það er mikið umhugsunarefni að jafn róttækir menn og Ragnar Árnason skuli vera í jafn miklum metum í Sjálfstæðisflokknum og raun ber vitni. Ragnar er formaður nýskipaðs ráðgjafaráðs fjármálaráðherra og hefur verið fulltrúi flokksins í bankaráði Seðlabankans.

Ragnar skapaði sér álit í Sjálfstæðisflokknum með því að gerast harður talsmaður kvótakerfisins og hagsmuna útvegsmanna. Þar var einungis hugsað um hag fámennrar yfirstéttar en ekki um almannahag. Ragnar hefur lagst gegn sanngjörnum auðlindagjöldum af kvótunum til þjóðarinnar.

Það er greinilega vel metið í Sjálfstæðisflokknum að tala fyrir hagsmunum þeirra ríku, jafnvel þó það sé á kostnað milli og lægri tekjuhópa, eins og er um þessar hugmyndir Ragnars um heilbrigðistryggingar.

Það er mikilvægt að fólk átti sig á því hversu langt sumir frjálshyggjumenn á Íslandi eru tilbúnir að ganga.

Ragnar Árnason meinar það sem hann segir. Í því liggur mikil hætta fyrir almenning.

 

Síðasti pistill: Peningavæðing náttúrunnar

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.3.2014 - 17:31 - FB ummæli ()

Peningavæðing náttúrunnar

Sjálfstæðismenn hefur lengi dreymt um að einkavinavæða og peningavæða sem flesta hluti á Íslandi. Leyfa efnuðum einkaaðilum að græða sem mest á landinu og miðunum. Náttúran og hálendið eru þar ekki undanskilin.

Í leiðarvísinum sem leiddi til hrunsins, þ.e. bókinni “Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi”, sagði Hannes Hólmsteinn Gissurarson árið 2001 að náttúran væri “fé-án-hirðis”. Það átti raunar við um allt sem ekki var í höndum einstakra auðmanna eða gróðabraskara.

Hálendið, orkulindirnar, sparisjóðirnir og lífeyrissjóðirnir voru til dæmis fé-án-hirðis, samkvæmt útleggingu Hannesar Hólmsteins í þessu ógæfulega kveri frjálshyggjunnar á Íslandi.

Markmiðið var að koma þessu öllu í hendur einkaaðila sem fyrst og leyfa þeim að græða sem mest á slíkum eignum. Eins og gerðist með kvótakerfinu í sjávarútvegi. Það fól í sér einkavæðingu og fjármálavæðingu sjávarauðlindarinnar sem áður var sameign þjóðarinnar.

Um leið og Sjálfstæðismenn voru komnir aftur í stjórn fóru landeigendur að hamra á mikilvægi þess að hefja gjaldtöku af ferðamönnum, innlendum sem erlendum. Mikil fjölgun ferðamanna gerir það gróðavænlegt.

Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra tók vel í málið og boltinn er nú farinn að rúlla (raunar hraðar en ráðherrann ætlaði). Nú vilja t.d. meðeigendur ríkisins á Geysissvæðinu rukka sjálfir og setja féð í vasann, áður en lög um slíkt taka gildi og þrátt fyrir andstöðu ríkisins (sem á hverinn!).

Það er sem sagt stutt í að ekki verði lengur hægt að ferðast um landið, með börn og buru, án þess að greiða gjald við áhugaverðustu staðina, eða sýna fyrirframgreiddan aðgöngumiða („náttúrupassa“).

Með slíku fyrirkomulagi verður náttúruskoðun á Íslandi peningavædd. Það verður mikil breyting.

Ísland verður ekki lengur “almenningur”, þar sem Íslendingar fara frjálsir um til að njóta náttúrunnar.

Skiltin munu spretta upp eins og gorkúlur: “Geysis-svæðið er í einkaeigu. Öll umferð bönnuð, nema gegn greiðslu”! „Dettifoss er í einkaeigu…“! „Kerið er í einkaeigu…“ o.s.frv…

Þá loks mun Íslendingum skiljast að það er ekki almenningur sem á landið – heldur “landeigendur”.

Ísland verður þar með ekki lengur fé-án-hirðis. Frjálshyggjumenn munu kalla þetta “framfarir” og aukið “frelsi landeigenda”. Frelsi almennings minnkar að sama skapi.

Það er spurning hvort þetta auki hamingju þjóðarinnar?

Það er líka spurning hvort þetta geri Ísland minna aðlaðandi í augum erlendra ferðamanna?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 15.3.2014 - 11:14 - FB ummæli ()

Barnaleg pólitík

Styrmir Gunnarsson hefur lengi barið Evrópu-lóminn á Evrópuvaktinni og gerir enn. Málflutningur þeirra vaktstjóra gegn Evrópuríkjunum er oft heiftarlegur, barnalegur og jafnvel forheimskandi.

Styrmir og félagar hans í hirð Davíðs hafa ekki sætt sig við að Bandaríkjamenn snéru baki við okkur að loknu kalda stríðinu.

Í kjölfar einangrunar Íslands í makríldeilunni telur Styrmir tímabært að snúa enn frekar baki við Evrópu og endurvekja tengslin við Bandaríkin. Hann sér litla von í tengslum forseta okkar við Rússland, Kína og Indland, eins og fleiri.

Vandinn er sá, að Bandaríkjamenn hafa lítinn áhuga á okkur, eins og þeir hafa ítrekað sýnt. Við höfum auk þess frekar lítið þangað að sækja. Okkar mikilvægustu markaðir eru í Evrópu, sem og mikilvæg tengsl á sviði menningar og mennta.

Nánustu frænd- og vinaþjóðir okkar eru á hinum Norðurlöndunum og í Evrópu. Hörð sérhagsmunagæsla Norðmanna, sem ekki er ný, breytir engu um það. Raunar eru þeir mjög líkir okkur í þeim efnum.

Einangrun okkar í makríldeilunni virðist ekki síst vera tilkomin vegna harðrar hagsmunagæslu okkar manna og jafnvel klaufaskapar.

Það er því bæði heimskulegt og óvarlegt að gera lítið úr mikilvægi Evróputengsla fyrir okkur, hvað sem manni finnst annars um þróun Evrópusambandsins (um það hef ég mínar efasemdir).

Í því samhengi er barnalegt að tala eins og Styrmir gerir í pistli á Evrópuvaktinni í dag. Hér eru þrjú dæmi:

“Skrifstofuveldið í Brussel notar ýmsar aðferðir til að láta vanþóknun sína í ljós. Nú hafa þeir ákveðið að ofveiða makríl til að hefna harma á Íslendingum!”

“Nú vitum við hvern hug Evrópusambandið og Norðmenn bera til okkur og þótt það sé óskemmtilegt er betra að vita en vita ekki.”

“Svona mundi Evrópusambandið umgangast fiskistofna við Ísland ef það næði yfirráðum yfir þeim og sæi tækifæri til að nota þá gegn einhverjum, sem það teldi að hefði gert á sinn hlut. Jafnvel gegn okkur sjálfum.”

Ég spyr: Hefur Evrópusambandið einhverja “harma að hefna á Íslendingum”? Það held ég ekki. Raunar er þetta hálf hlægileg fullyrðing.

Trúir Styrmir því virkilega að Evrópusambandið myndi ræna fiski af Íslendingum og gefa öðrum til að klekkja á okkur, ef það hefði möguleika á slíku? Og hvernig ætti slíkur möguleiki að verða til? Myndum við skrifa upp á aðildarsamning sem gerði slíkt mögulegt? Þekkir Styrmir mörg dæmi um slíkt framferði Evrópusambandsins?

Evrópusambandið tók umsókn okkar um aðild vinsamlega og sýnir okkur yfirleitt tillitsemi og umburðarlyndi, jafnvel þó við eigum það ekki alltaf skilið.

En stjórnendum ESB er alveg saman hvort við komum alla leið inn í sambandið eða ekki. Alveg sama.

Það er ekki holl ráðgjöf að tala fyrir utanríkispólitík á grundvelli forheimskunar og gífuryrða um okkar mikilvægustu vina- og viðskiptaþjóðir.

 

Síðasti pistill: Dagsmenn í sókn í Reykjavík

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.3.2014 - 10:49 - FB ummæli ()

Dagsmenn í sókn í Reykjavík

könnun á fylgi borgarstjórnarflokka í Reykjavík sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn tapar miklu, Björt framtíð tapar lítillega, en Samfylkingin og Píratar bæta við sig. Framsókn og smáflokkar fá engan fulltrúa skv. könnuninni.

Um helmingur borgarbúa segir ítrekað í könnunum að þau vilji helst fá Dag B. Eggertsson sem næsta borgarstjóra.

Það er eðlilegt, því Dagur hefur staðið sig vel. Hann vinnur að góðum málum í kyrrþey og kemur svo með þau fullmótuð fyrir framkvæmdastig.

Dagur er einnig mjög geðþekkur maður.

Það er athyglisvert að þó Dagur sé með um 50% fylgi þá fær Samfylkingin í Reykjavík einungis um helming þess. Þar gætir veikrar stöðu Samfylkingarinnar á landsvísu, eftir slæma kosningabaráttu og slæmt tap í síðustu Alþingiskosningum.

Eina trygga leiðin til að fá Dag sem næsta borgarstjóra er hins vegar sú, að fleiri kjósi Samfylkinguna í Reykjavík. Það virðist alveg óhætt, enda er þar gott lið með Degi á listanum.

Kanski kjósendur BF og Pírata ættu að hugleiða að kjósa Dag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 13.3.2014 - 11:21 - FB ummæli ()

Ísland úti að aka?

Í síðustu viku var kynntur eins konar sigur fyrir Ísland í makríldeilunni á fundi í Edinborg. Sagt var að samkomulag hefði tekist milli Íslands og ESB um niðurstöðu, en Norðmenn væru eins og snúið roð og skemmdu fyrir samkomulagi.

Þetta hljómaði ágætlega.

Nú er allt annað uppi.

RÚV hefur í dag eftir norska sjávarútvegsráðherranum:

“Ráðherrann segir að á fundinum í Edinborg hafi Norðmönnum orðið ljóst að fullreynt væri að ná samningum með þátttöku Íslands. Færeyingar og ESB hefðu líka verið þeirrar skoðunar.”

Þetta er þvert á það sem sagt var hér heima!

Og í gær er svo allt í einu komið samkomulag milli ESB, Noregs og Færeyinga – og íslensku aðilarnir koma af fjöllum. Okkur býðst þó að ganga inn í samkomulag þessara aðila og taka því sem þau komu sér saman um.

Við erum sem sagt utan gátta og ekki fullgildir aðilar samkomulagsins.

Það er kanski eðlilegt hlutskipti þeirra sem vilja vera á eigin vegum og hnýta stöðugt í viðskiptavini sína og samstarfsríki. Vilja fá allt fyrir ekkert.

Viðbrögð íslenska ráðherrans eru svo þau, að ESB hafi “gengið á bak orða sinna”. Það fær þó varla staðist.

Þetta hljómar ekki vel og maður efast um að hagsmuna Íslands sé nægilega vel gætt, til lengri tíma.

Það er eins og okkar menn hafi verið úti að aka á meðan hinir voru að vinna að lausn málsins.

 

Viðbót:

Norðmenn virðast hafa fengið auknar heimildir til aðgangs að fiskveiðilögsögu ESB, í tengslum við undirritun samkomulagsins um makríl í London í gær. Sjá um það hér.

 

Síðasti pistill:  Hagnaður útvegsins – tap almennings

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 12.3.2014 - 11:41 - FB ummæli ()

Hagnaður útvegsins – tap almennings

Útvegsmenn segja nú að gengið sé alltof hátt skráð og vilja gengisfellingu. Þá muni hagnaður þeirra aukast.

Það er alveg rétt. Gengisfelling eykur hagnað útvegsins. Hún rýrir hins vegar kaupmátt almennings og hækkar skuldir heimilanna. Hagnaður útvegsins af gengisfellingu er tap almennings.

Fall gengisins í hruninu var gríðarlegt og kjaraskerðing heimilanna sömuleiðis. Hagnaður sjávarútvegsins tók þá stórt stökk uppávið og hefur verið í methæðum síðan þá.

Krepputíminn hefur verið einstök gósentíð fyrir sjávarútveg.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir meðalhagnað á ári á tímabilinu frá 1993 til 2007 og svo frá og með hruninu til 2012 (tölurnar eru frá Hagstofunni).

Hagnaður sjávarútvegs til 2012

Hagnaður á fjórtán ára tímabilinu 1993-2007 var rúm 6% á ári að meðaltali, sem er alveg ágætt. Frá hruninu hefur hagnaðurinn hins vegar verið 21% í sjávarútveginu öllum, en fór upp í rúm 30% í loðnuveiðum og bræðslu, sem var arðsamasta greinin.

Hagnaður frá 2008 hefur sem sagt verið hátt í fjórum sinnum meiri en hann var að jafnaði á einum og hálfum áratug fyrir hrun.

Þetta er afkoma sem er raunar fádæma góð í atvinnulífinu, hvort sem er hér á landi eða erlendis. Þó veiðigjaldið leggist á þetta þá stendur eftir gríðarlega góð afkoma í greininni, enda tekur veiðigjaldið bara hóflegan hluta af hagnaðinum.

Og nú vilja útvegsmenn meiri gengisfellingu og meiri hagnað – sem myndi rýra afkomu heimilanna á ný.

Þeir sem mest hafar fá aldrei nóg!

Af hverju heyrast ekki raddir sem verja hag heimilanna gegn svona tilefnislausu tali útvegsmanna?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.3.2014 - 00:44 - FB ummæli ()

Nýfrjálshyggjan – hugmyndafræði hákarlanna

Sífellt fleirum er að verða ljóst að hinn aukni ójöfnuður í Bandaríkjunum og víðar, sem ágerst hefur eftir um 1980, tengist breyttri pólitík. Það sem mestu veldur eru aukin áhrif nýfrjálshyggjunnar.

Í raun varð grundvallarbreyting á ríkjandi þjóðmálaviðhorfum á Vesturlöndum með útbreiðslu nýfrjálshyggjunnar upp úr 1980 (á ensku: neoliberalism). Margrét Thatcher og Ronald Reagan voru áhrifamestu kyndilberarnir.

Í stað áherslu stjórnmála blandaða hagkefisins, að hagvöxturinn nýttist öllum þegnum jafnt til hagsbóta, hefur komið sú áhersla nýfrjálshyggjunnar að veita skyldi atvinnurekendum og fjárfestum sérstök fríðindi, umfram alla aðra. Nýfrjálshyggjan er fyrst og fremst hugmyndafræði hákarlanna.

Mest áberandi stefnumál nýfrjálshyggjunnar hafa verið lækkanir skatta á hærri tekjuhópa og stóreignafólk, frelsi undan ríkisafskiptum og eftirliti, þ.e. afskiptaleysisstefna – auk annarra fríðinda til fjárfesta og atvinnurekenda.

Til að mæta skattalækkunum þarf svo að skera niður útgjöld til velferðarmála, sem rýrir kjör lægri og milli tekjuhópa.

Nýfrjálshyggjumenn vilja líka grafa undan verkalýðsfélögum. Það eykur frelsi og hagnað atvinnurekenda og fjárfesta en rýrir kjör og réttindi almenns launafólks (sjá hér).

Svo var boðað að slíkt auðmannadekur myndi auka hagvöxt og brauðmolar hrynja af borðum hástéttarinnar niður til almennings. Þannig myndi nýfrjálshyggjan þjóna hag allra, sögðu talsmenn ójafnaðarins.

Þetta hefur því miður reynst blekking eða tálsýn. Hinn aukni ójöfnuður eftir 1980 sýnir það, svart á hvítu. Yfirstéttin, ríkustu 1 til 5 prósent þjóðanna, hefur tekið til sín sífellt stærri hluta þjóðartekna.

Millistéttin og lægri tekjuhópar drógust hins vegar afturúr.

Það þýðir að hagvöxturinn rann á þessum tíma að stærstum hluta til yfirstéttarinnar einnar, ekki síst í Bandaríkjunum.

Hvers vegna gerðist þetta?

Pólitík nýfrjálshyggjunnar er að stórum hluta ábyrg (sjá t.d. hér og hér). Hin auknu fríðindi til hátekju- og stóreignafólks skila einungis auknum ójöfnuði. Einnig hið aukna frelsi á fjármálamörkuðum, sem raunar jók ekki aðeins tekjur og eignir yfirstéttarinnar á kostnað almennings, heldur drekkti einnig hagkerfum margra hagsælli þjóðanna í skuldum. Það var einkum yfirstéttin sem stóð í braski með lánsfé, ekki almenningur.

Það leiddi svo til fjármálakreppunnar – sem magnar svo ójöfnuðinn enn frekar í mörgum löndum. Ísland er þó undantekning í þeim efnum, því ójöfnuður minnkaði hér stórlega eftir að kreppan skall á, m.a. vegna stefnu stjórnvalda.

Hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunar hafa haft greiðan aðgang að miklu fjármagni til að breiða út áróður sinn, í áróðursveitum hvers konar (neoliberal think tanks) og í háskólaumhverfi og fjölmiðlum (sjá t.d. hér).

Ástæðan er sú að hákarlar í hópi auðmanna, eins og Koch bræður í USA, sjá sér hag í því að styrkja slíkt áróðursstarf og að kaupa sér þar með pólitísk áhrif. Það hefur sýnt sig að vera góð fjárfesting fyrir hákarlana. Þeir hafa komið nýfrjálshyggjunni til mikilla áhrifa með fjáraustri sínum í flokka og einstaka stjórnmálamenn. Pólitíkin skilaði hákörlunum auknum fríðindum í staðinn.

En vindarnir eru nú að snúast, því sífellt fleiri sjá að þessi þróun ógnar sjálfum kapítalismanum. Ef almenningur nýtur ekki hagvaxtarins, eins og áður fyrr, þá snýst hann gegn hagskipulaginu og ríkjandi stjórnmálum. Upplausn eykst.

Skynsamir kapítalistar leggja nú í auknum mæli baráttunni gegn ójöfnuði og fátækt lið – meira að segja á auðmannasamkomunni í Davos.

Til að það virki þurfa þeir hins vegar að hafna nýfrjálshyggjunni, hugmyndafræði hákarlanna. Hákarlarnir fá aldrei nóg af fjármagni og nýfrjálshyggjan réttlætir taumlausa græðgi þeirra, sem getur svo af sér sífellt meiri ójöfnuð.

Stóra spurningin á Íslandi er hvort Sjálfstæðisflokkurinn nái að hrista þessa óværu af sér? Litlar líkur virðast þó vera á því.

Svartstakkar og harðlínumenn nýfrjálshyggjunnar reyna sífellt að herða tökin á flokknum.

 

Nýlegur pistill: Ör hnignun milistéttarinnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.3.2014 - 21:43 - FB ummæli ()

Traust á þjóðþingum í Evrópu

Traust almennings á Alþingi og stjórnmálum hrundi með falli bankanna. Lægst fór traustið á Alþingi niður í um 10% (þ.e. þeir sem sögðust bera mikið traust til þingsins).

Nýjasta Gallup könnun bendir til aukins trausts til Alþingis á þessu ári, það hækkaði úr um 15% í fyrra upp í 24%. Könnunin var gerð 12. til 23. febrúar, þ.e. áður en til mótmæla kom á ný vegna ESB-málsins.

Ætla má þó að traustið hafi lækkað aftur í kjölfar mótmælanna.

Á vegum ESB var gerð könnun meðal Evrópuþjóða á árinu 2012. Þar var m.a. spurt um traust til þjóðþinga. Fróðlegt er að bera Ísland saman við Evrópuþjóðirnar, á myndinni hér að neðan.

Traust á þingum 2012

Traust almennings til þjóðþings viðkomandi lands 2012 (meðaltal á kvarða frá 1 til 10). Heimild: Eurofound

 

Ísland er í meðallagi í þessari könnun. Og það þegar traustið var heldur minna en á þessu ári. Það gæti komið einhverjum á óvart!

Almennt hefur traust á stjórnmálum og þjóðþingum minnkað í kjölfar kreppunnar,  víðast á Vesturlöndum. Ekki bara á Íslandi.

En það er út af fyrir sig athyglisvert, að þrátt fyrir hið mikla áfall sem Ísland varð fyrir þá er enn minna traust til þjóðþingsins í um helmingi Evrópuþjóða en hér á landi.

Og traustið hér á landi var heldur vaxandi fram að yfirstandandi mótmælum.

Við erum þó enn langt frá því að vera sambærileg við frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum. Svíar, Danir og Finnar eru í efstu sætunum (Noregur var ekki með í könnuninni). Einkunnir frændþjóðanna eru um 40-50% hærri en okkar.

Minnst er traustið almennt í löndum Austur Evrópu og sunnar í álfunni.

Í Grikklandi, Lettlandi, Rúmeníu og Litháen er traustið miklu minna en á Íslandi. Það sama gildir um Ítalíu.

Þó hrunið hafi verið mikið áfall fyrir íslensk stjórnmál og grafið stórlega undan trausti almennings til stjórnmálanna þá er staðan verri í 18 Evrópuríkjum – og mun verri í sumum þeirra.

Traustið er sennilega einnig minna í Bandaríkjunum en hér á landi – þrátt fyrir allt.

Traustið til stjórnmálanna þarf vissulega að aukast. Til þess að það gerist þurfa þingstörfin að verðskulda aukna virðingu almennings.

Það er auðvitað mögulegt.

 

Síðasti pistill: Villandi tal um Svíþjóð

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 5.3.2014 - 11:23 - FB ummæli ()

Villandi tal um Svíþjóð

Þegar Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir Svíþjóð vera “frjálshyggjuparadís í samanburði við Ísland” þá dregur hann upp villandi mynd af báðum löndum. Ég bendi á þrjú grundvallaratriði málsins:

  • Velferðarríkið í Svíþjóð er talsvert stærra og hlutverk ríkisins á því sviði er meira en á Íslandi.
  • Skattar eru talsvert hærri í Svíþjóð en á Íslandi – þó þeir hafi lækkað lítillega í tíð hægri stjórna þar.
  • Reglufesta og aðhald stjórnvalda er talsvert meira í Svíþjóð en á Íslandi og hefur lengi verið.

Það er hins vegar rétt hjá Árna Páli að Svíar hafa tekið hugmyndina um samkeppnismarkaði alvarlega og kanski af mun meiri alvöru en Íslendingar, sem hafa oft umborið einokunar- og fákeppnisaðstæður úr hófi.

Íslendingar hafa líka leyft alltof mikinn samgang stjórnmála og viðskipta með tilheyrandi spillingu.

Hér hefur afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar verið mjög ríkjandi sjónarmið og á árunum fram að hruni tengdist hún við mikið auðmannadekur og vaxandi frelsi og fríðindi til handa fjárfestum, bönkum og atvinnurekendum. Það jók ójöfnuð og endaði í skuldafeni og fjármálahruni.

Svíþjóð er réttar lýst sem þróttmiklu blönduðu hagkerfi en sem “frjálshyggjuparadís”. Svíþjóð sameinar öflugan samkeppnismarkað og viðamikið velferðarríki, sem endurdreifir tekjum og jafnar verulega, þvert á það sem óheft markaðsöflin myndu gera.

Ísland er nær nýfrjálshyggjuskipan hvað snertir sterka afskiptaleysisstefnu, lítið aðhald stjórnvalda gegn fjármálaöflum og losaralegt siðferði. Viðamikill samgangur stjórnmála og viðskipta hefur svo búið til fyrirgreiðslukerfi sem grefur undan samkeppnismörkuðum og auðveldar spillingu og óreiðu hér.

Markaðsumhverfið á Íslandi er þannig með minni samkeppni og ófullnægjandi aðhald, samanborið við Svíþjóð. Það færir íslenskum neytendum ekki nógu góð kjör á mörgum sviðum.

Það er rétt hjá Árna Páli að við getum lært margt af bæði Svíum og Evrópusambandinu um það hvernig efla má samkeppnisaðhald markaða.

Það snýst ekki um einhliða aukna frjálshyggju heldur um farsæla blöndu markaðshátta og ríkisaðhalds (reglun, eftirlit, ögun og velferðarforsjá fyrir almenning).

 

Síðasti pistill: Bjarni Ben: Lýðræði er óraunsæ krafa

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 3.3.2014 - 23:19 - FB ummæli ()

Bjarni Ben: Lýðræði er óraunsæ krafa

Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, segir það óraunsæja kröfu að Íslendingar greiði þjóðaratkvæði um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið, þar sem „það sé ekki á dagskrá Alþingis“.

Hvað á hann við?

Hvers vegna er óraunsætt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um að klára eða stöðva aðildarviðræður án niðurstöðu, eins og þjóðinni var ítrekað lofað – og sem um 80% kjósenda vilja að verði efnt?

Það var ekki óraunsætt þegar loforðin voru gefin. Hvers vegna er það óraunsætt núna?

Hér er svar Bjarna (birt á vef RÚV):

“…í þessu tilviki (er) óraunsætt, að efna til atkvæðagreiðslu um hluti sem eru ekki á dagskrá þingsins. Það er til dæmis ekki á dagskrá Alþingis, sannarlega ekki frá stjórnarmeirihlutanum, að ganga í ESB eða halda viðræðunum áfram. Engu að síður birtist krafa um að það verði gert. Það er miklum vandkvæðum bundið.”

“Sama hver niðurstaðan yrði myndi hún ekki leiða til árangurs í aðildarviðræðum.”

Bjarni ítrekar sem sagt að hann telur þjóðaratkvæðagreiðslu óraunsæa nema ljóst sé fyrirfram að niðurstaðan verði sitjandi ríkisstjórn þóknanleg.

Ef niðurstaðan verði á annan veg (t.d. að þjóðin vilji klára aðildarviðræður og kíkja í pakkann, áður en hún tekur afstöðu til aðildar) þá muni ríkisstjórnin ekki framkvæma vilja þjóðarinnar.

Með slíkum skilyrðum eru þjóðaratkvæðagreiðslur ekki lýðræðislegar – raunar einskis virði.

Það er ekki pláss fyrir beint lýðræði í heimi Bjarna Benediktssonar.

Lýðræði er óraunsæ krafa, segir hann.

 

Síðasti pistill: Heillandi ópera Gunnars Þórðarsonar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar