Laugardagur 16.11.2013 - 11:15 - FB ummæli ()

Óábyrg stjórnun íslenskra fyrirtækja

Ég hef áður bent á að það voru stjórnendur fyrirtækja sem ásamt bankamönnum drekktu Íslandi í skuldum á bóluárunum fyrir hrun, en ekki heimilin eða stjórnvöld (sjá hér).

Hrunið varð vegna þess að skuldsetning þjóðarbúsins alls var orðin algerlega ósjálfbær og þoldi ekki breytingar í umhverfi alþjóðlega fjármálamarkaðarins, þ.e. að lánsféð hætti að streyma til landsins.

Eftir hrun fór stór hluti íslenskra fyrirtækja “tæknilega” á hausinn og þurftu mikla aðstoð og skuldaafskriftir til að geta starfað áfram. Án slíkrar aðstoðar hefði hagkerfið allt hrunið – mun verr en þó varð.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig skuldsetning íslenskra fyrirtækja var úr öllu samhengi við það sem var að gerast í löndum í okkar umhverfi. Myndin kemur úr nýjustu skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika (bláa línan efst er fyrir Ísland).

Skuldir fyrirtækja til 2012

Skuldir fyrirtækjanna fóru hæst í meira en 300% af landsframleiðslu, langt umfram það sem verst var í samanburðarlöndunum.

Þetta segir okkur að stjórnun íslenskra fyrirtækja var óvenjulega óábyrg á árunum frá 2003. Við vitum auðvitað líka að stjórnun bankanna var afleit.

Svona upplýsingar komu ekki fram á meðan þetta var að gerast. Menn áttuðu sig ekki almennilega á gríðarlegri skuldsetningu þjóðarbúsins fyrr en á árinu 2007. En þá sóttu frjálshyggjumenn vúdú-hagfræðinginn Arthur Laffer til landsins og hann sagði að allt væri í allra besta lagi hér! Hann gaf helsjúku ástandi heilbrigðisvottorð! Það þarf jú vúdú-menn til að gera slíkt…

Þarna liggur ein af stóru orsökunum fyrir hruninu, þ.e. í ofurskuldsetningu fyrirtækja og banka. Þarf ekki að fyrirbyggja að slíkt gerist aftur, með því að girða fyrir áhættur og ábyrgðarleysi?

Fáir tala um þörf á því. Óheft frelsi atvinnurekenda og fjármálamanna virðist heilagt.

Í staðinn eru stjórnvöld nú að undirbúa afnám reglugerða, eftirlits og aðhalds, með veikingu þess sem frjálshyggjumenn og atvinnurekendur kalla “eftirlitsiðnaðinn”. Það á að fækka hamlandi reglum, eftirliti og draga úr aðhaldi með fyrirtækjum, nokkrum misserum eftir að fyrirtækin keyrðu þjóðarbúið fyrir björg!

Viðskiptaráð er einn helsti hagsmunavörður og þrýstihópur fyrirtækjanna á Íslandi. Fyrir hrun fengu þeir, að eigin sögn, um 90% af stefnumálum sínum framkvæmd af stjórnvöldum þess tíma. Enn er hlustað á  frjálshyggju-boðskapinn frá þeim.

Sú frelsisaukning sem Viðskiptaráð barðist fyrir hjálpaði stjórnendum til að stýra fyrirtækjunum með þeim hætti sem sjá má á mynd Seðlabankans hér að ofan. Á kaf í skuldir og endanlega fyrir björg!

Aðhald og eftirlit hefði betur verið öflugra og í stakk búið til að aftra stórslysum. Afreglun og oftrú á óhefta markaðinn er jú ein af helstu ástæðum fjármálakreppunnar. Þetta sýnir okkur mikilvægi öflugs fjármálaeftirlits og upplýsingagagnsæis.

Hvers vegna eru menn svona ákveðnir í að læra lítið af mistökunum sem leiddu til hrunsins?

Erum við þrælar frjálshyggjuhugmyndafræðinnar?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.11.2013 - 15:55 - FB ummæli ()

Sundrung Sjálfstæðismanna

Það er athyglisvert að fylgjast með prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Það virðist sem flokkurinn sé í miklum vanda.

Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er án sterkrar forystu. Enginn frambjóðenda ber af sem leiðtogi og skársta valið virðist vera að kjósa þann “næst besta” í mörgum skilningi, eins og ágætur Sjálfstæðismaður sagði við mig. Honum finnst enginn frambjóðenda vera “nógu góður”, segir hann – nema helst “kynórakonan” Hildur Sverrisdóttir (sem ritstýrði bók um það efni)!

Svo er heiftarlegur ágreiningur um málefni í röðum flokksmanna, bæði um skipulagsmál, göngustíga, göngugötur og flugvöllinn.

Halldór Jónsson verkfræðingur, orðhvatur Sjálfstæðismaður til langs tíma, hefur t.d. sent út lista yfir fólk sem hann vill ekki að fólk kjósi í prófkjörinu – vegna afstöðu þess í flugvallarmálinu. Talar Halldór þar fyrir hönd eiganda einkaflugskýla á vellinum.

Þetta er kosningabarátta að hætti róttækra Repúblikana og Teboðsmanna í Bandaríkjunum.

Þetta er þó allt saman skondið á sinn hátt og þakka ber fyrir skemmtigildið.

Keppinautar Sjálfstæðisflokksins hljóta að vera nokkuð kátir með stöðu mála hjá flokknum.

 

Síðasti pistill: Einkaneysla almennings er enn of lítil

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 14.11.2013 - 13:46 - FB ummæli ()

Einkaneysla almennings er enn of lítil

Nýjar tölur um kortaveltu undirstrika að kaupmáttur almennings er enn alltof lítill.

Einkaneysla almennings á Íslandi eykst lítið sem ekkert, en kortavelta Íslendinga erlendis eykst hins vegar umtalsvert.

Hvað þýðir það?

Það er ekki vegna þess að almenningur flykkist til útlanda og eyði tekjum sínum þar.

Það eru í meiri mæli efnaðir Íslendingar sem fara til útlanda og eyða þar. Slíkt gagnast íslenska hagkerfinu þó ekki neitt.

Án umtalsverðrar kaupmáttaraukningar verður einkaneysla innanlands áfram of lítil og skilyrði til hagvaxtar og fjárfestingar í atvinnulífi því áfram veik.

Hagvöxtur verður þá slakur og við áfram föst í ládeyðu kreppunnar.

Kreppur eru umframframleiðslukreppur, eins og John Meynard Keynes útskýrði. Það þarf að ná upp eftirspurninni til að koma hjólum efnahagslífsins á hreyfingu. Það gerist með aukinni einkaneyslu og/eða opinberum framkvæmdum.

Aukinn kaupmáttur almennings er því mikilvægur til að koma hagvextinum á hressilegri ferð.

Þetta þurfa launþegasamtökin að vera með á hreinu. Kjarasamningar um alvöru kaupmáttaraukningu gætu verið örvunin sem hagkerfið þarf á að halda.

 

Síðasti pistill: Fjölgun leigjenda – eðlisbreyting húsnæðismála?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 13.11.2013 - 15:55 - FB ummæli ()

Fjölgun leigjenda – eðlisbreyting húsnæðismála?

Fáar þjóðir hafa gengið í gegnum jafn miklar hremmingar í húsnæðismálum og Íslendingar gerðu í kjölfar hrunsins.

Fyrir hrun hækkaði verð íbúðarhúsnæðis verulega umfram laun, einkum frá 2004, eftir að bankarnir komu inn á húsnæðislánamarkaðinn. Þó hærra hlutfall hærra kaupverðs væri lánað reyndist hækkunin mörgum heimilum erfið, jafnvel þó lánstíminn væri lengdur úr 25 árum í 40 ár.

Margar fjölskyldur tóku á sig alltof miklar skuldir vegna þessara verðhækkana. Fólk sem ekki hafði forsendu til að kaupa eigin húsnæði fékk að gera það engu að síður á þessum óhófsárum. Þetta var fyrirhyggjulaust feigðarflan að hálfu lánveitenda.

Með hruninu fór svo botninn úr öllu saman, margir gáfust upp og töpuðu húsnæði sínu. Þeir og nýir aðilar á markaði fóru í leiguhúsnæði.

Afleiðingin varð fordæmalaus fjölgun leigjenda eftir hrun, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Leigjendur IVJ tölur

Hlutfall þjóðarinnar sem býr í leiguhúsnæði, frá 2005 til 2012 (*2012 er áætlað). Heimild: Eurostat.

 

Árið 2005 bjuggu um 13% þjóðarinnar í leiguhúsnæði en árið 2012 var það komið hátt í 25%.

Þetta er auðvitað gríðarleg fjölgun á stuttum tíma og ein af miklum afleiðingum bólunnar og hrunsins.

Leigjendahópurinn er nú stærri en hann hefur verið í fjölda áratuga. Þeir sem búa í eigin husnæði fóru úr um 87% niður í um 75%.

Húsnæðisverð hefur undanfarið verið hækkandi á ný en kaupmáttur heimilanna er enn lágur. Það eru því litlar líkur til að þessi staða breytist á næstunni. Það er erfiðara að kaupa húsnæði nú en var á árunum fyrir 2004. Óvissa á markaðinum er líka mikil.

 

Framtíð séreignastefnunnar?

Séreignastefnan í húsnæðismálum hefur þannig beðið skipbrot sem ekki sér fyrir endann á.

Innkoma einkabankanna á húsnæðismarkaðinn varð afdrifaríkari en nokkurn óraði fyrir. Henni fylgdi bæði verðhækkun og ofurskuldsetning heimila vegna íbúðakaupa.

Hrunið stækkaði svo leigjendahópinn – hátt í tvöfalt. Spurning er hvort verulegra breytinga á þessu sé að vænta á næstu árum, eða hvort samfélagið verði að búa sig undir að veita mun stærri hluta íbúa leiguhúsnæði en þekkst hefur um áratugi? Það er grundvallarspurning.

Starf að mótun húsnæðisstefnu sem nú fer fram á vegum Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra er því óvenju þýðingarmikið. Móta þarf afstöðu til grundvallarþátta húsnæðiskerfisins, sem standa þarf til einhverrar framtíðar.

Marka þarf séreign og leigu hluta í húsnæðisframboði framtíðarinnar og veita viðunandi lánskjör til þeirra sem kaupa, sem og til hinna sem byggja og bjóða fram leiguhúsnæði.

Hlutverki hins opinbera á þessu sviði er varla lokið. Reynslan af innkomu einkabankanna á húsnæðismarkað virðist ekki vera sú að á þá sé eingöngu stólandi. Auk þess sinna þeir ekki mikilvægum félagslegum hlutverkum.

Ný húsnæðisstefna þarf að hafa skýr markmið um hlutverk séreignar og leigu. Hún þarf jafnframt að tryggja að lánastarfsemi sé ábyrg, örugg og samræmanleg stöðugleika í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar.

Hrakfarir síðustu tíu ára eru víti til varnaðar. Af þeim þurfum við að læra margar lexíur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.11.2013 - 10:38 - FB ummæli ()

Mús er fædd…

Tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar litu dagsins ljós í gær. Því ber að fagna. Það á auðvitað að vera eilífðarverkefni að fara betur með opinbera fjármuni.

Raunar er ástand í þeim efnum almennt ekki slæmt á Íslandi. Opinber rekstur er almennt hófsamur og hagkvæmur og lágur launakostnaður miðað við einkageira gerir hann yfirleitt ódýran.

Við verjum t.d. minni  hluta þjóðarframleiðslu til opinberra útgjalda – og til velferðarútgjalda sérstaklega – en frændur okkar á hinum Norðurlöndunum. Á síðasta kjörtímabili var starfsmönnum við opinbera stjórnsýslu fækkað verulega, sem jók hagkvæmni enn frekar.

Þetta er langur listi hjá hagræðingarhópnum. Upptalningar hugsanlegra verkefna frekar en útfærðar hugmyndir um skipulagsbreytingar eins og boðað hafði verið. Þarna má sjá gamlar hugmyndir frá síðustu tveimur ríkisstjórnum og í mörgum tilvikum er lagt til að “kanna” og “skoða” möguleika á hinu og þessu.

Gott og vel.

Mér varð hins vegar hugsað til vinnunnar sem stendur yfir á vegum “Samráðsvettvangs um aukna hagsæld”. Það er starf sem byggir á skýrslu McKinsey & Company.

Þar má sjá vinnubrögð sem eru lengra komin, með meiri rökstuðningi fyrir kerfisbreytingum, þó menn þurfi ekki að vera sammála öllu sem þar er.

Tillögur Hagræðingarhóps Ásmundar Einars Daðasonar eru meira eins og listi frá Heimdalli Sjálfstæðisflokksins um allt það í ríkisrekstrinum sem þeim er illa við. Engin rökstuðningur, engin heildstæð hugsun – bara niðurskurður.

Til dæmis er lögð til sameining stofnana sem á yfirborðinu virðast eiga eitthvað sameiginlegt. En hvað skyldi vera sameiginlegt í rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar og Þjóðleikhússins, annað en að bæði eru á sviði menningar?

Eða hvað gæti verið sameiginlegt með rekstri Þjóðminjasafns og Listasafns Íslands, annað en að bæði eru á sviði menningar? Hvers vegna skyldi vera hentugt að hafa sama forstjóra yfir þessum stofnunum – um leið og hann sinnti öðrum minni stofnunum að auki? Hvar hefur slíkt stjórnskipulag stofnana verið reynt með góðum árangri?

Fækkun háskóla með sameiningum var mikið könnuð á síðasta kjörtímabili, en endaði með auknu samstarfi milli opinberra háskóla. Niðurstaðan á þeim vettvangi varð sú, að helsta hagræðingin gæti verið falin í sameiningu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. En vilja eigendur Háskólans í Reykjavík það? Ég held ekki.

Góð hugmynd er að sameina rannsóknarstofnanir atvinnuveganna við háskóla, samhliða einhverri fækkun háskóla. Þá hugmynd tekur hópurinn upp frá Vísinda- og tækniráði (sjá hér). Það var gert í Danmörku, með ágætum árangri. Þetta mætti tengja við hugmyndir um byggingu þekkingar- og nýsköpunarklasa við Háskóla Íslands, sem þegar er hafin með byggingu hátækniseturs Alvogen lyfjafyrirtækisins.

Hagræðing er flókin og erfið í framkvæmd. Til að ná árangri þarf meira en gaspur og góðan vilja.

En orð eru til alls fyrst – svo vonandi verður einhver árangur af þessu starfi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 11.11.2013 - 11:53 - FB ummæli ()

Þorsteinn Eggertsson aðlaður

Það var vel við hæfi hjá Félagi tónskálda og textahöfunda (FTT) að heiðra gleðigjafann Þorstein Eggertsson fyrir hið stórmerka framlag hans til textagerðar í íslenskum dægurlagaheimi (sjá hér).

Steini Eggerts, eins og hann var jafnan kallaður í Keflavík, er óvenju snjall textasmiður og með afbrigðum afkastamikill. Hann hefur samið mörg hundruð texta sem hafa verið gefnir út – og fjölmargir náð miklum vinsældum.

Steini er ekki bara textagerðarmaður. Hann er raunar liðtækur á mörgum sviðum lista. Hann er myndlistamaður, söngvari og leikari, auk textagerðarinnar, svo nokkuð sé nefnt. Þá er hann einstaklega skemmtilegur sögumaður.

Við Steini unnum saman við húsamálun hjá Bigga Guðna, málarameistara og menningarfrömuði í Keflavík, eitt sumar er ég var unglingur. Meðal annars máluðum við gamla barnaskólann í Keflavík. Steina þótti ekki mikið til þess verkefnis koma, enda var hann þá að hanna plötuumslag fyrir Hljóma, auk margra annarra pælinga sem áttu hug hans allan.

Vegna þessa annríkis við meira skapandi starf en að mála gluggalista fór Steini sjaldan upp í málarastigann og eftirlét mér að klára dagskammt okkar beggja af gluggalistum. Það var auðvitað ósanngjarnt, en í staðinn fékk ég að njóta frásagnarlistar hans. Hann lét dæluna ganga á meðan ég málaði á tvöföldum hraða.

Það voru reyndar góð skipti því Steini var óendanlega skemmtilegur, hvort sem hann sagði sögur af sjálfum sér, öðrum eða lét eigin pælingar fljóta fríhendis. Og hvílíkt hugarflug! Svo hló hann stundum mest sjálfur af ævintýralegum og súrrealískum hugmyndum sínum. Ég skemmti mér óvenju vel í vinnunni þetta sumarið.

Ég tek heilshugar undir með þeim sem hafa fagnað með Þorsteini Eggertssyni nú þegar honum er sýndur sómi af samherjum í listaheiminum. Starf hans að listum er gott og mikilvægt – þó afrek hans í málun gluggalista hafi varla náð máli!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.11.2013 - 15:21 - FB ummæli ()

Gamli grömpí Moggakarl

Þeir eru að halda upp á hundrað ára afmæli Moggans um helgina. Að því tilefni keypti ég mér eintak af helgarblaðinu og vænti mikils. Bjóst við hátíðarútgáfu, bakkafullu blaði af gefandi efni.

Þar er reyndar sitthvað sem má lesa til skemmtunar og fróðleiks. Sérstaklega um menningu og listir og um hinn nýja borgarstjóra New York borgar, sem er jafnaðarmaður og vill draga úr ójöfnuði í borginni. Það verður ærið ef ekki óvinnandi verkefni hjá honum.

Í blaðinu er jafnvel sagt frá nýrri og álitlegri menningarstefnu Evrópusambandsins, sem setur nú skapandi greinar í öndvegi. Þar kemur fram að ESB ætlar að styrkja 250 þúsund evrópska listamenn við að koma verkum sínum á framfæri, styðja dreifingu 800 kvikmynda, styðja við 2000 kvikmyndahús og kosta þýðingu 4500 bóka. Kraftur í þessu.

Þetta er annar tónn en berst úr kimum hægri stjórnmálanna á Íslandi! Þar er krafist niðurskurðar í skapandi greinum, þvert á það sem aðrar þjóðir gera nú. Menningarleg eyðimörk virðist vera markmiðið á höfuðbólum hægrimennskunnar.

Sumir vilja jafnvel loka Þjóðleikhúsinu og tónlistarHörpunni – og helst svelta rithöfunda og myndlistarmenn. Nóg um það.

Þó Mogginn hafi losað sig við marga reynslubolta og búi nú að fámennara starfsliði en áður er þar þó enn að finna fagfólk. Fyrir það ber að þakka. Þeim ber að halda veglega afmælishátíð.

Ég veit hins vegar ekki hvað skal segja um ritstjórann. Þegar maður les Reykjavíkurbréfið blasir við hálf furðulegur boðskapur önugs gamalmennis.

Það er meira eins og Davíð Oddsson sé orðinn hundrað ára – en ekki Mogginn sjálfur!

Bréf dagsins er síbylja gegn Evrópusambandinu, Alþingi og öðrum stjórnmálum á Íslandi. Allt er þar ómögulegt, segir ritstjórinn. Líka núverandi ríkisstjórn.

Ritstjórinn sjálfur leiddi þjóð sína meira afvega en nokkur annar hefur gert í sögu lýðveldisins, bæði sem forsætisráðherra og seðlabankastjóri. Er hann sérstaklega traustvekjandi dómari um stjórnmál nútímans? Kanski eigendurnir ættu að hugleiða þessa spurningu…

Á hinn bóginn sér ritstjórinn eitthvað gott við pylsugerðina í landinu og virðist vilja taka hana fram yfir alla pólitík! Þetta hljómar eins og ný laglína í gamalli möntru frjálshyggjumanna – um að markaður sé alltaf betri en lýðræði!

Það hefði verið farsælla ef eigendur Moggans hefðu haft metnað til að þróa blaðið í átt til vandaðri erlendra stórblaða. Við þurfum á ábyggilegri og hlutlausri umfjöllun um þjóðmál og menningu að halda. Þar sem bæði hægri, miðja og vinstri, upp og niður, og út og suður fá að njóta sín í hófstilltu en gagnrýnu jafnvægi.

Í staðinn kusu þeir að gera blaðið að málgagni þröngra eigin hagsmuna og fallins frjálshyggjuforingja, sem vill endurskrifa söguna í eigin þágu. Útkoman er eftir því.

Vonandi verður annað uppi á síðum Moggans í framtíðinni.

Til hamingju með afmælið!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.11.2013 - 11:26 - FB ummæli ()

Arfaslæmur náttúrupassi?

Á umhverfisþingi í fyrradag komu fram miklar og verðskuldaðar efasemdir um fyrirhugaða gjaldtöku af ferðamönnum sem skoða íslenskar náttúruperlur.

Ég hef áður gagnrýnt slík áform og varað við að gjaldtaka fyrir náttúruskoðun getur breytt eðli íslenskrar ferðaþjónustu á neikvæðan hátt.

Svo er rétt að minna á að Íslendingar verða sjálfir rukkaðir fyrir að skoða náttúruperlur “sínar”. Af hverju ekki að hækka frekar gistináttaskattinn, sem Íslendingar sleppa við? Hann er óvenju lágur fyrir.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent í ferðamálafræðum, sagði passann hvorki í sátt við land né þjóð og benti á ýmsar eðlilegri leiðir til að afla frekari tekna til uppbyggingar af ferðaþjónustunni, í erindi sínu á umhverfisþinginu.

Meðal annars er alveg órannsakað hvaða áhrif slík gjaldtaka muni hafa á ímynd og árangur ferðaþjónustunnar – og á ferðalög Íslendinga sjálfra.

Ástæða er til að hlusta á fagfólkið í ferðaþjónustu og umhverfismálum áður en rokið er til að peningavæða náttúruskoðun á Íslandi á flausturslegan hátt. Enginn mælti með náttúrupassa á umhverfisþingi.

Mig grunar líka að hljóð muni heyrast úr horni þegar íslenskur almenningur áttar sig á því, að hann verður rukkaður sérstaklega fyrir að fara og ljósmynda Öxarárfoss í sumarblíðunni…

Þó náttúrupassinn sé vanhugsaður og órannsakaður var fyrsta hugmynd gjaldtökumanna mun hrikalegri. Hún var sú að koma fyrir kofa við sérhverja náttúruperlu landsins og hafa þar slefandi rukkara á vakt við að heimta toll af vegfarendum. Þetta var sett fram í fullri alvöru!

Það er þrátt fyrir allt til bóta að slík kofavæðing íslenskrar náttúru virðist ekki lengur á dagskrá.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 9.11.2013 - 11:08 - FB ummæli ()

Árangur vinstri stjórnarinnar – lágtekjufólk

Ég hef áður bent á það að sú stefna vinstri stjórnarinnar að hlífa lægri tekjuhópum við afleiðingum kreppunnar skilaði árangri (sjá hér). Það hefur OECD einnig gert (hér).

Allir urðu fyrir kjaraskerðingu í hruninu. Það tókst þó að milda kjaraskerðinguna í lægstu tekjuhópum, m.a. með hækkun lífeyrislágmarksins, lægstu launa og atvinnuleysisbóta.

Einnig voru vaxtabætur hækkaðar stórlegar og persónuafsláttur nokkuð, sem hvoru tveggja gagnaðist lægri tekjuhópum hlutfallslega mest.

Þetta þýðir að afstæð fátækt (hlutfall íbúa sem eru með minna en 60% af miðtekjum í samfélaginu) lækkaði eftir hrun.

Ný gögn frá Eurostat og Hagstofu Íslands sýna þetta enn frekar. Þau má sjá á myndinni hér að neðan, þar sem er sýndur samanburður á þróun afstæðrar fátæktar hjá norrænu þjóðunum og meðaltal ESB-ríkja.

Lágtekjumörk til 2011

Hlutfall heimila með ráðstöfunartekjur undir fátæktarmörkum ESB, 2003 til 2011

 

Frá 2008 til 2011 fækkaði heimilum undir fátæktarmörkum í Noregi og á Íslandi, en fjölgaði í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Algengast var einnig að fólki undir fátæktarmörkum hafi fjölgað í aðildarríkjum ESB, sem og í Bandaríkjunum.

Það var raunar talsverð sérstaða Íslands að kreppan skyldi ekki lenda með mestum þunga á lágtekjufólk. Í flestum öðrum kreppulöndum bar lágtekjufólk hlutfallslega mestar byrðar. Og þannig hefur það líka oftast verið í sögunni.

Útkoman er raunar betri á Íslandi en í hinum ofurríka Noregi, hvað þetta snertir.

Þetta dregur um leið athygli að því að millitekjufólk bar mikinn þunga af kreppunni og hefur ekki fengið hlutfallslega jafn mikinn stuðning og lágtekjufólk.

Komandi kjarasamningar þurfa að bæta hag allra heimila með almennri kaupmáttaraukningu, svipað og gerðist á árinu 2011.

Síðan þá hafa heimilin að mestu staðið í stað.

Við þurfum að komast áfram og upp úr kjaraskerðingu hrunsins. Annars verður eftirspurn áfram óviðunandi og hagvöxturinn kemst ekki á skrið.

 

__________________________

Aths! Hagstofan birtir þessi gögn eins og þau séu fyrir árin 2004 til 2012, en þau vísa alltaf til tekna ársins á undan. Þannig eru þau sýnd á myndinni hér að ofan, þ.e. fyrir tekjuárin 2003 til 2011.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 8.11.2013 - 17:27 - FB ummæli ()

Ódýrustu og furðulegustu ummælin

Bjarni Ben. toppaði í dag

Núverandi stjórnarleiðtogar kölluðu það svik við erlendu stóriðjufyrirtækin að framlengja sérstakan skatt á raforku eftir 2012.

Alvarleg “svik”.

Nú er spurt hvers vegna þessu hafi þá ekki verið breytt í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2014.

Það var auðvitað mögulegt ef menn töldu þetta svo alvarlegt mál.

Aðspurður segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra núverandi stjórn hafi fengið svikin í arf frá fyrri stjórn – og lætur eins og hendur hans séu bundnar!

Þetta eru ódýrustu ummæli dagsins!

Raunar eru mjög sterk rök fyrir sérstaka orkuskattinum. Það er vegna þess að við hrun krónunnar fengu erlendu fyrirtækin óvæntan skyndigróða (windfall profit) af starfsemi sinni hér á landi, eins og erlendir hagfræðingar hafa bent á. Innlendur kostnaður lækkaði verulega.

Það sama á við um veiðigjaldið á útgerðina. Gengisfellingin jók hagnað þar svo um munaði.

 

Vigdís toppaði í vikunni

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárveitinganefndar Alþingis, á hins vegar furðulegustu ummæli vikunnar.

Þau féllu í umræðu á þingi um útflutning raforku um rafstreng til Evrópu. Vigdís hafnar orkusölunni m.a. á þeirri forsendu að með því væri blandað sama hreinni íslenskri orku og óhreinni evrópskri orku!

Sjá má þennan ævintýralega málflutning hér.

Vigdís er reyndar í harðri samkeppni við sjálfa sig um fleiri umdeild ummæli í vikunni, m.a. um námsmenn.

Venjuleg vika þetta hjá Vigdísi! Kanski hún ætti að vanda málflutning sinn betur?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 7.11.2013 - 23:12 - FB ummæli ()

Er Framsókn fasistaflokkur?

Það er leiðinlegt að sjá hversu ómálefnalegur Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi stjórnarformaður MP banka, var í helgarpistli sínum í Fréttablaðinu um síðustu helgi.

Þar kallar hann Framsóknarflokkinn “þjóðernispopúlískan” flokk og líkir honum jöfnum höndum við Framfaraflokk Glistrups (sem lagði höfuðáherslu á skattalækkanir) og fasistaflokkinn Gullna dögun í Grikklandi – og fleiri slíka flokka.

Þetta er með talsverðum ólíkindum hjá Þorsteini, þó hann slái úr og í, eins og eftirfarandi ívitnun í flokkun hans á Framsókn með þjóðernispopúlískum flokkum sýnir:

“Þeir flokkar sem hér um ræðir eru nokkuð misjafnir. Sumir hafa jafnvel á sér yfirbragð fasisma. Því er erfitt að draga alla í einn og sama dilkinn þrátt fyrir afar sterk sameiginleg einkenni (áhersla mín).”

Þetta hvorki góð stjórnmálafræði hjá Þorsteini Pálssyni né af heilindum mælt.

Framsókn ef miðjuflokkur með langa sögu. Eins og gjarnan hendir miðjuflokka þá hefur Framsókn sveiflast ýmist til hægri eða vinstri í afstöðu til einstakra málefna.

Þorsteinn fann ekki að því þegar Framsókn lét Sjálfstæðisflokk Davíðs og Hólmsteins draga sig út í dýpstu fen óheftrar frjálshyggju (1995 til 2006), með skelfilegum afleiðingum fyrir íslensku þjóðina.

Fyrir síðustu kosningar lagði Framsókn ríka áherslu á velferðarmál og vildi ganga lengra en gert hafði verið í að verja heimilin gegn afleiðingum kreppunnar. Skuldaniðurfellingin og afnám verðtryggingar á húsnæðislánum voru slík mál, auk annarra velferðarmála.

Framsókn vildi setja heimilin í forgang. Það var mikilvæg áhersla sem fékk hljómgrunn hjá kjósendum.

Þetta var sveifla Framsóknar í átt til meiri velferðarstefnu og raunar einnig gegn ESB-aðild. Þorsteinn vill frekar hægri sveiflu – en þó með áherslu á aðild að ESB.

Það er skiljanlegt að Þorsteinn hafi orðið fyrir vonbrigðum með framvindu ESB-aðildarviðræðnanna.

En að vaða fram og líkja Framsóknarflokknum við fasistaflokka og þjóðernispopúlíska flokka er ansi langt gengið.

 

Sjálfstæðismenn hlaupa frá skuldaleiðréttingunni

Þó skuldaleiðréttingin sé komin frá Framsókn þá ber Sjálfstæðisflokkurinn líka ábyrgð á henni. Lækkun skulda heimilanna er jú lykilatriði í stjórnarsáttmálanum.

Þorsteinn virðist hugsa meira um hag fjármálastofnana og virðist einnig vilja grafa undan Framsókn í stjórnarsamstarfinu. Hann unir því augljóslega ekki að Framsókn fari með forystu í stjórninni. Hann reynir að aftra því að velferðarstefna Framsóknar nái fram að ganga – og þar með vill hann veikja samstarfsflokkinn.

Tvískinnungur Sjálfstæðismanna gagnvart skuldleiðréttingunni er raunar orðinn ansi mikill. Styrmir Gunnarsson talar t.d. eins og Framsókn sé á skilorði hjá Sjálfstæðisflokknum vegna málsins (sjá hér).

Ástæða er því til að spyrja um heilindi Sjálfstæðismanna gagnvart stjórnarsáttmálanum – og þar með gagnvart samstarfsflokknum. Þorsteinn Pálsson er ekki óbreyttur alþýðumaður í flokknum, heldur áhrifamaður.

Þegar hann líkir samstarfsflokknum við fasistaflokka erlendis þá ættu viðvörunarljós að loga. Það er hins vegar ánægjulegt að forsætisráðherra lætur engan bilbug á sér finna.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 3.11.2013 - 15:35 - FB ummæli ()

Tekjuskiptingin – bókarkynning í New York

Á mánudag verður kynningarráðstefna um nýja bók frá LIS-stofnuninni um tekjuskiptingu í nútímaríkjum. Bókin er gefin út af Stanford University Press.

Þar er fjallað um þróun í tekjuskiptingu hagsældarríkja á síðustu áratugum og stöðuna eins og hún er í dag. Sérstök áhersla er lögð á stöðu millistéttarinnar.

Ísland er með í þessari alþjóðlegu rannsókn. Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur og ég eigum kafla í bókinni, sem fjallar um þróun tekjuskiptingarinnar á Íslandi, í ljósi bóluhagkerfisins og hrunsins.

Þar kemur fram að ójöfnuður tekna á Íslandi jókst óvenju mikið á áratugnum fram að hruni. Eftir hrun urðu umskiptin til minni ójafnaðar einnig óvenju mikil. Sveiflurnar í báðar áttir voru því miklar.

Við sýnum hvernig fjármagnstekjur höfðu stórt hlutverk í þessari þróun, bæði fyrir og eftir hrun. Skatta- og bótastefna lék einnig mikilvægt hlutverk.

Það er ánægjulegt að bókin hefur fengið góðar viðtökur í hinu alþjóðlega fræðasamfélagi. Jason Beckfield, prófessor við Harvard háskóla, segir hana t.d. vera eina mikilvægustu bókina um tekjuskiptingu sem komið hefur út á síðustu tíu árum.

LIS New York kynning

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 29.10.2013 - 11:58 - FB ummæli ()

Ayn Rand: Heimur ofurmenna og aumingja

Íslenskir frjálshyggjumenn eru farnir að þýða og gefa út bækur bandaríska rithöfundarins Ayn Rand í gríð og erg. Bækur hennar einkennast af rótækri trú á óheftan kapítalisma, afskiptaleysisstefnu og skefjalausa einstaklingshyggju.

Ayn Rand upphefur atvinnurekendur, framtaksmenn og auðmenn en kallar flesta aðra ónytjunga, blóðsugur eða þjófa. Vinnandi alþýða telur varla með í heimi hennar. Auðmennirnir einir eru sagðir skapa verðmætin – hún talar um þá eins of þeir séu ofurmenni, í anda Nietzsche.

Bækur Ayn Rand eru skáldsögur, en markmið þeirra er pólitíkskur áróður. Þetta er boðskapurinn um dásemd óhefta kapítalismans og meinta galla alls þess sem lýðkjörið ríkisvald gerir. Hún hafnar lýðræði (vilja meirihlutans), velferðarríkinu og kristnu siðgæði.

Frjáls markaður er sagður góður – en ríkið alslæmt. Auðmenn eru góðir – en stjórnmálamenn slæmir. Atvinnurekendur eru góðir – en alþýðan er safn ónytjunga og aumingja. Eigingirni er sögð vera dygð – en samúð með öðrum er sögð sjálfsfórn og siðleysi.

Ayn Rand er auðvitað harður andstæðingur sósíalisma og allt í lagi með það. Hins vegar gengur hún svo langt að berjast líka gegn blandaða hagkerfinu sem tíðkaðist eftir seinni heimsstyrjöld, eftir að óheftur klapítalismi rann sitt skeið með Kreppunni miklu sem kom í kjölfar hrunsins á Wall Strteet 1929. Allir málsmetandi menn á Vesturlöndum sáu þá að óheftur kapítalismi gengur ekki upp. Hemja þarf græðgina til að markaðurinn fari ekki afvega, með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið.

Þess vegna tók blandaða hagkerfið og velferðarríkið við eftir seinni heimsstyrjöld. Þá rann upp mesta hagsældar- og framfaraskeið sögunnar. Samt réðst Ayn Rand gegn því og gerði sömu mistökin og frjálshyggjumaðurinn Friedrich von Hayek gerði í bókinni Leiðin til ánauðar. Hún taldi að blandaða hagkerfið myndi leiða til ánauðar alræðislegs ríkisvalds, eins og Hayek.

Þar fóru þau hjúin illa afvega! Blandaða hagkerfið sem stóð frá 1945 til um 1975 varð einstaklega farsælt, lýðræði blómstraði sem aldrei fyrr og hagur almennings batnaði um öll Vesturlönd! Þetta var einstakt framfaraskeið á flestum sviðum. Millistéttin blómstraði og yfirstéttinni var haldið í skefjum.

Með endurkomu frjálskyggjunnar upp úr 1980 fóru hægri róttæklingar að sýna verkum Ayn Rands aukinn áhuga. Það var meðal annars vegna þess að bandarískar áróðursveitur (t.d. Ayn Rand Insititue og Cato Institute) beinlínis gefa mörg hundruð þúsund eintök af þessum bókum til skólakrakka á ári hverju – til að planta frjálshyggjunni sem víðast í ómótaðar sálir.

 

Íslenskir frjálshyggjumenn boða auðræði og öfga Ayn Rand

Áróðursveita Hannesar Hólmsteins og Ragnars Árnasonar og félaga sér um dreifingu þessara bóka á Íslandi, í gegnum Almenna bókafélagið sem Hannes og félagar reka.

Hannes Hólmsteinn vísaði í Ayn Rand til að réttlæta auðræðið í Bandaríkjunum í nýlegum pistli. Sagði þar að auðmenn (ríkustu 20 prósentin) greiddu 70% allra skatta (sem er reyndar rangt!). Hannes sagði svo: “Hvað myndi gerast, ef þeir, sem skapa verðmætin, hætta að nenna að deila þeim með hinum, sem ekki skapa verðmætin?”. Það er einmitt stefið í bók Ayn Rand Undirstaðan (Atlas Shrugged).

Atvinnurekendur eða framtaksmenn eru þar sagðir skapa verðmætin sem allir njóta. Venjulegt vinnandi fólk telur varla með sem verðmætaskapandi verur. Almenningur er sagður öfunda auðmennina af snilli þeirra og heimta af þeim lífsviðurværi. Ríkisstarfsmenn eru svo sagðir “stela” eigum auðmanna með skattheimtu – og “aumingjar” (moochers) heimta loks af þeim lífeyri. Hér má heyra hvað Ayn Rand hefur að segja um öryrkja, sem hún telur að eigi að vera réttlausir ölmusumenn.

Í heimi Ayn Rand eru auðugir atvinnurekendur sem sagt sagðir helstu velgjörðarmenn samfélagsins, en aðrir teljast aumingjar eða ónytjungar! Þessi ógeðfellda hugsun hefur því miður náð furðu langt hjá frjálshyggjumönnum og er ein af réttlætingunum fyrir auðræðinu mikla sem hefur þróast í Bandaríkjunum á síðustu áratugum.

Íslenska frjálshyggjumenn þyrstir að koma okkur Íslendingum í sömu stöðu. Þeir eru talsmenn óhefts kapítalisma, aukins ójafnaðar og andstöðu við velferðarríkið og blandaða hagkerfið, eins og Ayn Rand og Friedrich von Hayek voru.

Í sjávarútvegsmálum kemur þetta skýrlega fram hjá frjálshyggjumönnum. Þeir vilja útvegsmönnum allt en landvinnslufólki ekkert. Veiðigjaldið er sagt eignaupptaka ríkisins (Ayn Rand hefði kallað það „þjófnað“), þó lög kveði á um að almenningur eigi auðlindina. Öllu er snúið á haus í þágu útvegsmanna – gegn hagsmunum almennings.

Markmið Ayn Rand og fylgjenda er að brjóta niður samfélag samhjálpar, sanngirni og almennrar velferðar. Í staðinn skuli magna eigingirni og græðgi róttækrar einstaklingshyggju, í óheftum kapítalisma og auðræði.

Svo er sagt að ef hátekju- og stóreignafólkið fái ekki allt þá einfaldlega farið það og skilji hina eftir í eymd og volæði, eins og Hannes Hólmsteinn ítrekar.

Þeir sem þekkja sögu blandaða hagkerfisins og velferðarríkisins vita hins vegar betur. Þeir vita að ef kaup og kjör almennings væru betri og hagur auðmanna hóflegri, þá gengi allt betur.

Lýðræðið, hagsældin, velferðin og hamingjan myndu blómstra betur. Þannig var það einmitt á tíma blandaða hagkerfisins frá 1945 til 1975.

Fylgismenn róttæklinga eins og Ayn Rand mega því alveg missa sig. Þeir eru ekki handhafar neinna hugmynda um farsælt og manneskjulegt samfélag.

Þeir eru vinir auðræðis – en óvinir lýðræðis og velferðarsamfélags.

 

Hér má sjá gott viðtal Mike Wallace við Ayn Rand þar sem hún lýsir skoðunum sinum (í þremur hlutum):

Sjá einnig þennan pistil:  Auðræði – þjóðfélagstilraun samtímans

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 28.10.2013 - 10:17 - FB ummæli ()

Almenningur skýrir hrunið

Hulda Þórisdóttir lektor í stjórnmálafræði kynnti athyglisverða könnun á viðhorfum almennings til hrunsins, á ráðstefnu um félagsvísindi í HÍ á föstudag.

Þegar almenningur er spurður um hverjum hrunið sé að kenna verður niðurstaðan sú sama og kom fram í sambærilegri könnun árið 2009.

Þessa telur almenningur helstu orsakavalda hrunsins.

  • Viðskiptabankarnir
  • Fjármálaeftirlitið
  • Seðlabankinn
  • Sjálfstæðisflokkurinn
  • Ríkisstjórn Geirs Haarde

Þó almenningur hafi ekki tækifæri til að fara ofan í staðreyndir málsins fara flestir þó nærri um hvar meginábyrgðin liggur. Niðurstaðan er svipuð niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem kafaði ofan í gögnin.

Þó er eitt frávik frá niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis. Hún taldi að eftir 2006 hefði ekki verið hægt að afstýra hruninu, heldur hefði mátt veita viðspyrnu og draga úr umfangi þess. Að því leyti var ríkisstjórn Geirs Haarde ekki beinn orsakavaldur hrunsins heldur má segja að hún hafi ekki gert nægilega mikið til að draga úr umfangi þess, ekki brugðist nægilega við – en það var einnig niðurstaða Landsdóms.

Niðurstöður almennings eru líka ekki fjarri niðurstöðum fjármálafræðanna sem tengja bóluhagkerfi og fjármálakreppur almennt við of mikið frelsi og lausatök á fjármálamarkaði, sem leiðir til of mikillar skuldasöfnunar með tilheyrandi áhættum (sjá hér og hér).

Bankar eru lykil gerendur í slíkri þróun og opinberir eftirlitsaðilar eiga að veita viðspyrnu og aftra því að illa fari. Þar berast böndin að Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Sjálfstæðisflokkurinn er svo sá aðili sem mest beitti sér fyrir innleiðingu aukins frelsis á fjármálamarkaði og einkavæðingunni sem kom hinum nýju eigendum að bankarekstrinum. Flokkurinn stjórnaði fjármálum þjóðarinnar samfellt í 18 ára og sú ferð endaði með hruninu. Tveir formenn flokksins (DO og GH) voru í lykilhlutverkum í þeirri þróun, frá byrjun til enda.

 

Almenningur sakar Sjálfstæðisflokkinn – en flokksmenn saka útlendinga

Það er skondið þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir fylgi svarenda við flokka. Þá hafa stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sérstöðu.

Á meðan flestir kjósendur kenna Sjálfstæðisflokknum um hrunið (beint og óbeint) þá kenna Sjálfstæðismenn sjálfir útlendingum um! Þeim reynist erfitt að horfast í augu við hinar innlendu orsakir hrunsins. Það er skiljanlegt.

Annað sem Hulda Þórisdóttir bendir á er að almenningur var meðvitaður um hlut beggja núverandi stjórnarflokka í aðdraganda hrunsins, en kaus þá samt. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut reyndar ekki miklu meira fylgi nú en árið 2009, þegar það var í sögulegri lægð, en Framsókn bætti stórlega við sig.

Að mati Huldu er ástæðan góð frammistaða Framsóknar í Icesave-málinu og vænleg loforð um mikla skuldaniðurfellingu.

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ítrekaði um helgina einlægan ásetning sinn og flokksins um að standa við þau fyrirheit. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ítrekað talað mjög skýrt um það. Í ljósi dræms áhuga Sjálfstæðismanna á skuldalækkunarleið Framsóknar er ásetningur þeirra afar mikilvægur. Enda mikið í húfi – bæði fyrir flokkinn og heimilin.

 

Síðasti pistill: Auðræði – þjóðfélagstilraun samtímans

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 26.10.2013 - 10:01 - FB ummæli ()

Auðræði – þjóðfélagstilraun samtímans

Á Vesturlöndum stendur nú yfir tilraun sem miðar að því að breyta samfélagsgerðinni í átt til aukins auðræðis (plutocracy). Þetta felur í sér að þeir allra ríkustu eru víða að taka til sín sífellt stærri hluta þjóðartekna á meðan hagur millistéttarinnar og lægri tekjuhópa stendur í stað eða versnar.

Bandaríkin eru besta dæmið um framkvæmd þessarar stefnu (sjá nánari upplýsingar hér og hér).

Auður heimsins er nú orðinn meiri en var fyrir fjármálakreppuna en samt er hagur almennings víðast verri – sums staðar mun verri (sjá hér). Það rofar bara til á toppnum (sjá hér).

Í Bandaríkjunum hefur um 95% þeirrar aukningar á þjóðartekjum sem orðið hefur frá 2009 runnið til ríkasta eins prósents þjóðarinnar. Pælið í því! Auðmenn þar í landi eru sem sagt komnir út úr kreppunni – en aðrir sitja enn fastir á botninum.

Víðast reyna ríkisstjórnir að skera niður velferðarútgjöld og auka gjaldtöku fyrir samfélagsþjónustu ýmsa, með auknum byrðum fyrir venjulegar fjölskyldur.

 

Hin nýja stéttabarátta

Þjóðfélagstilraunin er afrakstur aukinnar stéttabaráttu að hálfu yfirstéttarinnar, ríkustu einstaklinganna, sem kreista fram aukið frelsi fyrir fjármálabrask yfirstéttarinnar, skattalækkanir til fyrirtækja og fjárfesta, – en heimta um leið niðurskurð opinberra velferðarútgjalda og framkvæmda. Þeir ríku vilja meira – sífellt meira (sjá hér og hér).

Hugmyndafræðin á bak við þessa nýju stéttbaráttu og hinn aukna yfirgang auðmanna, ekki síst í Bandaríkjunum, er nýfrjálshyggjan. Hún réttlætir gegndarlaus fríðindi fyrir yfirstéttina – á kostnað venjulegra fjölskyldna. Millistéttinni blæðir.

Með auknum áhrifum frjálshyggjunnar eftir 1980 þá tók þessi nýja stefna smám saman yfir. Byrjaði með Thatcher og Reagan. Eimreiðarhópurinn flutti boðskapinn síðan til Íslands og Davíð Oddsson kom honum í framkvæmd í vaxandi mæli frá 1995.

Tilraunin núna gengur út á að finna hversu langt verður hægt að ganga í að auka auð þeirra súperríku og þrengja um leið að venjulegum fjölskyldum og ekki síst fólki í lægri tekjuhópum. Hversu mikið verður hægt að auka ójöfnuðinn og þrengja að velferðarríkinu?

Að sumu leyti er þetta endurtekning á aðstæðum eins og voru á „gyltu öldinni „í Bandaríkjunum (the gilded age) 1865-1918, þegar auðmenn þess tíma (sem gjarnan voru kallaðir “ræningjabarónar” – t.d.  John D. RockefellerAndrew W. MellonAndrew CarnegieHenry FlaglerHenry H. RogersJ. P. MorganLeland StanfordCharles CrockerCornelius Vanderbilt ) réðu ríkjum í atvinnulífi og stjórnmálum öllum. Keyptu stjórnmálamenn og dómara með húð og hári. Keyptu lýðræðið.

Miklum auði fylgja nefnilega mikil pólitísk völd. Framfarahreyfingin í USA (the Progressive Movement) barðist gegn þessu og tókst að ná árangri í að hemja auðræðið tímabundið upp úr aldamótunum 1900 og skattleggja hæstu tekjur meira (sjá hér).

Að því leyti sem íslenskir frjálshyggjumenn sækja hugmyndir sínar til hægri róttæklinga í Bandaríkjunum – og það gera þeir svo sannarlega – þá gætir þessara áhrifa hér á landi (sbr. hér).

Spurningin almennt séð er hversu langt verður hægt að ganga án þess að samfélögin sundrist. Þessu velta fræðimenn erlendis nú fyrir sér í vaxandi mæli.

PS! Hlustið svo á Russel Brand tala um framtíðarsýn sína á BBC (hér).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar