Þriðjudagur 16.4.2013 - 08:50 - FB ummæli ()

Brynjari svarað: Gagnrýni er ekki hatur.

Brynjar Níelsson ber sig illa undan gagnrýni minni á Sjálfstæðisflokkinn og segir hana bera vott um djúpstætt hatur mitt á flokknum.

Ég hef vissulega gagnrýnt flokkinn harkalega. En það er af málefnalegum ástæðum sem hafa ekkert með hatur að gera. Ég hef raunar kosið Sjálfstæðisflokkinn, en ekki eftir 1995. Eftir það fannst mér hann fara verulega afvega, vegna ofuráherslu á harða bandaríska frjálshyggju.

Eftir 1995 stýrðu Sjálfstæðismenn efnahags- og fjármálum þjóðarinnar inn í stærsta bóluhagkerfi heimssögunnar og þaðan í stærsta fjármálahrun sömu sögu. Tjón almennings af hruninu er gríðarlegt og mun taka þjóðina langan tíma að vinna bug á því.

Er þetta ekki gagnrýniverð framvinda?

Á þessari vegferð bjuggu Sjálfstæðismenn hátekju- og stóreignafólki fordæmalaus fríðindi sem leiddi til stóraukins ójafnaðar um leið og lágtekjufólk var skilið eftir. Má ekki gagnrýna það?

Lögð voru peningafæribönd frá Íslandi til erlendra skattaskjóla, þangað sem auður þjóðarinnar streymdi skattfrjáls. Margir sómakærir Sjálfstæðismenn af gamla skólanum voru ekki sáttir við þetta.

Nú er staðan sú, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gert upp við mistök sín, eins og Styrmir Gunnarsson, Vilhjálmur Egilsson og Benedikt Jóhannesson hafa ítrekað, nú síðast fyrir fáum dögum. Sama frjálshyggjutrúboðið ræður ferðinni í flokknum og ætlar engu að breyta – bara gefa í á frjálshyggjutrukknum, ef eitthvað er.

Fyrir komandi kosningar býður Sjálfstæðisflokkurinn svo uppá vúdú-hagfræði sem keyrir um þverbak. Flokkurinn boðar miklar skattalækkanir sem hann segir að muni stórauka skatttekjur ríkissjóðs – með töfrabrögðum sem hvergi hafa verið framkvæmd.

Það er í fínu lagi að boða skattalækkanir, en þá eiga menn að segja hvað verður skorið niður í opinberum útgjöldum, hvar í velferðarkerfinu verður dregið saman. Staða ríkisfjármálanna er viðkvæm eftir hrunadansinn og ekki á skuldirnar bætandi.

Um 90% af skattalækkunum Bush-stjórnarinnar í BNA fóru beint á hallareikning ríkisins og eiga sinn þátt í viðvarandi fjárlagahalla og skuldavanda þar á bæ. Einungis um 10% af þessum skattalækkunum skiluðu sér í örvun hagkerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn gerir ekki bara ráð fyrir að allar skatttekjur ríkisins haldi sér (100%) heldur aukist tekjurnar um allt að helming til viðbótar (með 200% örvunaráhrifum)!

Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum halda að helmings lækkun skatta geti skilað sér í tvöföldum skatttekna! Þetta er fordæmalaust fleipur – jafnvel í heimi vúdú-hagfræðinnar!

Til viðbótar er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hugsar skattalækkanir sínar þannig að þær nýtist hátekjuhópum best. Aflagning auðlegðarskattsins er þeim efst í huga (sjá t.d athyglisverða umræðu um skattamál í þættinum Stóru málin: Skattarnir á Stöð 2, sem ég tók þátt í).

Svo boða áhrifamenn í flokknum „hreinsanir“ hjá RÚV og í opinberu stjórnsýslunni!

Er það virkilega undrunarefni að Sjálfstæðisflokkurinn sæti gagnrýni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 15.4.2013 - 08:47 - FB ummæli ()

Röng áhersla Samfylkingar

Ég er svolítið hissa á því hvernig forysta Samfylkingarinnar hefur lagt upp kosningabaráttu sína. ESB-málið er í of stóru hlutverki.

Samfylkingin leiddi ríkisstjórn sem tók við erfiðasta búi lýðveldistímans, í kjölfar frjálshyggjuhrunsins. Halli á ríkisbúskapnum var um 14,5% af landsframleiðslu í lok árs 2008 og kaupmáttur heimilanna hafði hrunið um hátt í 20% áður en stjórnin tók við.

Atvinnuleysi var í byrjun árs 2009 orðið hærra en nokkru sinni fyrr á lýðveldistímanum. Fjármálakerfið var í rúst og verðbólga hleypti upp skuldum heimilanna. Þjóðargjaldþrot og upplausn blasti við.

Samfylkingunni tókst að halda ríkisstjórninni saman, þrátt fyrir fordæmalausa erfiðleika og hörðustu stjórnarandstöðu sem sést hefur í áratugi. Með því sýndi Samfylkingin að hún er mjög vel stjórntækur flokkur.

Það tókst líka að hlífa tekjulægstu hópunum við verstu afleiðingum hrunsins, í anda norrænnar velferðarstefnu. Auðvitað hefðu margir viljað að meira hefði verið gert fyrir heimilin, en þar náðist mikilvægur árangur um leið og ríkisfjármálunum var komið í lag og þjóðargjaldþroti afstýrt.

Erlendis er eftir þessum árangri tekið og stjórnvöldum hælt. Atvinnuleysi á Íslandi er nú rétt um helmingur af því sem mest varð fljótlega eftir hrunið. Það er mun betri útkoma en hjá öðrum kreppuþjóðum í Evrópu.

Í kosningabaráttu Samfylkingarinnar sýnist mér að þetta mikilvæga innlegg sé varla nefnt og nær einungis talað um Evrópusambandsaðild.

Formaður og varaformaður Samfylkingarinnar eru ágætir talsmenn en ef þau hafa fátt annað að segja við heimilin nú en að við gætum hugsanlega fengið Evru sem fullgild ESB-þjóð eftir 5-10 ár, þá munu þau ekki uppskera eins og þau verðskulda.

ESB-málið er ekki svo ofarlega á bráðalista heimilanna. Skuldir, heilbrigðismál og kjaramál eru mun ofar.

Samfylkingin ætti að víkka sjónarhorn sitt út og skýra betur fyrir kjósendum hvernig velferðarstefna þeirra getur byggt ofaná þann árangur sem náðst hefur og hvernig vaxandi svigrúm til kjarabóta megi nýta fyrir heimilin. Svara þarf kalli heimilanna eftir kjarabótum, léttari skuldabyrði og sanngirni. Einnig mætti tala um hinn góða árangur af fækkun atvinnulausra og nýsköpun.

Þá ætti Samfylkingin að styðja þann ásetning Framsóknar að leita leiða til að nýta hluta af krónueignum erlendra kröfuhafa bankanna til skuldalækkunar heimila, með einum eða öðrum hætti – ef það skyldi reynast mögulegt. Slíkur ásetningur er mikilvægur og sjálfsagt að kanna hann til þrautar. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur raunar reifað slíka hugsun.

Loks þarf Samfylkingin að slaka á kröfunni um ESB-aðild. Allir vita að Samfylkingin er ötull talsmaður ESB aðildar. Það þarf ekki að kynna frekar en orðið er. Samfylkingin sem 10-15% flokkur mun hins vegar ekki gera nein kraftaverk sem koma Íslandi inn í ESB á næsta kjörtímabili.

Þess vegna þarf Samfylkingin að stilla herfræði sína inná það markmið að halda málinu lifandi, svo þann valkost megi kanna til þrautar.

Samfylkingin þarf þess vegna að búa sig undir að samþykkja að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna eftir kosningarnar. Þjóðin mun væntanlega samþykkja lúkningu viðræðnanna í slíkri kosningu og þá hefur umboð málsins orðið sterkara. Án sterkara umboðs en felst í núverandi fylgiskönnunum er hætt við að þjóðin fái ekki að vita fyrr en eftir mjög langan tíma hvað gæti falist í aðild.

Það er leiðinlegt að sjá stjórnmálaflokkum refsað harkalega þrátt fyrir að þeir hafi staðið sig vel í óvenju erfiðum aðstæðum. Slík eru þó oft örlög þeirra sem stjórna í kreppu, hvað þá alvarlegustu kreppu lýðveldisins. Þetta á bæði við um Samfylkinguna og VG.

Breytt áhersla í velferðar- og atvinnumálum og aukinn sveigjanleiki í ESB-málinu gæti styrkt stöðu Samfylkingarinnar á næstu tveimur vikum. VG gæti notið sígandi lukku með nýjum geðþekkum formanni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 13.4.2013 - 22:52 - FB ummæli ()

Reiknivillan í kosningastefnu Sjálfstæðisflokks

Kjarninn í kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins er mikil lækkun skatta.

Loforð þeirra um skattalækkanirnar nema um 100 milljörðum eða meira, skv. lauslegu mati.

Svo segja þeir að skattalækkanir þeirra muni skapa stórauknar tekjur ríkissjóðs – eins og hendi verði veifað! Þær auknu tekjur muni duga til að greiða fyrir önnur kosningaloforð og einnig til að greiða niður skuldir ríkissjóðs!

Þessa speki byggir Sjálfstæðisflokkurinn á línuriti sem Hannes Hólmsteinn lét teikna fyrir sig og átti að sýna, að þegar skattaálagning á fyrirtæki var lækkuð úr 50% í 30% þá hafi skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum nærri tvöfaldast (sjá hér bls. 2 og hér).

Það væri auðvitað galdur ef hægt væri í reynd að lækkað skatta um helming en samt nærri tvöfalda skatttekjur ríkisins! Þeir sem það gætu færu létt með að byggja eilífðarvél – ja eða að láta vatn renna uppímóti!

 

Reiknivilla Hannesar Hólmsteins

Sú niðurstaða að skattalækkun myndi stórauka skatttekjur ríkisins fékkst hins vegar með alvarlegri reiknivillu Hannesar Hólmsteins. Hann reiknaði einungis álagningarhlutfallið en gleymdi að taka frádráttarliðina inn í dæmið. Það breytir öllu um raunverulega skattbyrði.

Vita ekki allir aðrir en Hannes Hólmsteinn og félagar að það sem einstaklingar og fyrirtæki greiða í skatta ræðst bæði af álagningu og frádráttarliðum? Menn sjá þetta auðvitað á skattframtali sínu…

Eins og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa sýnt þá var þrengt mjög að frádráttarliðum í tekjuskatti fyrirtækja um leið og álagningarhlutfallið var lækkað úr 50% í 30% á tímabilinu 1990 til 2000 (sjá hér). Vegna minnkunar frádráttarliða jókst raunveruleg skattbyrði í reynd úr 24% í 27% af hagnaði, í stað þess að lækka.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir tölur Samtaka atvinnulífsins (SA) um raunverulega skattbyrði og álagningarhlutfall í tekjuskatti fyrirtækja.

Tekjuskattur fyrirtækja 1990-2000

Skattalækkunin sem í reynd var skattahækkun! Tekjuskattbyrði fyrirtækja frá 1990 til 2000, skv. mati Samtaka atvinnulífsins (sjá hér).

 

Þegar tekið er tillit til frádráttarliðanna þá kemur í ljós að skattalækkunin sem Hannes Hólmsteinn og félagar flögguðu var í reynd skattahækkun, eins og útreikningar SA sýna.

Þegar álagningarhlutfall tekjuskattsins var 50% árið 1990 greiddu fyrirtæki í reynd um 24% af hagnaði sínum í tekjuskatt, að teknu tilliti til frádráttarheimilda, en þegar álagningin var komin niður í 30% var raunveruleg skattbyrði um 27%.

Yfirsjón Hannesar Hólmsteins og félaga snéri útkomunni á haus! “Skattalækkunin” var í reynd skattahækkun.

Þess vegna jukust tekjur ríkissjóðs og einnig vegna hagsveiflunnar, með auknum hagvexti frá 1995 (sjá nánar hér). Engin vúdú-áhrif Laffers komu þar við sögu.

Það sama gerðist í tekjuskatti einstaklinga. Álagningin þar var lækkuð en persónufrádrátturinn/skattleysismörkin rýrð verulega svo fólk greiddi skatt af sífellt stærri hluta teknanna. Þannig jukust tekjur ríkissjóðs – ekki vegna neinna vúdú-áhrifa heldur með beinni stækkun skattstofnsins (sjá hér og hér).

Línurit Hannesar var ekki bara sett fram á villandi hátt og með skökkum tölum (sjá hér). Það var einnig byggt á risastórri reiknivillu. Hannes gleymdi að taka frádráttarliðina inn í dæmið og snéri niðurstöðunni á haus!

 

Frjálshyggjumenn plata Sjálfstæðisflokkinn – einu sinni enn!

Og nú hefur sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn byggt kosningastefnu sína á þessari reiknivillu frjálshyggjumanna. Sjálfstæðismenn halda að stórlækkun skatta muni leiða til stóraukinna skatttekna ríkissjóðs! Kanski er það stærsta blekking íslenskrar stjórnmálasögu.

Niðurstaðan verður sú, ef þessi stefna verður framkvæmd, að halli á ríkissjóði mun verða gríðarlegur og leiða til aukinnar skuldasöfnunar eða mikils niðurskurðar á velferðarkerfinu.

Ég efast um að nokkur hægri flokkur í Evrópu myndi byggja kosningastefnu sína á svo villtri útfærslu á vúdú-hagfræði Arthurs Laffers. Repúblikanar í Bandaríkjunum gera það hins vegar, en þó á mun hóflegri hátt en er í þessari hlægilegu íslensku vúdú-hagfræði.

Frægar skattalækkanir Bush-stjórnarinnar í USA skiluðu einungis um 10% örvunaráhrifum í efnahagslífinu en 90% þeirra bættust við hallann á ríkisbúskapnum – þær misheppnuðust með öllu og juku skuldir ríkisins (sjá hér).  Hátekjufólk fékk hins vegar kjarabætur af þessum skattalækkunum – á kostnað ríkissjóðs og velferðarkerfisins.

Sjálfstæðisflokkurinn lét Hannes Hólmstein plata sig upp úr skónum! Enginn annar flokkur mun semja við þá um slíkt prógram að loknum kosningum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.4.2013 - 14:58 - FB ummæli ()

Framsókn er vandinn – ekki Bjarni Ben.

Það er mikið fát á Sjálfstæðismönnum núna á lokaspretti kosningabaráttunnar.

Undirróðursmenn í flokknum létu gera könnun til að þröngva Bjarna Benediktssyni til að segja af sér formennsku.

Forsenda þessa alls er sú tilgáta, að slakt gengi Sjálfstæðisflokks í könnunum sé vegna vantrausts á formanninum. En þá gleyma menn því að Bjarni var formaður í desember og janúar þegar fylgi flokksins var vel yfir 30%.

Gerðist eitthvað nýtt í málum Bjarna Ben. í febrúar og mars sem varð til þess að traustið á honum gufaði upp?  Nei! Það sem er nýtt er allt annað.

Það nýja er að Framsókn fékk vind í seglin með Icesave-dómnum og vænlegum kosningaloforðum, sem urðu trúverðug vegna staðfestu Framsóknar í skuldamálum heimilanna á kjörtímabilinu.

Hitt nýmælið var landsfundur Sjálfstæðisflokks þar sem mótuð var kosningastefnan. Er þá eitthvað að stefnu Sjálfstæðisflokksins?

Jú, það er mikið að henni. Þeir komu fram eftir landsfundinn, sem var stórlega misheppnaður, með loforð sem flestir landsmenn sjá í gegnum.

Þeir lofa miklum skattalækkunum en segja jafnframt að skattalækkanirnar muni auka tekjur ríkissjóðs stórlega! Með slíkum vúdú-brellum segjast þeir svo ætla að gera ýmsa góða hluti!

Almenningur sér að þetta gengur ekki upp og að skattalækkanirnar eru fyrst og fremst hugsaðar fyrir hátekjufólk. Skattalækkanirnar munu svo leiða til mikils niðurskurðar á velferðarkerfinu. En fólk vill ekki meiri niðurskurð í heilbrigðisþjónustu og skólum.

Afleikur í Evrópusambandsmálinu á landsfundinum bætti svo um betur. Ætli undirróðursmennirnir sjálfir hafi ekki átt sinn þátt í því að landsfundurinn misheppnaðist?

Hanna Birna Kristjánsdóttir er með sömu stefnuna og hún stendur fyrir sömu frjálshyggju-pólitíkina og Bjarni. Hún breytir því engu um stefnu flokksins.

Það er því slæm stefna Sjálfstæðisflokksins og aðlaðandi stefna Framsóknar sem einkum skýrir fylgistap Sjálfstæðisflokksins, en ekki persóna Bjarna Benediktssonar.

Bjarni er bakarinn sem hengdur verður fyrir smiðinn – ef undirróðursmenn innan flokksins ná markmiði sínu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 10.4.2013 - 23:57 - FB ummæli ()

Velferðarríkið frelsar fólk úr fátækt

Það hefur lengi verið þekkt að fátækt er með allra minnsta móti í norrænu samfélögunum. Það er ekki vegna þess að þau séu ríkustu samfélög jarðarinnar eða mestu frjálshyggjusamfélögin, heldur vegna þess að þau eru með öflug og skilvirk velferðarkerfi.

Bandaríkin eru með rúmlega fjórum sinnum stærri hluta barna sem búa við fátækt en norrænu þjóðirnar. Rúmlega 20% barna í USA eru undir fátæktarmörkum en um 4-5% barna á Norðurlöndum. Samt eru Bandaríkin með hærri þjóðarframleiðslu á mann, þ.e. þau eru ríkari samfélag en norrænu samfélögin, að Noregi undanskildum.

Á myndinni hér að neðan má sjá að í vestrænum samfélögum þar sem velferðarríkið er viðameira þar er fátækt almennt minni. Sambandið er sterkt og skýrt.*

 

Slide2

 

Norrænu velferðarríkin eru í senn öflug og tryggja góð og örlát réttindi, sem eru vel til þess fallin að lyfta fólki upp úr fátækt. Þau eru þó ekki dýrustu velferðarríki Vesturlanda.

Útkoman er sú, að norrænu velferðarríkin og önnur öflug velferðarríki ná miklum árangri í að frelsa fólk úr fátækt.

Velferðarríkið er þar með mikilvæg uppspretta frelsis, því fátækt fólk er ófrjálsasta fólkið í markaðssamfélögum nútímans. Hefur fæsta valkosti vegna lítils kaupmáttar.

Rík markaðssamfélög, eins og t.d. Bandaríkin, sem ekki búa að öflugu velferðarríki halda miklu stærri hluta íbúa sinna í fátækt og ófrelsi, bæði börnum og fullorðnum.

Velferðarríkið er því mikilvægasta verkfæri nútímans til að draga úr fátækt og bæta þar með samfélögin á marga vegu. Með fækkun fátækra batnar heilsufar þjóða, menntastig hækkar, úr afbrotum dregur og þjóðin verður ánægðari með líf sitt (óánægðum fækkar).

Samfélagið virkar betur að mörgu leyti – fyrir tilstilli velferðarríkisins.

 _____________________________________

  • Einar Steingrímsson stærðfræðiprófessor hefur réttilega varað við túlkunum á einföldum fylgnisamböndum, eins og því sem hér er sýnt milli velferðarútgjalda og fátæktar. Hann segir að ekki sé nóg að sýna fylgni heldur þurfi einnig að útlista orsakasambandið. Það er hárrétt hjá honum. Það er hins vegar auðvelt að sýna hvernig velferðarkerfið dregur úr fátækt. Hið opinbera skattleggur hærri tekjuhópa samfélagsins meira og flytur tekjurnar sem þannig aflast í gengum prógröm velferðarkerfisins til lægri tekjuhópa, mest til þeirra fátækustu. Þannig er þeim lyft ofar í tekjustigann, upp fyrir fátæktarmörk.
  • Þetta er líka hægt að sýna með samanburði á umfangi fátæktar áður en tekjutilfærslur velferðarkerfisins koma til og eftir að þær leggjast við tekjur fátækra. Án velferðarkerfanna í Evrópu byggju víða um þrisvar sinnum fleiri í fátækt en nú er. Sjá nánar um þetta t.d. í OECD (2011), Divided we stand og bókina Rich Democracies, Poor People.
  • Gögnin á myndinni koma frá OECD.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.4.2013 - 09:19 - FB ummæli ()

Heilbrigðiskerfi í hættu

Það var mikilvæg áminning sem Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir, veitti stjórnmálamönnum í síðustu viku. Hann sagði heilbrigðiskerfið í hættu, vegna mikils niðurskurðar.

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun heilbrigðisútgjaldanna sem hlutfalls af landsframleiðslu, frá 2000 til 2011 (tölurnar koma frá Hagstofu Íslands).

Heilbr.útgjöld hlutfall

Hér má sjá að niðurskurður heilbrigðisútgjalda hófst 2004 og drógust þau afturúr landsframleiðslunni til 2007, með viðvarandi sparnaði og hagræðingu alveg fram að hruni.

Eftir hrun þrengdi svo verulega að heilbrigðisþjónustunni til viðbótar, því tekjutilfærslur til heimilanna voru settar í forgang, t.d. aukning vaxtabóta.

Niðurskurðurinn er inn að beini og heilbrigðisþjónustan hefur látið á sjá, eins og Sigurður Guðmundsson og fleiri talsmenn lækna hafa sagt.

Í því samhengi er athyglisvert að það eru helst stjórnarflokkarnir sem lofa nú auknum útgjöldum til heilbrigðismála og hafa þegar sett umtalsvert aukið fé til tækjakaupa á þessu ári.

Stjórnarflokkarnir hafa einnig látið hanna nýjan Landspítala og þegar sett byggingu hans í farveg.

Sjálfstæðisflokkur lofar hins vegar engum auknum útgjöldum til heilbrigðismálanna, heldur tala þeir um breytta forgangsröðun og aukinn einkarekstur í kosningastefnuskrá sinni.

Þeirra kosningaloforð snúa öll að mikilli lækkun skatta, mest til hátekjufólks og fyrirtækja. Sú stefna mun leiða til mikils niðurskurðar til viðbótar, því tekjur ríkisins munu minnka með slíkum skattalækkunum.

Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að skera enn frekar niður í heilbrigisþjónustunni og einkavæða hana að hluta, ef hann kemst til valda?

Ætlar Sjálftæðisflokkurinn að stöðva byggingu nýja Landsspítalans?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.4.2013 - 12:01 - FB ummæli ()

Paul Krugman styður leið Framsóknar

Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og dálkahöfundur New York Times, hefur lagt mikla áherslu á stefnu í anda John Meynard Keynes til að lyfta þjóðum upp úr kreppunni.

Megininntak þeirrar stefnu er að auka kaupmátt almennings til að koma efnahagslífinu í góða uppsveiflu á ný – auka eftirspurn neytenda. Ríkisvaldið þarf að leika lykilhlutverk í þessu og fjölga störfum, lækka skuldir heimila og almennt örva efnahagsstarfsemina. Krugman hefur líka mælt með hækkun launa, ekki síst hjá lægri og milli tekjuhópum. Þessi stefna reyndist vel í stjórnartíð F. D. Roosevelts í Kreppunni miklu.

Á síðasta ári gaf Krugman út bókina End This Depression Now, þar sem hann útfærir þessa stefnu sem vænlegri leið út úr kreppunni en þau niðurskurðar-sjónarmið sem ríkjandi eru, bæði í Bandaríkjunum og enn frekar í Evrópu.

Að koma þróttmiklum vexti á flug er mikilvægast – með auknum kaupmætti heimilanna.

Núverandi ríkisstjórn hefur að mörgu leyti fylgt stefnu Krugmans og Keynes í viðbrögðum við kreppunni (sem er í takti við norræna velferðarstefnu). Enda hefur Krugman sagt margt jákvætt um árangur Íslendinga í baráttunni við kreppuna.

Að vísu má segja að ekki hafi nógu mikið verið gert fyrir heimilin og batinn sé því of hægur. Afsökunin fyrir því er auðvitað sú, að vandi ríkisfjármálanna var yfirþyrmandi í upphafi stjórnartímans, en ef til vill hefði mátt stilla kompásinn betur.

Sú áhersla Framsóknarflokksins að láta nú skuldalækkun heimila í forgang er ágætlega í anda þeirrar stefnu sem Krugman boðar. Sú útfærsla sem Sigmundur Davíð hefur kynnt, að nýta hluta af fé erlendra kröfuhafa til skuldalækkunar heimila, er raunar enn betri en Krugman boðar, því hún þarf ekki að auka skuldir hins opinbera – ef hægt verður að framkvæma hana eins og sagt er.

Krugman myndi jafnvel réttlæta skuldalækkun til heimila þó það legðist á skuldareikning ríkisins. Hann hefur samt lagt höfuðáherslu á að hjálpa frekar þeim heimilum sem eru í neikvæðri eiginfjárstöðu (með hærri skuldir en eignir) og almennt þeim sem eru í meiri þrengingum (það er líka ódýrara).

Leið 110% skuldaaðlögunar er svo sem í þeim anda, nema hvað Krugman væri líklega að tala um samsvarandi 90% leið, sem þýðir að gefa meira í pakkann en hér var gert. Enda voru afskriftir vegna 110% leiðarinnar ekki nema um 50 milljarðar. Meira kom úr gengislánadómunum og miklu meira var afskrifað af fyrirtækjunum.

Útfærslur geta auðvitað verið ýmsar, bæði á niðurfærslu skulda heimila og fjármögnun hennar.

Rök Krugmans fyrir niðurfærslu skulda heimilanna er einkum í anda Keynes: að örva efnahagslífið með auknum kaupmætti heimilanna. Létta þeim skuldabyrðina svo þau geti aukið neysluna með jákvæðum áhrifum fyrir efnahagsstarfsemina, störfin og hagvöxtinn.

Sú leið sem Sjálfstæðisflokkur boðar, róttækar skattalækkanir (mest til hátekjuhópa), mun hins vegar leiða til halla á ríkisbúskapnum sem síðan fer beint í niðurskurð opinberra velferðarútgjalda. Það myndi hægja á hagvextinum og auka atvinnuleysi á ný. Krugman og AGS vara við of miklum niðurskurði vegna hættu á dýpkun kreppunnar.

Furðulegt er að núverandi ríkisstjórnarflokkar skuli ekki hafa tekið betur í hugmyndir Framsóknarmanna, því þær eru ágætt framhald þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt. Nú er svigrúmið líka að batna með árangri í ríkisfjármálunum.

Vilja hinir miðju og vinstri flokkarnir ekki vinna með Framsókn að þessu ágæta markmiði?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 6.4.2013 - 12:16 - FB ummæli ()

Hagur heimila skánar – en of rólega þó

Hagstofan birti í gær niðurstöður nýrrar lífskjarakönnunar, þar sem spurt var um erfiðleika við að láta enda ná saman í fjárhag heimilanna. Niðurstöður eru athyglisverðar.

Á myndinni hér að neðan má sjá hlutfall heimila sem annars vegar segjast eiga “mjög erfitt” með að láta enda ná saman og hins vegar þá sem segja það “erfitt eða frekar erfitt”.

Myndin sýnir bata árið 2011 og 2012, en hægan þó. Þeir sem eiga við mesta erfiðleika að glíma voru 13,7% árið 2010 en hafði fækkað í 11,5% heimila árið 2012. Þeir sem segja “erfitt eða nokkuð erfitt” lækkuðu úr 38,4% árið 2011 í 36,7% 2012.

Fjárhagsþrengingar heimila 2012

 

Þetta er alvöru bati – en varla nóg. Mótvægisaðgerðir gegn skuldavanda, fátækt og atvinnuleysi hafa hjálpað til, en betur má ef duga skal.

Annað sem athygli vekur er að ef við berum saman árin 2012 og 2004 þá er útkoman svipuð. Einungis lítillega fleiri eru í miklum vanda núna, en vandinn sem undan er kvartað nú er þó í mörgum tilvikum stærri (þar sem saman fer skuldavandi, minni kaumáttur launa og atvinnuleysi).

Hvers vegna var þetta mikill vandi á árinu 2004, í miðju “góðærinu”? Jú, þá hafði þrengt nokkuð að lágtekjufólki (lífeyrisþegum, barnafjölskyldum og láglaunafólki), ekki síst vegna skatta- og bótastefnu Sjálfstæðisflokksins.

Annað sem myndin segir er að kjarabati bóluhagkerfisins (2005-2007) er horfinn.

Þar eð vanskil húsnæðislána hafa ekki minnkað frá 2010 er ljóst að vandinn sem fylgir verðtryggðu lánunum er enn alvarlegur. Þetta kemur líka fram í könnun Hagstofunnar. Og þá eru ótalin neikvæð áhrif skuldaklafa heimilanna á hagvaxtargetu þjóðarbúsins.

Þarna eru því enn mikilvæg verk að vinna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 4.4.2013 - 11:07 - FB ummæli ()

Hættuleg stefna Sjálfstæðisflokks?

Ég hef undanfarið skrifað lítillega um þær blekkingar sem frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum boða í anda vúdú-hagfræði Arthurs Laffers, í útfærslu Hannesar Hólmsteins (sjá hér og hér og hér).

Eftir þessar athuganir tel ég ástæðu til að óttast að kosningastefna Sjálfstæðisflokksins, eins og hún er kynnt, geti stefnt ríkisfjármálunum í voða og leitt í kjölfarið til verulegs niðurskurðar á velferðarkerfinu, með alvarlegum afleiðingum fyrir samfélagsgerðina. Stefnan er einnig líkleg til að dýpka kreppuna á ný.

 

Frá miklum skattalækkunum til halla og niðurskurðar

Hannes Hólmsteinn og félagar halda þeirri firru að fólki að hægt sé að lækka skatta stórlega en samt muni tekjur ríkisins allt að því tvöfaldast! Óvíða í heiminum má finna jafn róttæka og óraunsæa útfærslu af vúdú-hagfræði Laffers!

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt þessari göróttu speki í kosningastefnuskrá sinni. Þeir bjóða viðamiklar skattalækkanir (mest til hátekjufólks), í blandi við aukin útgjöld og niðurgreiðslu ríkisskulda. Slíkt hefur aldrei gengið upp.

Um leið segjast þeir ekki ætla að sætta sig við annað en jöfnuð í ríkisfjármálum. Tekjur og útgjöld þurfa þá að vera jöfn. Raunar þurfa tekjur að vera hærri en útgjöld ef greiða á niður ríkisskuldir.

Það er öruggt að með slíkum skattalækkunum sem lofað er, upp á meira en eitt hundrað milljarða,  mun strax verða mikill halli á ríkisfjármálunum á ný, jafnvel þó skattalækkanir gætu veitt einhverja örvun í efnahagslífið. Áætlun AGS og stjórnvalda sem er að komast í höfn færi í loft upp!

Ef ekki á þá að auka ríkisskuldir og vaxtagjöld blasir við að Sjálfstæðismenn munu grípa til mikils niðurskurðar á opinberum útgjöldum, fái þeir tækifæri til að framkvæma þessa stefnu. Það hafa þeir líka sagt áður (t.d. hér). Stærstu útgjaldaliðir eru almannatryggingar (lífeyrir og bætur til aldraðra, öryrkja og  ungra barnafjölskyldna), heilbrigðismál og menntun. Þó lofa þeir auknum útgjöldum til lífeyrisþega.

Menn sjá þá í hendi sér hvað myndi gerast í heilbrigðiskerfinu og skólunum, þar sem þegar hefur verið skorið að beini! Og í opinberum framkvæmdum. Kreppan í heilbrigisþjónustunni, sem fyrrverandi landlæknir hefur rætt um í fjölmiðlum undanfarið, myndi magnast stórlega. Nýi Landsspítalinn yrði settur á ís.

Það er í góðu lagi að berjast fyrir skattalækkunum, en þá eiga menn að hafa bein í nefinu til að segja hvað verður skorið niður í staðinn, því tekjur ríkisins munu minnka. Það eru óheilindi að segja fólki að í senn sé hægt að lækka skatta og stórauka skatttekjur, með töfrabrögðum.

 

Niðurskurður í kreppu dýpkar vandann

En þetta er ekki allt. Eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fylgjendur hagfræði John M. Keynes sýna (Krugman, Stiglitz, Blanchard, Roemer, Skidelsky, Bartlett, o.m.fl.), þá er mikill niðurskurður í kreppu hættulegur, því hann leiðir til enn meiri samdráttar í hagvexti, aukins atvinnuleysis og minni fjárfestingar. Svo getur orðið vítahringur niðurskurðar og samdráttar í framhaldinu (sjá hér).

Þetta er m.a. reynslan frá Spáni og Bretlandi, þar sem hægri menn stjórna í anda niðurskurðarstefnunnar. Svipuð niðurskurðarstefna er rekin á Írlandi, þó þar séu miðjumenn við völd. Þessum þjóðum gengur mun verr en Íslendingum að komast út úr kreppunni (sbr. þróun hagvaxtar og atvinnuleysis).

Með stórfelldum skattalækkunum er ríkisfjármálunum þannig stefnt í voða, í skjóli vúdú-hagfræðinnar. Hættan á miklum niðurskurði í velferðarmálum er þar með stóraukin. Við slíkar aðstæður myndi kreppan dýpka verulega á ný. Við færum afturábak en ekki áfram.

 

Tækifæri til að rústa velferðarkerfinu?

Kanski er það draumur frjálshyggjumanna í Sjálfstæðisflokknum að nota tækifærið í kreppunni til að rústa velferðarkerfinu. Það er einmitt fátt sem veldur þeim meiri hugarangri en opinbera velferðarkerfið. Þannig hugsa líka Repúblikanar í Teboðshreyfingunni í Bandaríkjunum.

Þeir vilja í staðinn lækka skatta á hátekjufólk og auka frelsi braskara.

En venjulegt Sjálfstæðisfólk sem studdi “gamla Sjálfstæðisflokkinn” hugsar ekki eins og Hannes Hólmsteinn og félagar hans. Það vill umhyggju fyrir þeim sem lakar standa (öldruðum, sjúkum og fötluðum; börnum og ungum foreldrum). Það metur lækna og hjúkrunarfólk mikils, jafnvel þó þau starfi fyrir ríkið. Það metur menntun og menningu – og vestræna samvinnu.

Kanski hófsamt og “gamaldags Sjálfstæðisfólk” sé nú að flýja flokkinn sem frjálshyggjumenn tóku yfir og breyttu í “flokk ríka fólksins”?

Kanski það skynji að í stefnunni sem flokkurinn boðar nú felist ógn við samfélagsgerðina á Íslandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.4.2013 - 08:50 - FB ummæli ()

Kauphækkunin í febrúar fuðrar upp

Hagstofan sendi frá sér mikilvæga frétt fyrir skömmu, um þróun kaupmáttar launa.

Kjarasamningar skiluðu 2,3% meðalhækkum launa í febrúar. Kaupmáttaraukningin er hins vegar einungis 0,7% á sama tíma, frá janúar til febrúar.

Verðhækkanir voru sem sagt búnar að taka tvo þriðju af kauphækkuninni áður en mánuðurinn var liðinn!

Það stefnir því í kaupmáttarskerðingu á árinu 2013. Kjarasamningar verða lausir í nóvember. Spurning hvað gerist þá.

Kaumáttaraukning á árinu 2012 varð nánast engin, en hún hafði verið ágæt á árinu 2011. Þá varð góður hagvöxtur því aukinn kaupmáttur skilar sér í auknum efnahagsumsvifum.

Með hruni krónunnar á árinu 2008 hrundi kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um 20% að meðaltali (minna í lægri tekjuhópum), en 29% ef aukin skuldabyrði er tekin með í dæmið (sjá hér).

Heimilin eru enn með alltof lítinn kaupmátt.

Það er helsta rót óánægjunnar í samfélaginu.

Við þurfum að fá kaupmátt launanna aftur upp eftir kjaraskerðingu hrunsins, með meiri krafti. Fyrirtækin ná sínum hagnaði upp með verðhækkunum – almenningur situr eftir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 31.3.2013 - 11:11 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn byggja á vúdú-brellu Hannesar

Nú er tími kosningaloforðanna. Sjálfstæðismenn eru með lengsta listann og sennilega þann allra óraunhæfasta.

Loforða þeirra virðast geta falið í sér útgjöld (eða lækkaðar tekjur ríkisins) upp á 90-125 milljarða á ári, eða 15-20% af núverandi skatttekjum hins opinbera, skv. lauslegu mati. Það er svipað og hallinn á fjárlögunum var árið 2009, á fyrsta ári eftir bankahrunið.

Samt leggja þeir mikla áherslu á að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum og greiða niður skuldir ríkisins. Þá er spurning hvernig greiða á fyrir loforðin um aukin útgjöld og stórfelldar skattalækkanir. Skoðum það nánar.

Hér er loforðalistinn.

Útgjöld og lækkun tekna:

  • Lækkun tekjuskatts með afnámi fjölþrepaálagningar (lækkar skatta mest hjá hærri tekjuhópum)
  • Lækkun eldsneytisgjalda
  • Lækkun tolla og vörugjalda
  • 20% lækkun höfuðstóls íbúðarlána með skattaafslætti og skattfrjálsum séreignasparnaði (kostar um 60 ma.kr. á ári)
  • Fyrstu íbúðakaup gerð auðveldari með skattalegum sparnaði
  • Stimpilgjöld afnumin
  • Lækkun tryggingagjalda á atvinnulíf
  • Lækkun vörugjalda og skatta á fyrirtæki
  • Arðsemi sjávarútvegs aukin (væntanlega með aflagningu nýja veiðigjaldsins – 10 ma.kr. á ári)
  • Eldri borgarar geti aflað sér atvinnutekna án skerðingar lífeyris
  • Skerðing ríkisstjórnarinnar á grunnlífeyri frá 1. júlí 2009 afturkölluð (3,5 ma.kr. á ári)
  • Aukið fé í “notendastýrða þjónustu” (NPA)
  • Hefja uppbyggingu samgöngukerfisins að nýju
  • Unnið verði að uppbyggingu stofnvega til og frá höfuðborgarsvæðinu
  • Löggæsla efld um land allt og sérstaklega hugað að lögregluembættum á landsbyggðinni
  • Landhelgisgæslan ráði á hverjum tíma yfir nauðsynlegum tækja- og skipakosti
  • Niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs

Engin loforð eru gefin um aukin útgjöld til heilbrigðis- eða menntamála. Sjálfstæðismenn segja að jafnvægi í ríkisfjármálunum sé forsenda stöðugleika. Hvernig á þá að fjármagna nýju útgjöldin og tapaðar tekjur vegna skattalækkana? Hér er það eina sem nefnt er á tekjuhliðinni:

 

Tekjur móti útgjöldum og skattalækkunum:

  • Endurskipulagning og sparnaður í yfirstjórn ríkisins
  • Breytt forgangsröðun
  • Vúdú-brellur Hannesar Hólmsteins um að skattalækkanir skili stórauknum tekjum

Ekki er mikið að hafa í endurskipulagningu og sparnaði í stjórnsýslunni. Þar er þegar búið að fækka ráðuneytum, sameina stofnanir og fækka starfsmönnum um 20% á síðustu 4 árum (sjá hér).

Ef breytt forgangsröðun á að skila auknum tekjum til nýrra útgjalda þýðir það niðurskurð einhvers staðar í núverandi starfsemi (t.d. í almannatryggingum, heilbrigðiskerfi, menntun, framkvæmdum). Það hægir á hagvexti og getur aukið atvinnuleysi, eins og reynslan frá Bretlandi, Spáni og Írlandi sýnir.

Sjálfstæðismenn hafa áður talað um þörfina á mjög miklum niðurskurði opinberra útgjalda (sjá hér og hér). Þeir nefna það hins vegar ekki í kosningastefnuskrá sinni.

Þeir boða nú aðra leið til að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum.

 

Vúdú-brella Hannesar Hólmsteins á að skila tekjunum

Í máli Bjarna Benediktssonar við upphaf kosningabaráttunnar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Silfri Egils kom skýrlega fram að þau gera ráð fyrir að skattalækkanirnar borga fyrir sig sjálfar – með aukinni vinnu þjóðarinnar og auknum hagvexti, sem skili stórauknum tekjum hins opinbera! Eða svo segja þau.

Það á sem sagt að greiða öll hin góðu útgjöld, t.d. skuldalækkun heimilanna, með skattalækkunum! Jafnvel niðurgreiðslu gríðarlegra skulda ríkissjóðs skal greiða með skattalækkunum!

Ég sýndi ítarlega í síðustu grein minni hvernig þessar hugmyndir um risastór Laffer-áhrif eru ískaldar blekkingar eða í besta falli byggðar á misskilningi.

Það er líka reynsludómur sögunnar.

Þegar Reagan-stjórnin í Bandaríkjunum lækkaði skatta umtalsvert eftir 1980 jókst halli á ríkiskassanum og skuldir mögnuðust. Clinton hækkaði svo aftur skatta á hátekjufólk og grynnkaði á skuldunum. Bush yngri lækkaði svo skatta aftur og jók skuldavandann gríðarlega á ný (stríðsrekstur hans og bankabjörgun bættu svo í þá hít).

Fjárhagsvandi bandaríska ríkisins er nú sagður gríðarlegur. Frjálshyggjumaðurinn Alan Greenspan sagði fyrir skömmu að Bandaríkjamenn verði nú að horfast í augu við að þeir hafi ekki efni á hinu hóflega velferðarríki sem þeir búa við. Vegna skuldavandans sem varð til að miklu leyti vegna skattalækkana til ríka fólksins.

Þegar gert er ráð fyrir að hægt sé að stórauka tekjur ríkissjóðs með mikum skattalækkunum (allt að því tvöfalda þær eins og línurit Hannesar bendir til), þá eru menn komnir inn á fagsvið gullgerðarmanna miðaldanna.

Mér sýnist að margir forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi látið Hannes Hólmstein blekkja sig hressilega (sjá t.d. viðræður Björns Bjarnasonar við Hannes um gildi vúdú-hugmyndanna fyrir kosningabaráttuna í þessu myndbandi, byrjið á mínútu 4:45).

Ekki vil ég trúa því að forystumenn Sjálfstæðisflokksins fari fram með slíka stefnu vísvitandi um að þeir stefni fjárhag ríkisins, velferðarkerfinu og fjöreggi þjóðarinnar í voða, ofaná öll kreppuáhrif hrunsins. Sjálfstæðismenn eru almennt ekki slæmt fólk. Ég geri frekar ráð fyrir að þeir trúi vúdú-brellum Hannesar.

Það virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi engu gleymt – og ekkert lært – frá árunum fyrir hrun. Þeir eru enn að synda í hugmyndum Hannesar Hólmsteins um fjármálamiðstöðina sem átti að gera Ísland að ríkasta landi heims. Sú hugmynd var m.a. byggð á miklum skattalækkunum, auknu frelsi á fjármálamarkaði, aukinni einkavæðingu (jafnvel hálendisins, heilbrigðiskerfisins og lífeyrissjóðanna), minni ríkisafskiptum og aukinni bankaleynd.

Fjármálamiðstöð frjálshyggjunnar hrundi eins og spilaborg – til grunna.

Það virðist engu hafa breytt í hugarheimi víkinganna í Valhöll.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 29.3.2013 - 10:49 - FB ummæli ()

Mesta blekking frjálshyggjunnar á Íslandi

Í þessari grein mun ég sýna hvernig íslenskir frjálshyggjumenn hafa blekkt almenning gróflega, með boðskap sínum um möguleika á því að afla ríkinu auknar tekjur með stórfelldum skattalækkunum.

Blekkingarnar voru meðal annars framkvæmdar með villandi framsetningu á tölum um samband milli skattalækkana og aukinna tekna af tekjuskatti fyrirtækja, sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson birti fyrstur og hefur síðan margítrekað.

Bæði var beitt brellum við gerð áhrifamikils línurits sem notað hefur verið og horft framhjá raunverulegum áhrifum á skil skatttekna, svo sem augljósum áhrifum af hagsveiflunni og breikkun skattstofnsins.

Hannes og félagar fullyrða að skattalækkanir hafi haft þau áhrif að auka vinnuframlag fólks sem svo skilaði sér í auknum hagvexti og meiri skattgreiðslum af auknum umsvifum, sem aukið vinnuframlag átti að hafa skapað. Ekkert slíkt samband finnst hins vegar milli skattahlutfalls í tekjuskatti og vinnuframlags einstaklinga eftir 1990 á Íslandi (sjá hér).

Sjálfsagt er að berjast fyrir lækkun skatta á Íslandi, en það eru blekkingar að halda því fram að með skattalækkunum aukist skatttekjur hins opinbera. Skatttekjurnar lækka í kjölfar umtalsverðra skattalækkana, jafnvel þó þær geti örvað efnahagslífið lítillega.

 

Laffer áhrifin á Íslandi

Óvíða hafa menn gengið lengra á vit vúdú-hagfræða frjálshyggjunnar en á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hannes Hólmsteinn hefur verið helsti talsmaður þeirrar speki og sækir hann hugmyndir sínar til Arthurs Laffers.

Laffer kom hingað, eins og menn muna, skömmu fyrir hrun og sagði þá að í íslensku fjármála- og efnahagslífi væri allt í eins góðu ástandi og hugsast gæti. Hannes og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sögðu við það tækifæri að Ísland væri sönnun þess að kenningar Laffers virkuðu.

Svo kom hrunið – og afsannaði allt! Eða svo hefði mátt ætla.

En frjálshyggjumenn hafa hvergi gefið eftir og flagga hagspeki Laffers sem aldrei fyrr. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í reynd byggt núverandi kosningastefnu sína á hugmynd Laffers um að hægt sé að lækka skatta mikið og halda sömu skatttekjum ríkissjóðs – ef ekki bara auka þær stórlega.

Þetta er sem sagt hugmynd um að skattalækkanir borgi fyrir sig sjálfar. Hugmyndin á í reynd meira skylt við gullgerðarlist miðalda en reynsluvísindi nútímans. Þess vegna var þessari speki Laffers réttilega valið heitið “vúdú-hagfræði” af fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, George Bush eldri.

 

Vúdú-brella Hannesar Hólmsteins

Áhrifamesta „mynd“ Laffer-áhrifa í íslensku samhengi kom frá Hannesi Hólmsteini og átti að sýna að þegar skattaálögur á fyrirtæki voru lækkaðar á tímabilinu frá 1985 til 2003 þá hefðu skatttekjur af þeim stóraukist, eða nærri tvöfaldast.

Þetta sýndi Hannes á línuritinu hér að neðan, sem margir virðast hafa tekið mark á.

HHG mynd

Það er hins vegar margt rangt og villandi við þetta línurit. Eftirfarandi eru helstu athugasemdir sem gera þarf:

  • Það er hagsveiflan sem skýrir stóran hluta breytinga á skatttekjum af fyrirtækjum, en ekki álagningarhlutfall tekjuskattsins eitt og sér.
  • Fyrirtæki greiða tekjuskatt af hagnaði sínum. Munurinn á skatttekjum af fyrirtækjum fyrir og eftir 1995 liggur m.a. í því, að árin fyrir 1995 (1988-1994) voru kreppuár, með samdrætti og stöðnun hagvaxtar á víxl. Afkoma fyrirtækja var lök og tekjuskattgreiðslur þeirra voru því minni en í góðæri. Frá og með 1995 hófst ágætt hagvaxtarskeið og afkoma fyrirtækja batnaði og þau greiddu þá meira í tekjuskatt, óháð því að álagningarhlutfallið lækkaði.
  • Skattgreiðslur ráðast hins vegar ekki einungis af álagningarhlutfallinu heldur einnig af frádráttarliðum. Í umfjöllunum um Laffer-áhrif er nær aldrei talað um frádrætti, bara álagningarhlutföll. Helmingi sögunnar er sleppt!
  • Samtök atvinnulífsins (SA) hafa sýnt að samhliða öllum lækkunum á álagningarhlutfalli tekjuskatts fyrirtækja á þessum tíma var skattstofn þeirra breikkaður, með lækkun og niðurfellingum gildra frádráttarliða (sjá hér). Í reynd hækkaði raunskattlagning fyrirtækja frá 1990 til 2000 ef tekið er tillit til minnkandi heimilda til frádráttar, að mati SA. Rýrnun frádráttarliða (stækkun skattstofns) vóg meira en lækkun álagningarinnar.
  • Skattlagning fyrirtækja breytti þannig einkum um form og hækkaði frekar en að lækka í reynd, segja Samtök atvinnulífsins á vef sínum.
  • Einnig benda Samtök atvinnulífsins á að lækkun tekjuskattsálagningar hafi verið að hluta aðlögun að minni verðbólgu eftir 1990 (tekjuskattur var greiddur eftirá af tekjum fyrra árs og með minni verðbólgu gat skatthlutfallið verið lægra en samt skilað sömu rauntekjum).
  • Línuritið sem Hannes birti, og sem talsmenn hans (Birgir Þór Runólfsson og Skafti Harðarson) hafa einnig birt mörgum sinnum, er þar að auki sett fram á mjög villandi hátt og ýkir stórlega tekjumuninn milli tímabilanna fyrir og eftir 1995. Kvarðarnir á báðum ásum byrja langt fyrir ofan núllstöðu og er þeim beinlínis hagrætt til að magna upp sýndaráhrif. Þá eru valin stök ár (með fimm ára millibili og einu þriggja ára bili), sem einnig villir um fyrir fólki (sjá ítarlegri mynd í viðauka hér að neðan).
  • Þar að auki eru tölurnar sem Hannes notar fyrir skatttekjur af fyrirtækjum fyrir árin 2000 og 2003 beinlínis rangar, sem einnig ýkir sambandið.

Þarna eru því margvíslegar brellur í gangi í senn. Auknar skatttekjur hins opinbera eru sagðar vera vegna lækkunar álagningar í tekjuskattinum, þegar þær eru einkum vegna áhrifa af hagsveiflunni og breikkun skattstofnsins. Myndin magnar að auki upp sýndaráhrif af sambandi skattalækkana og aukinna tekna – sem villir um fyrir lesandanum. Loks eru þarna rangar tölur sem magna upp áhrifin enn frekar.

Þetta er sem sagt margþætt vúdú-brella hjá Hannesi Hólmsteini! Sorglegt er að margir hafa fallið fyrir þessu, jafnvel heill stjórnmálaflokkur.

 

Reynslan frá Finnlandi

Sumir hafa undanfarið vísað til orða Esko Aho um lækkanir skatta á fyrirtæki í Finnlandi sem skiluðu auknum skatttekjum þar (sjá hér). Esko sagði að fyrir kreppuna hafi skattar á finnsk fyrirtæki verið háir, en undantekningar og frádráttarmöguleikar margir. Stjórn hans hafi hins vegar lækkað skatta eins mikið og mögulegt var og þurrkað út allar undantekningar og frádrætti.

Finnar breikkuðu sem sagt skattstofninn stórlega samhliða lækkaðri álagningu. Það skilaði auknum tekjum.

Þetta er það sama og úttekt Samtaka atvinnulífsins sýnir fyrir Ísland á tímabilinu 1990 til 2000. Þar segir: “Þá var skattstofninn breikkaður með lækkun og afnámi frádráttarheimilda sem hækkuðu virkan tekjuskatt á móti lækkun hlutfallsins.  Þegar tekið er tillit til þessara atriða kemur í ljós að engin skattalækkun átti sér stað heldur sýna þessar tölur þvert á móti að raunvirði tekjuskatts lögaðila fór heldur hækkandi á síðasta áratug.”

Rýrnun frádráttarliðanna vóg sem sagt meira en lækkun álagningarinnar, segja SA. Samkvæmt þessu var það hagsveiflan sem skýrir mest af breytingum skatttekna hins opinbera af tekjuskatti fyrirtækja.

Raunar var algengast við lækkun skatthlutfallsins í tekjuskatti á Vesturlöndum eftir 1980 að skattstofnar væru samhliða breikkaðir með fækkun frádráttarliða, eins og hér að ofan var lýst. Þegar það er gert er rökrétt að tekjutap vegna skattalækkana komi ekki fram, eins og OECD hefur ítrekað sýnt.

Áhrif Laffers koma því almennt ekki við sögu og sýna sig að vera vúdú-brellur eða sýndaráhrif.

En Hannes Hólmsteinn hefur útfært vúdú-speki Laffers á fleiri sviðum, eins og nú skal sýnt.

 

Annað dæmi: Hækkun leigutekna árið 1998

Hannes nefnir annað dæmi sem hann telur að sýni galdraáhrif skattalækkana á upphæð skatttekna (sjá grein hér).

Hann segir að skatttekjur vegna leigutekna hafi þrefaldast frá 1997 til 1998, á einu ári. Það er að sönnu mikil aukning. Hannes þakkar það því að frá og með árinu 1998 hafi skattlagning tekna af útleigu húsnæðis stórlækkað (þ.e. með upptöku fjármagnstekjuskatts).

Hannes segir að vegna þess að skatturinn af leigutekjum hafi lækkað úr um 40% í um 10% hafi leigusalar farið að gefa þær upp í auknum mæli og að framboð leiguhúsnæðis hafi stóraukist samhliða (hann hefur þó engin gögn um það). Þetta hafi stækkað skattstofninn og skilað ríkinu auknum tekjum.

Þetta segir hann enn eitt dæmið um að “minni sneið af stærri köku skili sömu eða meiri tekjum”!

En þarna horfir Hannes þó framhjá mikilvægustu breytingunni sem varð einmitt 1. janúar 1998. Þá voru innleiddar húsaleigubætur sem bættu mjög hag leigjenda! Til að njóta þeirra þurftu þeir hins vegar að gefa upp leigugreiðslur sínar og þar með stækkaði skattstofn leigutekna stórlega.

Með húsaleigubótunum var þannig kominn sjálfstæður og áhrifaríkur hvati til þess að leigutekjur yrðu taldar fram til skatts, í mun meiri mæli en fyrr, sem skilaði stórauknum skattstofni leigutekna.

Ekki er líklegt að leigusalar sem höfðu lengi komist upp með að stinga leigutekjum undan skatti hafi allt í einu fundið hjá sér hvöt til að fara að greiða 10% skatt af þeim! Þeir þurftu hins vegar að leyfa leigjendum sínum að njóta leigubótanna.

Við slíkar aðstæður gat lægri álagning á leigutekjur skilað svipuðum skatttekjum til hins opinbera – vegna húsaleigubótanna en ekki vegna lækkaðrar álagningar á leigutekjur.

Þarna er annað dæmi um blekkjandi áhrif vúdú-hagfræðinnar hjá Hannesi Hólmsteini.

 

Niðurstaða: Misskilningur eða ísköld blekking?

Þannig má sjá að vúdú-spekin um að skattalækkanir geti skilað sér í allt að tvöföldun skatttekna er annað hvort kaldrifjuð blekking eða í besta falli byggð á misskilningi, sýndaráhrifum sem koma fram vegna annarra orsaka, eins og hagsveiflunnar og/eða breikkun skattstofnsins.

Allt tal íslenskra frjálshyggjumanna um að miklar skattalækkanir geti skilað sér í sömu eða jafnvel auknum tekjum hins opinbera sýnir sig að vera á sandi byggt.

Einhver Laffer-áhrif er að vísu ekki hægt að útiloka, en þeirra er fyrst og fremst að vænta við verulega háa skattlagningu, t.d. þegar álagning er um eða yfir 60-80% (sjá hér). Fráleitt er þó að mikil skattalækkun geti skilað sömu tekjum og fyrr, ef allt annað er óbreytt (t.d. frádráttarheimildir og stærð skattstofnsins).

Þeim sem hafa haft tilhneigingu til að trúa vúdú-blekkingum Hannesar Hólmsteins og félaga skal bent á skrif Bruce Bartlett efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Ronalds Reagans og höfundar hugtaksins “Reaganomics” (sjá t.d. hér og hér).

Bartlett hefur í seinni tíð dregið aðrar ályktanir af spekinni sem hann áður aðhylltist og varar hann nú við ýktri notkun Repúblikanaflokksins á hugmyndum Laffers. Þó hann snúi ekki baki við öllu sem Reagan-stjórnin boðaði þá viðurkennir hann nú að það sé hættuleg firra að skattalækkanir geti borgað fyrir sig sjálfar með aukningu skatttekna, eins og Laffer, Hannes og félagar boða.

Hægri menn á Íslandi hafa margir fallið í dýpstu gryfju þessara Laffer-blekkinga.

Þeir ættu að skoða málið betur. Miklu betur.

 

——————————————————

Viðauki: Ítarlegri greining á sambandi skattalækkana og skatttekna

Hér að neðan má sjá ítarlegri mynd af sambandi álagningar á tekjur fyrirtækja og skatttekjur sem skila sér til ríkisins. Í stað þess að taka sérvalin ár sem gefa ýkta og villandi mynd eru tekin öll árin milli 1990 og 2011 og kvarðarnir á myndinni eru sýndir til fulls, en ekki skornir sérstaklega til að skapa sjónhverfingar. Einnig eru tímabil hagsveiflunnar auðkennd, frá kreppu til hagvaxtar og bóluhagkerfis.

Slide1

Þarna má sjá að veruleg óregla er í sambandi skattahlutfallsins og skattteknanna sem skila sér. Til dæmis voru skatttekjurnar á svipuðu róli á árunum frá 1990 til 1994, þó skatthlutfallið hafi á þeim tíma lækkað úr 50% í 33%. Nokkur hækkun varð á skatttekjum árið 1995 (fór úr 0,8% í 1,1% af VLF), en það var vegna uppsveiflu í hagvextinum, sem reyndar gætti um allan hinn vestræna heim. Einnig voru frádrættir fyrirtækja skertir á þessum tíma.

Skatttekjurnar jukust úr um 0,9% árið 1996 í 1,3% árið 1999 en lækkuðu svo aftur niður í 0,9% til ársins 2002, þó álagning væri þá óbreytt í 30%.

Þar eð skattálagning hvers árs leggst á tekjur ársins á undan mætti ætla að lækkun skatthlutfallsins úr 30% í 18% árið 2003 hefði átt að hafa skilað sé að fullu árið 2004 (með töfum vegna aðlögunar í fyrirtækjunum), en það ár lækkaði skattheimtan þvert á móti úr um 1,1% 2003 í 0,9%, sem var svipað og hafði verið á árinu 2001, þegar skatthlutfallið var 30%.

Svo stórjukust skatttekjurnar eftir 2004 vegna bóluhagkerfisins, á meðan skatthlutfallið var stöðugt í 18%. Svo þegar það lækkaði í 15% lækkaði skattheimtan, öndvert við það sem Laffer spekin spáir. Þar gætti auðvitað áhrifa bólunnar og hrunsins. Svo þegar álagningin á fyrirtæki var hækkuð eftir hrun þá jukust skatttekjurnar af fyrirtækjum samhliða, en minnkuðu ekki eins og Laffer hefði spáð.

Sýndarsambandið sem Hannes Hólmsteinn teiknaði upp hverfur þegar gögnin eru skoðuð til fulls og þegar tillit er tekið til áhrifa af hagsveiflunni og frádráttarliðum skattsins.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 27.3.2013 - 08:15 - FB ummæli ()

Hefur Framsókn rétt fyrir sér?

Framsóknarflokkurinn hefur gert heimilunum tilboð um skuldalækkun sem þau geta ekki hafnað – ef hægt er að framkvæma það á þann máta sem sagt er.

Hugmyndin sem Sigmundur Davíð hefur talað fyrir er þessi. Verulegt fé getur komið til ráðstöfunar stjórnvalda við úrvinnslu snjóhengjunnar svokölluðu. Um er að ræða krónueignir erlendra aðila (m.a. kröfuhafa föllnu bankanna), alls um 400 milljarðar.

Seðlabankastjóri hefur sagt að eigendur þessara fjármuna geti þurft að sætta sig við allt að 75% afskriftir af þeim við samninga um losun erlendra eigna þrotabúanna, eða með beitingu skattlagningarvalds ríkisins. Þetta væru um 300 milljarðar, meira en nóg fyrir 20% afskriftum á skuldum heimilanna. Reikningurinn félli ekki á skattgreiðendur.

Spurningin er þá hvort það sé rétt að þetta fé geti komið til ráðstöfunar stjórnvalda, sem myndu síðan nota það til að lækka skuldir heimilanna?

Framsókn heitir heimilunum því. Það er mikilvægt.

Sjálfsagt myndu Samfylking, VG og Björt framtíð einnig láta heimilin njóta þessara fjármuna ef þeir yrðu til ráðstöfunar fyrir stjórnvöld.

Sjálfstæðisflokkurinn væri hins vegar vís með að láta þetta fé renna til atvinnurekenda, samkvæmt reglum auðmannadekursins sem þar á bæ tíðkast. Þeir hafa einungis boðið heimilunum lækkun skulda með skattalækkunum, sem myndu leiða til alvarlegs niðurrifs velferðarríkisins í staðinn. Í því er engin kjarabót.

Ég hef spurt fjármálamenn undanfarið hvort þetta sé raunsætt hjá Framsókn og sumir segja það geta verið.

Við þurfum nú að fá svör frá ábyrgum fjármálamönnum og lögfræðingum um hvort þessi leið Framsóknar sé fær. Í millitíðinni þarf að aftra því að lífeyrissjóðir loki þessum möguleika á nokkurn hátt með samningum um kaup á einum eða fleiri bönkum.

Hefur Framsókn rétt fyrir sér? Það er milljarðaspurning kosninganna 2013.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 25.3.2013 - 15:43 - FB ummæli ()

Rökræður mínar og Miltons Friedmans

Árið 1984 kom bandaríski hagfræðingurinn og frjálshyggjumaðurinn Milton Friedman til Íslands, í boði hérlendra frjálshyggjumanna.

Að því tilefni var efnt til sjónvarpsumræðna þar sem þrír íslenskir fræðimenn rökræddu hugmyndir Friedmans við hann í sjónvarpssal. Viðmælendurnir voru Ólafur Ragnar Grímsson, þá prófessor, Birgir Björn Sigurjónsson hagfræðingur og ég hafði verið lektor við HÍ í rúm 3 ár þegar þetta var. Þetta var langur þáttur sem vakti nokkra athygli á sínum tíma

Ég var ánægður með samræður okkar Friedmans og fannst hann þurfa að gefa nokkuð eftir í sumum þeirra efnisatriða sem ég beindi að honum. Félagar mínir voru líka með góða punkta, en Friedman var þekktur fyrir mælsku sína og sjálfsöryggi.

Hér má sjá myndband af þættinum. Á mínútu 23:16 til 37:10 ræddi ég við hann um kosti og galla stórs ríkisvalds. En á mínútu 49:50 til 57:58 ræddum við um fullyrðingu Friedmans um að bandarísku samfélagi stafaði meiri hætta af velferðarríkinu en sjálfum Sovétríkjunum, með öll sín kjarnorkuvopn.

Síðan fór umræðan á þeim kafla líka út í áhrif skatta og jöfnunaraðgerða á vinnuframlag þar sem hann var í nokkrum vandræðum með kenningar sínar.

 

Sumt af því sem þarna var til umræðu er enn í dag á dagskrá þjóðmálaumræðunnar. Mér fannst Friedman skemmtilegur og sjarmerandi.

Undir lokin gerði ég athugasemd við að rukkað væri inn á opinberan fyrirlestur hans, um 12.000 krónur að núvirði. Bæði var þetta óvenjulegt á Íslandi á þessum tíma og mér fannst þetta afar dýrt, enda í tímabundnum blankheitum.

Íslenskir frjálshyggjumenn hafa sérstaklega flaggað þessu og talið þetta eitthvað niðrandi fyrir mig. Hannes Hólmsteinn endurtekur þetta á bloggi sínu í dag -sennilega í tíunda skiptið-  og kallar mig að því tilefni „íslenskan sósíalista“!

Ja, mikið megum við miðjusinnaðir framsóknarmenn þola nú á dögum! Kanski það sé velgengni okkar sem ærir frjálshyggjumanninn?

Það sýnir raunar hversu óvenjulegt þetta var, að öllum myndi þykja það undarlegt nú ef þeir þyrftu að greiða 10-15 þúsund krónur fyrir að heyra Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, eins og Joseph Stiglitz eða Paul Krugman, tala um fræðimennsku sína við Háskóla Íslands.

Þessi markaðsvæðing íslenskra frjálshyggjumanna á fræðilegri umræði náði sem sagt ekki að festa rætur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 24.3.2013 - 13:53 - FB ummæli ()

Skattar voru bæði hækkaðir og lækkaðir

Umræða um skattamál verður oft ýkjukennd, enda nátengd pólitískum átökum.

Sumir segja skatta hafa verið stórhækkaða eftir hrun en aðrir benda á að skatttekjur hins opinbera séu minni hluti landsframleiðslu en fyrr.

Báðir virðast geta fært rök fyrir máli sínu. Þeir sem tala um skattahækkanir benda á álagningarhlutföll sem voru hækkuð, en ábyggilegar tölur Hagstofunnar, OECD og AGS sýna lækkaðar skatttekjur hins opinbera eftir hrun.

Hvernig má þetta vera?

Jú, svarið liggur í því að skattar voru bæði hækkaðir og lækkaðir í kreppunni. Hækkaðir hjá sumum en lækkaðir hjá öðrum. Samdráttur í kreppu rýrir líka skattstofna.

Skattbyrði hærri tekjuhópa var hækkuð (með endurupptöku hátekjuskatts í þriggja þrepa álagningarstiga). Skattaálagning á fjármagnstekjur var tvöfölduð, en fjármagnstekjur eru í mestum mæli tekjur hátekjufólks.

Skattbyrði lágtekjufólks og miðtekjufólks var hins vegar lækkuð eða stóð í stað. Hækkun skattleysismarka skilaði því, ásamt verulegri hækkun vaxtabóta sem dragast frá álögðum tekjuskatti. Lækkun tekna leiddi líka til lægri raunálagningar.

Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir, úr 15% í 20%, en eru þó ennþá með allra minnsta móti sem þekkist meðal vestrænna þjóða.

Virðisaukaskattur var hækkaður úr 24,5% í 25,5%, sem rýrði kaupmátt heimilanna og leiddi til minni neyslu. Minni neysla gæti þýtt að heimilin hafi ekki greitt jafn mikið og áður af tekjum sínum í neysluskatta.

Skattahækkanirnar voru nauðsynlegar til að greiða kostnað af hruninu (endurreisn Seðlabankans og annarra banka, aukið atvinnuleysi o.m.fl.). Án þessara skattahækkana á breiðari bökin hefði niðurskurður opinberra útgjalda þurft að vera helmingi meiri en þó varð. Þá hefði þurft að þrengja stórlega að lífeyrisþegum og stórskemma heilbrigðiskerfið og menntakerfið, umfram það sem þó varð.

Fastar var klipið í skattstofna sem minnkuðu vegna aukins atvinnuleysis, launalækkana og minni veltu í efnahagslífinu. Auknar byrðar voru hins vegar í meiri mæli lagðar á þá sem meiri greiðslugetu hafa, þ.e. fólk í hærri tekjuhópum.

Samt var siglt í gegnum kreppuna með minni opinberar tekjur en fyrir hrun, bæði að raunvirði og sem hlutfall af landsframleiðslu (sem sjálf minnkaði um 10%).

Það er merkilegt í ljósi þess að verkefni stjórnvalda stórjukust með hruninu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar