Sunnudagur 11.2.2018 - 14:52 - Lokað fyrir ummæli

Borgarlína – Lína eða Strætó?

 

Borgarlína Edinborgar, opnuð 2014 (Heimild: http://edinburghtrams.com/)

Borgarlína Edinborgar, opnuð 2014 (Heimild: http://edinburghtrams.com/)

 

Einn heitur stuðningsmaður Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu, Pawel Bartoszek, birti, sem fastur penni á visir.is, pistil undir heitinu 300 borgarlínur frá aldamótum. Þar telur hann upp borgarlínur sem aðrir en íslenskir skattgreiðendur hafa greitt fyrir, línur sem má finna um víða veröld.

14 kílómetra löng borgarlína þeirra í Edinborg

Pistlahöfundur ákvað að grípa niður í lista þessara 300 borgarlínuverkefna sem Pawel taldi upp sem n.k. fyrirmyndarverkefni á heimsvísu. Eitt af því var borgarlínan í Edinborg í Skotlandi sem tekin var í notkun 2014 eftir umtalsverðar tafir og margvíslegan ágreining og flækjustig

Samanburður borga - Edinborg og Höfuðborgarsvæðið

Samanburður borga – Edinborg og Höfuðborgarsvæðið

Pawel taldi bara upp borgarlínur. Margir deildu þessum pistli blindandi og töldu að þarna værið svarið komið.

Hann Pawel okkar segir alla vera að gera’sona og því eigum við líka bara að gera’sona.

Þessir sömu aðilar verða fyrstir til að fara upp á afturfærturna þegar þetta fer í vaskinn.

Fólk veit ekkert hvað þetta muni kosta

Pawel, eins ágætur og hann er, fór ekki í að kanna hvort hugsanlega eitthvað af þessum 300 verkefnum eða þorri þeirra hafi farið út um þúfur eða orðið byrði á skattgreiðendum. Það virtist algjört aukaatriði hjá honum rétt eins og virðist hjá flestum þeim sem mæra Borgarlínuna um þessar mundir. Margir hafa jafnvel ekki einu sinni hvolpavit á fjármálum og get ég minnst á ófáa stjórnmálamenn þar sem svo virðist háttað til.

Hér er enginn að mótmæla samgöngubótum og almenningsvögnum til að greiða götur fólks. Hér er aðeins verið að benda á hvort þetta sé tímabært fyrir lítið samfélag, litla borg. Það væri hugsanlegt að eitthvað annað ætti að ganga fyrir í samgöngumálum áður en það kemur að Borgarlínunni blessaðri.

Samanburður og spá

Samanburður og spá

Tölurnar tala sínu máli og reynslan

Í þessu efni borgar sig að láta tölurnar tala sínu máli en þessi borgarlína í Edinborg átti alls ekki að vera flókin en varð að verkefni sem kostaði um 8 milljarða fyrir hverja 1000 metra. Það er þekkt matsaðferð að nota önnur verkefni til samanburðar á því sem væntanlega á að fara í.

Borgarlínan í Edinborg er 14 kílómetra löng og lauk eftir gífurlegar tafir og kostnað sem fór úr böndunum.

Varðandi Borgarlínuna hinnar íslensku hér að framan er aðeins getið þess sem lagt hefur verið á borð okkar skattgreiðenda, þ.e. að Borgarlínan muni kosta um 70 milljarða. Þetta fer vissulega eftir því hvaða áfangar verða teknir en við vitum að í upphafi skal endinn skoða. Því er það gert hér og reynt að líta á heildarmyndina.

Hljómar eins en aðeins á skosku

Stjórnmálamenn í Skotlandi hljómuðu ekkert ósvipað og okkar eigin nú í dag. Borgarlínan í Edinborg átti aðeins að kosta um 54 milljarða enda aðeins 14 kílómetra löng og bráðnauðsynleg. Þar eru þó búandi um hálf milljón íbúa og ef litið er á stærra svæði búa þar rúmlega milljón íbúar. Hér á landi eru aðeins um fjórðungur úr milljón og tæplega það sem nýta á okkar Borgarlínu og standa undir henni.

Aðeins krossinn í Borgarínunni hér á höfuðborgarsvæðinu, í austur vestur og norður suður, er um 23 kílómetrar og talið að Borgarlínan fullbyggð verði um tvöfalt ef ekki þrefalt það og er ekki einu sinni búið að koma stoppuðstöðvum fyrir í Mosfellsbæ eða á Seltjarnarnesi. Svo er skattborgurum þessara sveitarfélaga gert að borga beint í gegnum sinn sveitasjóð eða óbeint með loforðum núverandi ríkisstjórnar í stjórnarsáttmála hennar.

Mun landsbyggðin líklega einnig vera látin dekka rest og eitthvað að auki ef þanþol skuldsettra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu brestur. Þið munið örugglega einhver ykkar hvað lögfræðingur Samtaka íslenskra sveitarfélaga sagði þegar Reykjanesbær var til umfjöllunar 2015 og þegar að Álftanes var yfirtekið af Garðabæ eftir að hafa byggt eina sundlaug:

Sveitarfélög verða ekki gjaldþrota

Það er vegna þess að ríkið, við hin um allt land, erum látin borga. Sjáið bara úthlutanir úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um þessar mundir og síðustu misseri.

Hver kom þessu verkefni eiginlega inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar?

Nú er Borgarlínan að verða að Strætó

Nýlega hafa stuðningsmenn þessa verkefnis komið fram og sagt Borgarlínuna í raun vera Strætó. Hvers vegna þarf Borgarlínu, sem sögð er vera Strætó, ef við erum með Strætó? Hvers vegna ekki að bæta vegasamgöngur og koma skipulagi þannig fyrir að hið opinbera dreifist aðeins um höfuðborgarsvæðið til að létta af álagi svo Strætó komist víðar? Ætti það ekki að vera hverrar krónu virði að forgangsraða með þessum hætti?

Tölurnar tala sínu máli.

Flokkar: Ferðamál · Iðnaður · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Tækni og vísindi · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 23.1.2018 - 16:45 - Lokað fyrir ummæli

#metoo dómur Hæstaréttar Íslands

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra

Í nýlegum pistli sínum bendir Björn Bjarnason, fv. dómsmálaráðherra, réttilega á að enn á ný leitast RÚV við að finna einhvern stjórnmálamann, einhvern sem helst er á flæðiskeri staddur, sem hefur áhuga á því að kona, sem á sæti í ríkisstjórn, verði gert að segja af sér. Þessi kona barðist fyrir því að hlutur kvenna í Landsdómi, nýju dómstólastigi á Íslandi, verði réttur m.a. með vísan í áratugalanga baráttu kvenna og umtalsverða umræðu sem og lög er varða jafnrétti. En það kemur meira til en það eitt og sér.

Dómur Hæstaréttar

Oftar en ekki vísar RÚV blindandi í dóm Hæstaréttar sem í sátu þau:

 • Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari,
 • Kristinn Bjarnason hæstaréttarlögmaður,
 • Stefán Már Stefánsson prófessor,
 • Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og
 • Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari,

Þetta eru 3 karlar og 2 konur. Þar segir m.a.:

Eins og áður er rakið fór dómsmálaráðherra ekki eftir þeim reglum sem fylgja bar þegar hún gerði tillögu um að vikið yrði frá áliti dómnefndar varðandi veitingu áðurnefndra fjögurra dómaraembætta við Landsrétt. Var áfrýjandi sem fyrr segir í hópi þeirra fjögurra umsækjenda sem ráðherra gerði ekki tillögu um. Þau atriði sem dómsmálaráðherra færði fram til stuðnings ákvörðun sinni eftir að hún var tekin og send Alþingi gátu eins og áður er rakið ekki bætt úr þeim annmarka sem fyrir hendi var á málsmeðferð hennar. Þótt ekkert sé komið fram í málinu um að ráðherrann hafi hagað gerðum sínum sérstaklega til að beina meingerð að æru eða persónu áfrýjanda höfðu ákvarðanir hennar eigi að síður þær afleiðingar að bættur var hlutur einhvers úr hópi fjögurra annarra umsækjenda sem dómnefnd hafði raðað lægra en áfrýjanda. Þótt ráðherrann hafi ekki í tengslum við þetta látið orð falla til að vega að persónu eða æru áfrýjanda verður ekki fram hjá því litið að henni mátti vera ljóst að þessar gerðir gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori áfrýjanda og orðið honum þannig að meini. Þrátt fyrir þetta gekk ráðherrann fram án þess að skeyta nokkuð um þessa augljósu hættu.

Í reifun 2. mgr. 5.tl. IV kafla dómsins segir m.a.:

Að gættu framansögðu bar ráðherra í ljósi rannsóknarskyldu sinnar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga að lágmarki að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu.

10. og 11. grein stjórnsýslulaga

Hér er vísað í 10. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og varðar rannsóknarregluna. Þar segir:

Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Það sem virðist gleymast er 11. grein stjórnsýslulaga. Svo virðist sem Hæstiréttur, meirihlutinn skipaður körlum og aðeins 2 konum, hafi steingleymt þessu ákvæði en þar segir:

 1. mgr. Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.
 2. mgr. Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 segir m.a. um 11. grein:

Ákvæði 11. gr. eru byggð á þeirri óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins sem nefnd hefur verið jafnræðisreglan.
Í reglunni felst að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sams konar úrlausn. Í þessu sambandi verður þó að hafa í huga að ekki er um mismunun að ræða í lagalegu tilliti, jafnvel þótt mismunur sé á úrlausn mála byggist sá mismunur á frambærilegum og lögmætum sjónarmið um.
Þá er einnig rétt að minna á það að til eru undantekningar frá meginreglunni í 2. mgr. enda eigi þær sér stoð í settum lögum. Þannig teldist það ekki brot gegn 2. mgr. þó að tekið væri sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar eða byggt á því sjónarmiði við val nefndarmanna í stjórnsýslunefndir að skipa sem næst jafnmargar konur og karla, sbr. 3. og 12. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt eðli máls yrði það heldur ekki talið brot á 2. mgr. þótt litið sé til stjórnmálaskoðana við val í pólitísk störf, svo sem stöður aðstoðarmanns ráðherra, bæjarstjóra eða sveitarstjóra svo að dæmi séu nefnd.

Það má vel vera að þetta kunni ekki að varða málið beint sem lá fyrir dómnum enda á þessu stigi búið að framkvæma óafturkræfar aðgerðir. Eftir stendur ósanngirnin í dómnum sem ekki er annað en hægt að vera ósammála. Engu að síður er verðugt að skoða hér samhengið og ferlið allt.

Karlar í krapinu

Í pisli mínum frá því 31. maí 2017 kem ég að því hverjir sátu í þeirri nefnd sem um ræðir og úrskurðaði út frá Excel töflu hverjir ættu að sitja í hinum nýja Landsdómi. Þeir voru eftirtaldir:

 • Gunnlaugur Claessen
 • Halldór Halldórsson
 • Valtýr Sigurðsson
 • Ingibjörg Pálmadóttir
 • Guðrún Björk Bjarnadóttir

Þetta eru 3 (60%) karlar og 2 (40%) konur til áréttingar. Þessir 3 karlar og þessar 2 konur höfðu valið 10 (67%) karla og aðeins 5 (33%) konur í Landsdóm. Þess má svo geta að af þeim 5 konum sem valdar voru af dómnefndinni sat ein þeirra í dómnefndinni sjálfri en vék sæti í dómnefndinni því ekki var eðlilegt að viðkomandi veldi sig í embætti. En félagar hennar í dómnefndinni völdu hana sem var hið besta mál. Svo náin eru tengslin með fullri virðingu fyrir þeirri konu, þekkingu hennar og reynslu. Það ota allir sínum tota.

Einnig eru mjög náin tengsl á milli dómara, sem sátu í Hæstarétti í dómi þeim er dæmdi ráðherra, og þeirra sem sátu í dómnefndinni og það þekkja allir sem það vilja. Valdajafnvægið í dómnefndinni var þannig að þar sátu þrír ráðríkir karlar, ein kona, fyrrum ráðherra og frábær framsóknarfrú auk konu sem er héraðsdómslögmaður.

Með fullri virðingu fyrir þeim er sátu í þessari dómnefnd var ekki alveg í lagi með þessa skipan í nefndina. Ekki voru einu sinni gerðar kröfur um að menntun þeirra, sem sátu í nefndinni, væri a.m.k. á pari við þær kröfur sem gerðar voru til umsækjenda um dómara í Landsdóm. Það hefði verið ráð að gera Excel skjal um þessa nefnd áður en nefndin gerði Excel skalið sem enginn skilur og raðaði upp í hæfnisröð umsækjendum um dómarastöður í Landsdóm. Nefndin steingleymdi að gera ráð fyrir reynsluboltum úr dómarastétt í sakamálum í þessum Excel æfingum sínum.

Það er augljóst að í öllu ferlinu hefur verið mismunað m.t.t. kyns og reynslu viðkomandi. Þetta varðar dómnefndina sjálfa, skipan hæstaréttardómara við dóm í málinu sem RÚV reifar blindandi og uppröðun nefndarinnar í Landsdóm. Það voru því og eru enn fagleg og gild rök fyrir því að lista nefndarinnar var breytt sem lagður var fyrir Alþingi vegna skipan dómara við Landsdóm. Þar kom hæfi umfram allt annað til álita og mikilvægi að reynslumiklir dómarar sætu í þessu nýja dómstigi. Siðferðislega má árétta að tilviljun réði því væntanlega að hægt var með þessari breytingu að rétta stöðu kvenna í dómnum sem ætti að vera fagnaðarefni.

#meetoo tekur á sig margar myndir

Það vita allir sem hafa tjáð sig í tengslum við #metoo byltinguna að þar eru þátttakendur konur jafnt sem karlar. Þar er beitt beinu og óbeinu ofbeldi gagnvart konum þó það þurfi ekki endilega að vera kynferðislegt áreiti eða enn verra en það. Það er einnig til kynbundið ofbeldi og mikilvægt er að sjá allar þær myndir sem þetta fyrirbæri getur tekið á sig. Karlmenn geta vel séð það eins og konur. Konur geta einnig verið blindar fyrir því eins og karlar.

Var ekki í lófa lagið, þegar kallaðir voru inn varamenn eftir að dómnefndarmenn urðu meira og minna vanhæfir, m.a. vegna eigin umsókna um dómarastöður í Landsdómi eða vegna vensla og vinskapar, að kalla inn fleiri konur en karla í þessa dómnefnd á sínum tíma? Þar rofnar keðja réttlætisins og siðferðisins fyrst af öllu í þessu máli. Þar hefst kynbundna ofbeldið í þessu máli að mínu mati og ójafnvægið.

Hefði það ekki einnig verið ráð að Hæsiréttur Íslands, sem stöðugt hefur hlotið ákúrur vegna vægra kynferðislæpadóma og þægðar við saksóknaraembættin í bankamálum, í þessu efni svo áríðandi sem það var, að kalla inn fleiri konur en karla í dóminn sem dæmdi ráðherra að ósekju?

Með því hefði mátt hugsanlega sjá að það væri einhver á Íslandi sem skilur að dómsmálaráðherra var að jafna annars mjög ójafna stöðu kvenna samhliða því t.a.m. að tryggja hæfi dómsins í sakamálum eftir að það kom í ljós að val nefndarinnar innihélt ekki reynda dómara í þeim kafla lagabókstafsins.

Voru það ekki nægjanleg rök svo Hæstiréttur yrði ekki kaffærður í sakamálum sem vísa ætti vegna formgalla frá honum eða niður á lægra dómsstig sí og æ? Maður þekkir nú það af þessum bankamálum að fólk situr blátt í framan í um áratug ekki vitandi um hvort þau séu sekir eða saklausir menn. Nei, það var svo ekki því dómurinn var skipaður að mestu fólki sem eru algjörlega utan dómsins enda viku aðrir dómarar Hæstaréttar svo þeir yrðu ekki vanhæfir. Var dómurinn ekki eftir allt saman óhæfur?

RÚV sigað á ráðherra

Nú rekur RÚV #metoo kynbundna eineltið án þess að sjá þá mynd sem hér hefur verið dregin upp. Gerendurnir eru þéttskipaðir með umboðsvanda að vanda, dulin tengsl og þekkt. Eftir stendur, að þegar þorri fólks sér hvernig í pottinn er búið, að dómur Hæsaréttar var í glænýju formi kynbundins ofbeldis gagnvart ráðherra sem var að leitast við, ásamt Alþingi, að rétta stöðu kynjanna við skipan í Landsdóm en umfram allt að styrkja dómin fræðilega með reyndum dómurum í sakamálum.

Hvers vegna spyr RÚV ekki út í reynslubanka umsækjenda varðandi sakamál? Hví er ekki Excel skjalið ekki tekið upp og birt með vísan í reynslubrunna og einkunnagjafar? Hví er ekki sett upp námskeið í lestri á þessu Excel skjali sem enginn reglugerð virðist vera til um hvernig á að setja upp og afgreiða? Hvers vegna tekur RÚV þátt í ótuktar aðgerðum eins og þeim sem hér um ræðir?

Ráðherra styrkti Landsdóm varðandi sakamál

Mikilvægt er að halda því til haga að það fylgdi réttlætanleg styrking, með breytingum ráðherra á lista þeim sem lagður var fyrir Alþingi, á þekkingagrunni hins nýja Landsdóms í sakamálum.

Dómnefndin tók ekki tillit til þessa, nefnd sem skipuð var að meirihluta karlmönnum með gífurlega mikla reynslu og karlmennsku langt umfram þær 2 konur (með fullri virðingu fyrir þeim) sem þeir væntanlega yfirgnæfðu með setu í þessari óláns nefnd enda í meirihluta. Þannig komast karlarnir að og troða sér framfyrir.

Lokaorð

Sem faðir tveggja stúlkna vil ég ekki sjá svona vinnubrögð karlrembu- og klíkunefnda og sé í gegnum þetta með mínum gleraugum sem faðir þeirra þegar þátttakendur í pólitíska ofbeldinu reyna allt til að klekkja á fólki sem vill vel. Sigríður Á. Andersen er kjarnakona og góð fyrirmynd fyrir stúlkur og konur á öllum aldri sem vilja standa sig og vera raungóðar á ögurstundu.

 

Flokkar: Jafnréttismál · Siðferði · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

Þriðjudagur 21.11.2017 - 09:20 - Lokað fyrir ummæli

Hvað ef Geir verður…?

Geir H. Haarde (c) Vísir

Þjóðahátíðarræðu sinni, árið 2008, lauk Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra Íslands og formaður Sjálfstæðisflokkins, með því að vitna í ljóð eftir  Jakob Jóhannesson Smára (fæddur 9. október 1889 á Sauðafelli í Dölum, stúdent frá MR).  Ljóðið ber heitið 17. júní 1944;

Vor þjóð er margþætt, en þó ein,

og eins manns böl er sérhvers mein,

en takmark allra og innstu þrá

með einum rómi túlka má.

Þarna er Geir að vísa til náttúruhamfara sem urðu á Suðurlandi og mikilvægi þess að í slíkum hamförum að allir standi saman sem einn maður. Þakkar hann björgunarsveitum, lögreglu, Rauða kross Íslands, heilbrigðisstarfsfólki sem og öðrum fyrir góð og óeigingjörn störf í kjölfar þess að jarðskjálfti að styrk 6,0 á Richter olli tjóni á Suðurlandi 29. maí 2008. Í þessum skjálfta varð talsvert tjón en þó ekki manntjón. Þakka má Guði fyrir að svo varð ekki en við Íslendingar höfum verið lánsamir að eiga gott fagfólk á mörgum sviðum. Þar má nefna verkfræðistéttina sem tryggt hefur að hús okkar eru sterkbyggð fyrir skjálfta af þessari stærðargráðu. Til að svo sé er menntun ekki næg því skynsemin þarf að fylgja á eftir ásamt hyggjuviti.

Annað áfall af öðrum meiði

Á haustdögum 2008 skall á annað áfall. Það geisaði fjármálakreppa í heiminum og höfðu bankar fallið í Bandaríkjunum. Þessi flóðbylgja náði ströndum Íslands og felldi illa varða banka á Íslandi sem og fjölmörg fyrirtæki og heimili. Það mátti þakka að ríkissjóður hér á landi var nánast því skuldlaus og gat brugðist við. Þetta tók gríðarlega á en sem betur fer hafði Seðlabanki Íslands séð um að búið var að draga upp frumvarp að neyðarlögum kæmi til þess að allt færi á versta veg. Komið hefur greinilega í ljós að ákveðnir ráðherrar Samfylkingarinnar þrýstu á að Seðlabanki Íslands lánaði án þess að greiðsluhæfi væri til staðar t.a.m. hjá Kaupþingi og sáu svo til þess að vísa 3 valinkunnum bankastjórum úr embætti og brjóta þannig lög um bankan sjálfan nr. 36/2001 er varðaði sjálfstæði hans.

Ofan í kaupið var einn maður ákærður og sá sem fyrir valinu varð er sá sem ritaði framangreind þakkarorð til fólks sem bjargaði því sem bjargað var eftir náttúruhamfarir á Íslandi 2008, þ.e. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem stóðu að þessu umfram aðra voru þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna.

Hvað ef Mannréttindadómstóll Evrópu kveður upp dóm Geir í vil?

Um þessar mundir standa yfir viðræður um á milli Framsóknarflokksins, Vinstri-grænna og Sjálfstæðisflokkins um stjórnarmyndun þar sem krafa Vinstri-grænna er að formaður þeirrar hreyfingar verði gerður að forsætisráðherra á Íslandi.

Á fimmtudaginn síðar í þessari viku, þ.e. 23. nóvember 2017, er að vænta dóms Mannréttindardómstóls Evrópu í máli Geirs H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins í máli sem Alþingi höfðaði gegn honum persónulega, sbr. þingsályktunartillögu nr. 1502 , sem samþykkt var 28. september 2010 auk tilsvarandi ákæru Saksóknara Aþingis sem lögð var fram 10. maí 2011. Kveðinn var upp dómur í Landsdómi, sem aldrei hafði áður komið saman á Íslandi, í máli nr. 3/2011 þann 23. apríl 2012.

Hverjir sáu um að kæra Geir H. Haarde á hinu háa Alþingi?

Þeir sem greiddu atkvæði um að Alþingi kærði fyrrverandi forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins voru eftirtaldir:

Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Huld Aðalbjarnardóttir, Jón Bjarnason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín JakobsdóttirLilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Margrét Pétursdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. SigfússonSvandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.

Hvað ef…?

Í ljósi þess að forseti Íslands, sem er vel þekktur sagnfræðingur, hefur oft tíðkað þá list að spyrja ,,hvað ef…“spurninga um fortíðna, er nú tækifæri fyrir sagnfræðinga og aðra að velta fyrir sér framtíðinni, þ.e. fram að fimmtudeginum. Hvað ef Geir H. Haarde verður dæmt í vil?

Getur sitjandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins eftir það sem á undan er gengið, virkilega stuðlað að því að gera formann Vinstri-grænna að forsætisráðherra Íslands ef Mannréttindardómstóll Evrópu dæmir Geir H. Haarde í vil? Eins og flestir vita var Geir H. Haarde að vinna erfitt verk í miðjum hamförum og tók á því pólitíska ábyrgð. Hann hefur einnig axlað þá pólitísku ábyrgð og rúmlega það.

Ég segi nei. Það getur núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins ekki nema því aðeins ef formleg og einnig opinber afsökunarbeiðni liggi fyrir frá öllum framangreindum þingmönnum Vinstri-grænna sem nýlega hafa verið endurkjörnir. Hið sama ætti við um þingmenn Framsóknarflokksins. Skilyrði um slíkt ætti að vera í nýjum stjórnarsáttmála ef verður af ríkisstjórn þessara flokka og afsökunarbeiðnirnar skulu vera fluttar munnlega í ræðustól Alþingis Íslendinga.

Að öðrum kosti verður það ekki reyndin að ,,eins manns böl er sérhvers mein“ hér á landi eins og þjóðskáldið orti um Íslendinga sem eru heilir í raun og sann þegar á reynir.

 

Flokkar: Siðferði · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 2.10.2017 - 20:47 - Lokað fyrir ummæli

Furðufréttir Gauta

Einn penninn hér á Eyjunni er með furðufréttir sem ættu betur heima gagnvart Reykjavíkurborg laskaðri en þeim sem hann beinir furðufréttum sínum að. Sá hefur efni á að raða upp fyrir framan almenning staðlausum stöfum um úrskurð Yfirskattanefndar.

Til að gera langa sögu stutta skal minnst á vinnubrögð síðustu vinstri stjórnarinnar á Íslandi rétt fyrir kosningarnar 2013 þegar þingnefnd barst erindi frá RSK vegna breytinga á lögum um lágskattasvæði (sem reyndar RÚV kallaði skattaskjól í dag og Seðlabanki Íslands verslar við). Þar óskaði RSK með umsögn sinni (þeirri einu er barst nefndinni) að gætt sé að því að hagnaður og eftir atvikum tap dótturfélags í lágskattasvæðum yrði ekki nýtt til lækkun skatta í móðurfélagi á Íslandi eftir því hvernig því gekk heimavið, þ.e. í hagnaði eða tapi. Vinstristjórn Gauta gerði ekkert í þessu nema að afnema svokallaða svarta lista lágskattasvæða enda mátti ekki gera upp á milli þeirra. Allt gert skv. tilskipun Evrópusambandsins um þetta efni.

Gauti þessi hefur ítrekað nýtt þekkingu sína og menntun við að kasta ryki í augu almennings og mætti því halda að hann sé að stúdera hagræði í stað hagfræði í henni Ameríku. Hann hagræðir staðreyndum og forsendum er hent á loft án þess að stuðst sé við að t.a.m. í lágskattasvæðum eru minni kröfur gerðar en hér heima varðandi skil og gerð ársreikninga. Í úrskurði Yfirskattanefndar kemur ekkert fram um ólögmæti heldur ágreining um það sem varðar fráttdrátt þann sem RSK vildi ná niður hér heima í rekstri móðurfélags og útreikning á tapi dótturfélags á lágskattasvæði.

Ekki varð RSK kápan úr þeim klæðunum og það kom í ljós að það er vegna þess að síðasta vinstri stjórn á Íslandi fór ekki eftir umsögn RSK árið 2013 þegar lögum um lágskattasvæði var breytt síðast!

Þetta er allt um þetta að segja nema að Gauti ætti nú fremur að beina hagræði og hagfræði sinni að fjármálahlið Reykjavíkurborgar og horfa þar gagnrýnum augum á ömurlegan rekstur og hagræðingu sannleikans í stað þess að ráðast á efni sem hann ræður ekki við.

Engin brot voru framin heldur endurmetið þar sem RSK hafði að hluta til rétt fyrir sér varðandi að gera ársreikninga á íslensku en í grunninn rangt gagnvart skattlagningu á fyrirtæki og tengda aðila.

Það er ljótt að segja ósatt Gauti !

Flokkar: Hagmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 22.6.2017 - 17:14 - Lokað fyrir ummæli

Tíu þúsund krónur

Már Guðmundsson með tíuþúsund krónu seðil

Már Guðmundsson með tíuþúsund krónu seðil

Fjármálaráðherra er frjór hugmynda. Nýleg hugdetta hans til að halda aftur af skattaundanskotum á Íslandi er að takmarka notkun á reiðufé og beina viðskiptum í meira mæli til kortafyrirtækja sem í dag geta greint hvort þú sért í yfirvigt eða ekki, hvar þú ert og hvert þú ert að fara. Svo má ekki gleyma þeim sem vilja fá frið á öldurhúsum borgarinnar fyrir óendanlegri eftirlitsþörf kortafyrirtækja, banka og fjölmargra greiningaraðila sem vilja vita hvað við erum að gera.

Þjóðverjar vilja fá frið

Það er þekkt í Þýskalandi þessi umræða um seðla og kort. Þjóðverjar vilja fá frið fyrir yfirvöldum og bönkum þegar kemur að því að eiga í viðskiptum og vilja því fremur nota seðla og mynt en annað. Í dag er enn gefin út 500 evru seðill og það þykir nú ekki há fjárhæð sé miðað við svissnenskan franka en þar er til seðill sem er mun verðmætari og nær því að vera allt að 100.000 krónum að verðmæti.

Þetta snýr ekki endilega að svörtu hagkerfi og að koma í veg fyrir skattaundanskot. Þetta snýr að friðhelgi einkalífs og það á því það sama við okkur hér á Íslandi eins og aðra að við viljum fá frið.

Evrusinninn Benedikt Jóhannesson

 

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra

Hver þekkir ekki til áhuga Benedikts Jóhannessonar á evrunni. Hann vill að Íslendingar taki upp evru. Fyrsta baráttumálið hans verður væntanlega, sæki Ísland einhverntíman um aðild, að fá Evrópusambandið ofan af því að gefa út 500 evru seðilinn.

Mér sýnist sem svo að með þær kröfur að leiðarljósi og áeggjan til samninganefnda Íslands muni aðild að Evrópusambandinu ekki verða að veruleika. Benedikt er því nú með sínu óútreiknanlegu hugarflugi sínu að gera endanlega út af við umsókn að Evrópusambandinu þrátt fyrir allt. Það er vel en eftir stendur að vitlausar hugmyndir, hans hvað framangreint varðar, eru alveg jafn skaðlegar Íslendingum eins og þeim sem innan evrusvæðisins búa. Þær eru einnig alveg jafn heimskulegar.

Lækkum skatta og einföldum kerfið

Í stað þess að pína fólk í að drattast með haug af þúsund krónu seðlum á milli staða og þvinga viðkomandi inn í greiðslufyrirkomulag með símum, kortum eða öðru rafrænu á að lækka skatta. Svo á að tryggja að það sem við borgum í skatta sé algjörlega gagnsætt, þ.e. að við getum séð í hvað fjármunirnir fara. Beinum frekar kröftum okkur að þessum lausnum og einföldun skattkerfisins í stað þess að þvinga fólk til viðskipta við þá sem Benedikt Jóhannessyni þóknast.

Ég vil hafa val. Ég vil fá frið fyrir eftirliti með minni neyslu og hegðan. Ég vil hafa frelsi og er viss um að þú lesandi góður ert á sama máli.

Nýtum tæknina við að einfalda kerfið, gera það gagnsærra, rekjanlegt og skilvirkara. Þá mun fleira fólk borga skatta með glöðu geði rétt eins og ég geri nú þegar í dag.

Hins vegar renna á mann tvær grímur ef hluti þess skattfjár fer í að halda uppi annarri eins opinberri þvælu eins og hæstvirtur fjármálaráðherra hefur nú orðið uppvís að.

 

Flokkar: Hagmál · Siðferði · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 7.6.2017 - 13:02 - Lokað fyrir ummæli

Norska krónan

Íslendingar hafa reynt á það að vinna með nágrönnum sínum varðandi eigin velferð. Á öldum áður endaði það með gífurlegri skattlagninu, óhreinu mjöli og afar lélegri þjónustu t.a.m. varðandi skipaflutninga milli meginlands Evrópu og Íslands. Úr varð að við tókum upp eigin mint og urðum að sjálfstæðri þjóð.

Eftir hrun hins íslenska fjármálkerfis urðu margir ofurspekúlantar til þess að missa vatnið og sjá stjörnur þar sem öngvar voru. Í minningu orða þessara ,,snillinga“ er þessi pistill ritaður.

Þróun norsku krónunnar

Eftir hrun hlustuðu margir á það að í Noregi mætti finna paradís. Þar væri allt fljótandi í olíu og menn hreinlega færu í bað í olíu þegar vel lagi á þeim eftir langa skíðagöngu í fögru landslagi norsku hálandanna, inn í dölum og fjarðarbotnum í þessu fallega nágrannalandi okkar Íslendinga. Þeir sem básúnuðu þetta urðu samt eftir heima og eru enn á ríkisjötunni eða búnir að setja enn eitt dagblaðið í gjaldþrot. Óskaplega minnir þetta vel á vinstri menn er segja ósatt en vita betur.

Hver man ekki eftir SÍA leyniskýrslunum kommanna austan járntjaldsins er sögðu eitt en annað var básúnað hér heima um gjallarhorn til almennings? Það er sami kommaþefurinn er fjaðrar þarna úr sósílalisma sófanum setjist maður í hann.

Þróun norsku krónunnar frá janúar 2013 til júní 2017

Þróun norsku krónunnar frá janúar 2013 til júní 2017

Norska krónan hefur fallið um 50% gagnvart íslensku krónunni frá því sem var fyrir 4 árum. Þetta hefur orðið til þess að hingað heim hafa flutt aftur fjölmargir Íslendingar sem hafa fundið landið sitt á ný og áttað sig á að þetta var bara tómt bull í þessu gengi sem þvældi þeim þangað. Jafnvel íslenskir prestar staðsettir í Noregi hafa vitnað til um hve bágt ástandið var þegar Íslendignar komu til Noregs í leit að paradís eftir hrun. Þeir gerðu oftar en ekki kraftaverk fyrir þetta ágæta fólk þegar í engin hús var að venda.

Tökum upp norska krónu sagði prófessorinn

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands

Í frétt á visir.is má lesa, frá því í miðju hruni 15. október 2008, frétt um yfirlýsingar prófessors við Háskóla Íslands að það borgi sig bara að taka upp norska krónu. Það er óhætt að segja að prófessorar og aðrir hámenntaðir snillingar sem og sjálfskipaðir geta farið á límingunum í miðju hruni svo að ráðherrar fylgdu þar fast á eftir, menn sem áttu að stýra skútunni í öllum atganginum.

Einn þingmaður og þáverandi formaður íslenskra afdankaðra kommúnista, Steingrímur J. Sigfússon síðar fjöldamálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, fór og hitti jafnvel að máli Kristínu Halvorsen fjármálaráðherra Noregs og þáverandi formann SV í Noregi en SV er Sósíalíski vinstriflokkurinn þar á bæ. Hann gerði sér þangað erindi er gekk út á að kanna hvort Íslendingar gætu ekki tekið upp norsku krónuna.

Norðmenn losuðu sig svo reyndar við hana Kristínu rétt eins og Íslendingar Steingrím eftir hrun vinstrimanna í kosningum er mældu áhuga almennings á vinstri stefnunni.

Þetta kom fram í frétt á Eyjunni 30. janúar 2009 og þar er vitnað í vinstra öfgadagblaðið Klassekampen með eftirfarandi orðum varðandi Steingrím J. Sigfússon þar sem segir;

…að Steingrímur sé nú að taka við embætti fjármálaráðherra á Íslandi og verði hugsanlega orðinn forsætisráðherra Íslands í vor.

Það var og. Þeir vissu betur enda stjórnaði Steingrímur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur allan tímann og kom öllu í tóma vitleysu, reyndi að koma yfir okkur meiri skuldum en skattborgarar Íslands þoldu og svo að taka upp norska krónu sem var vissulega ein önnur vitleysan úr verkfærakassa þessa völdunarsmiðs vandamálanna.

Kanadadollar eða norska krónan?

Síðar, eftir mikið jaml japl og fuður, komu einhverjir prakkarar af hægri væng stjórnmálanna með hugmyndir um kanadískan dollar en Arion banki opinberaði sig, í eigu erlendra vogunarsjóða nú sem fyrr, og sagðist fremur vilja norska krónu en Kanadadollar. Í frétt á Eyjunni frá 26. mars 2012 var fjallað um þetta upphlaup.

Allar þessar pælingar urðu að sérstökum trúarbrögðum, n.k. smátrúarbrögðum, í íslensku hænsnabúi vinstri hreyfingarinnar á Íslandi. Brúneggjavarpið var óheft á þessum tíma þar til að einn refur kom þar inn og tjáði sig opinberlega að Íslendingar ættu að ganga Noregskonungi á hönd eina ferðinna enn.

Ísland 20. fylki Noregs

Eftir að pistlahöfundur hafði náð að losa sig við starra úr þakskegginu verpti einn vel lúsugur í fésbókina beint fyrir framan nefið á íslenskri þjóð. Veffréttamiðillinn Nútíminn birti frétt um málið á vefsetri sínu 24. júlí 2014 þar sem Gunnar Smári Egilsson viðraði vængi sína með tilheyrandi lúsafaraldri um netheima landsmanna. Í sama mund var hann við það að koma öðru dagblaði á laggirnar sem nú er orðið gjaldþrota rétt eins og kenningar hans um að Ísland yrði að 20. fylki Noregs.

Gunnar Smári Egilsson blaðamaður

Gunnar Smári Egilsson blaðamaður ásamt Krispy Kreme auglýsingu – Mynd afrituð af vef Nútímans

Í kjölfarið á þessari yfirlýsingu fékk þessi maður ómælda athygli vinstrielítu Íslands, var kallaður í hvert viðtalið af fætur öðru á meðan aðrir skynsamari voru látnir sitja heima svo skynsemin kæmist örugglega ekki að. Ríkisfréttamiðillinn RÚV lá þar ekki á liði sínu.

Staðan í dag

Það er óþarfi að fjölyrða meira um framangreint efni nema einna helst með langloku um efnhagslega þróun í Noregi og á Íslandi sem og í Evrópusambandinu. Reyndar má minnast á eina grein í Vísbendingu 9. febrúar 2015 eftir núverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, þar sem hann spyr hvort Íslendingar ættu að taka upp mynt Kúbu, þ.e. kúbverska pesóan. Þar gantast hann aðeins í trúarbrögðum varðandi kanadadollar og norsku krónuna enda sjálfur áhugamaður um evruna sem fallið hefur gagnvart krónunni um rúm 35% fyrir sama tímabil og hér um getur.

Þessi styrking íslensku krónunnar er afar mikilvæg fyrir íslensk heimili og má ætla að þarna spili inn umtalsverður vöxtur ferðaþjónustunnar. Það yrði hrapaleg þróun ef stjórnvöld ætli að eyðileggja þessa jákvæðu þróun með auknum sköttum enda ferðaiðnaðurinn að koma heimilum landsins vel.

Varðandi sjávarútvegin er hann að þróast hratt og líkur eru á að hann standi styrkingu krónunar með breyttum vinnsluaðferðum, öflugri og skilverkari skipakosti sem og tækni sem mun bæta arðsemi í framleiðslunni. Vissulega mun eitthvað gefa eftir en það eru greinar í sjávarútvegi sem ganga mjög vel þrátt fyrir þessa styrkingu.

Vænta má að vandi Seðlabanka Íslands sé nú að spila úr því sem hann hefur, lækka vexti en þó gæta að langtímasveiflum m.a. varðandi íbúðaverðsþróun, vöxt í byggingariðnaði og samspil þróunar varðandi samneyslu og einkaneyslu. Hið opinbera hefur staðið sig bærilega við að draga saman til að þensla valdi ekki óðaverðbólgu. Mikilvægast er að heimilin, fólkið í landi sjái kaupmátt sinn vaxa í virkri samkeppni og í lágu vaxtaumhverfi til lengri tíma.

Nú er svo komið að við vitum að krónan hefur staðið allt baktalið af sér rétt eins og stjórnarskrá lýðveldsisins Íslands.

Áfram íslensk króna !

Áfram Ísland !

Flokkar: Hagmál · Heimspeki · Sagnfræði · Siðferði · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.5.2017 - 16:21 - Lokað fyrir ummæli

Landsréttur og dómaraval

Um langa hríð hefur verið rætt um mikilvægi þess að koma upp millidómsstigi sem yrði e.k. endurskoðunarskrifstofa dómskerfisins á þeim dómum og úrskurðum héraðsdómdómstólanna sem ætlunin er að áfrýja.

Fjölmargir hafa komið að því að mynda samstöðu um nýtt fyrirkomulag. Allir vilja vanda sig vel, t.a.m. við að brjóta ekki jafnréttislög og hæfisskilyrði. Með því að vanda sig má mynda breiða samstöðu um nýjan dómstól og tryggja trúverðugleika hans.

Lögmenn

Lögmannafélagið og fulltrúar þess, þ.e. þess félag sem virðist enn undanþegið félagafrelsi í landinu, virðist ósátt við að ráðherra telji mikilvægt að fjölga konum í dómnum og fjölga þeim, sem þar munu sitja, sem hafa langa dómarareynslu, t.a.m. í sakamálum.

Það að Lögmannafélagið berjist fyrir sína félagsmenn er ekkert óeðlilegt og gerist slíkt einnig hjá fleiri hagsmunahópum. Hins vegar má ætla að löggjafinn hafi með lögum og reglum varðandi val á dómurum gert ráð fyrir því að fulltrúi skattgreiðenda og kjósenda, kjörinn þingmaður sem og skipaður ráðherra fái eitthvað um málið að segja.

Að auki má benda á að stjórn Lögmannafélagsins eru konur í minnihluta þar sem 3 karlar standa vörð um gömul gildi og einn þeirra umsækjandi um dómarastöðuna en var hafnað af ráðherranum sem valdi konu í dóminn í hans stað.

Val dómnefndar á dómurum

Það vekur sérstaka undrun að dómnefndin, sem valdi þá er hún taldi hæfasta, hafi gert fremur lítið úr reynslu af dómarastörfum og valdi aðeins 15 í 15 sæti. Hefði ekki verið hægt að hafa þá hæfu í valinu fleiri? Þeir sem valdir voru skv. frétt visir.is frá 12. þessa mánaðar:

1. Aðalsteinn E. Jónasson, hæstaréttarlögmaður
2. Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður
3. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
4. Eiríkur Jónsson prófessor, við lagadeild Háskóla Íslands
5. Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari
6. Ingveldur Einarsdóttir, settur hæstréttardómari
7. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður
8. Jóhannes Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður
9. Jón Höskuldsson, héraðsdómari
10. Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður
11. Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
12. Ragnheiður Harðardóttir, héraðsdómari
13. Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík
14. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður
15. Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness

Þetta eru 10 karlar og 5 konur.

Landsréttur verði ekki ,,karlaklúbbur“

Í frétt hjá RÚV á vefnum www.ruv.is frá 24. febrúar á þessu ári kom ákall frá minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar að við val á dómurum, þ.e. í meðförum frumvarps um Landsrétt, yrði þannig ákvarðað í lögum að ekki yrði hætta á að Landsréttur yrði að e.k. ,,karlaklúbb“. Lagði minnihlutinn fram breytingatillögu til að tryggja þetta inn í löggjöfina sem meirihlutinn hafnaði. Í fréttinni segir hvað þetta varðar:

Meirihlutinn fellst ekki á breytingartillöguna en leggur áherslu á að ráðherra hafi jafnt kynjahlutfall að markmiði.

Sé miðað við niðurstöðu dómnefndarinnar má ætla að hún hafi farið talsvert á skjön við álit bæði minni- og meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sé litið til þróun málsins á þinginu á sínum tíma. Dómnefndin virðist hafa talið hæfnina fremur byggjast á kynferði og helst karlmennsku en t.d. dómarareynslu viðkomandi. Sama virðist eiga við um fulltrúa Lögmannafélagsins og væntanlega stjórn þess félags.

Hvað með umboðsvanda í svona málum og siðferði þegar barist er fyrir hagsmunum almennings og aukins trúverðugleika dómskerfisins í heildina varðandi val á dómurum?

Að auki segir í framangreindri frétt:

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður allsherjarnefndar segir að meirihluta nefndarinnar hafi ekki þótt ráðlegt að bæta við slíkri málsgrein í dómstólalögin án frekari umsagnar og yfirlegu, þar sem það væri skýrt nú þegar að ráðherra skuli fara að jafnréttislögum ef dómnefnd metur tvo eða fleiri jafn hæfa. „Við ákvörðun ráðherra um skipan dómara leggur meirihluti nefndarinnar áherslu á að ráðherra hafi að markmiði í því samhengi að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara.“

Það er einmitt svo.

Val ráðherra

Svo virðist sem dómnefndin hafi ekki viljað fara að lögum við val á dómurum við hinn nýja Landsrétt eða að eitthvað hafi verið við erindisbréf nefndarinnar að athuga hvað varðar kynjahlutföll og jafnrétti. Ráðherra er kona og ákvað að nýta rétt sinn skv. lögum til þess ekki aðeins að jafna kynjahlutföllinn heldur einnig að fjölga dómurum með reynslu af dómarastörfum.

 1. Aðalsteinn E. Jónasson,
 2. Arnfríður Einarsdóttir,
 3. Ásmundur Helgason,
 4. Davíð Þór Björgvinsson,
 5. Hervör Þorvaldsdóttir,
 6. Ingveldur Einarsdóttir,
 7. Jóhannes Sigurðsson,
 8. Jón Finnbjörnsson,
 9. Kristbjörg Stephensen,
 10. Oddný Mjöll Arnardóttir,
 11. Ragnheiður Bragadóttir,
 12. Ragnheiður Harðardóttir,
 13. Sigurður Tómas Magnússon,
 14. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson,
 15. Þorgeir Ingi Njálsson.

Hér eru 8 karlar og 7 konur. Þarf maður fleiri vitnana við?

Sé litið til hlutfallsins er það a.m.k. mun hagstæðara konum svona en sé litið hlutfall kvenna í stjórn Lögmannafélags Íslands.

Dæmi svo hver fyrir sig.

 

Flokkar: Jafnréttismál · Siðferði · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.4.2017 - 01:50 - Lokað fyrir ummæli

Hryðjuverk í Svíþjóð

Í gær ákvað einstaklingur, aðeins einn maður, að tilefni væri til þess að ræna stórri bifreið og aka Dottningagötuna, sem við hjónin eitt sinn gengum upp með ásamt kornungum dætrum okkar eftir að hafa verið í Gamla stan. Markmið þessa manns var að drepa eins marga og kostur var á leið sinni í að sprengja öfluga sprengju sem betur fer sprakk ekki. Þarna dóu of margir og meðal þeirra 11 ára stúlkubarn.

Hvað var þessi maður að gera og hver var tilgangurinn? Þessi maður er í fyrsta lagi að leitast við að kljúfa samstöðu vesturveldanna, samstöðu almennings og þá samstöðu sem við sem þjóðir höfum náð að byggja upp síðustu aldir. Hann er ekki einn um það. Þeir sem fremja þessi hryðjuverk gera það einnig að verkum að samlandar þeirra, saklaust fólk sem býr og er af erlendum uppruna í þessum löndum, t.a.m. á norðurlöndunum, verða fyrir aðkasti. Þeir byggja því einnig upp óeiningu er gerir það að verkum að við viljum sum hver helst hætta að hjálpa öðrum eins og saklausu flóttafólki.

Við eigum að halda áfram með líf okkar og taka fólki fagnandi, fólki sem kemur sjálviljugt og vill búa með okkur sem og þeim sem koma hingað sem flóttamenn og af góðum vilja. Sumir segja hryðjuverkamenn geðveika. Svo er ekki. Þeir geðveiku sem og aðrir sem eru veikir vilja alls ekki gera fólki þetta. Þetta er glæpaverk og það á ekki að sjúkdómsvæða til að gera því skónna að þeir sem fremja slíkan voðaverknað eigi í einhverjum erfiðleikum með að búa með okkur frekar en hver annar og það reki viðkomandi til að fremja voðaverk eins og það að drepa saklausa samborgara sína.

Ég kalla eftir auknu öryggi og forvirkum rannsóknarheimildum til handa íslenskri lögreglu. Einnig kalla ég eftir auknu fjármagni til að flýta fyrir hvers kyns hælisumsóknum og til að tryggja að við veljum rétt og gerum gott, hjálpum. Við eigum einnig að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft heimafyrir t.a.m. með þróunarhjálp. Við Íslendingar erum eftirbátar í því efni og erum alls ekki að uppfylla skuldbindingar okkar í þessum efnum. Það er miður.

Við viljum samhliða stuðla að því að okkar sjúklingar hér heima og aldraðir fái góða umönnun og verðum að tryggja það öryggi sem og almennt öryggi þegna m.a. gegn hryðjuverkum. Til þess arna verðum við að stuðla að því að fjármagn renni í þessa liði og lögreglu svo tryggja megi það sem þessum aðilum er gert að standa vörð um með tilvist sinni, þ.e. öryggi.

Ég vil geta farið aftur til Stokkhólms með fjölskylduna og mun gera það. Þar munum við ganga örugg upp Drottningagötuna frá Gamla stan. Ef við hugsum svona og erum áræðin þá sigrum við. Samhliða mun fjölskyldan ávallt greiða til SOS barnaþorpana og óska þess að íslenska ríkið geri það einnig, þ.e. til þróunarhjálpar og nái að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar svo áfram verði  hlustað með athygli þegar fulltrúar lands og þjóðar kveða sér hljóðs á erlendum vettvangi.

Guð geymi þá sem létust í Stokkhólmi í gær og styrki þá sem eiga þar nú um sárt að binda.

Flokkar: Siðferði · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

Þriðjudagur 4.4.2017 - 10:50 - Lokað fyrir ummæli

Skattahækkun ríkisstjórnarinnar á ferðaþjónustu

Nýlega kynnti forsætisráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, að sú grein sem hefur bjargað fjárhag ríkissjóðs síðustu árin eftir hrun og komið, ásamt öðrum, á þeirri hagsæld sem nú ríkir í landinu yrði skattlögð með því að færa hana úr 11% virðisaukaskatti í 22,5% virðisaukaskatt. Jafnframt fylgi þessari einhliða tilkynningu skýring á því að ætlunin sé að ,,einfalda“ skattkerfið en samt að halda enn áfram með 11% skattþrepið. Ekki er séð að það einfaldi mikið fyrir ferðaþjónustuna í landinu en fulltrúar hennar voru ekki kallaðir að borðinu áður en þetta var ákveðið eða leitað ráðgjafa hjá þeim né umsagna. Þetta eru því frekar slæleg vinnubrögð hjá ríkisstjórn Íslands og það er miður.

Úr því sem komið er virðist sem svo að ekki liggi heldur fyrir í hvað fjármagnið fer sem kemur væntanlega í ríkiskassan vegna þessarar skattahækkunar á eina grein. Ég sé ekki að ætlunin sé að hækka skatta eða veiðigjöld á sjávarútveginn samhliða þessum aðgerðum en báðar þessar greinar eru mikilvægar útflutningsgreinar og mega þola talsverða erfiðleika eftir að krónan styrktist. Hvers vegna stendur Sjálfstæðisflokkurinn að skattahækkunum aðeins á ferðamannaiðnaðinn?

Líkur eru á því að ferðaiðnaðurinn hafi ekki staðið eins vel saman og samtök sjávarútvegsfyrirtækja og eigi ekki hauka í horni eins og sá iðnaður allur sem er rótgróinn. Sjálfur er ég á móti skattahækkunum almennt og vil ekki sjá að Sjálfstæðisflokkurinn gangi þarna á undan með þessum aðgerðum.

Reikna má að krónuvextir fari eitthvað lækkandi og á móti komi líklega fram vaxtahækkun á evrusvæðinu á móti á næstunni. Benda allar spár til þess arna. Verði af þessu má ætla að gengið á krónu gagnvart öðrum myntum gefi eitthvað eftir. Það er hugsanlegt að þetta hjálpi til og komi eitthvað á móti skattahækkunum ríkisstjórnarinnar.

Það sem stendur eftir er samráðsleysið við aðila í ferðaþjónustu. Nú liggur beint við að þessir fjármunir fari aðallega í að styrkja innviðina fyrir ferðaþjónustuna og renni m.a. í samgöngur á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Einnig þarf að bæta heilbrigðisþjónustuna og gæta sérstaklega að því að tryggja að hún sé örugg og fjölbreytt til að sinna megi almenningi og m.a. ferðamönnum betur og þeirri grein sem kom okkur hér á lappirnar eftir að annað gaf sig.

Tryggjum að fjármagnið renni í réttan farveg ef á annað borð verði farið í þessa skattahækkun. Samtök ferðaþjónustunnar þurfa að fá ábyrgðaryfirlýsingu eða gera greinargott samkomulag við ríkisstjórnina um að fjármagni verði ráðstafað, þ.e. fjármagni sem myndast væntanlega vegna þessarar skattahækkunar, í liði sem skipta ferðaþjónustuna mestu máli í dag.

Að lokum vil ég, að öðrum ólöstuðum, færa öllum þeim sem stunda ferðaþjónustu á Íslandi, beint eða óbeint innilega þakkir fyrir að hafa komið íslensku hagkerfi vel og orðið til þess að auka atvinnu á Íslandi, byggt upp af myndarskap grein sem er komin til að vera og þroskast vel í góðum jarðvegi.

Kærar þakkir ferðaþjónustufólk !

Flokkar: Ferðamál · Hagmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 29.3.2017 - 18:40 - Lokað fyrir ummæli

Ný rannsóknarskýrsla um kaup á Búnaðarbanka Íslands

Árið 2003 keyptu aðilar 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Það komu aðilar sem buðu hæst og ríkið seldi þeim bankann fyrir það verð og átti hluti þess m.a. að renna í það að byggja nýjan Landspítala rétt eins og átti að gera með þá fjármuni sem fengust fyrir söluna á hlut ríkisins í Símanum, þ.e. Landsímanum. Ekkert varð úr byggingu á nýjum Landspítala.

Árið 2017 er gefin út skýrsla þar sem lýst er viðskiptafléttu þar sem þýskur banki, sem allir vissu árið 2003 að væri til, hefði verið milligönguaðili um kaup á Búnaðarbanka Íslands en ekki hinn ,,raunverulegi“ framtíðareigandi og ,,kjölfesta“. Mér er spurn hvað ríkinu kemur það við, árið 2003 eða síðar, hverjum þessi þýski banki seldi hlut sinn síðar eftir að hafa keypt hann og íslenska ríkið hafi selt hann?

Það að Ólafur Ólafsson, sem sjálfsagt hefði mátt fara mýkri höndum um verkefnið, hafi staðið að þessari ,,fléttu“ lýsir fremur ákveðinni aðferðafræði í því að gera verðmæti úr engu heldur en að það eigi að vera að karpa um það að hann sé eini skúrkurinn í málinu. Það er vitað að hið opinbera, í þessu tilviki íslenska ríkið, fer yfirleitt illa með fé almennings og kann ekki vel að semja nema hugsanlega þegar kemur að milliríkjasamningum. Það er þó háð því hver mótaðilinn er eins og í öðrum samningum.

Reyndar mátti sjá að ICESAVE samningarnir voru lélegir og eru þeir gott dæmi ef það á að ræða um skelfilega samninga hins opinbera og fulltrúa hins opinbera á Íslandi. Það ber enginn ábyrgð, sem greiddi „JÁ“, á því í dag. Ríkið kann illa að reka eigin stofnanir, eiga í viðskiptum og sinna innkaupum. Því vekur það svo sem enga undrun að Ólafur Ólafsson hafi getað búið til ,,fléttu“ sem leiddi til þess að hann hagnaðist persónulega vel á kaupum þessa þýska banka á 45,8% hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. ,,Fléttan“ gekk því upp og úr varð talsvert viðskiptaveldi. Því er ekki hægt að neita. Þannig gerðust kaupin á Eyrinni við Eyjafjörð hér forðum daga og fátt nýtt þar undir sólinni.

Þó svo að Ólafur Ólafsson kunni að hafa brotið af sér einhvern tíman síðar, t.d. í þessu Al Thani máli,  er ekki séð að hann hafi brotið af sér við kaup þýsks banka á 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands. Því þykir manni undrum sæta að þegar kemur út skýrsla um klúður íslenska ríkisins og lélegt eftirlit þar á bæ að ergelsinu af því öllu sé velt á einstakling sem er að sitja af sér dóm í dag. Það er vel þekkt orðið að íslenskir viðskiptamenn margir segja ekki allt og ef eitthvað er það helst ósatt. Sama má segja um fjölmarga stjórnmálamenn.

Hvers vegna eru þeir sem að þessu stóðu ekki inntir eftir þessu öllu saman og kannað hvar hundurinn lá þarna grafinn? Ekki kom Ólafur Ólafsson að erindisbréfi þeirrar eins manns nefndar sem nú skilaði af sér og mótaði þannig í hvaða horn yrði leitað upplýsinga. Sagt er að stjórnmálamenn eigi að bera pólitíska ábyrgð og að sumir hafi þegar gert það. En hvað með stöðu dagsins í dag?

Það stendur því eftir að almenningur þarf að geta treyst því nú að þegar vélað er um sölu á Arion banka og sölu á öðrum hlutum á Íslandi sem er í beinu eða óbeinu eignarhaldi ríkisins að vel sé að því staðið. Það er of seint að leita lausna í málum og endurreikna verðmiða þegar áratugir eru liðnir. Erum við Íslendingar í skjóli gagnvart ægivaldi því sem mun taka hér við fjármálakerfinu á næstu misserum?

Það er örðugt að spæla eggið eftir suðu.

Flokkar: Sagnfræði · Siðferði · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur