Miðvikudagur 17.10.2012 - 16:01 - Rita ummæli

Eitt NEI nægði

Dagurinn byrjaði á því að raka af sér mesta skeggið, fara í hrossabjúgnaveislu til fjölskyldunnar í Kópavoginum í hádeginu og svo til rakarans. Allt gert til að líta vel út á kjörstað enda fyrsta sinn sem ríkið er með þvílíka og aðra eins skoðanakönnun.

Síðan var farið á kjörstað niður í Laugardalshöll og þar var biðröðin styttri en eftir tómötum er seldir voru í landamæraborginni Oradea í Rúmeníu árið 1990, rétt eftir aftöku einræðisherra þess lands.

Já, þetta gekk snurðulaust fyrir sig og eitt NEI nægði við fyrstu spurningunni. Þessari könnun er því lokið af minni hálfu a.m.k.

Svo er bara að bíða spenntur eftir úrslitunum í þessari ríkisstyrktu skoðanakönnun.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 14.10.2012 - 16:41 - Rita ummæli

Auðlindir og stjórnarskrá

Talsvert margir hafa komið fram upp á síðkastið til að telja íslenskri þjóð trú um að ef allar auðlindir landsins fari undir stjórnarskrá Íslands og verða þar gerðar að almannaeign sé betur með þær farið.

Svo þarf alls ekki að vera.

Ef við lítum á jarðarkringluna sem við búum á og hvernig umhorfs er þar sem allar þjóðir telja sig hafa umferðarétt og er í raun einskinsmanns land eða haf, þ.e. úthafið utan landhelgi ríkja, kemur ýmislegt í ljós. Þarna er enginn að gæta eigna sinna og réttinda, þarna fara misvitrir sjófarendur um sem ættu að sýna „samfélagaslega“ ábyrgð.

Þetta er allt í almannaeigu í raun og veru, þ.e. okkar sem búum á þessari jörð, ekki satt?

Ekki nokkur maður setur sig upp á móti því hvað þú gerir þarna og enginn einn aðili sem gætir þess. Reyndar eru til samtök velviljaðra sem styrkt eru m.a. af einkaframtakinu í Bandaríkjunum og í Evrópu. En ríkisstjórnir heims og samtök þeirra, þau eru að setja þetta allt í nefnd.

Hér má sem dæmi nefna norður hluta Kyrrahafsins.

Samkvæmt fréttum CNN frá því í ágúst 2009 er á þessu svæði gríðarlegt magn af rusli á allt að þúsunda mílna svæði í miðju hafinu. Sumir segja þennan ,,ruslahaug“ spanna svæði á stærð við Texas. Sérfræðingar frá Kaliforníuháskólanum í Bandaríkjunum hafa rannsakað svæðið en á því er umtalsvert magn af plastrusli. Plastið var farið að nota almennt fyrir tæpum 100 árum síðan og nú eru úthöfin, sem enginn á en alþjóða samfélagið á að sjá um, að fyllast af plastrusli og öðrum óþvera.

Hvers vegna? Ætli það sé vegna þess að engum er annt um þetta svæði en allir vilja losna við ruslið? Eru þetta bara orðin tóm á öllum þessum ráðstefnum? Ekkert er að gert og ruslahaugurinn stækkar bara og stækkar. Þetta er eins og í Napólí á Ítalíu 2010 þegar erindrekar ESB voru þangað sendir til að kanna ruslahauga eftir að hætt var að sjá um að hirða ruslið því ekkert fékkst greitt fyrir þá vinnu.

Auðvitað þrýstu þeir í ESB á með því að stoppa niðurgreiðslur þangað þar til ruslið færi. Ruslið, það fór ekkert því það minnkaði bara í buddunni hjá borginni og endaði með því að herinn var kallaður út.

Einnig má nefna hreina loftið okkar sem er auðlind og einnig vatnið.

Kínverjar mynda alþýðulýðveldi. Kínverjar eiga í vanda enda menga þeir manna mest, bæði vatnið og andrúmsloftið. Þetta er þó eina eftirlifandi hreinræktaða vinstraaflið í heiminum fyrir utan nú Ísland, N-Kóreu og fáein önnur fátæk ríki. Flestum er þar nokkuð sama enda fýkur óþefurinn og mettað loftið eitthvað annað svo sjá má slíkt á gervitunglamyndum.

Kínverjunum sjálfum reyndar óar við þessu ef þetta staldrar lengi við heima í borgunum. En þegar vindur blæs er líðaninn aðeins skárri. Mengunin fer þá út í rými á milli jarðar og heiðhvolfanna sem enginn á. Reynt hefur verið að ná utanum þetta m.a. á Kyoto ráðstefnunni frægu á sínum tíma en ekkert miðar í þeim efnum enda kínverska ríkinu nokkuð sama þegar þetta óloft er allt fokið úr landhelginni. Mengunin sýrir svo hafið þegar það tekur við sem og er allt fullt af plastrusli.

Frétt á vef Vísis frá 2010 sýnir einfaldlega fram á að óhóflegar styrkveitingar til sjávarútvegs á meðal verðandi alþýðulýðveldis ESB ríkjanna. Styrkveitingar þessar hafa stuðlað að ofveiði innan landhelgi sambandsins. Þar skapar flækjustigið vandamálin og rányrkjuna.

Ef það er ríkið sem á allt, nýtir allt og stýrir öllu hvað auðlindir varðar er ljóst að slíkt mun enda í sóun, van- eða ofnýtingu, skriffinsku og skelfilegri niðurstöðu fyrir þjóðarbúið í heild.

Það er því grundvöllur að velmegun ríkja að nýta einkaframtakið m.a. með nýtingaréttindum á auðlindum enda gæti farið eins og með umgengni úthafanna, umhirðinuna í Napólí og rányrkjuna innan ESB. Því gæti hugsanlega allt fyllst af rusli og fiskurinn horfið.

Eins og segir í fyrra bréfi Páls til Korintumanna:

Þú skalt ekki múlbinda uxann er hann þreskir.

Síðar segir einnig varðandi lögmál Móse: Jú, vor vegna stendur skrifað að sá sem plægir og sá sem þreskir eigi að gjöra það með von um hlutdeild í uppskerunni.

Þetta er gott dæmi um speki sem lifir allar stjórnarskrár af.

Það er sjálfsagt að endurnýja ákvæði í stjórnarskrá Íslands en ekki með þeim aðferðum sem nú er beitt. Það er búið að smíða ótrúlegt bákn í kringum þessar breytingar og framkvæmdavaldið fór gegn úrskurði Hæstaréttar Íslands. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.

Standa á vörð um þrískiptingu ríkisvaldsins og þannig gildandi stjórnarskrá. Hvernig verður virðingin fyrir nýrri stjórnarkrá ef fara á nú gegn þeirri gömlu með þvílíkri vanvirðingu? Hér þarf þverpólitíska samstöðu en ekki yfirgang fárra sem telja sig þess megnuga að tala fyrir hönd þorra íslensku þjóðarinnar.

Mætum því og skilum auðu, nú eða segjum NEI við fyrstu spurningunni og látum þar við sitja.

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 13.10.2012 - 11:22 - Rita ummæli

Brött framtíð Samfylkingarinnar

Nú hafa margir synir og margar dætur Samfylkingarinnar yfirgefið þetta blessaða framlag fyrrum forystumanna Alþýðuflokksins, Kvennalistans og Alþýðubandalagsins, arftaka Kommúnistaflokksins, til íslenskra stjórnmála.

Reykjavíkurlistinn (R-listinn) var víst eitthvað afbrigðilegasta afsprengi af þessu sem náði því að leggja mestu byrgðar á borgarbúa sem sögur fara af auk þess sem að hanna og smíða dýrasta eldhús norðan við miðbaug sem hýst er í Orkuveituhúsinu sem í dag er aðeins nýtt að hluta.

Samfylkingin hefur hingað til, þ.e. frá sameiningu alþýðuafla á Íslandi, haft aðeins eitt mál á dagskrá, þ.e. aðild að friðar-nóbels-verðlaunahafanum ESB. Reyndar hefur einnig verið um að ræða persónulegar árásir á forsætisráherra Ísraels en það er talið til mistaka og upphlaups sem verður afsakað síðar. Erfitt er að átta sig á þessum friðarverðlaunum nema þau séu fyrir það að hafa átt erfitt með að halda friðinn í Bosníu á sínum tíma þar sem NATO varð að skakka leikinn eftir óendanlegar umræður um málið innan ESB þó svo að framin væru þjóðarmorð á svæðinu.

Það er margt afar fagurt frá tímum kommúnista og afskaplega rómantísk og má þar m.a. nefna spænsku borgarstyrjöldina sem Ernest Hemingway lýsti vel í bókinni Hverjum klukkan glymur (e. From Whom the Bell Tolls). Lýsingar á persónum og baráttu þeirra, ástum og sorgum eru hvoru tveggja fagrar en ekki síður daprar. En það voru spænsku ættjarðarlögin, söngurinn og stemmningin sem sameinaði fólkið. Það var þá sem hægt var að véla fólk til ýmisra verka, bæði til góðs og til ills. Fólkið heillaðist af boðskapnum.

Spænski kommúnistaflokkurinn PCE (s. Partido Comunista de España), stærsta hreyfing samtaka vinstriflokka á Spáni, sameinaðist fyrir tæpri öld úr tveimur flokkum sem kenndu sig við kommúnista. Var þessi hreyfing fámenn til að byrja með en óx og börðust liðsmenn hennar hatrammri baráttu gegn ofríki Franco sem naut stuðnings frá Hitler á árum áður. Franco réð ríkjum á Spáni frá 1939 til 1975. Þarna fórnuðu menn og konur lífi sínu gegn ofurefli.

Einnig eru söngvar Rauða hersins í Rússlandi fagrir þar sem burðamiklar og hljómfagrar raddir óma kommúnisma, foringjum og stríðsafrekum þeirra til dýrðar. Þar fer reyndar hvergi texti varðandi aðstoð Bandaríkjanna sem sendu þeim vopn til að verjast Hitler enda Stalín gjörsamlega vanbúinn á þeim tíma sem Hitler réðst til atlögu. Var Ísland viðkomustaður margra skipa bandamanna sem fluttu hergögn til norðurhluta Rússlands á þessum válegu tímum.

Á Íslandi er þessu nú öðruvísi farið. Eins og lýst er í Morgunblaðinu í dag (13. október 2012 – Staksteinar) eru nú tveir mætir menn, höfundar texta (ath. ekki lags) um Samfylkinguna, gengnir úr fylkingunni og þurfti hvorki manndráp né blóðuga borgarastyrjöld til eins og á Spáni. Hugsanlegt að ástin hafi blómstrað en hún er líka numinn á brott. Rómantíkin og rauðu snýtuklútarnir um hálsin eru horfnir.

Það þurfti eiginlega ekkert til nema kanski það að annar þeirra, sem nýlega fór að heiman, varð að fara þaðan því það vildi hann ekki nokkur maður á þing í því héraði þar sem söngvar hans um kvótamálin hafa ómað um hríð.

Nú hafa þeir ekki sameinað Samfylkinguna heldur splittað henni upp í nýja fylkingu sem nefnd hefur verið Björt framtíð. Það sem alþýðumenn á Spáni töldu áður afar mikilvægt, þ.e. að sameinast, telst nú löstur einn og algjört ólán.

Hlýðum nú aðeins á boðskap þessara tveggja manna sem sköpuðu stemmninguna innan Samfylkingarinnar hér á árum áður með afrituðu erlendu lagi. Lagið er líklega flutt án heimildar höfundarins og þannig algerlega ókeypis því sú auðlind er víst alfarið í eigu þjóðarinnar ef miðað er við áherslur einstakra aðila upp á síðkastið.

Eftir þetta útspil drengjanna má ætla að í framtíðinni verði á brattann að sækja fyrir Samfylkinguna.

Góðar stundir.

 

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag · Tónlist

Fimmtudagur 11.10.2012 - 11:56 - Rita ummæli

Hið opinbera, skjaldborgin og skólinn

Telja má fullvíst að víðtækasti og veigamesti óskrifaði samfélagssáttmáli hvers ríkis sé að standa vörð um börnin og tryggja að hægt sé að koma þeim til manns.

Menntamálin eru sett í öndvegi í ríkjum sem telja þennan málaflokk skipta máli. Hjá slíkum ríkjum er tryggt að þó allt fari á versta veg séu börnunum ávallt tryggð menntun og að hún sé fyrsta flokks enda þurfa þau að geta staðist harða samkeppni þegar út í atvinnulífið er komið.

Samfélagið okkar allt er hér undir til lengri framtíðar.

Eftir hrun þurfti vissulega að skera niður en þeir sem skáru niður gleymdu því að það var einingin sem þeir standa helst vörð um, æðsta stjórn hins opinbera, sem var ekki skorin niður í þá stærð sem hún var í árið 2005 og fyrir þann tíma.

Það er afar mikilvægt ,,elskan mín“ og kostnaðarsamt að sækja um ESB aðild þó enginn vilji þar inn. Einnig er mikilvægt að kjósa um breytingu á stjórnarskrá ,,elsku hjartað mitt“, stjórnarskrá sem stóðst álagið þegar mest á reyndi. Um að gera að spandera í þetta og þenja út æðstu stjórn hins opinbera ,,ástin mín kæra“…DÖ!

Æðsta stjórnsýsla hins opinbera stendur nú í útgjöldum sem nema um 8,4% af vergri landsframleiðslu (VLF) en það var stigið sem útgjöld til menntunar stóðu í sem hlutfall af VLF árið 2005. Það ár tók æðsta stjórnsýsla ríkisins til sín einungis um 5% af VLF.

Svo virðist því að á meðan skorið er til menntamála vex æðsta stjórnsýslan umfram allt sem teljast má eðlilegt í rétt yfir 300 þúsund manna samfélagi. Nú er ráðuneytum fækkað en það virðist allt vera „blöff“ og ætlað til markaðssetningar á ímynduðum sparnaði í æðstu stjórnsýslunni rétt fyrir kosningar næsta vor eða fyrr.

 

 

Hið opinbera vex og vex en börnin eru látin sitja á hakanum því æðsta stjórnsýsla ríkisins er frek á fóðrum. Að auki er öryggismálum öllum stefnt í voða á Íslandi.

Ef litið er til öryggismála og löggæslu er um að ræða útgjöld sem nema aðeins um 1,4% af VLF sem ráðstafað er til þess málaflokks. Ekki er hægt að finna eins lága tölu fyrir árabilið 1998 til 2011.

Því er ljóst að ekki hefur eins lítið hlutfall af VLF runnið til löggæslu og öryggismála á Íslandi um árabil. Því eru börnin okkar ekki einu sinni örugg þegar út úr skólanum er komið. Hvað þá með fjölskylduna alla í yfirveðsettri fasteign? Það versta er að nútíma glæpahundar kunna ekki að stela skuldabréfinu af fasteigninni.

Í dag eru leikvellir um borg og bí ekki þrifnir né slegnir því starfsmenn sveitarfélaga leggja hugsanlega ekki í að sinna þessu sem skildi vegna sprautunála á víð og dreif. Hvers konar samfélag er þetta að verða?

 

 

Það er orðið tímabært að foreldrar taki höndum saman og mótmæli þessu framferði hins opinbera harðlega og beiti sér fyrir því að úr þessu verði bætt og að stjórnmálamenn fari að huga að skólanum og hætti að sinna gæluverkefnum sínum. Það er kominn tími til.

Stöndum vörð um börnin okkar og komandi kynslóðir því hið opinbera virðist hafa gjörsamlega gleymt lögbundnu hlutverki sínu og sinnir því illa.

Flokkar: Skólamál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 10.10.2012 - 23:39 - Rita ummæli

Eldhús Orkuveitu Reykjavíkur

Ekki hefur pistlahöfundi enn tekist að lesa alla skýrsluna um gengdarlausa bruðlið og vitleysuna sem hefur viðgengist hjá Orkuveitu Reykjavíkur um árabil. Það er heldur ekki skrítið því maður á afskaplega erfitt með að hesthúsa þvílíkan ófögnuð í einu lagi og mun væntanlega taka talsverðan tíma að fara yfir allt þetta áhugaverða en skelfilega efni.

Þrátt fyrir þetta hafa fjölmargir stjórnmálamenn komið brattir fram og allir sagst hafa ætlað að stöðva þetta. Sumir vissu þetta og gerðu ekki nokkurn skapaðan hlut í málinu. Svo er allt gengið í framboði og kjósendur virðast virkilega ætla að svara því framboði með eftirspurn. Það eru markaðslögmál sem afar erfitt er að skilja. En svona virðist Ísland vera enn þann daginn í dag. Er hér um að ræða e.k. samfélagaslegt ADHD tilfelli?

Í Orkuveitu Reykjavíkur var ýmislegt kokkað, margt ágætt en flest misjafnt og óboðlegt heiðarlegum borgurum.

  • Línu net ruglið hjá Samfylkingunni
  • Rækjueldi Framsóknar
  • 100 milljarða stöðutaka í erlendum myntum án varna fyrir hrun
  • Samningurinn við fyrrv. bankastjóra Glitnis og REI óskapnaðurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir að yrði að veruleika
  • osfrv.

En það sem líklega toppaði þetta allt með sóma var eldhús R-listans, eldhús Samfylkingarinnar, VG og Framsóknar. Í myndbandi hér að neðan er því lýst að OR gæti tekið árlega á móti 15.000 gestum í koktelboð á kostnað þeirra sem útsvarið greiða.

Svo með þetta myndband, það kostaði víst eitt og sér um eina milljón króna. Í nýju skýrslunni um Orkuveitu Reykjavíkur er því miður ekki að finna umfjöllun um þetta eldhús Ingibjargar og félaga hennar á R-listanum. Þetta er galli á skýrslunni.

Hér er allt í boði Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna enda virðist eldhúsið í OR taka við hverju sem er.

Verði ykkur að góðu.

 

Flokkar: Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.10.2012 - 15:35 - Rita ummæli

Höfundarréttarbrot ? – Mætum en skilum auðu !

Nýlegt myndband ýmissa íslenskra listamanna hefur verið birt á netinu og vekur athygli.

Er verið að brjóta blað með tilkomu þess? Nei, því hér er líklega verið að afrita hugverk og hugsanlega brjóta höfundarrétt á upplegginu öllu. Þarna er skorað í fyrstu á fólk að kjósa ekki. Síðan er vikið að því að það sé brýnt að kjósa og skorað á fólk að senda myndbandið á 5 aðila. Kaldhæðnin felst ekki beint í skilaboðunum heldur í því að væntanlega sé búið að véla þarna vel meinandi listafólk í höfundarréttarbrot enda myndböndin sem um ræðir nákvæmlega eins fyrir utan persónur, leikendur og annan boðskap.

Hverjum er ekki sama um höfundarréttarbrot og eignaupptöku?

Íslenska myndbandið er nákvæmlega eins og það sem gert var fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2008 þar sem stórstjörnur Hollywood stigu fram. Okkar útgáfa er því n.k. Sodastream útgáfa af CocaCola en hugsanlega án heimildar höfundar upphaflega myndbandsins í Bandaríkjunum. Frumleikinn hér á landi er því allur fokinn út í veður og vind þó svo að boðskapurinn sé ágætur og að íslenskir listamenn teljist almennt frekar frumlegir og margir mjög færir á sínu sviði.

Ætli þetta sé ekki vegna þess að þeir sem unnu þetta myndband hér á landi og studdu gerð þess telja allt milli himins og jarðar þjóðareign og almenningshlunnindi. Það er alveg hugsanlegt.

Það er algengt á Íslandi að hugverk annarra séu afrituð og leitað m.a. að auglýsingum og þær afritaðar fyrir íslensk fyrirtæki og jafnvel stofnanir. Þetta hefur ítrekað komið upp.

Leiðinlegt þykir að nú hafa skapandi og afar hæfir listamenn á Íslandi verið leiddir í þessa gildru. Þarna koma þau fram með þá hugmynd að fólk eigi að kjósa sem er sjálfsagt mál. Var ekki hægt að gera þetta samt einhvernvegin öðruvísi?

Pistlahöfundur mun fara á kjörstað nú sem fyrr og nýta atkvæðaréttinn sinn enda ekkert sjálfsagðara. Einnig er rétt að hvetja til þátttöku í kosningum enda ríkur réttur í því fólginn t.a.m. með því að skila auðu. Í því að skila auðu eru fólgin mótmæli gegn fyrirkomulagi, tilurð og áeggjan sem í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu er fólgin.

Eitt af því sem er verið að hvetja fólk til að gera, þ.e. með því að taka afstöðu til 1. spurningarinnar á kjörseðlinum, er m.a. að leggjast á árar með ríkisstjórn Íslands að gera lítið úr Hæstarétti Íslands enda er allt þetta fár varðandi stjórnarskrá lýðveldisins komið til vegna ólögmætra kosninga til svokallaðs Stjórnlagaþings á sínum tíma.

Eins og allir vita er ekki hægt að afrita allt með þessum hætti og munu listamenn ekki afrita fiskinn í sjónum, þjóðlendur eða fallvötnin þrátt fyrir að þátttakan í komandi kosningum nái þeim 40% sem prófessor Þorvaldur Gylfason telur nægjanlegt til að niðurstaðan verði bindandi.

Kjósið endilega en skilið auðu. Með því getur kjósandi vottað baráttunni fyrir þrískiptingunni virðingu sína. Eins og flestir vita gengur þrískipting ríkisvaldsins út á að skipta eigi valdsviði ríkisins í dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald. Þetta stjórnskipulag er grundvöllur lýðræðislegs skipulags á vesturlöndum. Ríkisstjórn Íslands hefur virt þessa reglu að vettugi hingað til og sett ofaní Hæstarétt landsins.

Nánar má lesa um lýðræði hér á Vísindavefnum.

Svo má senda pistilinn á 5 vini til að ná hámarksdreifingu á þessum pistli mínum sem er, „Nota Bene“, ekki afritaður og alls ekki brot á höfundarrétti.

Flokkar: Heimspeki · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.10.2012 - 10:05 - Rita ummæli

Áfram formannslaus Samfylking?

Prófessor Stefán Ólafsson, sérfræðingur í velferðarmálum á Íslandi, hefur nú tekið upp hanskan fyrir formannsframbjóðanda sem ekki hefur stigið fram. Stefán virðist í umfjöllun sinni taka orð Styrmis Gunnarssonar, fv. ritstjóra Morgunblaðsins, góð og gild varðandi væntanlegt framboð Katrínar Júlíusdóttur.

Í grein sinni gælir Styrmir við að Katrín muni bjóða sig fram gegn Árna en Styrmir telur Árna Pál ekki taka nægjanlega af skarið í sínum málflutningi eftir að hann bauð sig fram til forystu innan Samfylkingarinnar.

Það er vitað að Árni Páll tekur sjaldan af skarið enda var hægt að snúa honum hring eftir hring í málefnum heimilanna þannig að hann kom út úr þeim hildarleik alveg ringlaður, brunninn í framan og ráðherrastóllaus. Árna var útskúfað úr ríkisstjórn Íslands. Það er vitað að Katrín Júlíusdóttir er mjög hæf og sól hennar stígur mun hærra innan Samfylkingarinnar um þessar mundir.

Er því ekki að undra að gamli ritstjóri Morgunblaðsins hafi áhyggjur af Árna enda Árni drengur góður. Tel ég mat Styrmis rétt varðandi stöðu Árna Páls innan Samfylkingarinnar og að það er einnig líklegt að forysta Samfylkingarinnar hafi þegar valið Katrínu til forystu og skipan hennar í eitt valdamesta ráðuneyti Íslands er vitnisburður um það. Önnur góð kona var t.a.m. látin víkja fyrir þessa ungu framsæknu konu.

Nú munu þessir ágætu einstaklingar takast á í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum og er spurning hvort það prófkjör verði opið eða aðeins ætlað flokksbundnu og skuldlausum félagsmönnum Samfylkingarinnar síðustu ár. Ef prófkjörið er opið er alveg hugsanlegt að Árni Páll geti smalað utanflokksmönnum, jafnvel sjálfstæðismönnum og vinstri grænum, til að knýja fram úrslit sér í hag. Aðeins með sigri í Kraganum getur Árni beitt stöðu sinni sem oddviti í kjördæminu og orðið formaður Samfylkingarinnar. Ef Árni vinnur prófkjörið má hins vegar vænta mótframboðs úr annarri átt þar sem forystan mun tefla fram sínum manni.

En Katrín hefur enn ekki stigið fram og gefið út yfirlýsingu varðandi formannsframboð. Mögulegt er að hún vilji fyrst sigra Árna Pál í prófkjöri áður en hún býður sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Hún gæti einnig gefið út yfirlýsingu um formannsframboð rétt fyrir prófkjörið og nýtt þannig sveifluna sem af því hlýst. Það gæti verið klókt.

Það gæti verið Stefáni huggun harmi gegn, hvað sem líður formannsslag í Samfylkingunni, að formaður VG getur, hér eftir sem hingað til, sinnt því forystuhlutverki í Samfylkingunni samhliða því að vera fjöldamálaráðherra enda með eindæmum fjölhæfur maður.

Því virðist litlu máli skipta hver verður formaður Samfylkingarinnar verði vinstri stjórn áfram við völd á Íslandi eftir næstkomandi kosningar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 5.10.2012 - 09:16 - Rita ummæli

,,Herra Netanyahu – rífðu niður þennan vegg !“

Það er vel þekkt í argaþrasið á milli húseigenda í fjöleignarhúsum á Íslandi og jafnvel á milli nágranna sem berst inná borð Húseigendafélagsins. Oft er þar um að ræða skrautlegar uppákomur og margar ekki mönnum sæmandi. Flestir búa í góðu samneyti við aðra og reisa veggi t.a.m. vegna hávaða og áhættu sem stafar getur af hinu ytra umhverfi. Markmiðið með slíkum veggjum er t.a.m. að gæta að öryggi barna og lágmarka hávaða svo hægt sé að sofa bærilega heimafyrir.

Nýlega stóð pistlahöfundur í framkvæmdum við lóð sína og reisti 1,8 metra háan vegg eins og lög leyfa og þar sem landið rís á því 25 metra hafi sem veggurinn spannar varð að hækka hann talsvert m.a. eftir leiðbeiningu frá Vegagerð ríkisins sem reiknar út hávaðamengun um borg og bý. Sumir ökumenn aka á löglegum hraða við þann veg sem veggurinn snýr að og sumir ökufantar spýta í og haga sér ósæmilega og gætu hugsanlega endað inní garði þar sem börn eru að leik. Allt er þetta gert til að tryggja öryggi hjá friðsamri fjölskyldu, fjölskyldu sem vill ekki ökufanta og fyllirafta upp að svefnherbergisgluggum sínum.

Í ályktun Landsfundar Samfylkingarinnar frá árinu 2011 segir m.a. varðandi utanríkismál, undir yfirskriftinni ,,Ábyrg utanríkisstefna“:

Samfylkingin leggur áherslu á nána og góða samvinnu við lýðræðisríki og virka þátttöku Íslendinga innan alþjóðasamfélagsins.

Nýlegt útspil utanríkisráðherra var að ,,hjóla í“ Öryggisráðið eins og það var orðað nýlega í fjölmiðlum. Þetta gerir ráðherra í miðju borgarastríði í Sýrlandi þar sem ástandið er vægast sagt viðkvæmt um þessar mundir og réðst auk þess sérstaklega á forsætisráðherra eina lýðræðisríkisins á svæðinu.

Þarna setti utanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar sig í stellingar og beitti hvorki meira né minna fyrir sig orðfæri Ronalds heitins Regans fyrrverandi bandaríkjaforseta. Í ofanálag sagði ráðherra þetta vera skilaboð frá íslensku þjóðinni sem hann bæri þarna á borð. Þetta eru ekki skilaboð frá pistlahöfundi og rétt að minnast á það til að forðast allan misskilning. Hugsanlega gætu þetta verið skilaboð frá einhverju brotabroti af þeim 40% sem Þorvaldur Gylfason telur nægjanlegt til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu síðar í þessum mánuði svo þær teljist bindandi. Þetta er nú allt lýðræðið sem boðið er uppá í dag á Íslandi.

Þarna mætti halda að utanríkisráðherra hafi vonast til að eftir þetta BOLD útspil sitt yrði forstjóra Landhelgisgæslunnar fyrr eða síðar falið að láta smíða fyrsta íslenska flugmóðuskipið og það nefnt í höfuðið á utanríkisráðherra fyrir töffaraskapinn í honum. Ef hönnun á slíku skipi yrði háttað líkt og við gerð stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands og sambærileg stjórn þar um borð í brúnni má ætla að af þessu skipi tækju á loft vélar sem aldrei myndu snúa aftur. Þannig heimasmíðaðar vélar og jafnvel loftbelgi má sjá á safni við Checkpoint Charlie í Berlín.

Hvað sem líður því að framfylgja ályktun Alþingis frá árinu 1989 varðandi Palestínu, sbr. stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar, er það ámælisvert af utanríkisráðherra að ráðast með slíkum orðum á eina lýðræðisríkið fyrir botni Miðjarðarhafs. Það er ekki sambærilegt t.a.m. Berlínarmúrnum þar sem hugmyndasmiðir kommúnismans lokuðu sitt fólk inni með þeim orðum að það væri gert til að hleypa ekki inn hugmyndum varðandi lýðræði og frelsi einstaklingsins.

Svo þetta með ökuþóranna, hávaðaseggina og fyllibytturnar sem gætu ekið inní garðinn hjá manni hér heima í Mosfellsbænum skal þó áréttað að þrátt fyrir að Guðbjartur Hannesson sé bindindismaður skv. fréttum DV er alveg hugsanlegt að hann muni í framtíðinni ráfa ófullur inní garða annarra manna í fylgd Össurar í leit að skatttekjum eftir að allir skatta-skjólveggir hafa verið rifnir niður á Íslandi. Það er nefnilega hugsanlegt að þessi ,,fleygu“ orð Össurar hafi aðeins náð eyrum formanns og framkvæmdastjóra Húseigendafélagsins en ekki mikið lengra þó að þau hafi verið hrópuð í einhverju mikilmennskubrjálæði rétt við Wall Street, New York.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.10.2012 - 16:08 - Rita ummæli

Stjórnarskrárbrjótur á dansgólfið

Hnotubrjóturinn eftir Pyotr Tchaikovsky hefur verið á fjölum Íslensku óperunnar og þótt mikið meistaraverk en þessi snillingur samdi þetta verk 1892 og þá sérstaklega fyrir ballett. Í þessu ævintýraverki er verið að fjalla um Klöru og Hnotubrjótinn en Klara fékk hnotubrjót í jólagjöf og dreymdi svo á jólanótt að brjóturinn breyttist í prins. Í draumförum stúlkunnar fóru þau saman í mikið ferðalag til hinna ýmsu landa og gátu þar baðað sig í sólinni.

Í ævintýrinu um Ísland hefur nú stjórnarskrárbrjótur stigið ansi framarlega á svið íslenskra stjórnmála og telur sig vera prins íslensku þjóðarinnar og sækist nú eftir formennsku í Samfylkingunni.

Árnalögin voru dregin upp af þessum prins og voru keyrð í gegnum þingið, troðið þveröfugum ofan í kok íslenskra heimila og fyrirtækja sem börðust fyrir lífi sínu gegn ofurefli, ríkisstjórn, Seðlabanka Íslands, fjármálafyrirtækjum, skilanefndum og slitastjórnum. Svo féll dómur í febrúar 2012 sem áréttaði það sem margur hafði áður sagt að þessi lög færu í bága við Stjórnarskrá Íslands. Þá gátu fjármálafyrirtækin fengið frest til að heimta meiri vexti, klípa aðeins meira af heimilum og fyrirtækjum, meiri dráttarvexti og von um að lukkan snúist þeim í hag í þessum „óljósu“ málaferlum framundan.

Eftir það taldi ríkisstjórnin vissulega að þyrfti að breyta þessari árans stjórnarskrá og eru því kosningar boðaðar til þess arna í þessum mánuði illu heilli þar sem söngvar satans hér á landi óma m.a. gegn þjóðkirkjunni. Það gengi þótti allt í lagi að setja ofan í Hæstarétt enda þrískipting ríkisvaldsins talin algjört aukaatriði í sósíalískum ríkjum vinstri manna.

Nú mælir prinsinn með að þeir sem með honum eru í þessari martröð innan Samfylkingarinnar kjósi hann til forystu flokks sem slá vildi skjaldborg um heimili landsins. Nú ætlar hann að grípa í hönd þjóðarinnar og taka hana með sér í ævintýraferð til sólarlanda og dansa út í eitt, hring eftir hring.

Reikna má með að aðgangseyririnn verði það hár að seðlabankastjóri Íslands hafi ekki efni á að mæta ef vísað er til nýjustu frétta enda verður Stjórnarskrárbrjóturinn ansi kostnaðarsamt verk, viðamikið, leiðinlegt og langdregið.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 2.10.2012 - 15:28 - Rita ummæli

Lýgur Samfylkingin og VG?

Stefán Ólafsson prófessor ofl. birta reglulega pistila hér á Eyjunni og segja m.a. formann Sjálfstæðisflokksins fara með rangt mál þegar rætt er um efnhagsmál á Íslandi. Hvað er hið rétta þegar snýr að heimilum á Íslandi?

Staða efnahagsmála er svo skelfileg undir stjórn VG og Samfylkingarinnar að sumir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar virðast þurfa að hagræða sannleikanum og segja aðra ljúga þegar reynt er að varpa réttu ljósi á ástand efnahagsmála. Nú má gera smá tilraun og kanna hvort ég verð hér talinn ljúga að íslenskri þjóð varðandi neðangreint.

Á meðfylgjandi súluriti má sjá að um 12.000 heimili á Íslandi (já, tólf þúsund !) voru með alvarleg vanskil á húsnæðislánum sínum á árunum 2010 og 2011. Af þeim er yfir helmingur heimili með börn eða yfir 6.000 heimili á Íslandi.

Hér tók við ríkisstjórn árið 2009 sem taldi sig ætla að slá skjaldborg utan um heimili landsins. Það hefur þessi ríkisstjórn alls ekki gert, síður en svo. Hún hefur fært heimilum þessa lands stærsta skuldabagga sem um getur í sögunni og vill svo ólm velta allri ábyrgð á einhverja aðra.

Samfylkingin hrópar oft og títt að þetta voru einhverjir vondir einstaklingar í ríkisstjórnum á árum áður (eins og Jóhanna Sigurðardóttir) sem bjuggu þetta allt til eða vondir kapítalistar og jafnvel útgerðamenn. Svo ætluðu þau að frelsa alla en hvað gerðist? Það var engin frelsaður, allt tómur blekkingaleikur og nauðungarsölurnar dynja á sem aldrei fyrr.

Það er hreint óþolandi þegar tindátar Samfylkingarinnar, VG og ýmissa klofningsframboða af vinstri vængnum koma fram með yfirlýsingar um að allt sé í góðu lagi hjá heimilum á Íslandi. Það er bara ósatt.

Vanskil

Heimild: Hagstofa Íslands (okt. 2012)

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur