Talsvert margir hafa komið fram upp á síðkastið til að telja íslenskri þjóð trú um að ef allar auðlindir landsins fari undir stjórnarskrá Íslands og verða þar gerðar að almannaeign sé betur með þær farið.
Svo þarf alls ekki að vera.
Ef við lítum á jarðarkringluna sem við búum á og hvernig umhorfs er þar sem allar þjóðir telja sig hafa umferðarétt og er í raun einskinsmanns land eða haf, þ.e. úthafið utan landhelgi ríkja, kemur ýmislegt í ljós. Þarna er enginn að gæta eigna sinna og réttinda, þarna fara misvitrir sjófarendur um sem ættu að sýna „samfélagaslega“ ábyrgð.
Þetta er allt í almannaeigu í raun og veru, þ.e. okkar sem búum á þessari jörð, ekki satt?
Ekki nokkur maður setur sig upp á móti því hvað þú gerir þarna og enginn einn aðili sem gætir þess. Reyndar eru til samtök velviljaðra sem styrkt eru m.a. af einkaframtakinu í Bandaríkjunum og í Evrópu. En ríkisstjórnir heims og samtök þeirra, þau eru að setja þetta allt í nefnd.
Hér má sem dæmi nefna norður hluta Kyrrahafsins.
Samkvæmt fréttum CNN frá því í ágúst 2009 er á þessu svæði gríðarlegt magn af rusli á allt að þúsunda mílna svæði í miðju hafinu. Sumir segja þennan ,,ruslahaug“ spanna svæði á stærð við Texas. Sérfræðingar frá Kaliforníuháskólanum í Bandaríkjunum hafa rannsakað svæðið en á því er umtalsvert magn af plastrusli. Plastið var farið að nota almennt fyrir tæpum 100 árum síðan og nú eru úthöfin, sem enginn á en alþjóða samfélagið á að sjá um, að fyllast af plastrusli og öðrum óþvera.
Hvers vegna? Ætli það sé vegna þess að engum er annt um þetta svæði en allir vilja losna við ruslið? Eru þetta bara orðin tóm á öllum þessum ráðstefnum? Ekkert er að gert og ruslahaugurinn stækkar bara og stækkar. Þetta er eins og í Napólí á Ítalíu 2010 þegar erindrekar ESB voru þangað sendir til að kanna ruslahauga eftir að hætt var að sjá um að hirða ruslið því ekkert fékkst greitt fyrir þá vinnu.
Auðvitað þrýstu þeir í ESB á með því að stoppa niðurgreiðslur þangað þar til ruslið færi. Ruslið, það fór ekkert því það minnkaði bara í buddunni hjá borginni og endaði með því að herinn var kallaður út.
Einnig má nefna hreina loftið okkar sem er auðlind og einnig vatnið.
Kínverjar mynda alþýðulýðveldi. Kínverjar eiga í vanda enda menga þeir manna mest, bæði vatnið og andrúmsloftið. Þetta er þó eina eftirlifandi hreinræktaða vinstraaflið í heiminum fyrir utan nú Ísland, N-Kóreu og fáein önnur fátæk ríki. Flestum er þar nokkuð sama enda fýkur óþefurinn og mettað loftið eitthvað annað svo sjá má slíkt á gervitunglamyndum.
Kínverjunum sjálfum reyndar óar við þessu ef þetta staldrar lengi við heima í borgunum. En þegar vindur blæs er líðaninn aðeins skárri. Mengunin fer þá út í rými á milli jarðar og heiðhvolfanna sem enginn á. Reynt hefur verið að ná utanum þetta m.a. á Kyoto ráðstefnunni frægu á sínum tíma en ekkert miðar í þeim efnum enda kínverska ríkinu nokkuð sama þegar þetta óloft er allt fokið úr landhelginni. Mengunin sýrir svo hafið þegar það tekur við sem og er allt fullt af plastrusli.
Frétt á vef Vísis frá 2010 sýnir einfaldlega fram á að óhóflegar styrkveitingar til sjávarútvegs á meðal verðandi alþýðulýðveldis ESB ríkjanna. Styrkveitingar þessar hafa stuðlað að ofveiði innan landhelgi sambandsins. Þar skapar flækjustigið vandamálin og rányrkjuna.
Ef það er ríkið sem á allt, nýtir allt og stýrir öllu hvað auðlindir varðar er ljóst að slíkt mun enda í sóun, van- eða ofnýtingu, skriffinsku og skelfilegri niðurstöðu fyrir þjóðarbúið í heild.
Það er því grundvöllur að velmegun ríkja að nýta einkaframtakið m.a. með nýtingaréttindum á auðlindum enda gæti farið eins og með umgengni úthafanna, umhirðinuna í Napólí og rányrkjuna innan ESB. Því gæti hugsanlega allt fyllst af rusli og fiskurinn horfið.
Eins og segir í fyrra bréfi Páls til Korintumanna:
Þú skalt ekki múlbinda uxann er hann þreskir.
Síðar segir einnig varðandi lögmál Móse: Jú, vor vegna stendur skrifað að sá sem plægir og sá sem þreskir eigi að gjöra það með von um hlutdeild í uppskerunni.
Þetta er gott dæmi um speki sem lifir allar stjórnarskrár af.
Það er sjálfsagt að endurnýja ákvæði í stjórnarskrá Íslands en ekki með þeim aðferðum sem nú er beitt. Það er búið að smíða ótrúlegt bákn í kringum þessar breytingar og framkvæmdavaldið fór gegn úrskurði Hæstaréttar Íslands. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.
Standa á vörð um þrískiptingu ríkisvaldsins og þannig gildandi stjórnarskrá. Hvernig verður virðingin fyrir nýrri stjórnarkrá ef fara á nú gegn þeirri gömlu með þvílíkri vanvirðingu? Hér þarf þverpólitíska samstöðu en ekki yfirgang fárra sem telja sig þess megnuga að tala fyrir hönd þorra íslensku þjóðarinnar.
Mætum því og skilum auðu, nú eða segjum NEI við fyrstu spurningunni og látum þar við sitja.