Föstudagur 31.1.2014 - 13:00 - FB ummæli ()

Auðlindir og afgjöld

Einhversstaðar las ég að löglærðir hefðu verið kallaðir fyrir nefnd alþingis og spurðir hvort þeir teldu veiðileyfagjaldið vera skatt eða ekki.Miklar deilur hafa lengi verið um þetta gjald. Við lok síðasta kjörtímabils tókst að lögfesta það.Brýnasta forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar var siðan að afnema gjaldið að mestu.En hvað gerir þetta gjald að svo miklu deilumáli,umfram venjulega skattlagningu? Svarið liggur í eðli svona gjalda.Leyfisgjöld  eins og lóðaleiga,húsaleiga,veiðigjöld í ám, olíuvinnsluleyfi, o.s.frv. eru afgjöld fyrir afnot af skilgreindri eign.Þau taka ekkert tillit til efnahags þess sem tekur viðkomandi eign á leigu eða biður um afnota af henni.Upphæð húsaleigu er ekki ákveðin með tilliti til  tekna leigjandans. Ekki fæst afsláttur af laxveiðileigu þótt ekkert veiðist.Þessi leyfisgjöld eru greiðsla fyrir afnot af eign,óháð afkomu eða afrakstri.Ef ekkert veiðist í laxveiðiá er líklegt að erfiðara verði að selja leyfin næsta tímabil.Þau verða þó seint tengd skattaframtölum veiðimanna,enda ekki líklegt að mikið fengist fyrir þau,ef svo yrði gert.Skyldi nokkrum heilvita stjórnmálamanni detta í hug að tengja afgjald fyrir hugsanlega olíuvinnslu,afkomu þeirra fyrirtækja,sem leyfin fá ? Veiðleyfagjald á útgerðir er sama eðlis.Ef gjaldið verður tengt afkomu, eins og ríkisstjórnin réttlætti lækkun gjaldsins,er ekki  verið að greiða fyrir afnot, heldur skattleggja afkomu. Það er líka ljóst að slík tenging mun hygla þeim sem standa sig illa í rekstri eða eru skuldsettir e.t.v. vegna annars konar starfsemi.Þeir þyrftu ekki að borga fyrir afnotin, meðan hinir sem stunda útgerð af útsjónasemi og atorku og telja fram til skatts án undanskota eða bókhaldskúnsta munu greiða fyrir afnotin. Skussar og svindlarar slyppu.

Aflamarkskerfið

Hvað sem segja má um síðustu ríkisstjórnarár Halldórs Ásgrímssonar,þá hafði hann, á níunda áratug síðustu aldar,forystu um að lögbinda aflamarkskerfið sem megin aðferð við stjórn fiskveiða.Þessi lög mörkuðu ekki bara tímamót við stjórn efnahagsmála þjóðarinnar,heldur voru þau lykill að bættri afkomu fiskveiða. Aflamarkskerfið, ásamt fastsettu heildaraflamagni, hafði tvö meginstef: Annarsvegar að aðlaga veiðigetu að heimiluðu aflamagni, hins vegar að auðvelda samrunna aflaheimilda með frjálsu framsali. Án þessara aðgerða hefðu flest allar útgerðir í landinu strandað í því brimróti sem gekk yfir, þegar aflamagn í þorski var skorið niður úr 380 í 165 þús.t. Það var hins vegar fæðingargalli á kerfinu að ekki skyldi hafa verið ákveðið að gjaldtaka fylgdi  úthlutun veiðileyfa, því úthlutunin var verðmæti í sjálfu sér.Enda nýttu margir útgerðaraðilar sér þetta gat og seldu veiðiréttindin. Margir vestfirskir útgerðamenn fetuðu þessa leið í trausti þess að kerfinu yrði breytt.Með tímanum leiddi kerfið til samþjöppunar í útgerð og stórbætti afkomu atvinnugreinarinnar.Með kvótakerfinu varð auðlindin sjálfbær og útgerðirnar aflögufærar. Það var almannavaldið – ekki útgerðarmenn –sem gerðu sjósókn svona arðbæra og tryggði handhöfum veiðileyfa einkarétt til veiða ákveðins aflamagns.

Auðlindir og almenningur

Það hefur oft reynst þjóðum erfitt að nýta auðlindir sínar í almannaþágu.Þær eru uppspretta mikils auðs og handhafar þeirra leggja allt í sölurnar til að halda þessum auði fyrir sig.Herferð útgerðarmanna gegn veiðileyfagjaldinu á síðasta kjörtímabili var einstök á heimsvísu,svo notuð sé hófstillt viðmiðun. Fiskiauðlindin, þökk sé aflamarkskerfinu,skapar mikil auðæfi og mun,að óbreyttu afgjaldskerfi,færa handhöfum veiðleyfa ofsagróða.  Útgerðarmenn sjálfir hafa til langs tíma tekið veiðleyfagjald af þeim útgerðum,sem þeir leigja veiðiheimildir til,óháð afkomu þeirra. Þeim finnst það eðlilegt. Það fyrirkomulag sem var á auðlindagjaldinu var umdeilt og vissulega má hugsa sér það á annan veg.Kannski er réttlætanlegt að skipta botnfiskveiðum í tvo gjaldflokka. Annars vegar gjald á þá sem sótt geta innan allrar landhelginnar.Hins vegar lægra gjald á þá sem,vegna skipakosts, eru  bundnir grunnsævi,og hafa því takmarkaðri afnot af auðlindinni.Þetta kynni að jafna aðstöðumun útgerðanna. Auðlindarík lönd eins og sum arabalönd,eru kennslubókardæmi um samfélög, þar sem afrakstur af auðlindunum er settur í hendur handvalinna auðmanna,en almenningur háður mylsnugjöfum ríkra valdhafa. Erum við að nálgast þess konar fyrirkomulag hérlendis ? Viljum við hafa það þannig á Íslandi ?

 

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 11.1.2014 - 21:11 - FB ummæli ()

Einangrun, afturför og kúgun

(Birtist í Morgunblaðinu þann 9. janúar 2014)

Það var í viðtali á Stöð 2 sem formaður Framsóknarflokksins sagði að andstaðan við ESB væri mjög djúpstæð í flokknum. Þetta rifjaði upp fyrir mér samtöl sem ég átti við föður minn fyrir margt löngu, en hann var framsóknarmaður,eins og margir þingeyingar. Hann trúði því að eins konar búauðgisstefna væri sá grundvöllur sem þjóðin yrði að hafa að leiðarljósi. Þó hann hafi aldrei notað þetta hugtak eða kunnað að gera því hagfræðileg skil, var lífshugsjón hans sú að landbúnaðurinn væri undirstaða afkomu og auðs í landinu.Voru foreldrar hans þó lengst af réttindalitlir, bláfátækir leiguliðar, sem hröktust á milli kotbýla síðari hluta ævi sinnar,en hann sjálfur sendur ellefu ára í óvægna vinnumennsku. Reynsla hans af landbúnaði var því ekki sú, að þessi atvinnugrein veitti alþýðu bjargálna kjör. Þvert á móti.En trúin á landbúnaðinn var óbilandi og samofin lífssýn hans og menningu, þótt sjálfur væri hann ekki  bóndi nema um tíu ár alls.Þau ár voru honum ekki gjöful. Síðan hef ég oft velt því fyrir mér hvernig svo erfiður gróður, sem íslenskur  landbúnaður,gat skotið svo djúpum,óbifandi  rótum í huga hans. Var það gróp sögunnar sem mótaði hann ómeðvitað eða ruglaði hann saman trú á landið og landbúnaðinn ?

Gegn þróun samfélagsins

Landbúnaður hefur verið stundaður á Íslandi frá landnámi. Landbúnaðarframleiðslan var frá upphafi að miklu leyti byggð á rányrkju, ekki ræktun.Með tímanum tók jarðnæði að safnast á fárra hendur.Við það jókst fjöldi leiguliða sem vildu taka sér búsetu við sjávarsíðuna. Efnabændur óttuðust að þetta myndi draga vinnufólk úr landbúnaði og leiða til kauphækkna og bönnuðu með lögum. Bændasamfélagið íslenska var andstætt bæði verslun og viðskiptum og gerði sérhvert sveitaheimili að sjálfbjarga samfélagi.Landið sjálft átti að fullnægja þörfum þjóðarinnar. Ráðandi stéttir gerðu síðan þær ráðstafanir sem dugðu til að halda þjóðinni á sjálfsþurftarstigi allt fram á síðari hluta nítjándu aldar. Kúgun vinnuhjúa og ánauð leiguliða af bændum var eitt megin einkenni samfélags miðalda. Hér var þessi hluti ánauðra allsleysingja mun hærri (ca.25%) en í grannlöndunum (ca.15%)og stóð mun lengur.

Lokað þjóðfélag

Barátta bænda gegn þurrabúðafólki stóð allt fram á síðari hluta 19. aldar. Þróun þjóðfélagsins til fjölbreyttri lifnaðarhátta og ræktunar samfélags var stöðvuð. Íslenskir efnabændur lokuðu samfélaginu bæði inná við sem og útá við. Þeir vildu ekki deila með öðrum.Það var þessi innri lokun samfélagsins sem leiddi til örbirgðar og kúgunar íslenskrar alþýðu í samfellt sex aldir. Þróunarkraftur samfélagsins var drepinn með lögbundinni einokun efnabænda, ekki með boðum frá Kaupmannahöfn. Útflutningavörur okkar urðu einhæfar og féllu í verði, aðgangur að mörkuðum þrengdist og samgöngur urðu strjálli. Landið lokaðist og einangraðist frá öðrum þjóðum.  Íslenskir embættismenn gengu af fádæma hörku fram í að fá ógæfufólk og snærisþjófa dæmda til hörðustu vistar á Brimarhólm eða til aftöku. Efnabændur töldu það þjóna hagsmunum sínum. Engan óróa,enga samkeppni,hvorki að utan né innanfrá. Þetta var sú samfélagsumgjörð sem Íslendingar vöndust og ólust upp við í sex aldir. Þýskættuð  rómantík lýsti síðan upp dimmar aldir með skírskotun til fornaldar – „undu svo glaðir við sitt“.

Pólitískar rætur miðaldasamfélagsins

Það má segja að þetta hafi verið sú samfélagssýn sem Íslendingar fengu í arf við upphaf tuttugustu aldar. Svo rótgróin var hagsmunagæsla efnabænda, að vistabandið og lögin um bann við frjálsri búsetu voru aldrei afnumin formlega. Þegar fram kom á Alþingi árið 1907 frumvarp um afnám þessa, fengu þingmenn í hnén og kiknuðu fyrir ofuvaldi efnabænda og svæfðu frumvarpið. Það var ekki í síðasta skiptið sem þingmenn kiknuðu undan þrýstingi bænda og samtaka þeirra. Vonandi er Ísland eina landið í Evrópu, þar sem enn eru í gildi lög sem banna frjálsa búsetu. Við Íslendingar höfum aldrei gert upp þessa dimmu kafla í sögu okkar, þar sem ofbeldið og kúgunin komu innanfrá. Við ýttum þeim hvimleiðu köflum yfir á Dani, það varð aflvaki í sjálfstæðisbaráttunni. Pólitískur arftaki gamla lokaða bændasamfélagsins var Framsóknarflokkurinn. Hann hélt uppi öllum kröfum þess um lokað, samkeppnislaust samfélag. Hann lagðist gegn tillögum um að opna samfélagið. Einokunarframleiðsla landbúnaðarvara og innflutningsbann eru skilgetin afkvæmi átjándu aldar samfélags.Hvort heldur sem var samningur um EFTA eða EES, alltaf var flokkurinn andvígur opnum til frjálsari viðskipta. Það er því engin ástæða til að bera brigður á þau orð formanns Framsóknarflokksins að djúpstæð andstaða sé í flokknum gegn ESB. Annað væri í andstöðu við rætur hans.

Höfundur er hagfræðingur

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 14.11.2013 - 10:25 - FB ummæli ()

Framsóknarsinnuð heimsmynd

Það mætti halda að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sé vinafælinn stjórnmálamaður.Þegar Þorsteinn Pálsson pistlar um að flokkur Jónasar frá Hriflu, Hermanns og Eysteins sé orðinn pópúlískur, þá ríkur ráðherrann uppá nef sér og lýsir frati á Þorstein. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem þekktur framsóknarmaður andmælir því að flokkur hans sé kallaður pópúlískur.Kannski ástæðan sé sú að orðið pópúlismi er útlenskt eins og skammaryrðin sósíalísmi, kommúnismi og kapítalismi.Rætur Framsóknarflokksins eru jú ekki útlenskar.

Í þessu berast fréttir um að hægri pópúlistaflokkar í Evrópu vilji ganga í eina sæng. Þeir kölluðu til samstöðu og buðu velkomna alla evrópska flokka, sem hefja vilji  þjóðleg gildi til vegs á ný, segja upp Schengen-samningnum, endurreisa alvöru landamæraeftirlit og takmarka áhrif og komu útlendinga til landa þeirra. Megin markmið þeirra væri þó, að berjast af öllu afli gegn ESB, murka lífið úr skrímslinu í Brussel og endureisa fullvalda evrópsk þjóðríki.Þá skal evrunni kastað á ruslahaug sögunnar með ófögrum eftirmælum. Stríðgeng er forystuærin frú Le Penn sem stýrir Front Nationale í Frakklandi og göfugmennið Wilders í Hollandi, sem látið hefur frækið orð af sér fara við að berjast  gegn erlendum áhrifum þar í landi, einkum íslömskum. Þau beindu máli sínu m.a. til Sannra Finna, Lega Nord á Ítalíu, FPÖ í Austurríki, Framfara- ( ekki Framsóknar-) flokksins í Noregi og annarra föngulegra flokka á evrópska hægri vængnum, sem deila með þeim draumsýn þessari.

Þegar ég las þetta rifjaðist allt í einu upp fyrir mér ræða forsætisráðherra okkar þann 17. júní s.l. þar sem gáfumprýdd íslensk þjóð, gildi hennar svo og yfirburðir hins fullvalda þjóðríkis, voru hafin til skýjanna, lofuð og mærð. Og ekki fóru skúrkarnir í ESB varhluta af hrósyrðum forsætisráðherra, hvað þá evru druslan. Ekki er ýkja langt síðan sá, sem nú klæðir embætti utanríkisráðherra lét afar ástúðleg orð falla um ESB, ummæli sem ég er viss um að sú vakra frú Le Penn hefði bravóað hann fyrir. Þá má ekki gleyma ræðum þingmanna og forystufólks innan Framsóknarflokksins sem vilja draga okkur útúr Schengensamningnum til að koma í veg fyrir að útlenskur glæpalýður flykkist til landsins. Auðvitað eru þetta allt háleit markmið, hlaðin sömu göfgi og stefnumið þeirra flokka úti í Evrópu, sem ég gerði að umtalsefni í upphafi.

Ég á því erfitt með að skilja, hví utanríkisráðherra og fleiri gildir framsóknarmen öskurjúki útaf því að vera kallaðir pópúlistar. Það er þó jákvætt miðað við að vera kallaðir hægri öfgasinnar, en því öfugmæli er stundum klínt á fyrrnefnda evrópska flokka. Meira segja sjálft RÚV notar þetta gífuryrði um skoðanavini framsóknarmanna úti í Evrópu. Ég hygg að hæstvirtur utanríkisráðherra átti sig ekki alveg á þeirri agalausu stefnufestu sem felst í hugtakinu pópúlismi. Það er hins vegar full ástæða til að óska ráðherranum til hamingju með að flokkur hans sé samsæva títtnefndum framsóknarsinnuðu, evrópsku stjórnmálaflokkum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 31.10.2013 - 15:30 - FB ummæli ()

Hallalaus fjárlög já, en …

 

 

 

Það er óhætt að taka kröftuglega undir með fjármálaráðherra, að afar mikilvægt sé að afgreiða hallalaus fjárlög.Fjárlögin eru gleggsta vísbendingin um fullveldi sérhvers lands. Hafi þjóðþing fullt vald yfir afgreiðslu fjárlaga er fullveldi viðkomandi þjóðar  lítið skert.Skuldug þjóð,hvað þá skuldugt ríki er ekki fullvalda því lánadrottnar  legga henni línurnar m.a. á sviði ríkisfjármála. Þeir óttast um peninga sína. Skuldugt ríki bindur hluta af tekjum í vaxtagreiðslum. Því hærri ríkisskuld þeim mun hærri vaxtagreiðslur og jafnframt erfiðara að fá ný lán, nema á ofurkjörum. Vaxtagreiðslur verða ekki lækkaðar með niðurskurði. Fjármálaráðherra getur ekki ákveðið niðurskurð á vaxtagreiðslum eins og t.d. í heilbrigðiskerfinu. Ráðherrann er ekki fullvalda þegar að þeim hluta fjárlaga kemur. Þess vegna eru hallalaus fjárlög svo mikilvæg. Um þetta ættu allir flokkar að vera sammála.

Ríkisskuldir eru skuldir bankanna

En það er ekki sama hvernig hallalausum fjárlögum er náð. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Fjárlög eru stærsta og  áhrifamesta einstaka ákvörðun sem tekin er í þjóðarbúskapnum árlega. Þau hafa áhrif út um allt land og snerta ákvarðanir og afkomu fjölmargra starfsstétta. Í grófum dráttum má segja að tvær megin kenningar hafa verið uppi um hvaða aðferðum sé best að beita til að ná niður ríkishalla. Annars vegar sú sem kennd er við klassíska frjálshyggju sem mælir með lækkun útgjaldaliða. Hins vegar sú sem kennd er við félagshyggju og bendir á skattahækkanir sem ákjósanlegustu aðferðina. Uppúr miðri síðustu öld mikið rætt um svokallað blandað hagkerfi, þar sem báðum þessum aðferðum var beitt. Skuldir íslenska ríkisins eru að verulegu leyti skuldir banka og sparisjóða, sem ríkið yfirtók.Hrunið hófst í bankakerfinu og mun enda þar.Ríkissjóður var skuldlítill við upphaf bankahrunsins.Það voru bankarnir sem skulduðu. Icesave málið gekk út á það að láta útlendinga borga erlendar skuldir bankanna.Ef draga á saman í ríkisrekstri til að borga þær skuldir bankanna,sem ríkið yfirtók, þá breytist niðurskurðurinn í átök um lífskjör og tekjuskiptingu, því hann kemur misjafnt niður á borgurunum. Við göngum ekki öll í eins buxum.

Millistéttin verður verst úti

Evrópskt ríkisvald hefur löngum fært miklar fúlgur fjármuna milli hópa og málaflokka.Þessar tekjutilfærslur gerðu það að verkum,að í lýðræðisríkjum vesturlanda myndaðist millistétt sem varð kjölfesta samfélagsins.Svo varð einnig hér á síðustu öld.Millistéttin  er trygging okkar fyrir því að samfélagið sporðreisist ekki; skiptist í öreiga og stórríka. Niðurskurður ríkisútgjalda bitnar harðast  á millistéttinni og tekjulitlum þjóðfélagshópum.Það er þetta fólk sem nýtur velferðarútgjaldanna, borgar vextina og síðan skatta einstaklinga. Niðurskurðurinn gagnast hins vegar þeim sem eiga innistæður. Þeir síðast nefndu eru að jafnaði færri en þeir fyrrnefndu.Því má alveg segja að einhliða niðurskurður sé ígildi sérstaks viðbótarskatts, sem lagður er á aðra en þá efnuðu, þ.e. meirihluta þjóðarinnar og meirihluta kjósenda.

Hvað þá með fjárlögin ?

Er ég þá búinn að afskrifa hallalaus fjárlög ? Nei, síður en svo.Markmiðinu verður hins vegar ekki náð með niðurskurði  einum vopna,nema auka enn frekar á vanda þjóðarinnar.Fleira þarf til að koma og horfa verður til lengri tíma.Það verður að ná tökum á bankakerfinu,setja hömlur á það svo það vaxi ekki úr hófi og endurtaki leikinn frá 2004-2008. Annars er þetta all fyrir bý.Í annan stað verður almenningur að búa við lága vexti,ekki hærri en árleg verðbólga,sem þýðir stöðugt verðlag.Í þriðja lagi,þá verða þeir ríku að borga meira í ríkissjóð. Án öflugri aðkomu þeirra,gengur reiknisdæmið ekki upp, burtséð frá öllum móral og réttlætiskennd. Það siðferðislega segir það ekki til fyrirmyndar, að létta álögum af þeim sem mestan afgang hafa,til þess eins að íþyngja þeim sem lítið eða ekkert eiga aflögu. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að bjarga velferðarsamfélagi okkar eða færast enn lengra til samfélags byggt á frjálshyggju, þar sem hver sér um sig sjálfan.Hættulegasta birtingarform þeirrar þrautargöngu sem þjóðin fetar nú liggur í landflóttanum.Gott heilbrigðis- og menntakerfi gegna þar lykilhlutverki sem móttvægi. Hrár niðurskurður mun ýta undir að ungt hæfileikafólk flytjist úr landi og alþjóðlega gjaldgengir sérfræðingar finna auðveldlega vel launaða vinnu erlendis. Það molnar úr millistéttinni.Hvers konar samfélag verður hér án ungs fólks ?

Greinin birtist í Mbl 28.okt. s.l.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.6.2013 - 22:51 - FB ummæli ()

Þakkir til útvarpsstjóra

 

Það er margt sem angrar mann þegar aldurinn færist yfir. Venjur og margs konar ósiðir sem maður hefur tamið sér á liðnu æviskeiði, þvælast nú allt i einu fyrir manni.  Þegar maður finnur að  líkamlegur þróttur dvínar reynir maður að bæta það upp á örum sviðum. Um leið verður maður smámunasamur og óþolinmóður. Á móti kemur að langt líf veitir yfirsýn yfir áratugi. Maður hefur samanburð. Einn var sá ósiður sem ég hafði frá blautu barnsbeini vanið mig á, án þess að gera mér grein fyrir afleiðingunum. Ég hlustaði á Gömlu gufuna í tíma og ótíma. Hvort heldur sem ég var að fara í eða úr vinnu, um helgar eða í frístundum.  Á mínum yngri árum var ekki um neina aðra stöð að ræða, enda dugði  Gufan vel. Hún stóð fyrir metnaðarfullri menningardagskrá. Þar lærðum við að meta vandaða og oftast kröfuharða tónlist; klassíska tónlist, óperu tónlist,þjóðlaga músík o.s.frv. Þessu var laumið inn að eyrum okkar án þess að búa til sérstaka þætti, sem auðvelt var að forðast, ef maður var hræddur við eitthvað sem kynni að vera þvælið undir tönn, eða of menningarlegt, sem aldrei hafa þótt meðmæli með útvarpsþáttum. Þá voru  dægurþættirnir í svokölluðum óskalögum og efni þeirra þannig ekki á ábyrgð dagskrárgerðarfólksins. Nú hefur þessu verið snúið við. Dægurtónlist orðin meginstef, vandaðri tónli úthýst í sérþáttum.

Sá fasti þáttur sem batt mig fastast við Gufuna og gerði  hana ávanabindandi var morgunþátturinn milli  átta og níu. Þessi þáttur færði okkur ótrúlega fjölbreytta tónlist frá flestum heimshornum, tímum og stefnum. Þetta, ásamt öðru vönduðu tónefni Gömlu gufunnar, var hinn sanni Tónlistarháskóli Íslendinga. Í seinni tíð voru fréttaskýringar eða stutt viðtöl fléttuð inn á milli. En tónlistin var fjölbreytt , metnaðarfull og menntandi. Þeir sem stjórnuðu þessum þáttum var úrvalslið ríkisútvarpsins, sem krydduðu þá með eigin fróðleik og skemmtan. Morgunþátturinn var orðin mér eins konar fíkn. Síðan var þessu breytt. Öll viðtöl og fróðleikur morgunútvarpsins  fóru á popp stöðina, rás tvö, en menningarþætti morgunútvarpsins breytt í einhæfan, óskilgreindan músíkþátt með einhæfa sí endurtekna íslenska  og ameríska dægurtónlist. Hvað átti ég nú að gera ? Á hvað átti ég nú að hlusta ? Allar aðrar útvarpsstöðvar spiluðu  eingöngu iðnaðartónlist, sem gerði  mig þunglyndan. Ég greip til þess ráðs, sem mér hafði síst órað fyrir. Ég hætti að hlusta á morgunútvarpið og opnaði aðeins fyrir fréttirnar og einstaka sérþætti síðar um daginn. Sextíu ára vani var aflagður. Í fyrstu glataði ég daglegu viðmiði og varð hálf vankaður. Síðan létti mér. Ég var frelsaður af þeirri  íþyngjandi fíkn sem Gamla gufan hafði verið mér um áratuga skeið. Ég var orðinn frjáls maður.

Ég er því þakklátur útvarpsstjóra fyrir að hafa losað mig af þessum klafa. Það ætti að vera göfugt markmið allra forstöðumanna útvarps- og sjónvarpsstöðva að losa okkur trygga og ánetjaða hlustendur og áhorfendur undan áráttunni að vera alltaf með eyrað eða augun límd við stöðina. Það er líka hárréttur menningarskilningur, að skemmtiefni á ekki að gera neinar kröfur til hlustenda. Útvarpsefni, sem sent er út á tímum þegar allir hlusta, á ekki að reyna að rembast við að stækka skynjunarhæfni eða veita skemmtun, sem býr með manni út daginn. Það á að vera auðvelt til hlustunar og létt að melta. Maður á ekki að endurleika tónlist úr morgunútvarpi í huganum allan daginn, heldur gleyma henni strax og helst til frambúðar.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.6.2013 - 10:08 - FB ummæli ()

Aftur til framtíðar

 

Ég hef lengi vitað að Illugi Gunnarsson sé röskur maður. Hann er fljótur að koma sér til verks. Nú hefur hann lagt fram tímabært lagafrumvarp um ríkisútvarpið sem kemur stjórn þess í kunnuglegar skorður.  Auðvitað var það ómerkileg vinstri villa að ætla að koma stjórnmálamönnum frá því að ráða yfirstjórn útvarpsins. Það er líka hárrétt hjá Illuga að alþingismenn eru þjóðkjörnir eins og forsetinn og eiga að ráða því sem þeir vilja ráða eins og hann. Þessi gamaldags vinstri klisja að svokölluð fagleg sjónarmið eigi að ráð för, er auðvitað vesældarlegt yfirklór til að koma sér sem þjóðkjörnum alþingismanni undan þeirri kvöð að þora að ráða og beita valdi. Við höfum Íslendingar af því afbragðs reynslu að setja stjórnmálamenn í og yfir faglegar stofnanir og eigum því tvímælalaust að snúa þessari faglegu vitleysu  til fyrra horfs. Fortíðin er alltaf betri en óviss framtíð, sem þar að auki var reynt  að móta af vinstri mönnum, ef ekki kommúnistum.

Svo er nú ekki verra að feta í fótspor Jónasar heitins frá Hriflu, sem er eins konar Guðfaðir ríkisstjórnarinnar og hafa gát á og snúa af þeirri augljósu vinstri slagsíðu sem er á ríkissútvarpinu. Það er t.d. með ólíkindum að sá heimsþekkti vísindamaður Hannes Hólmsteinn skuli aldrei vera kallaður til þegar beðið er um umsögn. Það kvað þó við annan og betri tón á góssenárunum fyrir hið svokallaða hrun, svo vitnað sé í fyrrverandi seðlabankastjóra, þegar Hannes var í öðrum hverjum fréttatíma, og færði okkur hlutlausar en jafnframt jákvæðar fréttir um nýja töfrahagkerfið og hve mikla velsæld það færði landanum. Hannes hafði meira að segja afsannað gamla spakmælið, um að eins dauði væri annars brauð.  Nú höfum við fátt annað heyrt um nokkuð skeið en neikvæðar fréttir, sem mátti til sanns vegar færa meðan vinstri stjórnin sat við völd. Þetta hefur dregið kjark og þrótt úr þjóðinni. Því er kominn tími til að rýmka til á fréttastofu. Við eigum í þessu eins og öðru að taka okkur Kínverja til fyrirmyndar, ekki segja fréttir af öðrum atburðum en þeim sem eru jákvæðir að mati stjórnvalda og segja fréttir eins og menn vilja hafa þær. Þar kæmi  Hannes Hólmsteinn sér vel. Þar er hann á heimaslóð.

Ekki trúi ég því að óreyndu að aðrir ráðherra taki ekki þetta frábæra frumkvæði Illuga sér til fyrirmyndar. Lögum um Seðlabanka var illu heilli breytt og í stað þrístjórnar  var settur einn stjóri, sem þar að auki varð að hafa faglega þekkingu á viðfangsefnum seðlabanka. Þarna sýndi sig þessi menntunarhroki vinstri manna enn og aftur, eins og hver og einn geti ekki stýrt seðlabanka. Þetta hafa byltingarstjórnir alltaf sagt. Hvorki Lenín né Stalín hikuðu við að setja fáfróða alþýðumenn í æðri embætti, svo fremi þeir væru sanntrúaðir bolsévíkar. Hæfi felst jú í pólitískri sannfæringu ekki fagþekkingu. Ekki trúi ég því að innanríkisráðherra, sem er jafnframt þjóðkjörinn þingmaður, fái ekki á ný að ráða hæstaréttardómara að eigin vali. Það reyndist vel. Vinstri stjórnin breytti þessu og bjó til eitthvað fáranlegt ráð til að meta hæfi – aftur þessi faglega síbylja. Við mat á og úrvinnslu úr lögfræðilegum álitamálum á pólitísk sannfæring að nægja. Ekki saka heldur ættartengsl við ráðherra. Ég ætla að taka mér forsetann til eftirbreytni og fyrirmyndar og vitna í nafnlausa menn sem við mig hafa rætt, menn úr næst innsta hring Sjálfstæðisflokksins. Þeir eru undrandi á seinagangi annarra ráðherra sinna að bregðast ekki fljótt við og ýta vinstri óheillaþróuninni aftur á bak í hvelli , eins og Illugi.

Þá verður nú að taka Hagstofuna föstum tökum svo hún fari ekki að birta einhverja bölvaða vitleysu um hagþróun sem kemur sér illa. Það voru engin vettlingatök sem tekin voru á Þjóðhagsstofnun, þegar hún í miðju góðærinu fór að spilla fyrir gleði landsmanna með neikvæðum ummælum um varhugaverða þróun hagmála. Og úr því að við virðumst komast af án Þjóðhagsstofnunar  hlýtur sú spurning að vakna, hvort nokkur þörf sé á svo dýrri stofnun eins og Hagstofunni ? Það reyndist prýðilega að fela einkabönkunum haggreiningu og gagnasöfnun. Þeir sögðu okkur ekki annað en þeir vildu að við vissum. Það kom sér prýðilega í hinu svokallaða hruni, því þannig  komu allir af fjöllum. Enginn hafði getað séð nokkuð fyrir. Því bar heldur enginn ábyrgð.  Þetta bara gerðist.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.4.2013 - 20:09 - FB ummæli ()

Hjó sú er hlífa skyldi

´Við vissum að virkjunin myndi hafa þessi áhrif á fljótið´. Þannig komst fyrrverandi umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir efnislega að orði þegar fram kom í nýrri skýrslu að Lagarfljót væri dautt; hafi  bæst í hóp drullupolla heimsins; lífvana fljóta og stöðuvatna. Hún bætti við, að þegar ráðuneyti hennar hefði snúið við úrskurði Skipulagsstofnunar, hefðu meiri hagsmunir verið teknir fram fyrir minni. Það er merkilegt mat af umhverfisráðherra. Það er hrollvekjandi að heyra konu sem gegndi starfi umhverfisráðherra segja, að vísvitandi hafi hún ákveðið að fórna náttúrugæðum á altari álsins. Þáverandi umhverfisráðherra taldi verndun náttúrunnar verða að víkja, ef álframleiðsla væri í boði. Þetta viðhorf er í fullu samræmi við viðhorf Pútíns rússlandsforseta sem sagði, að ef mannréttindi og þarfir efnahagslífsins rækust á, yrðu þau fyrrnefndu að víkja. Fallvaltur og oft mengandi iðnaður, er settur ofar öllum öðrum gildum.  Náttúra Íslands var aftur orðið umkomulaus.

“Óspillt náttúra“

Þegar umhverfisráðuneytið var stofnað, var það að einhverju leyti erlend eftiröpun en ekki bara. Hér óx þeirri skoðun  fiskur um hrygg að náttúran þyrfti á  verndara að halda gegn vaxandi ágengni stóriðju. Í stað þess að ýta undir og skapa skilyrði fyrir nýsköpun til atvinnuþróunar gerðu íslenskir stjórnmálamenn stóriðju að meginstefi atvinnuuppbyggingar. Það hlaut að hafa í för með sér meiriháttar röskunn á íslenskri náttúru eins og fljótlega kom og í ljós. En við kölluðum nú ekki allt ömmu okkar á því sviði. Við  vissum mætavel að íslenskri náttúru hafði verið misþyrmt öldum saman en þó sennilega aldrei meira en á 20. öldinni. Erlendir ferðamenn eru lokkaðir hingað með slagorðinu „njótið óspilltrar náttúru.“ Hvar er svo þessi „óspillta“  íslensk náttúra ? Jú hún birtist okkur í nær algjöru skógleysi, víðáttumiklum uppblæstri, rótnöguðum úthaga, framræstu votlendi, ofveiddum fiskimiðum og útdauðum geirfugli. Að jöklum, hæstu fjallstindum og ný runnum hraunum undanskildum, er fátt eitt eftir sem minnir á „óspillta“ náttúru. Þó endurtökum við þennan spuna í sífellu.  Þegar fagnað var nýju umhverfisráðuneyti bjuggust fæstir við því, að með því sköpuðust  forsendur til að vernda landið gegn ofbeit og framræslu, til þess var hagsmunagæslan á alþingi of sterk.

Er Mývatn næst ?

Nú eru ákveðin kaflaskil í landvernd hérlendis. Rammaáætlun hefur verið samþykkt með fyrirvara þó. Fréttir af dauða Lagarfljóts vöktu óhug í brjósti fjölmargra. Nú þurfti ekki  lengur að tala í viðtengingarhætti um hugsanleg neikvæð áhrif. Staðreyndirnar töluðu sínu máli. Ekki var lengur um neitt að villast. Afar upplýsandi kvikmynd um sprenginguna í Miðkvísl sýnir hvaða áhrif andóf einstaklinga getur haft. En hættunni á stórslysi í náttúru Íslands af manna völdum hefur ekki verið bægt frá. Einhverjir mestu dýrgripir íslenskrar náttúru, Þingvallavatn og Mývatn  eru að nálgast válistann. Mývatn er næst. Þegar svo ofur viðkvæmt náttúrufágæti sem Mývatn er, þá er það bókstafleg skylda að fara með ítrustu gát og láta ekkert ógert til að ganga  úr skugga um skaðleysi  virkjunar í Bjarnarflagi. Bjarnarflagsvirkjun á að vera allra,allra  síðasti kostur – ekki sá fyrsti, auðveldasti. Þetta ættum við að hafa lært af Kárahnjúkavirkjun. Ég bið og vona innilega að næsti umhverfisráðherra verði ekki jafn kaldrifjaður gagnvart náttúrunni og sá sem drap Lagarfljót. Hann segi ekki eftir 20 ár. Ég vissi að lífríki Mývatns var í hættu, en nokkur stóriðjustörf voru í húfi. Ég valdi þau.

 Umhverfi og náttúira

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.2.2013 - 11:31 - FB ummæli ()

Á vængjum óttans

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 19. febrúar 2013.

Það mun hafa verið Matthías Johannessen sem svaraði spurningu um afstöðu sína til ESB á þann veg að hjartað segði nei en heilinn já. Þetta svar er kjarninn í viðhorfi margra Íslendinga í þessu máli. Hugsunin sér kostina og greinir gallana  en  hjartað hýsir óvissuna og óttann. Þessi tvíhyggja milli mannsandans og hjartans, er það andskot sem mannskepnan verður að rogast með og velja á milli. Þessi átök leiða af sér viðvarandi óttatilfinningu. Við rekjum mörg stórátök mannkynssögunnar til þess að annar hvor helftin fór hamförum. Skynsemishyggjan ofbauð tilfinningaforða hjartans, sem óttaðist að tapa áttum, eða tilfinningakraftur óttans gat kæft öll skynsemisrök. Trúarbrögð skýrskota nær eingöngu til hjartans, til tilfinninga sem breytt er í trúarlega afstöðu. Þau trúarbrögð sem lengst ganga, útiloka veraldlega skynsemi úr mannheimum og stýra lýðnum með trúarsetningum. Þær eru afar handhægar,því þær verða hvorki sannaðar né afsannaðar. Stór hluti fólks hugsar með hjartanu. Það lætur tilfinningarnar og tilfinningasemina  ráða för sinni. Í heimi stjórnmálanna býður þetta uppá ákjósanleg tækifæri fyrir lýðskrumara. Pólitísk hugmyndafræði gerir beinlínis út á að fá fólk til að trúa, ekki hugsa. Skynsemisstjórnmál eru oftast munaðarlítil þegar kynnt er undir tilfinningahita.

Mannsandinn eða hjartað

Þessi tvíhyggja kemur í annarri myndbirtingu fram hjá Kristi, þegar hann svaraði.‘ Gjaldið keisaranum það sem keisarans er,en guði það sem guðs er‘. Þessi setning er lykillinn að þróunarsögu Vestursins og sem greinir það kyrfilega frá Austrinu,og þá er ég ekki að tala um áttamörk kalda stríðsins.Skýrast kom þetta fram í því að Drottinn kristinna manna var bæði mannsson og Guðsson. Þetta segir að veraldleg hugsun átti að vega salt við yfirskilvitlegar tilfinningar. Þetta samlífi var oft brösugt í gegnum tíðina.Það skiptust á friður og ófriður.Loka hnykkinn í veraldarvæðingu kristindómsins tók svo þýski munkurinn Lúther.Í nútíma vesturevrópsku samfélagi er komið á nokkuð gott jafnvægi,milli áhrifa veraldar- og trúarhyggju.Það heyrist jafnvel stundum, að veraldahyggjan sé allt að kæfa. Í flestum íslömskum ríkjum er þessu öfugt farið. Þar sem kennisetningar kóransins ríkja,hefur trúar- og tilfinninga sviðið kæft alla veraldlega skynsemi. Þess vegna hefur þróun í átt að meiri velferð og almennri velmegun ekki átt sér stað í þeim löndum,svo ekki sé minnst á jafnrétti og frelsi.Hjartað og guð almáttugur auka ekki endilega á veraldlega velferð. Þau eru hins vegar afar mikilvægur hluti tilverunnar.

Fullveldisrán sem framtíðarsýn

Þessi átök milli heilans og hjartans, hugsunar og tilfinninga, geysa nú hér á landi. Tvær átakafylkingar skýrskota til andstæðra hughrifa í baráttu um skoðanir landsmanna um aðildina að ESB.  Annars vegar eru það þeir sem reyna að beita rökum skynseminnar fyrir því að aukin velferð okkar og velgengi í framtíð sé háð því að við verðum aðilar að ESB.  Reynt er að leggja skynsemismat á kosti og vankanta. Nýta sér m.a. reynslu annarra þjóða.Hins vegar eru það þeir sem skýrskota með málflutningi sínum til óttans,til hjartans. Í átökunum um uppkastið 1908 var sagt, að aðferð andstæðingar þess væri að „ vekja upp drauga, skapa grýlur,- þyrla upp ryki og reyna á allar lundir að vekja hræðslu og tortryggni … ásamt gömlu vopnunum: skrökinu, hártogunum og blekkingum.“ Í átökunum nú er búin til hrollvekja þar sem flest eftirsóknarverð gæði  hérlendis verða færð útlendingum.Þjóðinni er sagt að niðurstaða úr samningaviðræðunum sé fyrirfram ákveðin og hún sé ekki glæsileg; íslenskur landbúnaður leggist af, fiskimiðin afhent útlendingum og þjóðin verði rænd fullveldinu, sjálfu fjöregginu. Slík framtíðarsýn vekur að sjálfsögðu ótta og geðshræringu, eins og að er stefnt. Gagnvart þessari nýstandi ógnvekju á tilfinningasnautt skynsemistal undir högg að sækja.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.2.2013 - 20:31 - FB ummæli ()

Eitraður kokteill

Eitraður kokteill

Aðdragandi hrunsins var ofhitun íslenska hagkerfisins, Grundartangi, óheft íbúðarlán, Kárahnjúkar. Þetta var kynding af mannavöldum. Stefna tveggja ríkisstjórnarflokka. Þetta hvatti útrásarhetjur til afreksverka, sem  síst vildu láta sitt eftir liggja. Þeir dældu ómældum,ódýrum peningum inní bankakerfið og sprengdu  íslenska hagkerfið í loft upp.Þeim héldu engin bönd enda röskir og sannir Íslendingar. Íslenska krónan magnaði svo hagsveiflurnar upp og breytti erfiðri stöðu í afleita. Með tæknilegu gjaldþroti seðlabankans og hallarekstri ríkissjóðs mögnuðust skuldir hans.

Hættuleg kosningaloforð

Þetta er rifjað hér upp svo við áttum okkur betur á orsakasamhengi hrunsins. Mestu orkuframkvæmdir íslandssögunnar, ásamt miklum byggingaframkvæmdum. Mikið innflæði ódýrra peninga,frjálst gengi örgjaldmiðils. Seðlabankinn brást við með því að hækka vexti, sem aftur jók innstreymi erlends fjármagns. Loforð Framsóknarflokksins fyrir alþingiskosningar allt frá árinu 1999  hafa verið skrautleg. Þau hafa einkum verið í því fólgin að opna húsnæðislánakerfið,þannig að fólk sem ekkert átti gat slegið stór lán. Þetta var eftiröpun frá Ameríku, sem endaði þar í hruni fasteignamarkaðsins. Kosningaloforð Framsóknarflokksins hafa reynst þjóðinni dýr og örlagarík. Nú eru kosningar á næsta leyti. Nýr formaður vill nú róa á gömul loforðamið með því að afnema vístölutryggingar og  með miklum afslætti af fasteignaveðlánum. Árið 2003 var lofað 90% íðúðarlánum. Þrátt fyrir alvarleg varnaðarorð seðlabankans,varð það að lögum. Með öflugri aðstoð viðskiptabankanna  varð til mesta fasteignabóla íslandssögunnar.

Lýðskrum og loforð

Fyrir kosningarnar 2009 kom síðan loforðið um 20% almenna niðurfærslu húsnæðisskulda. Almenningur átti að taka að sér skuldir þeirra skuldsettu. Sem betur fór, var flokkurinn utanstjórnar og ófær að framkvæma þessi loforð.Og nú, skömmu fyrir kosningarnar 2013,er bætt um betur og tvær loforða tillögur settar á oddinn. Annars vegar skal verðtryggingin lögð niður en nafnvextir teknir upp í staðinn. Hins vegar skal afskrifa fasteignalán með frádrætti af tekjuskattsstofni. Samhliða verði lán færð niður í 100% af fasteignamati. Þessi aðgerð myndi gera Íbúðarlánasjóð tæknilega gjaldþrota og í framhaldi setja miklar byrðar á ríkissjóð. Þó er hann ekki aflögufær um þessar mundir. Þessi tillaga er auk þess afar ósanngjörn. Byrðar eru settar á axlir almennings, sem sannarlega er ekki aflögufær, til að létta undir með efnabetra fólki, sem fór offörum fyrir hrun. Einhvers staðar þykist ég hafa séð fyrirheit um að lækka vexti, en það hlýtur að vera misskilningur minn. Hvað hina tillöguna snertir, afnám verðtryggingar,þá er ljóst að aðeins yrði hægt að afnema verðtryggingu af lánum sem ótekin eru.Gömul lán verða ekki afvísitölulögð, því slík lög gætu ekki verið afturvirk, nema ríkissjóður taki á sig allar skuldbindingarnar. Hér er því miður um lýðskrum að ræða, ættað úr töfrakistu einfaldra lausna til að leysa erfið, flókin mál. Slá ryki í augu fólks. Þessar tillögur taka til afleiðinga verðrýrnunar,því verðtryggingin sjálf er ekki nema að litlu leyti orsakavaldur erfiðleikanna. Vandinn er óstöðugt efnahagslíf, skuldum vafinn ríkissjóður og íslenska  krónan, ekki verðtryggingin. Framsóknarmenn vilja koma böndum á  reykinn í stað þess að slökkva eldinn. Meðan við höldum í krónuna verður ekkert auðveldara fyrir almennan lántaka að ráða við afborganir sínar með háum nafnvöxtum  en verðtryggingu sem jafnar út greiðslurnar. Tillögur framsóknar tekur ekki á neinum þessara vandmála. Þær auka þau.

Höfum við ekkert lært ?

Sjálfkjörinn samstarfsflokkur framsóknar er Sjálfstæðisflokkurinn. Hann er einnig byrjaður að brydda kosningarblýantinn. Hann hefur aldrei sætt sig við þá ró sem komst á hagkerfið og þjóðlífið á síðustu árum. Megin stef hans í efnahagsmálaumræðunni hefur verið skortur á nýjum virkjunum. Sagt er að aðeins nýjar virkjanir fái hjól atvinnulífsins til að snúast, hvað sem það nú þýðir. Þetta höfum við heyrt oft áður. Hljómar eins og ósjálfráð viðbrögð við samdrætti. Virkjanir verða ekki reistar án erlendra lána. Meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði er tómt mál að tala um afkomu erlendra fjárfesta. Staða ríkissjóðs og reyndar Landsvirkjunar einnig,hefur verið þannig að skuldatryggingarálagið hefur verið svo hátt að jafnvel mun betur stæð lönd, skirrast við að taka lán á þeim kjörum, ef þau eru yfirleitt í boði. Berskjaldað peningakerfi, ónýtur gjaldmiðill og bullandi framkvæmdir, sem fjármagnaðar verða með dýrum erlendum lánum, er eitraður efnahagskokteill,sem áður hefur verið drukkinn. Uppköstin voru eftirminnileg. Ætlum við ekkert að læra ?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 1.12.2012 - 10:54 - FB ummæli ()

Halló heimur!

Velkomin á blog.pressan.is. Þetta er fyrsta færslan.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur