Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur sýnt vilja sinn í verki, einurð og kjark með því að ætla að flytja ávarp á trúarhátíðinni Hátíð vonar sem haldin verður í Laugardalshöllinni í lok september og er samstarfsverkefni fjölmargra kirkna og kirkjudeilda. Með því segist hún styðja samstarf kristinna safnaða. En auk þess styður biskup raunverulegt skoðana- og trúfrelsi og lætur ekki undan áróðri þeirra fjölmiðla sem ganga erinda trúleysingja í landinu.
Áróður trúleysingja gegn Hátíð vonar er byggð á því að Franklin Graham, sonur Billy Graham, er ræðumaður hátíðarinnar, en hann er mótfallinn hjónaböndum samkynhneigðra og hefur talað opinberlega gegn samkynhneigð.
Áróður trúleysingja gegn Hátíð vonar er enn eitt dæmi þess, að þeir – og aðrir andstæðingar kristinnar trúar og kristinnar kirkju – beita nú þá, sem ekki eru á sömu skoðun og þeir, ofríki á sama hátt og þeir voru áður ofríki beittir. Þetta er ekki í samræmi við skoðana- og tjáningarfrelsi sem á að ríkja.
Fagna ber auknum réttindum einstaklinga hér á landi. Umræðu um mannréttindi, jafnrétti og bræðralag er þó hvergi nærri lokið. Ofstæki og áróður verður hins vegar ekki til að auka bræðralag, jafnrétti og mannréttindi. Allir skulu hafa rétt til að láta í ljós skoðanir sínar. Líka þeir sem eru mótfallnir hjónaböndum samkynhneigðra.