MYNDIN AF JÓNASI HALLGRÍMSSYNI
Í dag kom út nýr tíu þúsund króna seðill með mynd af dönskum prentara. Seðillinn er tileinkaður Jónasi Hallgrímssyni, en að sögn Seðlabankans er á seðlinum að finna vísanir í störf Jónasar sem skálds, íslenskumanns, alþýðufræðara og náttúrufræðings.
Nýmæli er að kalla Jónas Hallgrímsson alþýðufræðara og óljóst af hverju það er gert, enda þótt hann hafi þýtt stjörnufræði og sundreglur fyrir almenning. Þá er lóan látin vera einkennisfugl Jónasar – en ekki þrösturinn. Jónas ykir um lóuna í Heylóarvísu sem endar svo sorglega að skólabörn hafa grátið yfir þessu í 150 ár:
Lóan heim úr lofti flaug,
ljómaði sól um himinbaug,
blómi grær á grundu,
til að annast unga smá
– alla étið hafði þá
hrafn fyrir hálfri stundu!
Ef einhver fugl er hins vegar einkennisfugl Jónasar er það þrösturinn sem hann yrkir um í fyrstu sonnettu á íslenska tungu:
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.
Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!
Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.
Þrösturinn er því fugl Jónasar. Einnig má minna á að til er mynd – „ljósmynd“ – af Jónasi, sem þekkt hefur verið lengi, gerð af fyrsta ljósmyndara Íslendinga, Helga Sigurðssyni. Fylgir myndin hér með.
En hvers á Jónas Hallgrímsson að gjalda og hvers vegna kynnir Seðlabankinn sér ekki ævi hans og feril áður en ráðist er í þessa ósvinnu, seðlabankastjóri?