Sunnudagur 23.03.2014 - 20:30 - FB ummæli ()

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, hótanir og völd

Eins og stundum áður er einkennilegt að lesa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins.  Það er engu líkara en höfundur Reykjavíkurbréfsins í dag hafi ekki að fullu stjórn á hugsun og máli, enda er honum augljóslega mikið niðri fyrir. En þó má skilja af skrifum hans: hann er ekki ánægður með Ríkisútvarpið.

Traust á Fréttastofu Ríkisútvarpsins
Höfundur Reykjavíkurbréfsins fullyrðir að ekki sé „um það deilt, svo nokkru nemi, að BBC hafi alla tíð haft verulega slagsíðu”.  BBC hafi engu að síður „gætt mun betur að sér í slíkum efnum en íslenska ríkisútvarpið, svo himin og haf eru á milli“. Síðan horfir höfundur heim og ræðir um

„hið fráleita fyrirkomulag sem komið var á til að tryggja rekstur ríkisútvarpsins undir stjórn hóps þess fólks sem lætur eins og hann eigi það og það eignarhald sé svo afgerandi að ekki þurfi að hlusta á neinar gagnrýnisraddir, þótt studdar séu margsönnuðum staðreyndum sem blasa við þorra fólks og enn síður beygja sig undir þær lagareglur sem um þessa stofnun gilda.“

Þetta segir höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, þótt meirihluti þjóðarinnar treysti – og hafi alla tíð treyst best Fréttastofu Ríkisútvarpsins allra fjölmiðla landsins fyrr og síðar.

Kommúnistinn á Fréttastofunni
Það er ekki nýtt af nálinni að Morgunblaðið ráðist að starfsmönnum Fréttastofu Ríkisúrvarpsins. Í miðu ofstæki kalda stríðsins, sem höfundur Reykjavíkurbréfsins virðist enn lifa og hrærast  í, skrifaði Morgunblaðið um rangan fréttaflutnings fréttamanns Fréttastofu Ríkisútvarpsins af mótmælafundi á Austurvelli. Sagði blaðið ekki fara milli mála að þarna væri augljóslega að verki einn af kommúnistunum á Fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Svo illa vildi til að fréttamaðurinn, sem fréttina skrifaði, var heiðursmaðurinn Thorolf Smith, flokksbundinn sjálfstæðismaður alla sína ævi, sem vitnaði gjarna í orð Voltaire gamla:

Ég er ósammála því sem þú segir en  mun verja allt til dauða rétt þinn til að segja það,“

Orð þessi hafa lengi verið notuð til þess að lýsa höfuðeinkennum tjáningarfrelsis í lýðræðisríkjum.

Nýr útvarpsstjóri
Margir binda miklar vonir við nýráðinn útvarpsstjóra. Magnús Geir Þórðarson hefur getið sér afar gott orð sem leikhússtjóri á Akureyri og leikhússtjóri Borgarleikhússins. Höfundur Reykjavíkurbréfsins reynir hins vegar að gera Magnús Geir Þórðarson tortryggilegan og læðir inn dulbúnum hótunum, enda einkenni valdsjúkra manna að vilja láta aðra dansa eftir sinni pípu. Það mun enda vera tilgangur höfundar Reykjavíkurbréfsins að hræða. En sá tími er liðinn að Morgunblaðið geti látið menn dansa eftir sinni pípu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar