Þriðjudagur 17.06.2014 - 00:42 - FB ummæli ()

Þúsund ár á einni öld

Í dag er þjóðhátíðardagur Íslendinga, þessarar dvergþjóðar á mörkum hins byggilega heims, þjóðar sem fjölgaði ekkert í 900 ár meðan fólksfjöldi nágrannalandanna þrefaldaðist. Fyrir rúmri öld var Ísland amt í Danmörku. Fátækt var svo mikil að sjómenn frá Noregi, sem hingað komu til fiskveiða um aldamótin 1900, sögðu heimkomnir að fátækt á vesturströnd Noregs væri auðlegð í samanburði við kjör þurrabúðarmanna á Íslandi.

MENNTUN

Fyrir 100 árum voru skólar fáir og fábreyttir. Nú er menntunarstig Íslendinga svipað og í öðrum löndum álfunnar. Í upphafi 20ustu aldar höfðu innan við þrjátíu Íslendingar lokið doktorsprófi. Síðan 1950 hafa á fjórða þúsund Íslendingar lokið doktorsprófi og nú ljúka um eitt hundrað Íslendingar doktorsprófi víðs vegar um lönd – og eru konur þar í meirihluta.

Efnahagur þjóðarinnar hefur aldrei verið betri. Verkmenning er sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum. Talandi tákn um framfarirnar er barnadauði, sem 1875 var hæstur hér á landi af öllum löndum Evrópu, en er nú lægstur í öllum heiminum.

ÍSLENSK TUNGA

Íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Í upphafi 19du aldar var Reykjavík danskur bær þar sem töluð var danska á bæjarstjórnarfundum. Undanfarna hálfa öld hefur verið ritað á íslensku um flest þekkingarsvið nútímasamfélags. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð og kvikmyndagerð stendur með blóma. Myndlist og tónlist þola samanburð við flest lönd Evrópu og til er orðin áður óþekkt íslensk fyndni, gamansögur og hnyttnir orðaleikir, ekki síst meðal ungs fólks, í stað skítabrandara, sjóðbúðatals og sagna af skrýtnu fólki. Atvinnulíf er fjölbreytt og fyrirtæki, stór og smá, sækja á ný mið og renna stoðum undir aukna velsæld og bætta afkomu. Þúsundir karla, kvenna og barna af erlendu bergi brotið hafa flust til Ísland til þess að setjast hér að og verða íslenskir ríkisborgarar og auðgað menningarlíf á Íslandi. 

HRAPALLEGT ÁSTAND Í STJÓRNMÁLUM

En þótt Ísland hafi „ferðast“ þúsund ár á einni öld og listir, menntun og atvinnulíf standi með blóma er enn margt ógert – og ýmsu er ábóta vant. Hrapallegast er ástandið í stjórnmálum þar sem borist er á banaspjót, innan flokka og utan, og Alþingi er skopmynd af löggjafarsamkomu. Stendur þessi ómenning mörgu fyrir þrifum.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að siðferði í stjórnmálum og staða, viðhorf og starfshættir fjölmiðla skipta sköpum fyrir málefnalega umræðu og frjálsa skoðanamyndun – og farsælt stjórnarfar.

VANMÁTTUGIR STJÓRNMÁLAMENN

Samanburðarrannsóknir í Danmörku og Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar hafa leitt í ljós gríðarlegan mun á starfsháttum stjórnmálamanna og umræðuhefð. Brigsl og stóryrði, sem margir íslenskir stjórnmálamenn temja sér, er óhugsandi í Danmörku og Noregi, enda grafa þarlendir stjórnmálamenn sér gröf með slíku tali. Hér á landi telja margir stóryrði og brigsl tákn um djörfung og festu.

Þessi frumstæða umræðuhefð setur svip á störf Alþingis sem iðulega minnir meir á sjónleikahús en löggjafarsamkomu og eykur aukið tortryggni milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og hindrar eðlilegt samstarf enda ber almenningur ekki virðingu fyrir Alþingi eða íslenskum stjórnmálamönnum. Má fullyrða að ein ástæðan fyrir erfiðleikum við lausn aðkallandi vandamála á rætur að rekja til sundurlyndis íslenskra stjórnmálamanna og frumstæðs stjórnmálasiðferðis og umræðuhefðar.

FJÖLMIÐLAR

Umfjöllun um ágreiningsmál í fjölmiðlum á Íslandi einkennist oft af „yfirheyrsluaðferðinni“ þar sem spyrjandi reynir að gera viðmælanda sinn tortryggilegan – og fella yfir honum dóm. Við hlið dómstóls götunnar og skvaldursins í netheimum, hefur verið settur dómstóll íslenskra fjölmiðla. Í sjónvarpi í Danmörku og Noregi býr spyrjandi sig vel undir og leitar svara á hlutlægan hátt með yfirveguðum spurningum til þess að reyna að skýra málin – og fellir ekki persónulega dóma og tekur því síður sjálfur þátt í umræðunni. Vegna yfirheyrsluaðferðarinnar fást iðulega ekki svör við brennandi spurningum og almenningur situr eftir ringlaður með óbragð í munninum. 

FRUMSTÆÐ UMRÆÐUHEFР

Ástæður frumstæðrar umræðuhefðar á Íslandi eru vafalaust margar. Rótgróin borgmenning hefur enn ekki fest rætur á Íslandi með tillitssemi, yfirvegun og persónulegri fjarlægð sem slíka menningu einkennir. Fámenni hefur valdið því að allir þykjast þekkja alla og persónulegt návígi nálgast iðulega ofsóknir. Stéttskipting með sínum harða aga hefur verið með öðrum hætti en úti í hinum stóra heimi – með kostum sínum og göllum, og agaleysi Íslendinga er áberandi á flestum sviðum.

Eitt af því sem mjög er aðkallandi í þjóðfélaginu, er að bæta umræðumenningu, auka virðingu fyrir öðru fólki og skoðunum annarra – samfara því að koma á jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar