Lög um Menntamálastofnun voru samþykkt á Alþingi í sumar og hafa þegar tekið gildi og stofnunin þegar tekið til starfa. Þótt binda verði vonir við starf stofnunarinnar eru litlar líkur til að hún geti hjálparlaust ratað gengum þann frumskóg og ótræði sem einkunnagjöf í grunnskólum og inntaka í framhaldsskóla er komin í.
Stjórnsýslustofnun
Stofnunin er stjórnsýslustofnun, eins og segir í lögum, og skal stuðla að auknum gæðum í skólastarfi. Forstjóri hefur til ráðuneytis sjö manna ráðgjafarnefnd sem ráðherra skipar til fjögurra ára. Forstjóri setur á fót fagráð helstu verksviða, skipuð sérfróðum aðilum, til ráðgjafar en ráðherra setur reglugerð um starf fagráða.
Meginverkefni Menntamálastofnunar er að stuðla að umbótum í skólastarfi, safna upplýsingum og hafa eftirlit með – og meta árangur skólastarfs, veita upplýsingar og leiðbeiningar, sinna framkvæmd laga, reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla og veita ráðherra ráðgjöf. Hér er því um að ræða aukna miðstýringu í skjóli skrifræðis.
Hæfnismat
Framhaldsskólar fá ekki að nýta sér niðurstöður samræmdra prófa grunnskóla við inntöku nemenda, þar sem einkunnir gefnar í bókstöfum. Menntamálstofnun stefnir hins vegar að því að bjóða nýtt hæfnismat, sem framhaldsskólar geta notað við inntöku. Ekki hefur þó verið ákveðið hvernig fyrirkomulag hæfnisprófa verður, en þeim verður stýrt af nýrri Menntamálastofnun.
Skólaþing
Margt í stefnu Menntamálastofnunar – Menntamálaráðuneytis – vekur undrun og tortryggni. Huglægt hæfnismat verður í höndum Menntamálastofnunar og framhaldsskólar fá ekki að nota niðurstöður samræmdra prófa grunnskóla. Með þessu er verið að gera framhaldsskóla ósjálfstæða og ómynduga. Það er ekki góð stefna.
Til þess að rata gengum frumskóg og ótræði, sem einkunnagjöf í grunnskólum og inntaka nemenda í framhaldsskóla er komin í, væri skynsamlegt að efna þegar til skólaþings þar sem fulltrúar kennara, nemenda og skólastjórnenda grunnskóla og framhaldsskóla ræða um færar leiðir í einkunnagjöf og inntöku í framhaldsskóla.