Laugardagur 19.09.2015 - 00:00 - FB ummæli ()

Kalda stríðið IN MEMORIAM

Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, skoðaði mannvirki á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og fullvissaði sig um að þau gætu nýst nýjustu kafbátaleitarvélum Bandaríkjanna, Boeing P-8 þotum sem eru að grunni af gerðinni Boeing 737-800. Stélið á P-8 þotunum, sem bandaríski flotinn tók formlega í notkun í nóvember 2013, er 1 m hærra en á P-3 Orion skrúfuvélum sem komu til sögunnar 1959 og settu svip sinn á starfsemi varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni fram á miðjan tíðunda áratuginn.

Þannig kemst fremsti formælandi kalda stríðsins á Íslandi, Björn Bjarnason, að orði í opnugrein í Morgunblaðinu 18. september 2015. Og Björn Bjarnason heldur áfram:

Forvitnilegt er að fylgjast með hvernig áhugi á öryggi á norðurslóðum vaknar að nýju innan bandaríska stjórnkerfisins.

Fremsti formælandi kalda stríðsins á Íslandi klikkir síðan út með því að segja:

Á suðurvæng Evrópu og varnarsvæðis NATO blasir við upplausn og úrræðaleysi vegna flótta hundruð þúsunda manna frá ófriði í Mið-Austurlöndum. Á norðurvængnum ráða menn ráðum sínum um auknar öryggisráðstafanir. Þetta eru tvísýnir tímar og full ástæða til mikillar varkárni.

Gott er að vita að vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hefur fullvissað sig um að mannvirki á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli geta nýst nýjustu kafbátaleitarvélum Bandaríkjanna þótt stélið á þeim sé einum metra hærra en á P-3 Orion skrúfuvélum sem komu til sögunnar 1959 og settu svip sinn á starfsemi varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni fram á miðjan tíðunda áratuginn.

Verra er að Björn Bjarnason skuli enn ekki gera sér grein fyrir að upplausn og úrræðaleysi vegna flótta hundruð þúsunda manna undan ófriði í Mið-Austurlöndum – og víðar í heiminum – á rætur að rekja til hernaðarhyggju Bandaríkjanna og Bretlands – og annarra stórvelda – sem byggist á ofurvaldi vopnaframleiðsluauðvaldsins. Full ástæða er til mikillar varkárni, eins og Björn Bjarnason segir. En það er vegna þess að heimsbyggðinni stendur enn sem áður mest ógn af stríðsleik stórveldanna sem leikinn er í skjóli gróðavonar hernaðarauðvaldsins. Því verða hernaðarátökin að kontínúerast. Það er mergurinn málsins. Ef tíunda hluta þess fjármagns, sem eytt er í hernað, mætti reisa við fátækar þjóðir og gera þeim kleift að búa í eigin landi.

Mættu orð Björns Bjarnasonar verða andlátsorð kaldastríðsins.

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar