Miðvikudagur 09.09.2015 - 21:11 - FB ummæli ()

Vi alene vide

Ofangreind orð – Vér einir vitum – er að finna í yfirlýsingu Friðriks sjötta Danakonungs [1768-1839] sem dagsett er 26. febrúar 1835, en yfirlýsingin var svar konungs við áskorun 600 manna um að hefta ekki prentfrelsi í Danmörku. Í yfirlýsingu konungs segir:

Ligesom Vor landsfaderlige Opmærksomhed stedse har været henvendt paa at bidrage Alt, hvad det stod i Vor kongelige Magt, til at virke for Statens og Folkets Vel, saaledes kan heller Ingen uden Vi alene være i Stand til at bedømme, hvad der er til Begges sande Gavn og Bedste. 

Í íslenskri þýðingu hljóðar þetta þannig – í nafni forseta Íslands:

Eins og landföðurleg umhyggja vor hefur ávallt beinst að því að leggja allt það af mörkum sem í konunglegu valdi voru stendur til að vinna að velferð ríkisins og þjóðarinnar, þannig getur enginn nema vér einir færir um að dæma hvað er gagnlegast og best báðum til handa

Orð Friðriks konungs sjötta eru talin bera vitni um yfirlæti hins einvalda konunga gagnvart þegnum sínum, en konungur sat á valdastól meira en hálfa öld.

Þessi orð Friðriks konungs sjötta komu í huga mér þegar ég hlustaði á ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands í nær tvo áratugi við setningu Alþingis.

Enda þótt haldinn hafi verið þúsund manna þjóðfundur og Alþingi hafi skipað stjórnlagaráð – eftir að Hæstiréttur ógilti kosningar til stjórnlagaþings á röngum forsendum og af annarlegum ástæðum – og meiri hluti þjóðarinnar hafi samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að setja nýja stjórnarskrá í samræmi við breytta heimsmynd, nýja hugsun og nýjar hugmyndir um lýðræði og þjóð segir Ólafur Ragnar Grímsson fimmti í ræðu sinni:

Um þessar mundir er hins vegar boðað í nafni nefndar, sem ræðir stjórnarskrána, að hið nýja þing þurfi á næstu vikum að breyta þessum hornsteini íslenskrar stjórnskipunar; tíminn sé naumur því nýta þurfi vegna sparsemi og hagræðis forsetakosningar á næsta vori.

Og Ólafur Ragnar Grímsson – forseti í upphafi 21. aldar – klikkir út með því að segja:

Því ítreka ég nú hin sömu varnaðarorð og við þingsetningu fyrir fjórum árum: að Alþingi tryggi að þjóðin viti með vissu hver staða forsetans sé í stjórnskipun landsins þegar hún gengur að kjörborðinu; annars gætu forsetakosningar orðið efni í óvissuferð.

… að þjóðin viti með vissu hver staða forsetans sé í stjórnskipun landsins. Vi alene vide.

Herra forseti. Þjóðin veit og skilur með aukinni menntun sinni, yfirsýn yfir sögu þjóðarinnar undir dönskum einvaldskonungum sex aldir og ekki síst vegna skilnings þjóðarinnar hvað lýðræði merkir.

Lýðræði er ekki Alþingi – og ekki forseti sem heldur at han alene vide.

 

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar