Fimmtudagur 24.09.2015 - 10:09 - FB ummæli ()

Tungumál í útrýmingarhættu

Talið er að nær helmingur af um 6000 tungumálum heimsins séu í útrýmingarhættu. Flest þessara tungumála eru töluð af færri en tíu þúsund málnotendum. Margar ástæður eru fyrir því að þessi tungumál eru í útrýmingarhættu: fámenni og veik staða tungumálsins af þeim sökum, fátækt ritmál, styrjaldarátök og fólksflótti frá aðþrengdum landsvæðum og átakasvæðum, þar sem tungumálin eru töluð, áhrif frá fjölmennum – „sterkum” tungumálum – og nú síðast ný samskiptatækni af ýmsu tagi og sér þar enginn fyrir endann á.

Víða eru sérfræðingar í máltækni og málfræðingar að þróa þessa nýju samskiptatækni þar á meðal nýtt tölvuviðmót sem getur skilið náttúruleg tungumál, sem svo eru kölluð. Er stefnt að því að tungumál verði í framtíðinni eingöngu notuð í samskiptum við tölvur og tölvubúnað eins og farsíma, bifreiðar og jafnvel eldavélar og ísskápa!

Málfræðingar og sérfræðingar í máltækni hafa nú bent á, að íslensk tunga sé illa undir þessa byltingu búin og geti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum vegna þessarar nýju samskiptatækni, m.a. vegna raddstýringar við hvers konar tölvubúnað.

Staða íslenskrar tungu getur engu að síður talist sterk – enn sem komið er. Málið er í fyrsta lagi talað af liðlega 300 þúsund manns og Ísland er því langt því frá að vera meðal fámennustu málsvæða heimsins. Staða tungunnar er einnig sterk vegna áhuga almennings og stjórnvalda á málrækt og málvöndun. Staða tungunnar er einnig sterk vegna þess að á íslensku eru til gamlar og nýjar bókmenntir og orðlist af ýmsu tagi og bætist stöðugt í þann sarp. Fólksflótti er enginn frá landinu og landið er „langt frá heimsins vígaslóð”.

En ef til vill þurfum við Íslendingar þó að vera á varðbergi og hugsa okkar ráð. Um árabil hafa börn og unglingar setið langtímum saman fyrir framan tölvur þar sem samskipti fara fram á ensku á lyklaborði, s.s. í tölvuleikjum og samskiptamiðlum af ýmsu tagi, enda eru mörg íslensk börn og unglingar orðin vel mælt á „þessa” ensku, þ.e. tölvuensku, jafnvel áður en þau taka til að læra sjálft heimsmálið í grunnskóla.

Enginn vafi leikur á að í framtíðinni verða íslenskt börn og unglingar – svo og fullorðið fólk – að nota „náttúrulegt tungumál” til þess að stjórna tölvum, farsímum og bílum. Í fljótu bragði kann að sýnast auðveldast og ódýrast – í aurum talið – að nota heimsmálið ensku. Hins vegar rýrði slíkt íslensku og gengi gegn íslenskri málstefnu, en aðalmarkmið hennar er „að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags”.

Lítill vafi virðist leika á, að Íslendingum er vandi á höndum af þessum sökum. Ef ekkert verður að gert, er sú hætta fyrir hendi að íslenska – eins og önnur mál – líði undir lok áður en 21. öldin – öld tölvu og tækni – er liðin í aldanna skaut.

VIKUDAGUR 24. september 2015

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar