Dagur íslenskrar tungu er tengdur nafni Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, fyrsta nútímaskálds Íslendinga sem fann fegurð íslenskrar náttúru og sameinaði íslenska ljóðhefð og erlend kveðskaparlist.
Jónas Hallgrímsson dó 26. maí 1845 á Friðriksspítala í Kaupmannahöfn. Árið eftir birtist í Nýjum félagsritum kvæði, níu erindi undir ferskeyttum hætti, eftir Grím Thomsen frá Bessastöðum á Álftanesi. Kvæðið nefndi Grímur einfaldlega Jónas Hallgrímsson. Tvö lokaerindi kvæðisins hljóða þannig:
Íslands varstu óskabarn,
úr þess faðmi tekinn,
og út á lífsins eyðihjarn
örlagasvipum rekinn.
Langt frá þinni feðra fold,
fóstru þinna ljóða,
ertu nú lagður lágt í mold,
listaskáldið góða.
Talið var að engin mynd hefði verið gerð af Jónasi Hallgrímssyni í lifanda lífi. Sú mynd sem notast er við, er vangamynd sem birtist framan við Ljóðmæli og önnur rit eptir Jónas Hallgrímsson sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út í Kaupmannahöfn 1883. Myndin er steinprent gerð af ónefndum starfsmanni í prentverki Hoffensberg & Traps Etablissement, þar sem ljóðmælin voru prentuð.
Steinprentið er hins vegar gert eftir ljósmynd af teikningu sem Sigurður málari dró upp árið 1860 og varðveitt er í Ljósmyndasafni Íslands. Myndina gerði Sigurður eftir blýantsteikningu, vangamynd, sem séra Helgi Sigurðsson á Melum i Melasveit dró upp af Jónasi þar sem hann lá á líkbörum á Friðriksspítala í maí 1845.
Frá blýantsteikningu séra Helga til steinprentsins frá árinu 1883 er því löng leið og milliliðir tveir: teikning Sigurðar málara og ljósmynd af þeirri teikningu. Þess er því varla að vænta að myndin, sem við höfum fyrir augunum, sé lík manninum Jónasi Hallgrímsyni eins og hann var í lifanda lífi, enda sögðu frændur hans í Eyjafirði steinprentið framan við ljóðmælin 1883 minna lítið á hann og „verið á móti myndinni”.
En til er önnur teikning eftir séra Helga af Jónasi sem gerð er með myndvarpa þess tíma, Camera lucida sem notuð var sem ljósmyndavél, enda séra Helgi fyrsti menntaði ljósmyndari Íslendinga. Myndin er sennilega gerð daginn áður en Jónas lést og ljóst að hún ber svipmót lifandi manns – er af lifandi manni.
Það er kominn tími til á 170. ártíð Jónasar Hallgrímssonar að farið sé að nota myndina sem gerð var af honum lifandi til þess að sýna að hann lifir enn.