Miðvikudagur 17.02.2016 - 18:51 - FB ummæli ()

Sýning nemenda Verslunarskólans á Moulin Rouse

Nemendur Verslunarskóla Íslands sýna nú söngleikinn Moulin Rouge í Austurbæ undir stjórn Bjarkar Jakobsdóttur. Aðstoðarleikstjóri er Birkir Ingimundarson, úr hópi nemenda skólans. Sýningin er í einu orði sagt frábær, raunar vandaðasta sýning framhaldsskólanemenda sem ég hef séð á langri ævi.

Söngleikurinn fjallar um hina einu sönnu ást, blekkingar, svik, peninga og völd. Ungur breskur rithöfundur kemur til Parísar árið 1899 og kemst í kynni við bóhema Montmartre og verður ástfanginn af gleðikonunni Satine, sem er helsta stjarna skemmtistaðarins Moulin Rouge, sem auk þess að vera dýr skemmtistaður er dýrt gleðihús með öllu sem fylgir, ofbeldi og yfirgangi gagnvart konum og keppni um peninga og völd – sem allt er alger andstaða hinnar sönnu ástar og sannrar vináttu.

Söngleikurinn hefur verið settur á svið víða um heim, auk þess sem gerðar hafa verið kvikmyndir eftir sögunni, nú síðast árið 2001 mynd með Nicole Kidman og Ewan McGregor í aðalhlutverkunum, þótt kvikmyndin frá 1952 undir stjórn John Hustons með Zasa Zasa Gabor og José Ferrer í aðalhlutverkum sé mér minnisstæðari.

Í sýningu Verslunarskólans leika Snædís Arnarsdóttir gleðikonuna og Teitur Gissurarson rithöfundinn. Að auki eru um 30 nemendur í sviðlistahópnum svo og sex manna hljómsveit auk 30 nemenda í undirnefndum sýningarinnar af ýmsu tagi. Leikarar gera hlutverkum sínum frábær skil og sviðslistarhópurinn dansar cancan á við hvaða hóp listamanna sem er og sýnir kunnáttu og fimi í breiki og stökkdansi af mikilli íþrótt.

Oft er talað um það sem afvega fer í samtíð okkar – og ekki að ástæðulausu. Hins vegar er minna talað um það sem vel er gert. Ungt fólk liggur einnig oft undir ámæli – eins og oft áður, enda trú margra að heimurinn hafi frá sköpun sífellt farið versnandi. Hins vegar er það sannast mála að við Íslendingar höfum aldrei átt betur menntað ungt fólk en nú, fólk sem hefur vilja og kjark til þess að fara aðrar og nýjar leiðir en þær sem gamla kynslóð okkar hefur farið. Sýning Verslunarskóla Íslands á söngleiknum Moulin Rouge er eitt dæmi um menntun, hæfileika og kjark ungs fólks á Íslandi.

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar