Fimmtudagur 02.06.2016 - 13:37 - FB ummæli ()

Hlutverk forseta – ný stjórnarskrá

 

Sumir virðast telja að forseti Íslands geti mótað embættið að eigin vild. Það er ekki rétt. Hins vegar setur forseti að sjálfsögðu svip sinn á embættið eftir hæfileikum og getu. Núverandi forseti fór fyrstur forseta lýðveldisins inn á nýjar brautir til þess að auka pólitískt áhrifavald sitt – án þess nokkur fengi rönd við reist. Þetta var unnt vegna mótsagnarkenndra ákvæða í gildandi stjórnarskrá, enda var núverandi forseti fyrsti forseti lýðveldisins sem hlotið hafði uppeldi sitt í pólitískri refskák og átökum samtímans, eins og einn afnúverandi frambjóðendum.

Ný stjórnarskrá

Brýn þörf er því á nýrri stjórnarskrá, ekki bótasaumi sem stundaður hefur verið undanfarna áratugi. Að mörgu er að hyggja, en ekki síst þarf að setja skýr ákvæði um hversu lengi forseti getur setið og ákvæði um, að enginn geti orðið forseti sem ekki hefur meirihluta greiddra atkvæði að baki sér. Ný stjórnarskrá þarf einnig að auka beint lýðræði í kjölfar betri menntunar þjóðarinnar á tímum aukins jafnræðis, t.a.m. með ákvæði um þjóðaratkvæði í mikilsverðum málum. Þá ættu viðræður um stjórnarmyndun að fara fram fyrir opnum tjöldum – e.t.v. án aðkomu forseta með samkomulagi fulltrúa stjórnmálaflokkanna, auk þess sem ráðherrar – fulltrúar framkvæmdavaldsins – ættu að sjálfsögðu ekki að sitja á löggjafarþinginu.

Grundvallaratriði í lýðveldi með þingbundna stjórn er að löggjafarþing, sem kosið er með jöfnu atkvæðavægi allra kjósenda, ráði för og forseti sé sameiningartákn – ekki sérstakur stjórnmálaflokkur, eins og við höfum orðið að horfa upp á. Á Íslandi er ekki forsetaræði, sem raunar ætti hvergi að þekkjast í lýðræðislandi.

Mótsagnir í stjórnarskránni

Undarlegt má telja hversu margar mótsagnir er enn að finna í stjórnarskránni frá 1944. Skýringar eru ef til vill einkum þær, að stjórnarskráin frá 1944 er leifar dönsku stjórnarskrárinnar – eða stjórnarskrárinnar frá 1874. Í gildandi stjórnarskrá segir t.a.m. að forseti lýðveldisins sé ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Engu að síður á forseti að skipa ráðherra og veita þeim lausn, ákveða tölu þeirra og skipta störfum með þeim. Þetta er mótsögn.

Í núverandi stjórnarskrá segir einnig, að forseti lýðveldisins veiti þau embætti, er lög mæla fyrir um, og geti vikið þeim úr embætti, þeim sem hann hefur veitt embætti, og flutt embættismenn úr einu embætti í annað. Forseti skal gera samninga við önnur ríki, fresta fundum Alþingis, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári, eins og þar stendur, hann rýfur þing og getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga – sem aldrei hefur þó gerst. Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka – en hann er ábyrgðarlaus í stjórnarathöfnum. Þetta er mótsögn – hrein rökleysa.

Sameiningartákn

Í upphafi var litið svo á, að forseti væri sameiningartákn þjóðarinnar. Með því er átt við að í embættisverkum sínum kæmi hann fram fyrir hönd þjóðarinnar allrar, innanlands sem utan, sýni hlutlægni og hógværð í störfum og gengi ekki erinda einstakra hagsmunahópa. Þar að auki er forseta ætlað að tala til þjóðarinnar á örlagastundum. Með þessu er forseta ætlað að stuðla að einingu þjóðarinnar og efla virðingu Íslendinga fyrir landinu, sögu þjóðarinnar og tungu, þáttum sem gera Íslendinga að sérstakri þjóð. Í ferðum erlendis gæti hann glætt áhuga á Íslandi og aukið hróður lands og þjóðar.

Kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta 1980 vakti heimsathygli, enda var hún fyrsta konan í heiminum sem kjörin var í embætti þjóðhöfðingja. Útflutningsfyrirtæki og aðilar í ferðaþjónustu nutu góðs af þeirri hylli sem Vigdís naut erlendis vegna yfirvegunar sinnar, látleysis og hógværðar. Núverandi forseti gerðist hins vegar málsvari íslenskra fyrirtækja sem vildu hasla sér völl erlendis og ferðaðist á þeirra vegum um heiminn. Í embættistíð hans fjölgaði óopinberum ferðum forseta þar sem hann kynnti íslensk fyrirtæki og lofaði dugnað þeirra, kjark og þor – víkingseðlið! Varð forsetinn eins konar utanríkisráðherra verslunar og viðskipta, enda þótt óvíst sé nú, hver árangur varð af – en tjónið vegna útrásarvíkinganna skildi eftir sig djúp spor, sárindi og langa skugga. Braut þetta gegn hlutlægni forseta í störfum.

Nýr forseti

Við forsetakosningarnar í júní þarf þjóðin forseta sem getur orðið sameiningartákn, sýnir hlutlægni í störfum og getur komið fram fyrir hönd þjóðarinnar allrar og markar í starfi sínu stefnu sem sameinar alla þegna ríkisins á tímum alþjóðahyggju og eflir sjálfsvirðingu þjóðar við gerbreyttar aðstæður og getur aukið hróður lands og þjóðar og stuðlað að því að skapa samfélag sem byggir á heiðarleika, réttlæti, virðingu og jafnrétti.

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar