Stundum getur verið gaman að spyrja spurninga sem ekkert rétt svar er til við – jafnvel ekkert svar. Á dögunum spurði ég nokkra karla og konur, hver væri að þeirra dómi fegursta vísa sem ort hefði verið á íslenska tungu. Engin frekari skýring var gefin á því, við hvað átt væri með orðinu fagur. Ekki þurfti heldur að rökstyðja svarið. Einu gilti hvort um væri að ræða stöku, erindi úr litlu ljóði eða úr löngu kvæði.
Svör bárust frá flestum, sem spurðir voru. Þar af voru tvær vísur eftir Skáld-Rósu eða Vatnsenda-Rósu, Rósu Guðmundsdóttur sem fæddist 1795 í Hörgárdal og ólst þar upp, bjó allvíða og lést 1855, tæplega sextug að aldri. Hún á sér afar merka sögu, átakasögu, sem ekki verður rakin hér. Ekki er vitað til hvers eða hverra hún orti þessar vísur, enda önnur saga. Báðar þessar vísur bárust frá konum.
Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tal’ og allt hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.
Langt er síðan sá ég hann,
sannlega fríður var hann,
allt sem prýða mátti einn mann
mest af lýðum bar hann.
Þriðja vísan sem birt verður að þessu sinni barst einnig frá konu. Vísan er eftir Árna Böðvarsson rímnaskáld sem fæddur var í Staðarsveit 1713 og dáinn 1776. Langafi hans var séra Ketill Jörundarsonar að Hvammi í Hvammssveit, móðurfaðir Árna Magnússonar prófessors og handritasafnara, en móðir hans Ólöf Árnadattir, systurdóttir Jóns biskups Vídalíns. Árni Magnússon og Árni Böðvarsson voru því skyldir að öðrum og þriðja, en Jón Vídalín ömmubróðir hans. Árni Böðvarsson varð stúdent frá Hólum í Hjaltadal 1732 en bjó lengst af á Snæfellsnesi, kenndur við Akra á Mýrum. Árni var dæmdur fyrir hórdómsbrot með giftri konu og skildi við konu sína. En til seinni konu sinnar, Ingveldar Gísladóttur, orti hann þriðju vísuna sem barst og hér verður birt:
Ætt’ eg ekki vífaval
von á þínum fundum,
leiðin eftir Langadal
löng mér þætti á stundum.
Til Ingunnar, konu sinnar, orti Árni stöku sem fangar hugann og á heima í þessu safni:
Þú ert út’ við eyjar blár,
eg er sestur að Dröngum.
Blóminn fagur kvenna klár,
kalla eg löngum
– kalla eg til þín löngum.
En á degi íslenskrar tungu, afmæli sveitunga míns og félaga Jónasar Hallgrímssonar, ætla ég að birta það ljóð hans, sem hefur hrifið mig einna mest og er einna torskildast allra kvæða hans og ljóða, kvæðið Alsnjóa, sem hann orti í Sórey á Sjálandi 1844:
Eilífur snjór í augu mín
út og suður og vestur skín,
samur og samur inn og austur,
einstaklingur! vertu nú hraustur.
Dauðinn er hreinn og hvítur er snjór,
hjartavörðurinn gengur rór
og stendur sig á blæju breiðri,
býr þar nú undir jörð í heiðri.
Víst er þér, móðir! annt um oss;
aumingja jörð með þungan kross,
ber sig það allt í ljósi lita,
lífið og dauðann, kulda’ og hita.