Samskipti Íslendinga við snjalltæki verða íslenskri tungu ekki að falli. Unnt er að nýta tækni sem gerir samskiptin auðveld og einföld. Það sýnir frábært starf íslensku starfsmanna Google sem getið var um í fréttum á dögunum. Það eru aðrir þættir sem gætu orðið þessu elsta tungumáli Evrópu að falli.
Þá ber að hafa í huga, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð hafa aldrei verið öflugri svo og kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta og nú síðast rapp á íslensku.
Vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarna áratugi og fleiri njóta kennslu í íslensku máli, málnotkun, bókmenntum og sögu þjóðarinnar en áður. Rannsóknir eru stundaðar á íslensku máli, málnotkun, bókmenntum, sagfræði, félagsvísindum, mannfræði og heimspeki í skjóli háskóla á Íslandi og annarra rannsóknarstofnana.
Nýyrðasmíð er öflugri en nokkru sinni og hafa bæði einstaklingar, stofnanir – og fyrirtæki atvinnulífsins tekið þátt í því málræktarstarfi auk þess sem Íslensk málnefnd og Íslensk málstöð vinna mikilsvert starf. Það er því annað en fall íslenskrar tungu sem þarf að óttast meira á landinu kalda.