Fimmtudagur 26.10.2017 - 13:42 - FB ummæli ()

Frábær leiksýning sem á erindi til allra

 

Þjóðleikhúsið sýnir nú leikrit Henriks Ibsens Óvinur fólksins í leikgerð og þýðingu Grétu Kristínar Ómarsdóttur og Unu Þorleifsdóttur, sem er leikstjóri.  Er leikgerðin allverulega stytt en kemur ekki að sök.  Leikmynd og búninga gerði Eva Signý Berger og tónlist og hljóðmynd Gísli Galdur Þorgeirsson og Kristinn Gauti Einarsson.

Leikritið heitir á norsku En folkefiende og er skrifað árið 1882 og var í fyrri þýðingu á íslensku nefnt Þjóðníðingur.  Bandaríski rithöfundurinn Arthur Miller gerði leikgerð af verkinu á sjötta áratug síðustu aldar og kallaði það An Enemy of the People, sem hlaut mikla athygli, enda var þetta á tímum ofsókna í Bandaríkjunum á hendur róttæku fólki, svo kölluðum MacCarthy tímanum.

Leikritið Óvinur fólksins er eitt frægasta verk Henriks Ibsens.  Verkið fjallar um átök í smábæ í Noregi.  Þar hafa verið stofnuð heilsuböð sem draga að sér fólk víðs vegar að og eru böðin orðin undirstaða atvinnulífs og velmegunar í bænum.  Hins vegar kemur í ljós að vatnið í böðunum er mengað, eitrað, frá verksmiðju sem rekin hefur verið í bænum þrjá mannsaldra.  Bæjarstjórinn, Katrín Stokkmann, sem leikin er af Sólveigu Arnarsdóttur, vill leyna menguninni og reyna að finna leiðir til þess að bjarga böðunum og bæjarsamfélaginu, en bróðir hennar, læknirinn Tómas Stokkmann, sem Björn Hlynur Hallsson leikur, vill upplýsa almenning um málið.  Skiptist fólk í tvær andstæðar fylkingar sem takast á, en margir skipta um skoðanir og sumir oftar en einu sinni.  Einn er sá sem ekki skiptir um skoðun og það er læknirinn og vísindamaðurinn sem vill berjast fyrir lýðræði og sannleika.

Verkið lýsir á áhrifamikinn hátt hverjir hafa vald yfir sannleikanum og hvernig má skrumskæla lýðræðið.  Lokaorð verksins eru orð Tómasar Stokkmanns: „Ég gerði nýja uppgötvun. Þegar maður berst fyrir sannleikanum, þarf maður að standa einn.  Og sterkasti maður heims er sá sem þorir að standa einn.  Ég er sá maður.  Ég er sterkasti maður heims.”  Á norsku hljóða lokaorð Stokkmanns: „Den sterkeste mann i verden, det er han som står mest alene.”

Hljóðmyndin er afar áhrifamikil og leikmyndin frábær, sýnir hinn lokaða heim iðnaðarsamfélagsins með járnmöstrum og byggingum úr stáli.  Verkið kallast á við samtíma okkar þar sem takast á gróðahyggja og mengun annars vegar og hins vegar krafa um valddreifingu, velsæld og mannvirðingu.

Þessi sýning Þjóðleikhússins á leikritinu Óvinur fólksins er ein áhrifamesta sýning sem blekberi hefur séð um langan tíma og leiðir í ljós, að óvinir fólksins í samtímanum eru margir.

 

 

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar