Á næsta ári „er öld liðin frá því íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918”, eins og segir í þingsályktunartillögu Alþingis 13. október 2016. Haldinn verður hátíðarfundur á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þann dag árið 1918 var samningnum um fullveldi Íslands lokið. Einnig verður efnt til hátíðahalda 1. desember 2018 í tilefni þessara tímamóta.
Alþingi kaus nefnd með fulltrúum allra þingflokka er undirbúi hátíðahöldin á næsta ári í samræmi við þingsályktunartillöguna, ráði framkvæmdastjóri og starfslið eftir þörfum og eins og fjárveiting leyfir. Nefndinni var falið að láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna og „stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar, stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafna öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi, og hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918.”
Alþingi fól ríkisstjórn að gera í fjármálaáætlun næstu fimm ára ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns og undirbúa tillögu um fimm ára áætlun uppbyggingu innviða máltækni fyrir íslenska tungu og fela Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar og efna til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit.
Undirbúningsnefndin auglýsti í haust eftir „hugmyndum að vönduðu verkefni á dagskrá afmælisársins” vegna fullveldisins. Hópur áhugamanna um eflingu og varðveislu íslenskrar tungu sendi nefndinni tillögu um að gefin yrði út Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1918 til 2018, sem hefði að geyma ljóð er birst hafa á öld íslensks fullveldis. Skyldi sýnisbókin afhent nemendum í tíunda bekk grunnskóla 1. desember 2018 um leið og kynning á íslenski ljóðagerð færi fram í hverjum skóla landsins. Sýnisbókin yrði síðan gefin út sem skólaljóð fyrir grunnskóla, er Ríkisútgáfa námsbóka gæfi út. Tekið var fram að til verkefnisins væri stofnað „til að styrkja íslenska tungu og vekja athygli á hinum lifandi ljóðarfi Íslendinga á öld fullveldisins, sem aldrei hefur verið meiri.”
Undirbúningsefndin um aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands svaraði tillögu áhugamanna um eflingu og varðveislu íslenskrar tungu fyrir viku og tilkynnti, að ekki væri unnt að styðja við tillöguna um Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1918 til 2018, enda hefðu 169 tillögur borist og sótt um rúmlega 200 milljónir króna.
Fróðlegt verður að sjá, hvaða tillögur hljóta náð fyrir augum nefndarinnar „er öld liðin frá því íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918”, en grundvöllur íslenskrar menningar og forsenda sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar er tungumálið: ástkæra ylhýra málið, eins og Jónas Hallgrímsson segir í ljóði sínu „Ásta”, ljóði sem ort er til skáldgyðjunnar.