Miðvikudagur 10.01.2018 - 18:25 - FB ummæli ()

Opinber tungumál heims

Mismunandi er hve mörg opinber tungumál eru í hverju sjálfstæðu ríki heims.  Samkvæmt skrá Sameinuðu þjóðanna eru aðildarríki þeirra nú 193 talsins.  Ísland var um tveggja áratuga skeið fámennasta ríki innan vébanda Sameinuðu þjóðanna.  Nú eru 20 ríki fámennari.  Eins og lesendur þekkja, eru íbúar á Íslandi um 340 þúsund en aðeins eitt opinbert tungumál.  Á landinu eru hins vegar töluð um 100 – eitt hundrað – tungumál og á landinu býr samkvæmt skrá Hagstofu Íslands fólk sem fætt er í um 160 þjóðlöndum, flestir í Póllandi eða 13.811.  3.412 eru fæddir í Danmörku, 2001 í Svíþjóð, 1.132 í Noregi og 213 í Finnlandi.  1.751 eru fæddir í Þýskalandi, 1.489 í Bretlandi, 2.187 í Bandaríkjunum, 399 í Rússlandi, 682 á Spáni, 635 í Frakklandi og 342 á Ítalíu, 77 í Eþíópíu, 84 í Gabon og 90 í Kenía – og þannig mætti lengi telja.

Þetta er mikil breyting á 50 árum og hefur áhrif á málsamfélagið.  Engar kröfur hafa enn verið gerðar um annað – eða önnur opinber tungumál á þessu fámenna landi, enda sennilega tómt mál um að tala af ýmsum ástæðum.  Hins vegar er heimsmálið enska sífellt notað í auknum mæli í samskiptum fólks á Íslandi, s.s. í verslunum, veitingastöðum og á vinnustöðum.

Í Noregi eru íbúar um 5.2 milljónir og eru opinber tungumál tvö, norska og samíska.  Norska skiptist í tvennt: nýnorsku, sem er runnin frá gamla norræna málinu – eins og íslenska, og bókmál, sem er danska með sænskum framburði, eins og gárungarnir segja.  Í Danmörku eru íbúar nær 5.7 milljónir.  Opinbert tungumál er þar aðeins eitt, danska, enda þótt íbúar í landsins tali um 50 mállýskur og yfir 100 tungumál eins og á Íslandi.  Í Svíþjóð eru íbúar um 10 milljónir.  Frá 2009 er sænska eina staðfesta opinbera tungumálið í landinu.  Hins vegar eru samíska, finnsk-úgríska tungumálið meankieli, finnska, rómani og jiddiska, sem er mál Gyðinga frá Mið og Austur Evrópu,  viðurkennd sem mál minnihlutahópa sem búið hafa í landinu um langt skeið.  Að auki eru í Svíþjóð að sjálfsögðu töluð á annað hundrað mál innflytjenda eins og í flestum öðrum Evrópulöndum.

Til gamans má geta þess að í Tógó, sem er eitt minnsta og fámennasta land í Afríku með um 8 milljónir íbúa, eru töluð um 40 tungumál, en franska er þar opinbert tungumál auk tveggja annarra tungumála, evé í suðri og kabiyé.  Í Kína er íbúafjöldi um 1,4 milljarðar.  Þar eru nær 300 tungumál sem töluð eru víðs vegar um þetta víðfeðma land sem er um 9.6 milljarðar ferkílómetra, 9.596.961 km2.  Flestir tala mandarín, sem er af kínversk-tíbetanska málaflokknum, og er það hið opinbera mál í Kína.

Í Belgíu búa um 6.5 milljónir íbúa.  Þar eru töluð þrjú tungumál þeirra sem fæddir eru í landinu: hollenska sem um 60% tala og oft er kölluð flæmska; franska eða vallónska sem um 40% íbúanna talar, og þýska er töluð af um einu prósent íbúa.  Öll þessi þrjú tungumál eru talin opinber tungumál í Belgíu.

Opinber tungumál ríkja heims eru því með ýmsum hætti, eins og sjá má af þessum dæmum, en tungumál heimsins eru talin nær 7000.   Tungumál heims eru því mörg og misjöfn – ólík eins og mannfólkið.

Flokkar: Stjónmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar