Þingsályktunartillaga Alþingis
Í október 2016 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar um, hvernig minnast skyldi aldarafmælis fullveldis Íslands. Kosin var nefnd fulltrú allra þingflokka er undirbúa skyldi hátíðahöld árið 2018. Fullveldisnefndinni var falið að taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni þeirra og framkvæmd og rit um inntak fullveldisréttar, stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis þjóðarinnar, stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna þannig að fornar bókmenntir Íslendinga væru jafnan öllum tiltækar, jafnt á bók sem í stafrænu formi, og hvetja skóla að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum 1918. Að auki fól Alþingi Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun um uppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.
Ljóðaarfur Íslendinga
Í haust auglýsti fullveldisnefndin eftir tillögum að vönduðum verkefnum í tilefni afmælis fullveldisins. Nokkrir ljóðaunnendur sendu nefndinni sundurliðaða áætlun um útgáfu sýnisbókar íslenskra ljóða 1918 til 2018 sem hefðu birst á öld íslensks fullveldis. Nefnd kennara og fræðafólks skyldi velja ljóðin.
Gert var áð fyrir að í sýnisbókinni yrðu um þrjú hundruð ljóð með einfaldri myndskreytingu, skýringum og örstuttu æviágripi skáldanna. Bókin yrði gefin út á vegum Menntamálastofnunar og Ríkisútgáfu námsbóka og afhent nemendum í tíunda bekk grunnskóla hinn 1. desember 2018 um leið og kynning á íslenski ljóðagerð færi fram í öllum skólum landsins. Síðan yrði bókin notuð sem skólaljóð fyrir grunnskóla og framhaldsskóla og seld ljóðaunnendum – og öðru áhugafólki á almennum markaði. Í greinargerðinni var tekið fram, að með útgáfu bókarinnar væri ætlunin að styrkja íslenska tungu og vekja athygli á hinum einstaka ljóðaarfi Íslendinga á öld fullveldisins, sem aldrei hefði verið meiri.
Haft var samband við Rithöfundasamband Íslands til þess að kanna hvort unnt væri að slaka á kröfu ljóðskálda og annarra réttindahafa um höfundarlaun vegna birtingar ljóðanna. Auk þess var haft samband við ýmis fyrirtæki og landssamtök til þess að leita eftir fjárstyrk til útgáfunnar sem brugðust vel við.
Svar fullveldisnefndar
Í svari fullveldisnefndar í nóvember s.l. segir: „Við val á verkefnum var litið til auglýstra áherslna þar sem segir m.a.: „Verkefni sem síður er litið til: Útgáfuverkefni, s.s. undirbúningur eða útgáfa bóka, starfslaun, útgáfa geisladiska eða rafræn (stafræn) útgáfa eða gerð sjálfstæðs námsefnis. Verkefni sem fela í sér skráningu upplýsinga eða skráningu á menningarminjum. Slíkt fellur utanafmælisársins. Ekki eru veittir beinir stofn- eða rekstrarstyrkir.” Einnig lítur nefndin til gæða verkefna, vandaðra áætlana og landfræðilegrar dreifingar. Það tilkynnist hér með að ekki er unnt að styðja við tillöguna Sýnisbók íslenskra ljóða 1918 til 2018.”
Þessum dómi verður hópur áhugafólks um íslenskt mál og ljóðlist að hlíta – sætta sig við dóminn – þótt sumt í ummælum nefndarinnar stangist á því að á vegum nefndarinn verður unnið að útgáfuverkefnum, tekið saman rit um aðdraganda sambandslaganna, rit um inntak fullveldisréttar og stuðlað að heildarútgáfu Íslendingasagna – en ljóðin finna ekki náð fyrir augum nefndarinnar.
Sýnisbók um íslensk ljóð
Í ljósi þess sem sagt er hér að ofan er hvatt til umræðu um, hvort ástæða er til að gefa út sýnisbók íslenskra ljóða 1918 til 2018 vegna þess að íslenskt fullveldi byggist á sjálfstæðu, lifandi tungumáli og skilningi á mikilvægi tungumálsins, en dýrmætustu perlur íslenskrar tungu eru ljóð, og aldrei hefur íslensk ljóðagerð staðið sterkar en síðustu 100 ár, ár fullveldisins.