Þriðjudagur 09.12.2014 - 12:21 - FB ummæli ()

Lágmarkslaun og atvinnuleysi

Í síðasta pistli skrifaði ég örstutt um launaþróun. Ein athugasemdanna við greinina var eftirfarandi:

Laun eiga að ráðast á markaðsverði. Framboð og eftirspurn á að ráða verð á vinnuafli einsog hvað annað. Þetta köllum við frjáls markaður. Menn sem eru með verðmætar gráður (tölvunarfræði, verkfræði) fá hærri laun og þar með er hvati fyrir Íslendinga að læra þessi fög og niðurstaðan verður betri lífskjör fyrir alla.
Að krukka í launum með handafli. Hvort sem er í gegnum verkalýðsfélög eða lögbundin lágmarkslaun leiðir til atvinnuleysis. Og þá sérstaklega hjá ungu fólki og útlendingum sem standa hvað verst samkeppnislega séð á vinnumarkaði.
http://americanactionforum.org/research/how-minimum-wage-increased-unemployment-and-reduced-job-creation-in-2013
http://www.forbes.com/sites/timworstall/2014/03/02/youth-unemployment-shows-the-effects-of-a-minimum-wage-that-is-too-high/
http://dailycaller.com/2014/03/31/study-states-with-higher-minimum-wages-had-higher-unemployment/
http://www.cato.org/blog/minimum-wage-unemployment-0

Mér er það ljúft og skylt að svara þessum hugmyndum. Höfundur athugasemdarinnar leiðir athyglina sérsaklega að kenningunni um að „lögbundin lágmarkslaun [leiði] til atvinnuleysis“ með þeim linkum sem hann gefur.

Ég er ekki sammála þessari kenningu um og máli mínu til stuðnings vil ég benda á eftirfarandi:

1)

Linkur nr. 1 er grein sem vert er að lesa því hún byggir á gögnum. Linkur 3 er frétt sem byggð er á greininni í link 1, svo gagnslaus. Linkur 4 byggist á Neumark og Wascher (2007) og því rétt að fjalla um þau skrif frekar en greinina í link 4. Ég kem að link 2 síðar.

2)

Linkur 1 byggir á gögnum fyrir eitt ár eingöngu, þ.e. 2013. Fundið er út að eftir því sem lágmarkslaun eru hærri því hærra er atvinnuleysi á þeim gefna tíma. Ekkert virðist vera farið út í aðra þætti sem geta haft áhrif (fjárfestingu, credit myndun,…). Þar sem aðeins er farið í eitt ár er aðeins um einfalt „point estimate“. Hvað með önnur ár? Hvað með aðrar stúdíur?

3)

Hér eru nokkrar rannsóknir sem komast að þeirri niðurstöðu að áhrif lágmarkslauna á atvinnuleysi séu engin: Dube, Lester og Reich (2010); Card (1991) og Card og Krueger (1993) og Card og Krueger (1995). Hvernig má útskýra að þessar greinar sýna fram á hið gagnstæða við t.d. stúdíuna sem bent er á í link 1?

4)

Worstall (2014), þ.e. greinin í link 2, færir rök fyrir því að atvinnuleysi ungs fólks eykst eftir að lög um lágmarkslaun eru sett. Allegretto, Dube og Reich (2011) fjalla um málefnið í greininni „Do Minimum Wages Really Reduce Teen Employment? Accounting for Heterogeneity and Selectivity in State Panel Data“. Þeirra niðurstaða er að þegar búið er að taka betur tillit til allra þátta í gögnunum og almennrar efnahagsþróunar þá kemur í ljós bjagi í mörgum rannsóknum sem sýnir neikvæðari mynd en raunveruleikinn í raun sé:

Dynamic evidence… shows the nature of bias in traditional estimates, and it also rules out all but very small negative long-run effects [of minimum wage legislations].

5)

Neumark og Wascher (2007) er alvöru stúdía sem vert er að skoða betur. Stúdían fer yfir aðrar fyrri greinar um málefnið (sem ég ætla að sleppa því að lesa, satt best að segja, því ég hef ekki tíma til þess). Niðurstaðan:

A sizable majority of the studies surveyed in this monograph give a relatively consistent (although not always statistically significant) indication of negative employment effects of minimum wages.

Svo sumar stúdíur segja að lágmarkslaun valdi atvinnuleysi meðan aðrar segja að áhrifin séu engin og ef áhrifin eru til staðar þá eru stundum tölfræðilega ómarktæk. Hví þessi munur?

6)

Mjög áhugaverð rannsókn, og sú besta sem ég fann í þessari stuttu yfirferð minni, var Doucouliagos og Stanley (2009) sem fjallar, í raun og reynd, um þá mannlegu hegðun að leita eftir staðfestingum á eigin skoðunum í stað þess að horfa hlutlaust á það sem gögnin eru að segja manni (nokkuð sem er kallað „staðfestingarbjagi“). Heiti pappírsins er einkar lýsandi: Publication Selection Bias in Minimum-Wage Research? Þeir skoða samtals 1474 „point estimates“ úr 65 stúdíum. Svar þeirra við spurningunni í heiti pappírsins er jákvætt og niðurstaða þeirra:

Without publication selection bias, no evidence of an adverse employment effect [of minimum wages] remains in the research literature.

7)

Schmitt (2013) bendir á (mín feitletrun):

The weight of [the] evidence points to little or no employment response to modest increases in the minimum wage.

Og Worstall (2014), þ.e. linkur 2, bendir í raun á hið nákvæmlega sama – mín feitletrun:

Modest increases in minimum wages might well have only modest effects on employment levels. But that does rather depend upon what one uses as the definition of “modest”.

Og er þetta ekki frekar mergurinn málsins – hvað er „hófleg“ hækkun lágmarkslauna? – frekar en „[a]ð krukka í launum með handafli [h]vort sem er í gegnum verkalýðsfélög eða lögbundin lágmarkslaun leiðir til atvinnuleysis“ eins og höfundur athugasemdarinnar heldur fram?

8)

Að lokum, varðandi aðferðarfræði í hagfræði. Og þetta á við um umræðu um efnahagsmál á Íslandi, og víða annars staðar, almennt.

Hagfræði, vilji hún láta taka sig alvarlega sem vísindagrein, á að vera byggð á staðreyndum, mælingum og hinni vísindalegri nálgun þar sem kenningum er miskunnarlaust hafnað eigi þær sér ekki stoð í raunveruleikanum. „Hagfræðingar“ sem afneita raunveruleikanum, eins og hlutlaus gögn lýsa honum, og byggja rök sín á hugmyndafræði, óempirískum staðhæfingum eða einhvers konar ótta við að þurfa að skipta um skoðun eða viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér eru ekki vísindamenn heldur, í versta falli, ofstækismenn (e. fanatic, sjá skilgreiningu 1). Í þessu sambandi vil ég benda á mjög svo greinargóða lýsingu á því hvernig hagfræði á að vera byggð upp (Arestis, 1996):

Theories [in economics] should be relevant in that they should represent reality as accurately as possible and should strive to explain the real world as observed empirically.

Ég ætla því að biðja fólk sem vill svara þessari grein að halda sig við raunveruleikann. Hið sama skal haft í huga þegar almennt er rætt um efnahagsmál – já og önnur mál.

 

 

Heimildir:

Allegretto, S. A., Dube, A. og Reich, M. (2011). Do Minimum Wages Really Reduce Teen Employment? Accounting for Heterogeneity and Selectivity in State Panel Data. Industrial Relations: A Journal of Economy and Society. Vol. 50, No. 2.

Arestis, P. (1996). Post-Keynesian economics: towards coherence.Cambridge Journal of Economics, 20(1), 111-135.

Card, D. 1991. Do Minimum Wages Reduce Employment? A Case Study of California, 1987-89. NBER Working Paper No. 3710.

Card, D. og Krueger, A.B. 1993. Minimum Wages and Employment: A Case Study of the Fast Food Industry in New Jersey and Pennsylvania. NBER Working Paper No. 4509.

Card, D. og Krueger, A.B. 1995. Myth and Measurement: The New Economics of the Minimum Wage. Princeton: Princeton University Press.

Doucouliagos, H. og T.D. Stanley. 2009. Publication Selection Bias in Minimum-Wage Research? A Meta-Regression Analysis. British Journal of Industrial Relations, Vol. 47, No. 2.

Dube, A., Lester, T.W. og Reich, M. 2010. Minimum Wage Effects Across State Borders: Estimates Using Contiguous Counties. Institute for Research on Labor and Employment. Berkeley University.

Schmitt, J. 2013. „Why Does the Minimum Wage Have No Discernible Effect on Employment?“ Working paper issued by Center for Economic and Policy Research.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur