Mánudagur 17.8.2015 - 19:16 - FB ummæli ()

Afstaða mín gagnvart Rússum

Í dag bað fréttastofa RÚV mig um að tjá afstöðu mína gagnvart viðskiptaþvingunum Vesturveldanna á Rússa.  Hún er eftirfarandi:

,,Utanríkisstefna Rússa hefur á stuttum tíma breyst í það að vera mjög ögrandi, ógnandi og hættuleg. Það sýna dæmin frá Krím, austur-Úkraínu og víðar.  Í mínum huga er það enginn spurning að það er lang best og tryggast fyrir framtíðarhagsmuni okkar Íslendinga að skipa okkur í sveit með Vestulandaþjóðum, eins og lengi hefur verið kjarninn í stefnu okkar Sjálfstæðismanna.“

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.8.2015 - 09:36 - FB ummæli ()

Frjáls samkeppni

Frjáls samkeppni snýst um að ná hylli viðskiptavinarins með því að bjóða vöru á hagstæðara verði en samkeppnisaðilinn.

Hvar er samkeppnin á olíumarkaði hér á landi? Samkvæmt nýjustu tölum er heimsmarkaðsverð á olíu um 50 dali á fat, en var tæplega 116 dollarar fyrir ári.  Þetta er rúmlega helmings lækkun og vel það. Hversvegna lækka bensín og olíur hér á landi ekki í takt við þetta.  Hér hlýtur að vera kjörið viðskiptatækifæri fyrir framsækið olíufélag sem vill bjóða vöru á hagstæðara verði en samkeppnisaðilinn.

Það sama á við um íslensku bankana? Hvar er samkeppnin þar um að bjóða hagstæðari vaxtakjör í stað þess að byggja hallir.

Þetta er mikið áhyggjuefni  og íslenskir neytendur gjalda svo sannarlega þessa ástands.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.7.2015 - 20:08 - FB ummæli ()

Fréttabann á Þjóðhátíð

Fréttabann af meintum nauðgunarmálum á Þjóðhátíð í Eyjum hugnast mér afar illa. Sérstakt að slík stefnubreyting skuli kynnt rétt fyrir að hátíðin hefst, þvert á alla umræðu sem fram hefur farið að undanförnu um að það að vera þolandi ofbeldis sé ekki feimnismál. Samfélagið hefur enda dáðst að fjölda manna sem stigið fram og tjáð sig um þessi mál sem er til þess fallið, að mínum dómi, að hindra slíka glæpi. Opnum umræðuna í stað þess að loka henni.  Fréttabann í Eyjum er augljóslega röng ákvörðun. Ég þekki slíka þöggun vel sem höfundur sögu Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur, biskupsdóttur, ,,Ekki líta undan“.

Hef í kvöld kynnt Ólöf Nordal innanríkisráðherra skoðun mína á rangri nálgun lögregluyfirvalda í Vestmannaeyjum vegna meintra kynferðisbrota.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.7.2015 - 22:47 - FB ummæli ()

Húsnæðismál unga fólksins – hvað næst?

Það var frábært framtak þegar Breiðholtið var byggt og ungar barnafjölskyldur gátu loks komið þaki yfir höfuðið. Sjálfstæðismenn áttu þar virkilega góðan hlut að máli. Þessu þarf að fylgja eftir árið 2015.  Sakna þess að sjá ekki okkur Sjálfstæðismenn og ég tala nú ekki um SUS með skýra forystu í þessu máli.  Landsfundur er að hausti, þar verða þessi mál til umræðu sem og önnur.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.7.2015 - 20:09 - FB ummæli ()

Heimsviðburður á Húsavík

Heimsviðburður varð nýlega á Húsavík þegar fyrsta siglingin var farin á Ópal fyrsta rafknúna hvalaskoðunarbátnum hjá fyrirtækinu Norðursiglingu. Sérstök tækni í skipinu gerir því kleift að tappa af rafmagni á rafbíla að lokinni hverri ferð, rafmagni sem verður til á siglingunni. Meðal farþega um borð var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Ég tel að við Íslendingar stöndum á tímamótum í orkumálum samgöngutækja; bíla, skipa og etv. flugvéla í framtíðinni, þar sem vistvænir orkugjafar eins og rafmagn verða í fararrúmi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.7.2015 - 13:58 - FB ummæli ()

Betri ávöxtun í stað íburðar!

Sem kunnugt er áformar Landsbankinn að byggja nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn við hlið Hörpu við Reykjavíkurhöfn. Eins og gefur að skilja falla þessi áform í grýttan jarðveg hjá mörgum. Landsbankinn er að stórum hluta í eigu ríkisins eftir hrunið. Á sama tíma og það skortir fé til að byggja nýjan Landspítala, sem ætti með fullri virðingu fyrir starfsemi Landsbankans að vera margfalt ofar á forgangslistanum, þá finnst mér vera út í hött að verið sé að ræða þessa hluti yfirleitt, hvað þá á dýrasta stað í bænum.

Efnahagshrunið var okkur Íslendingum mikið áfall. Eitt jákvætt gátu menn hins vegar fundið við hrunið, að vonandi yrði það okkur lexía um langan aldur, þótt dýrkeypt væri, um hvernig á ekki að standa að hlutunum. Þess vegna veldur það vonbrigðum ef menn hafa ekkert lært og ætla aftur sömu leið.

Bankastarfsemi þarf ekki þennan dýran umbúnað.  Hann er í raun móðgun við viðskiptavinina, sem fá afar lága vexti af innlánum en borga bæði háa útlánsvexti og allskonar þjónustugjöld.  Og hver leggur leið sína í banka nú til dags?  Flestir höndla með fé sitt og viðskipti við banka í gegnum netið.  Hvenær ætli við sjáum alvöru samkeppni á bankamarkaði þar sem svo kallað ,,overhead“ er í lámarki en aðaláherslan lögð á traust og góð greiðslukjör fyrir viðskiptavininn.  Slíkur banki myndi sópa að sér viðskiptum.

(Byggt á ræðu á Alþingi á 143. löggjafarþingi)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.7.2015 - 12:39 - FB ummæli ()

Ég talaði minnst

Umræðuhefðin á hinu háa Alþingis verður að breytast hið snarasta.  Þingmenn lofa öllu fögru í upphafi og lok hvers þings, en síðan verða efndirnar engar.  Þar sem ég sit í sæti 53 í þingsalnum furða ég mig á því hvað þar fer fram.  Alltof oft snúast umræðurnar um hver eigi heiðurinn að hverju og hver hafi klúðrað hverju. Niðrandi orð eru látin falla um persónur.  Engum er hrósað nema að hann sé í rétta liðinu.  Öllu er snúið á versta veg.

Slíku andrúmslofti hef ég aldrei kynnst á vinnustað á 30 ára starfsferli mínum.  Auðvitað eru stjórnmál óvægin en þau verða að vera málefnalegri.

Ég hef mjög gaman af því að tjá mig opinberlega og tel mig hafa margt gott til mála að leggja, en ég hef ekki áhuga á að taka þátt í svona umræðum.

Ég skora á alþingsmenn að skoða hug sinn gaumgæfilega og breyta þessu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.6.2015 - 20:07 - FB ummæli ()

Rætt um mansal í Ríga

Í Eystrasaltslöndunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, er mansal landlægt vandamál og mjög margar konur þaðan verða fórnarlömb þess sem kallað hefur verið nútíma þrælahald. Nýlega fór ég ásamt nokkrum þingmönnum Norðurlandaráðs til fundar við lettnesk yfirvöld í Ríga til að fræðast um stöðuna og bjóða hjálp Norðurlandaþjóðanna í baráttunni gegn mansali.

Mjög erfitt er að uppræta mansal þar sem glæpamennirnir hafa afar föst tök á fórnarlömbum sínum. Einnig skortir mjög á að almenningur sé meðvitaður um mansal og eðli þess. Mansal, en man er gamalt íslenskt orð sem þýðir þræll eða ambátt, fer m.a. þannig fram að brotamennirnir nýta sér fátækt, menntunarskort, eiturlyfjafíkn eða hreinlega beita hótunum. Fórnarlömbunum eru boðin vel launuð störf eða námstækifæri. Þegar til kastanna kemur eru tilboðin blekking og konurnar þá fastar í vef brotamanna. Um velskipulagða glæpastarfsemi er að ræða þar sem ávinningur glæpamannanna er gríðarlegur. Fórnarlömb mansals verða oft kynlífsþrælar; þvingaðar til að stunda vændi með margs konar hætti, á nuddstofum eða nektardansstöðum. Mansal á ungmennum er einnig vel þekkt þar sem börn eru hneppt í þrældóm til kynlífs eða vændis sem og til þrælkunar við ýmis framleiðslustörf.

Á fundinum í Ríga hittum við þingmenn fulltrúa mannréttindanefndar lettneska þingsins, innanríkisráðuneytisins, saksóknara og lögreglu. Auk þess hittum við systursamtök Stígamóta á Íslandi sem kallast MARTA. Þau samtök hafa unnið afar gott starf við að aðstoða fórnarlömb mansals og uppfræða almenning.
Í heimsókninni buðu Norðurlöndin fram aðstoð sína við lettnesk yfirvöld, til dæmis með þeim hætti að auka samstarf og samþjálfun lögreglu. Þess utan lýstum við þingmennirnir yfir miklum vilja til þess að nota stjórnmálavettvanginn á Norðurlöndum til þess að aðstoða nágranna okkar við Eystrasalt í baráttunni gegn mansali.

Ég vil skora á okkur Íslendinga að vera vel á verði þegar mansal er annars vegar en því miður hafa komið upp nokkur mál hér á landi. Um langt skeið hafa dansstaðir eða kampavínsklúbbar átt upp á pallborðið hér á landi þrátt fyrir sterkan grun um tengsl slíkra staða við vændi og mansal.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. júní 2015)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.6.2015 - 19:55 - FB ummæli ()

Hornreka flugvöllur

Málefni Reykjavíkurflugvallar standa illa þrátt fyrir að stór meirihluti þjóðarinnar vilji hafa Reykjavíkurflugvöll á sínum stað og mikilvægir þjóðarhagsmunir í húfi í tengslum við samgöngur og sjúkraflug. Flugvöllurinn er hornreka þar sem meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur vill hann burtu. Ekki þarf annað en að aka Hringbrautina til að sjá hvað þar stendur til.  Þungavinnuvélar eru þegar farnar að raska gríðarlega nágrenni flugvallarins. Oft er talað um að ekki megi koma illa fram við minnihlutann.  Nauðsynlegt sé að hlusta vel á önnur sjónmið og taka tillit til þeirra til að komast að sem bestri niðurstöðu og sem sátt ríkir um. En í þessu máli er verið að koma illa fram við meirihluta landsmanna að mínum dómi.
Frumvarp til laga á Alþingi um Reykjavíkurflugvöll sem nú er til umfjöllunar felur í sér skynsama leið til þess að um mikilvæga samgönguinnviðir, þ.e. millilandaflugvelli hér á landi, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll gildi sérstakar reglur. Um Keflavíkurflugvöll gilda nú þegar slíkar sér reglur. Þetta frumvarp sækir fyrirmynd sína til Svíþjóðar en þar nær þetta fyrirkomulag ekki einungis til flugvalla heldur einnig hafna, járnbrauta og vega sem teljast þjóðfélagslega mikilvægir og um þá gild sérstök sjónarmið og sérstök lög um skipulagsvald í þjóðarþágu.  

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.5.2015 - 11:47 - FB ummæli ()

Tvíeggjað sverð

 

Fregnir um að lífi sjúklinga sé stefnt í hættu vegna þess að þeir fá ekki viðeigandi meðferð vegna verkfalla vekja óhug. Sérfræðingur í krabbameinslækningum segir að fáist ekki nauðsynlegar undanþágur kunni svo að fara að það kosti mannslíf. Nauðsynlegar undanþágur hljóta því að verða veittar tafarlaust.

Neyðarástand hefur ríkt á svínabúum því ekki er hægt að slátra dýrunum en þegar dýrin stækka og þyngjast leiðir það til svo mikilla þrengsla í stíum svo dýrin hafa ekki rými til að hreyfa sig. Það er óhæft. Þessi staða sýnir einnig glöggt hve þröngt er um eldisdýrin við venjulegar aðstæður sem veldur áhyggjum.

Eðli verkfalla er því miður þannig að oft bitna þau ekki síður á öðrum en þeim sem vinnudeilan beinist að, auk þess sem verkföll ólíkra starfsstétta hafa misalvarleg áhrif á gangverk samfélagsins. Þess vegna er verkfallsvopnið beitt og um leið vandmeðfarið. Auðvitað eiga sjúkir og þurfandi að vera í algerum forgangi þegar verkfallsástand ríkir, eins og nú er. Yfirleitt sýna menn mannúð og skilning og veita nauðsynlegustu undanþágur á meðan á verkföllum stendur, en núverandi staða er þó þannig að ekki er hægt að halda uppi bráðnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Sú staðreynd hlýtur einnig að taka mjög mikið á þá sem eru í verkfalli og vita af vaxandi vandræðum og neyð þeirra sem síst skyldi.

Verkföll hljóta að vera þrautalending, þar sem svo mikið er lagt undir og svo miklu fórnað og þau verða að skila þeim sem hana heyja árangri. Um það er varla deilt lengur að það sem skiptir langmestu máli er að tryggja kaupmátt þeirra launa sem fólk aflar. Fjarstæða er að láta það henda að knýja fram „of miklar launahækkanir“ sem brenna samstundis upp á verðbólgubáli. Við Íslendingar þekkjum þannig „kjarabætur“ af biturri reynslu. Til að verja kaupmáttinn er því lykilatriði að þeir kjarasamningar sem nú er verið að reyna að ná verði gerðir með það að markmiði að halda þeim stöðugleika sem nú ríkir í efnahagskerfinu.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 13. maí 2015

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur