Mánudagur 21.9.2015 - 11:19 - FB ummæli ()

Aukafundur borgarstjórnar á morgun

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir því á laugardaginn að haldinn yrði aukafundur í borgarstjórn á morgun þriðjudag vegna klúðurs meirihlutans í borginni. Var það samþykkt og verður fundurinn haldinn á morgun kl. 17:00.

Á fundinum verða lagðar fram tvær samhljóða tillögur þar sem meirihlutinn virðist ekki geta samþykkt tillögu okkar í minnihlutanum væntanlega vegna greinargerðarinnar sem fylgir henni.

Dagskráin er svohljóðandi:

1. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina um að draga til baka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum.

2. Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata um að draga tilbaka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum.

Greinargerð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina með tillögunni:

Tillaga þessi er lögð fram til að lágmarka þann skaða sem samþykkt meirihluta borgarstjórnar hefur haft í för með sér fyrir orðspor og viðskipti Íslands við önnur lönd. Þann 15. september 2015 ákvað meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir, eins og það er orðað í samþykkt borgarstjórnar.

Utanríkisráðuneytinu, sendiskrifstofum Íslands erlendis og Íslandsstofu hefur af þessu tilefni borist verulegur fjöldi fyrirspurna um afstöðu stjórnvalda til samþykktar borgarstjórnar. Þá hafa ferðaþjónustuaðilar lýst yfir áhyggjum sínum vegna málsins og þegar hefur orðið vart við afpantanir ferða.

Sveitarstjórnir eru eins og önnur stjórnvöld bundin af lögum. Í því felst að Reykjavíkurborg verður að haga stjórnsýslu sinni í samræmi lög og að ákvarðanir hennar mega ekki fara í bága við þau, þ. á m. lög um opinber innkaup, þar sem óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.

Samþykki Reykjavíkurborg að breyta innkaupastefnu sinni með bindandi hætti þannig að ísraelskir birgjar skuli sniðgengnir, samræmist það hvorki íslenskum lögum né ákvæðum í alþjóðlegum skuldbindingum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup, sem Ísland er aðili að og Reykjavíkurborg og önnur sveitafélög eru bundin af.

Utanríkisráðuneytið áréttar að ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur er ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og er heldur ekki til marks um tengsl Íslands og Ísraels.

Samþykkt meirihluta borgarstjórnar var því vanhugsuð og hefur þegar haft í för með sér afleiðingar til skaða fyrir íslenska þjóð.

Greinargerð Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata með tillögunni:

Áður en teknar verða ákvarðanir um næstu skref skal leita frekari ráðgjafar Kaupmannahafnar og annarra höfuðborga Norðurlanda. Jafnframt skal hafa samráð við utanríkisráðuneytið.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.9.2015 - 15:11 - FB ummæli ()

Brýn þörf einhleypra

Hinn 1. september sl. voru 723 umsæjendur á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík. Þar af voru 529 metnir í brýnni þörf. Auk þess voru 643 umsækjendur á biðlista sem leigja húsnæði á almennum markaði og fá sérstakar húsaleigubætur. Alls voru því 1.366 umsækjendur skráðir á biðlista.

Af þeim 529 umsækjendum sem metnir eru í brýnni þörf fyrir húsnæði eru samtals 428 einhleypir einstaklingar, þ.e. 286 einhleypir karlar og 142 einhleypar konur. Þá eru á biðlistanum 10 einstæðir feður, 70 einstæðar mæður, 6 barnlaus hjón eða sambýlisfólk og 15 hjón eða sambýlisfólk með börn.

Sú stefna hefur verið ríkjandi að hafa sem mesta félagslega blöndun í húsum, þ.e. að ekki séu fleiri en ein félagsleg íbúð í hverjum 10 íbúða stigagangi. Undantekningu á reyndar að gera frá því í svokölluðum Reykjavíkurhúsum en þar hefur verið talað um að allt að 25% íbúða geti verið félagslegar. Ef borgin ætlar að bíða eftir því að kaupa eina og eina minni íbúð sem nú er til sölu eða verður til sölu í húsum sem munu verða byggð víðsvegar um Reykjavík næstu árin liggur ljóst fyrir að það mun taka langan tíma, mörg ár ef ekki áratugi, að kaupa litlar íbúðir fyrir þennan 428 manna hóp auk þess sem slíkar íbúðir sem keyptar yrðu á almennum markaði yrðu alltaf dýrari.

Miðað við neyðina og þess að félagsleg blöndun ætti ekki að þurfa að vera eins mikilvæg þegar um einstaklingsíbúðir er að ræða stendur valið um það að hengja sig í þessu atriði, borga meira og bíða lengi eftir að byggt verður slíkt húsnæði eða framkvæma hlutina og drífa sig í því að byggja hús með minni íbúðum fyrir einstaklinga.

Ef miðað er við að byggingarkostnaður sé 300.000 pr. fm. þá myndi kosta 12.000.000 að byggja 40 fm. íbúð. Fróðari menn hafa hins vegar sagt mér að byggingarkostnaðurinn sé enn undir því auk þess sem hægt væri að ná kostnaðinum eitthvað niður t.d. með því að víkja frá kröfum að einhverju leyti um algilda hönnun og með lægra lóðarverði. Það þyrfti að skoða. Með því að drífa í því að byggja slíkt húsnæði og stytta biðlista hratt og örugglega er hægt að spara verulegar fjárhæðir og taka á vandanum.

Ef ríkið leggur fram 20% í formi stofnframlaga þá væri hægt fyrir 500 milljónir frá ríkinu að greiða 20% af verði 200-250 slíkra íbúða í staðinn fyrir að nota sömu upphæð í 100 íbúðir eins og áætlanir borgarinnar gera ráð fyrir. Á móti kæmi svo 10% framlag frá borginni og 70% yrði tekin að láni eins og borgin hefur lagt til.

Það er staðreynd að það vantar svona íbúðir. Þær eru ekki til sölu og þó þær væru til sölu yrðu þær alltaf dýrari en ef Félagsbústaðir myndu byggja þær.

Á fasteignavefum mbl.is og visir.is er hægt að telja þær íbúðir sem eru til sölu í Reykjavík undir 40 fm á fingrum annarrar handar. Samtals eru 42 íbúðir á sölu í Reykjavík sem eru 40-60 fm. Þar af eru 11 nýjar íbúðir í póstnúmeri 101 að stærð 49,9 – 58 fm og er ásett söluverð á þeim á bilinu 31,5- 35,5 milljónir. Auk þeirra eru 11 íbúðir til sölu að stærð 41- 49 fm og 20 íbúðir að stærð 50-60 fm. Í töflunni hér að neðan er hægt að sjá póstnúmer, ásett söluverð í milljónum og fermetrastærð á slíkum íbúðum auglýstar 16. september sl.

 

póstnr verð fm póstnr verð fm Póstnr verð fm póstnr verð fm
101 17,9 40,5 101 26,9 58,1 101 32,9 54,5 107 26,9 50
101 17,9 46,3 101 tilboð 42,9 101 32,9 54,2 107 28,9 59,4
101 18,7 56,5 101 32,9 54,6 104 19,7 57,7 108 22,9 59,1
101 19,5 44,6 101 31,9 53,5 105 18,5 42,5 108 24,9 55,9
101 22,9 40,1 101 31,9 53,8 105 20,9 53,6 110 17,9 45,8
101 23,8 50 101 31,5 49,9 105 22,9 56,6 111 18,9 51,6
101 24 48,4 101 35,5 58 105 22,9 55,5 111 18,9 50,9
101 24,4 50,4 101 32,5 49,9 105 25,3 49,6 111 18,9 57,3
101 24,9 52,9 101 31,9 54,5 107 21,9 44,2 111 18,5 57,3
101 25,9 54 101 33,3 55,4 107 23,5 48,5
101 26,9 48,5 101 31,5 51,2 107 24,5 52

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

Fimmtudagur 27.8.2015 - 15:11 - FB ummæli ()

Gjaldþrotastefna borgarinnar

Samfylkingunni, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Pírötum er algjörlega fyrirmunað að reka borgina. Hallareksturinn heldur áfram eins og enginn sé morgundagurinn. Tekjur borgarinnar duga ekki fyrir útgjöldum þrátt fyrir að útsvarið sé í botni.

Uppgjör fyrir rekstur borgarinnar fyrstu 6 mánuði ársins liggur fyrir og sýnir að áfram sé mikið tap á A-hluta eða sem nemur rúmum 3 milljörðum. Það er næstum því tvöfalt meira tap en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Fjármálaskrifstofu borgarinnar er nóg boðið, eins og borgarbúum öllum ætti að vera, og segir í skýrslu sinni að þessi slæma niðurstaða kalli á viðbrögð í fjármálastjórnun borgarinnar. Það er spurning hvort Dagur borgarstjóri hlusti á það.

Rekst­ur Reykja­vík­ur­borg­ar skipt­ist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starf­semi sem að hluta eða öllu leyti er fjár­mögnuð með skatt­tekj­um, þ.e. aðalsjóður, eigna­sjóður og bíla­stæðasjóður. Á síðasta ári var tap aðalsjóðs rúmir 7 milljarðar en eignasjóðurinn var í jákvæður um 4 milljarða en peningurinn þar er notaður til að vega upp tapið í aðalsjóði í stað þess að viðhalda eignum borgarinnar eins og eignasjóði ber að gera.

Til B-hluta telj­ast síðan fjár­hags­lega sjálf­stæð fyr­ir­tæki sem að hálfu eða meiri­hluta eru í eigu borg­ar­inn­ar, en rekst­ur þeirra er að stofni til fjár­magnaður með þjón­ustu­tekj­um. Fyr­ir­tæk­in eru: Faxa­flóa­hafn­ir sf., Fé­lags­bú­staðir hf., Íþrótta- og sýn­inga­höll­in hf., Mal­bik­un­ar­stöðin Höfði hf., Orku­veita Reykja­vík­ur, Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jör­und­ar ehf.

Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn á fundi borgarráðs í dag:

„Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2014 var lagður fram þann 9. apríl 2015, fyrir tæpum 5 mánuðum. Á þessum tíma hafa Framsókn og flugvallarvinir gefið meirihlutanum svigrúm og vinnutíma til að bregðast við. Ekkert hefur bólað á frumkvæði meirihlutans að hugmyndum eða lausnum á því hvernig og með hvaða hætti hann hyggst taka á þeim mikla rekstrarvanda og taprekstri A-hluta borgarsjóðs, en aðalsjóður var rúmlega 7 milljarða í mínus. Þá hefur ekkert samráð verið haft við minnihlutann til að reyna að koma böndum á reksturinn. Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald, þá óska Framsókn og flugvallarvinir eftir því að meirihluti borgarstjórnar leggi fram í borgarráði ítarlegar upplýsingar um hvernig, með hvaða hætti og til hvaða aðgerða hann hyggst grípa til að bregðast án tafar við rekstrarvanda borgarinnar, eigi síðar en fyrir 9. september 2015.“

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.8.2015 - 13:04 - FB ummæli ()

Vilji er allt sem þarf til að leysa húsnæðisvandann

Lausnin á húsnæðisvandanum er ekki almenni leigumarkaðurinn. Almenni leigumarkaðurinn er dýrasti og óöruggasti kosturinn. Lausnin felst heldur ekki í hækkun húsaleigubóta á almenna leigumarkaðnum enda mun það bara hafa í för með sér hækkun á húsaleigu. Frá árinu 2011 hefur eftirspurn eftir leiguhúsnæði verið langt umfram framboð og leiguverð hækkað verulega. Á heimasíðu Neytendasamtakanna má sjá að leiguverð hækkaði um 37% frá 2011 til 2014.

Það er staðreynd að það er óhagstætt að leigja íbúð í Reykjavík og er það mat hagfræðideildar Landsbankans að leiguverð þyrfti að lækka um þriðjung til að það væri hagstæðrar að leigja en kaupa.

Það er staðreynd að það vantar á bilinu 500-1000 félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík. Það er líka staðreynd að það vantar um 1000 stúdentaíbúðir. Það er líka staðreynd að margir sem eru á almenna leigumarkaðnum eru að greiða húsaleigu langt umfram það sem þeir hafa ráð á. Vandamálið er að ákveðinn hópur eins og t.d. ungt fólkt á ekki eigið fé og kemst ekki í gengum greiðslumat þó svo að það greiði meira í leigu en það væri að greiða af eigin húsnæði. Bæði húsnæðisverð og leiguverð er of hátt fyrir þennan hóp.

Byggingarkostnaður undir 300.000 pr. fm

Í grein velferðarráðherra sem birtist á Eyjunni í gær segir: „Ég hef oft nefnt drauminn minn um húsnæði undir 300 þúsund krónum fermetrinn og ýmsir talið hann ansi fjarri lagi.  Það væri varla hægt að fá litla íbúð undir 30 milljónum króna hvað þá heilt einbýlishús.“

Í skýrslu Capacent frá 26. febrúar 2014 „Greining á fasteignamarkaði í Reykjavík 2013/2014“ kemur fram á bls 26 að meðaltalsbyggingarkostnaður í Reykjavík, með lóð, sé 274.000 á fermetra að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar á byggingartíma.

Í Viðskiptablaðinu 20. apríl sl. kom fram að byggingarkostnaður hefði hækkað lítillega eða um 2,7% á síðustu 12 mánuðum. Þá kom fram í Viðskiptablaðinu 20. júlí 2015 að byggingarkostnaður hefði hækkað um 3,3% milli mánuða. Ástæðan fyrir að vísitala byggingarkostnaðar hækkaði mikið í júlí var vegna nýgerðra kjarasamninga iðnaðarmanna og verkafólks. Þá kemur fram að á síðustu 12 mánuðum hafi vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 6%.

Á heimasíðu Þjóðskrár undir “verðsjá fasteigna“ er að finna upplýsingar um kaupverð fasteigna. Þar kemur fram að meðaltalskaupverð íbúðarhúsnæðis í Reykjavík fyrstu 6 mánuði ársins í fjölbýli var pr. fm rúmlega kr. 316.000 en í sérbýli rúmlega kr. 274.000.

VERÐSJÁ FASTEIGNA Skýringar við töflu
Staður: Reykjavík
Tímabil: janúar 2015 – júní 2015
 Tegund: Sérbýli
 Dags: 16/08/2015
         Heildarverð          Fermetraverð Mörk
Stærðarflokkur (m²) Fjöldi samninga Flatarmál  (m²)  Byggingar- ár  Nafnverð(millj.kr.)  Staðgr.verð(millj.kr.)  Nafnverð(kr/m²)  Staðgr.verð(kr/m²)
109 1989 37,00 36,86 381.356 375.280 Efri mörk
70-110 17 97 1960 32,88 32,38 338.402 332.776 Meðaltal
85 1933 28,00 26,13 309.241 300.000 Neðri mörk
146 2004 45,00 44,45 368.610 363.937 Efri mörk
110-150 26 127 1977 36,92 36,73 290.268 288.798 Meðaltal
113 1949 28,80 28,78 211.896 211.152 Neðri mörk
197 1999 59,00 57,81 330.661 325.598 Efri mörk
150-210 94 180 1977 50,78 50,25 282.537 279.590 Meðaltal
161 1955 42,00 41,92 230.888 227.345 Neðri mörk
257 1994 75,00 73,96 327.491 318.727 Efri mörk
210-270 73 231 1978 61,41 60,37 265.433 260.873 Meðaltal
213 1969 48,50 47,52 209.063 207.499 Neðri mörk
336 1988 86,80 83,43 300.000 278.169 Efri mörk
270-370 27 305 1979 73,20 71,49 241.617 235.949 Meðaltal
278 1970 54,00 53,91 172.476 171.863 Neðri mörk
260 1997 68,30 67,57 338.542 332.717 Efri mörk
Sérbýli alls 241 197 1977 53,59 52,81 278.220 274.466 Meðaltal
135 1957 36,00 35,64 213.494 208.265 Neðri mörk
VERÐSJÁ FASTEIGNA Skýringar við töflu
Staður: Reykjavík
Tímabil: janúar 2015 – júní 2015
 Tegund: Fjölbýli
 Dags: 16/08/2015
         Heildarverð          Fermetraverð Mörk
Herbergja- fjöldi Fjöldi samninga Flatarmál  (m²)  Byggingar- ár  Nafnverð(millj.kr.)  Staðgr.verð(millj.kr.)  Nafnverð(kr/m²)  Staðgr.verð(kr/m²)
86 2003 29,90 29,80 420.578 418.470 Efri mörk
2 359 68 1973 23,84 23,61 358.358 355.011 Meðaltal
51 1942 18,70 18,43 289.731 281.259 Neðri mörk
114 2002 33,50 33,13 386.646 384.061 Efri mörk
3 447 91 1970 28,56 28,30 319.691 316.829 Meðaltal
73 1944 23,20 22,89 257.380 253.765 Neðri mörk
142 2002 40,30 39,99 364.681 361.694 Efri mörk
4 343 114 1973 33,13 32,72 292.920 289.454 Meðaltal
91 1951 25,30 24,79 236.140 233.523 Neðri mörk
166 1992 48,50 48,38 357.462 348.923 Efri mörk
5 135 136 1968 40,03 39,45 295.226 291.090 Meðaltal
108 1948 28,50 28,02 235.893 232.628 Neðri mörk
132 2000 38,50 37,71 394.541 391.661 Efri mörk
Fjölbýli alls 1.369 98 1971 30,14 29,81 319.594 316.299 Meðaltal
62 1947 21,50 21,12 248.500 246.577 Neðri mörk

Þegar byggt er og selt á almennum markaði er húsnæði eðli málsins samkvæmt selt á hærra verði en sem nemur byggingarkostnaði. Markaðurinn og ávöxtunarkrafa seljanda ræður verði.

Algengt leiguverð á 2ja herbergja íbúðum í Reykjavík er á bilinu 150.000-180.000, 3ja herbergja íbúðum frá 190.000-230.000 og 4ra herbergja íbúðum frá 230.000-265.000.

Ef maður skoðar íbúðir sem nú eru til sölu þá er verðið á 50-60 fm íbúðum almennt á bilinu 20-28 millj. Verðið á nýjum 50-55 fm íbúðum í miðbænum er á bilinu 31,5-32,9 millj.

Ef miðað er við að byggingarkostnaður sé 300.000 pr.fm þá er byggingarkostnaður fyrir 50 fm kr. 15 millj. og 60 fm kr. 18 millj. Þeir sem ég hef rætt við og til þekkja hafa sagt mér að byggingarkostnaðurinn sé enn almennt undir því verði. Auðvitað er hann hærri þegar byggt er á dýrum stöðum/lóðum en eins og fram kemur í skýrslu Capacent sé í Reykjavík dýrast að byggja og kaupa í 101 og 107.

Leiðir til að lækka byggingarkostnað

Samtök iðnaðarins hafa bent á leiðir til að lækka byggingarkostnað. Hafa þau bent á að lóðaverð sé of hátt  og framleiðslukostnaður íbúðarhúsnæðis hafi aukist vegna hækkunar á efniskostnaði og aukinna krafna í byggingarreglugerð.  Með því að lækka lóðagjöld og gera breytingar á byggingarreglugerð sé hægt að lækka byggingarkostnað að meðaltali um 4-6 milljónir á hverja íbúð af stærðinni 80-120 fm.

http://www.si.is/upplysingar-og-utgafa/leidari-si/laekkun-byggingarkostnadar-tillogur-si-partur-af-kjarasamningum

En hver er vandinn og hvernig er hægt að leysa hann

Orsök vandans er margþættur. Sem dæmi má nefna að lítið var byggt árin eftir hrun, það vantar minni íbúðir, fjöldi íbúða eru notaðar í túristaleigu, Reykjavíkurborg hefur ekki staðið sig í því síðustu 5 árin að fjölga félagslegum leiguíbúðum og þ.a.l. vantar á bilinu 500-1000 félagslegar leiguíbúðir, auk þess sem lóðir hefur vantað undir stúdentaíbúðir. Reykjavíkurborg hefur t.d. lofað því að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 500 á næstu 5 árum og úthluta lóðum undir 1.100 stúdentaíbúðir.  Ákveðnir hópar t.d. ungt fólk á ekki eigið fé, kemst ekki í gegnum greiðslumat og leigir íbúðir langt umfram greiðslugetu.

Fyrir utan að það vantar 500-1000 félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík og a.m.k. 1.000 stúdentaíbúðir vantar minni ódýrari íbúðir sem fólk hefur ráð á, annað hvort til að kaupa, leigja eða kaupa búseturétt í.

Lausnin á vanda þeirra sem ekki geta keypt húsnæði og leigja á almennum markaði án þess í raun að ráða við leiguverðið, felst í að það séu byggðar ódýrar íbúðir sem annað hvort er hægt að kaupa eða íbúðirnar væru í eigu svokallaðs „non profit“ félags þannig að hægt væri að kaupa búseturétt eða leigja hjá svokölluðu non profit húsnæðissamvinnufélagi eða leigufélagi. Ef fólk á ekki eigið fé og eingöngu er hægt að fá húsnæðislán fyrir 80-85% af kaupverði þá verður vandinn áfram til staðar hjá hluta hópsins við að kaupa íbúð eða búsetuétt en ekki að leigja hjá non profit félagi.

Eins og samtök iðnaðarins hafa bent á þarf að lækka lóðarverðið og endurskoða byggingarreglugerð til að ná kostnaðinum niður. Þá vantar lóðir undir slíkt verkefni og aðila til að framkvæma slíkt.

Vilji er allt sem þarf

Ef það á að byggja ódýrar íbúðir þá þarf vilja og það þarf að framkvæma hlutina. Það þarf lóðir og það þarf lóðir sem hægt er að byggja ódýrt á. Þá þarf að byggja minni íbúðir.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er gert ráð fyrir að megnið af þeim íbúðum sem á að byggja verði byggðar vestan Elliðaáa. Hins vegar eru flestar þær lóðir sem eru eða verða byggingarhæfar í Reykjavík á næstunni í höndum annarra aðila en Reykjavíkurborgar, þ.e. verktaka/banka/fasteignafélaga. Það má alveg gera ráð fyrir að þessir aðilar séu ekki að fara byggja og selja ódýrar íbúðir.

Þessu tengdu lögðu borgarráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks fram eftirfarandi bókun á fundi borgarráðs 13. ágúst sl.:

„Forsendubrestur hefur orðið í samningi Fram við Reykjavíkurborg þar sem ein af forsendunum var að hverfið yrði15.000 manns en fallið hefur verið frá því. Sú ákvörðun hefur áhrif á upprunalegar hugmyndir Fram um starfsemi í hverfinu. Standa þarf við gerða samninga gagnvart félaginu og leysa málið í samstarfi borgarinnar og Fram því uppbygging skóla- og íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal þolir ekki lengri bið. Á sama tíma og ákveðið er að minnka hverfið er húsnæðisskortur í Reykjavík með þeim áhrifum að bæði kaup- og leiguverð þrýstist óeðlilega hratt upp með slæmum afleiðingum fyrir fólk í húsnæðisleit. Liður í því að leysa úr því ástandi er aukið lóðaframboð til að takast á við mikla eftirspurn eftir húsnæði. Með því að fjölga lóðum og þar með íbúðum í Úlfarsársdal væri bæði hægt að takast á við vanda í húsnæðismálum og standa við gerða samninga við Knattspyrnufélagið Fram.“

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 11.8.2015 - 12:50 - FB ummæli ()

Félagslegum leiguíbúðum fækkar í Reykjavík

Reykjavíkurborg hefur staðið sig mjög illa í að fjölga félagslegum leiguíbúðum frá árinu 2009 og hefur þeim fækkað síðustu 5 árin eins og fram kemur í tilkynningum Félagsbústaða til Kauphallarinnar. Húsnæði í eigu Félagsbústaða skiptist í þrjá flokka, þ.e. almennar félagslegar leiguíbúðir, þjónustuíbúðir fyrir aldraða og þjónustukjarnar fyrir fatlað fólk.

Í fréttatilkynningu Félagsbústaða til Kauphallarinnar vegna ársins 2010 kemur fram að Félagsbústaðir áttu þá samtals 1844 félagslegar almennar leiguíbúðir.

Í fréttatilkynningu Félagsbústaða til Kauphallarinnar vegna ársins 2014 kemur fram að Félagsbústaðir áttu í árslok 2014 samtals 1817 félagslega almenna leiguíbúð.

Almennum félagslegum leiguíbúðum hefur því fækkað um samtals 27 íbúðir á þessum árum.

Undir lok síðasta kjörtímabils eða í desember 2013 var samþykkt í borgarstjórn að kaupa 30 félagslegar leiguíbúðir á árinu 2014. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar keypti félagið 25 íbúðir og seldi 5 íbúðir á árinu 2014.

Skyldur sveitarfélaga

Á sveitarfélögum hvílir sú skylda að tryggja framboð á húsnæði til handa þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Félagsbústaðir sem eru í eigu Reykjavíkurborgar eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík.

Eins og fram kemur á heimasíðu Félagsbústaða er markmið félagsins að auka framboð á félagslegu leiguhúsnæði í borginni til þess að mæta húsnæðisþörf þeirra sem ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána vegna íbúðakaupa og eiga ekki kost á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn velferðarráðherra sumarið 2014 um stöðu biðlista hjá Reykjavíkurborg eftir félagslegu leiguhúsnæði kom fram að um 840 umsækjendur væru á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum, þar af um 550 umsækjendur í brýnni þörf.

Þetta eru afleiðingar þess að Reykjavíkurborg hefur vanrækt að fjölga félagslegum leiguíbúðum frá árinu 2009. Eitt af kosningaloforðum Samfylkingarinnar var að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 500 (það eru reyndar bara tæp 3 ár eftir af kjörtímabilinu) en það er akkúrat sá fjöldi sem vanrækt var að fjölga leiguíbúðunum um á árunum 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014 en stefna borgarinnar var alltaf sú að fjölga þeim um 100 á ári. Á síðasta kjörtímabili var íbúðunum hins vegar fækkað og í árslok 2014 voru þær færri en þær voru á árinu 2009.

Í árslok 2019, þ.e. rúmu 1 og ½ ári eftir að þessu kjörtímabili lýkur, á staðan sem sagt að verða eins og hún átti að vera í árslok 2014 þ.e. ef staðið verður við loforðið að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 100 á ári og bæta þannig upp aðgerðarleysið frá 2010.

Fjármögnun 500 félagslegra leiguíbúða

Að sjálfsögðu fögnum við í Framsókn og flugvallarvinum að félagslegum leiguíbúðum sé fjölgað og styðjum að þeim verði fjölgað um 500 næstu 5 árin en helst myndum við vilja að það gerðist hraðar því að sumarið 2014 voru 550 umsækjendur í brýnni þörf eftir slíkum íbúðum. Hins vegar gátum við ekki stutt leikritið sem sett var fram af hálfu meirihlutans í borginni hvernig fjármögnun á að vera háttað en samkvæmt tillögunni á ríkið að leggja fram 20% af kostnaðinum við kaupin, Reykjavíkurborg 10% og restin tekin að láni. Ríkið hefur ekki samþykkt slíkt. Gerðum við athugasemdir við það og hefur fjármálaskrifstofa borgarinnar tekið undir þá athugasemd að borgin geti ekki ákveðið fjármögnun á kaupum á 500 íbúðum með þeim hætti sem gert var. Það er auðvitað algjörlega óábyrgt að setja fram tillögu sem meirihlutinn veit að miðað við þau lög sem eru í gildi að slík fjármögnun gengur ekki upp. Það á kannski eftir að breytast en staðreyndin er sú að meirihlutinn vissi það þegar hann lagði fram tillöguna að hún gengi ekki upp.

Hér að neðan er að finna bókanir Framsóknar og flugvallarvina annars vegar á fundi borgarstjórnar 2. desember 2014 þar sem lögð var fram tillaga um heimild Félagsbústaða til að fjölga leiguíbúðum um 500 næstu fimm árin og hins vegar bókun á fundi borgarstjórnar 12. maí 2015 vegna ábendinga Fjármálaskrifstofu borgarinnar.

Bókun 2. desember 2014:

„Við fögnum því að Reykjavíkurborg sé búin að gera tillögu um uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis og styðjum við hana sem slíka, en vegna aðferðafræðinnar sem fram kemur í greinargerð getum við ekki samþykkt tillöguna eins og hún er og sitjum því hjá við afgreiðslu hennar, með eftirfarandi rökstuðningi: Ótækt er að Reykjavíkurborg byggi tillögu sína um kaup á 500 félagslegum leiguíbúðum næstu 5 árin á þeirri forsendu að Reykjavíkurborg leggi til 10% eigið fé í kaupin og ríkið leggi til 20% eigið fé í kaupin, í samræmi við hugmyndir um framtíðarskipan húsnæðismála. Verður að gera þær kröfur til stjórnvalds að það fari eftir gildandi lögum og reglum í verkefnum og áætlanagerð sinni, eins og lög, faglegt verklag og 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir. Getur Reykjavíkurborg ekki ákveðið hvernig fjárlög verða næstu 5 árin og byggt stefnu sína á því. Því er stefna miðuð við framangreint ómöguleg í framkvæmd fyrr en til koma aðgerðir ríkisvaldsins við að uppfylla tillögu þessa. Við gerum þær kröfur að við áætlanagerð og tillögur sé farið að gildandi lögum og reglum við yfirlýsingar og stefnumörkun Reykjavíkurborgar. Ljóst er að þarfagreining velferðarsviðs, sem tillagan byggist á, á ekki við rök að styðjast og vísum við til bókunar í borgarráði frá 13. nóvember 2014 undir lið 14.“

Bókun 12. maí 2015:

„Við fjárhagsáætlanagerð er mikilvægt að borgarstjórn samþykki ekki tillögur sem byggjast aðeins á hugmyndum, en ekki þegar samþykktum lögum frá Alþingi. Í skýrslu Fjármálaskrifstofu er í ábendingum á bls 50 tekið fram að forsendur fjármögnunar á 500 félagslegum leiguíbúðum gerðu ráð fyrir stofnfjárframlögum frá ríkinu en engar ákvarðanir hafa verið kynntar frá velferðarráðuneytinu og því óvissa um fjármögnunarfyrirkomulag og áform þar að lútandi. Þessi ábending er í samræmi við málflutning og bókun Framsóknar og flugvallarvina um málið á borgarstjórnarfundi 2. desember 2014 að óttækt væri að borgarstjórn myndi samþykkja tillögu byggða á hugmyndum sem ekki hefðu verið lagðar fram eða samþykktar á Alþingi.“

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 21.7.2015 - 23:48 - FB ummæli ()

Þarf Landsbankinn á fjármálaráðgjöf að halda?

Rök bankastjóra Landsbankans fyrir því að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbankans á einni verðmætustu lóð landsins eru þau að það muni spara 700 milljónir á ári. Ef bankinn sparar 700 milljónir á ári að byggja þetta glæsihýsi við höfnina þá er bankinn greinilega í algjöru rugli nú þegar og þarf á fjármálaráðgjöf að halda. Einhvern veginn efast ég um það að fjármálaráðgjafi sem væri að vinna vinnuna sína myndi ráðleggja fyrirtæki sem gæti sparað verulegar fjárhæðir á ári við það að sameina reksturinn á einn stað myndi ráðleggja viðkomandi fyrirtæki að byggja glæsihýsi á dýrasta staðnum í bænum þegar það væri hægt að byggja eða kaupa annars staðar fyrir töluvert lægra verð eins og bent hefur verið á.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.5.2015 - 21:19 - FB ummæli ()

Lýðræðisást í flugvallarmálinu?

MMR kannaði hug Íslend­inga til þess að loka flug­braut 06/24 (oft nefnd neyðarbraut) á Reykja­vík­ur­flug­velli. Niður­stöður könn­un­ar­inn­ar voru þær að 78% Íslend­inga eru and­víg því að braut­inni verði lokað. Sé aðeins horft á íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins vilja 74% ekki að braut­inni verði lokað. Sé aðeins horft á Reykja­vík þá eru 68% íbúa and­víg lok­un braut­ar­inn­ar. Könn­un­in var unn­in af MMR dag­ana 16. – 21. apríl 2015 og spurt var: „Ert þú fylgj­andi eða and­víg(ur) því að flug­braut 06/24 á Reykja­vík­ur­flug­velli, oft nefnd neyðarbraut, verði lokað?“ Úrtakið voru Íslend­ing­ar á aldr­in­um 18 ára og eldri. Svar­fjöldi: 1.001 ein­stak­ling­ur.

Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn og tillögu á fundi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs í dag en ráðið er stundum kallað “Pírataráðið”:

Fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina: 

Niðurstaða könnunar MMR sýnir að meirihluti þeirra sem tók þátt vill ekki láta loka brautinni. Því óska Framsókn og flugvallarvinir eftir upplýsingum um það hvort og þá með hvaða hætti stjórnkerfis- og lýðræðisráð ætlar að bregðast við þessari könnun.

Tillaga Framsóknar og flugvallarvina:

Í ljósi niðurstöðu könnunar MMR er lagt til að stjórnkerfis- og lýðræðisráð samþykki að óska eftir því að borgarstjórn fari í almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa Reykjavíkur, skv. 107. gr., sbr. 108. gr. sveitastjórnarlaga nr. 138/2011, um það hvort loka eigi flugbraut 06/24.

Flokkar: Flugvöllur

Fimmtudagur 16.4.2015 - 22:35 - FB ummæli ()

Reykjavíkurflugvöllur- vilji ríkisstjórnarinnar

Fyrir síðustu kosningar sögðu fulltrúar meirihlutans í borginni að Reykjavíkurflugvöllur væri ekki kosningamál því það væri ekki verið að fara gera eitt eða neitt við flugvöllinn á þessu kjörtímabili! Hið rétta er að í lok síðasta kjörtímabils voru teknar ákvarðanir sem eiga að koma til framkvæmda á þessu kjörtímabili sem varða flugvöllinn. Í lok síðasta kjörtímabils var nefnilega samþykkt að taka flugbraut 06/24 eða svokallaða neyðarbraut af skipulagi. Þá var samþykkt nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík sem gerir ráð fyrir að flugvöllurinn fari.

Tæpum tveimur mánuðum fyrir borgarstjórnarkosningarnar eða 1. apríl 2014 samþykkti Samfylkingin, Vinstri græn og Besti flokkurinn að taka svokallaða neyðarbraut út af skipulagi og hafa því á þessu kjörtímabili borið það fyrir sig, vegna uppbyggingarinnar á Hlíðarenda, að svokölluð neyðarbraut er ekki lengur á skipulagi. Þannig voru svör borgarinnar við þeim athugasemdum sem bárust vegna breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda, sem samþykkt var af Samfylkingu, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Pírötum, í borgarstjórn 2. desember 2014, að neyðarbrautin væri ekki lengur á skipulagi.

Eins og í svo mörgum öðrum málum þessa meirihluta í borginni er byrjað á öfugum enda, sbr. t.d. ferðaþjónustu fatlaðra og nú Reykjavíkurhúsin en þar á að úthluta lóðum og auglýsa eftir samstarfsaðilum áður en ákvörðun er tekin um útfærslu verkefnisins. Það er látið eins og neyðarbrautin sé ekki til og framkvæmdir hafnar áður en áhættumat vegna lokunar flugbrautarinnar liggur fyrir. Veðurskilyrði hafa verið þannig í vetur að flestir sjá að slík lokun gæti haft skelfilegar afleiðingar í för með sér.

Fyrir liggur að meirihlutinn í borginni hefur ákveðið að loka eigi svokallaðri neyðarbraut. Það er vilji meirihlutans, þ.e. Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Minnihlutinn í borginni getur ekki breytt þeirri ákvörðun meirihlutans en minnihlutinn getur, eins og hann hefur ítrekað gert í vetur, fjallað um málið og bent á afleit vinnubrögð og ábyrgð meirihlutans en fyrir liggur að það breytir engu því meirihlutinn ræður í borginni. Málið er því í höndum ríkisstjórnarinnar. Það er ríkisstjórnin sem getur bjargað svokallaðri neyðarbraut og Reykjavíkurflugvelli.

Flokkar: Flugvöllur

Fimmtudagur 26.2.2015 - 13:09 - FB ummæli ()

Aðalfundir húsfélaga

Nú fer að koma sá tími sem húsfélög halda aðalfund. Ákveðnar formreglur gilda um boðun húsfunda og töku ákvarðana og því er mikilvægt að rétt sé staðið að málum svo ákvörðun sé lögmæt og bindandi fyrir eigendur.

Samkvæmt lögum um fjöleignarhús á að halda aðalfund húsfélags fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Boða þarf til aðalfundar með minnst 8 og mest 20 daga fyrirvara. Á aðalfundi skulu fyrir tekin eftirtalin mál:
1. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
2. Framlagning ársreikninga til samþykktar og umræður um þá.
3. Kosning formanns.
4. Kosning annarra stjórnarmanna.
5. Kosning varamanna.
6. Kosning endurskoðanda og varamanns hans.
7. Framlagning rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir næsta ár.
8. Ákvörðun hússjóðsgjalda.
9. Mál sem tiltekin eru í fundarboði.
10. Önnur mál.

Á öðrum húsfundum en aðalfundi skal fjalla um þau mál sem tiltekin eru í fundarboði en til almennra funda skal boða með minnst 4 og mest 20 daga fyrirvara.

Í fundarboði þarf að tilgreina þau mál sem fyrir verða tekin á fundinum og meginefni tillagna. Ekki er t.d. hægt að taka mál til atkvæðagreiðslu á húsfundi sem ekki hefur verið getið í fundarboði nema allir félagsmenn séu mættir og samþykkja það. Mismunandi er hve margir þurfa að samþykkja ákvörðun eftir því um hvers konar framkvæmdir er að ræða, hve margir þurfa að vera á fundi til að ákvörðun telst lögmæt o.s.frv. Áður en lagt er að stað í viðhaldsframkvæmir þarf því að liggja fyrir lögmæt ákvörðun húsfélags fyrir framkvæmdum.

Hér má finna grein sem ég skrifaði árið 2005 um viðhaldsframkvæmdir í fjöleignarhúsum:

http://fasteignamal.is/index.php?option=content&task=view&id=8&Itemid=31

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.2.2015 - 15:32 - FB ummæli ()

Stóra kosningaloforðið, vertu á götunni

Hátt í þúsund manns eru á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík. Greint var frá því á Vísi í gær að einstæð móðir með 5 mánaða gamalt barn sem verður heimilislaus eftir sjö daga hafi fengið þau svör frá borginni að hún verði bara að fara á gistiheimili.

Þetta eru afleiðingar þess að Reykjavíkurborg hefur vanrækt að fjölga félagslegum leiguíbúðum frá árinu 2009. Stóra kosningaloforðið hans Dags borgarstjóra er m.a. að fjölga félagslegum leiguíbúðum samtals um 500 næstu 5 árin (það eru reyndar bara rúm 3 ár eftir af kjörtímabilinu) en það er akkúrat sá fjöldi sem vanrækt var að fjölga leiguíbúðunum um á árunum 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014 en stefna borgarinnar var alltaf sú að fjölga þeim um 100 á ári. Á síðasta kjörtímabili var íbúðunum hins vegar fækkað. Í árslok 2014 voru þær færri en þær voru á árinu 2009.

Í árslok 2019, þ.e. rúmu 1 og ½ ári eftir að þessu kjörtímabili lýkur, á staðan sem sagt að verða eins og hún átti að vera í árslok 2014 þ.e. ef Dagur og félagar hefðu sinnt þessari skyldu sinni.

En í alvöru er eðlilegt að vanrækja eitthvað heilt kjörtímabil og lofa svo að laga það á næsta og þar næsta kjörtímabili ef maður er kosinn? Eflaust verður listinn langur af verkefnum sem vanrækt verður að sinna á þessu kjörtímabili sem Dagur borgarstjóri getur valið úr að gera að kosningaloforði fyrir næstu kosningar.

 

Flokkar: Húsnæðismál

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur