Miðvikudagur 18.2.2015 - 23:34 - FB ummæli ()

Byrjað á öfugum enda

Hefði ekki verið eðlilegt að búið væri að gefa grænt ljós á að loka flugbraut 06/24, svokallaðri neyðarbraut, áður en brautin er tekin af skipulagi og áður en framkvæmdir hefjast á Hlíðarendasvæðinu? Nei það finnst Samfylkingunni, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Pírötum, ekki vera málið. Í þeirra huga er brautin ekki lengur til.

Hinn 1. apríl 2014 samþykktu Samfylkingin, Besti flokkurinn og Vinstri grænir að taka neyðarbautina af skipulagi. Því voru svör borgarinnar til þeirra sem gerðu athugasemdir við breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda þær að flugbrautin væri ekki lengur á skipulagi. M.ö.o. brautin er ekki til.

Eins og allir vita gerir uppbyggingin á Hlíðarenda ráð fyrir því að flugbraut 06/24 sé ekki lengur til. Niðurstaða áhættumats vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautarinnar liggur hins vegar ekki fyrir og því liggur ekki fyrir afstaða Samgöngustofu til lokunarinnar. Þegar þessi atriði liggja fyrir væri fyrst hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvaða áhrif slík lokun hefði á umhverfi innanlandsflugs, almannavarna, sjúkraflugs og líffæraflutninga. Er því órökrétt og óábyrgt að ganga út frá því að brautin sé ekki lengur til áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir. Þá er nefnd sem skipuð var um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs enn að störfum.

Það er hins vegar staðreynd að flugbraut 06/24 hefur verið notuð í vetur í þeim tilvikum þegar ekki hefur verið hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum vegna veðurs, m.a. í sjúkraflutningum og því ljóst að verði hún lögð niður getur m.a. sjúkraflugi og líffæraflutningum verið stefnt í hættu. Nauðsynlegt er að tryggja flugöryggi og það verður ekki gert nema brautin sé opin eins og sannast hefur ítrekað undanfarnar vikur og var hún m.a. notuð tvisvar á mánudaginn í sjúkraflugi. Ef svokallaðri neyðarbraut verður lokað munu koma upp tilvik þar sem ekki verður hægt að lenda í Reykjavík án brautarinnar. Það er staðreynd.

Flokkar: Flugvöllur

Þriðjudagur 10.2.2015 - 11:56 - FB ummæli ()

Hvað gerir Reykvíkinga hamingjusama?

Er fólk hamingjusamt yfir fækkun bílastæða, þrengingu gatna, þéttingu byggðar í ljósi þess að samkvæmt þjónustukönnun eftir hverfum borgarinnar eru íbúar miðborgarinnar óánægðastir af öllum íbúum borgarinnar með skipulagsmálin, svik á stærsta kosningaloforði VG um gjaldfrjálsa leikskóla, hækkun þjónustugjalda, tæplega 1000 manna biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum, samráðsleysi, sameiningu skóla, ferðaþjónustu fatlaðra, mötuneytismál í skólum, skúrabyggingar við skólahúsnæði, viðhaldsleysi skólabygginga, holóttar götur, flugvallarmálið eða kannski að vera í síðasta sæti í þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins?

Reykvíkingar ættu kannski að geta fengið svör við eitthvað af þessum spurningum á Kjarvalsstöðum kl. 20 í kvöld en þar mun Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, ásamt fleirum leitast við að svara spurningum eins og hvað þarf til að bæta skilyrði hamingju í borg, er það hagstæður ferðatími, umbreyting bílamenningar yfir í aðra samgöngumáta, almennt vinsamlegt umhverfi, umhverfi sem stuðlar að heilbrigðari lífsstíl, fallegar hjólaleiðir, gönguleiðir, sýnileg menning og listaverk, skemmtileg torg og garðar, en fundurinn ber yfirskriftina Hver eru áhrif borgarumhverfis á hamingju?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.2.2015 - 16:04 - FB ummæli ()

Verður deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar fellt úr gildi?

Á borgarstjórnarfundi sem haldinn var síðasta þriðjudag settum við í Framsókn og flugvallarvinum á dagskrá fundarins umræður um deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar (sem samþykkt var af Samfylkingu, Besta flokknum og VG í lok síðasta kjörtímabils) en við teljum líkur á því að ákvæðum skipulagslaga hafi ekki verið fylgt við meðferð málsins þar sem deiliskipulagið var samþykkt á grundvelli umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs sem síðan var breytt eftir að borgarstjórn hafði samþykkt deiliskipulagið og því spurning hvort það verði fellt úr gildi en deiliskipulagið hefur verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar um að taka NA-SV flugbrautina (06/24) eða svokallaða neyðarbraut út af skipulagi var samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 og tók gildi 6. júní 2014 með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Hinn 2. desember 2014 samþykkti borgarstjórn (þ.e. meirihlutinn) síðan breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda. Um er að ræða sitt hvort málið sem hvort fyrir sig lýtur ákveðnum málsmeðferðarreglum, form- og efnisskilyrðum.

Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar var samþykkt á borgarstjórnarfundi 1. apríl 2014 með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagsssviðs, dags. 10. mars 2014, en umsögnin byggði m.a. á bréfi forstjóra Isavia til Innanríkisráðherra, dags. 13. desember 2013. Eftir að borgarstjórn samþykkti deiliskipulagið sendi forstjóri Isavia hins vegar bréf til borgarinnar, dags. 23. apríl 2014, þar sem hann leiðréttir rangfærslur í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014. Í kjölfarið var umsögninni breytt, eða tæpum tveimur mánuðum eftir að borgarstjórn hafði samþykkt deiliskipulagið á grundvelli umsagnarinnar frá 10. mars 2014 án þess að borgarstjórn fjallaði aftur um málið.

Með bréfi umhverfis- og skipulagssvið, dags 26. maí 2014, var Skipulagsstofnun sent minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá Isavia, dags. 23. apríl 2014, bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014, á grundvelli bréfs Isavia, dags. 23. apríl 2014, sbr. bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, án þess að gögnin væru lögð fram eða umsögnin samþykkt breytt af borgarstjórn.

Af fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs, borgarráðs og borgarstjórnar verður hvorki ráðið að framangreind gögn hafi verið lögð fram né að þær breytingar sem gerðar voru á umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014, hafi verið samþykktar í tengslum við breytingar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014. Hins vegar var bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, og bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, lögð fram á fundi borgarráðs 5. júní 2014 undir dagskrárlið um breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda. Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar og breytingar deiliskipulagi Hlíðarenda eru hins vegar sitt hvort málið.

Meirihluti borgarstjórnar hefur borið það fyrir sig að nægilegt hafi verið að leggja framangreind tvö bréf fyrir á fund borgarráðs 5. júní 2014 vegna breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda þar sem Skipulagsstofnun hafi með bréfi, dags. 4. júní 2014, ekki gert athugasemdir við að deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014 yrði auglýst.

Í því sambandi er rétt að benda á að Skipulagsstofnun hafði engar forsendur til að ætla að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið gætt við afgreiðslu málsins enda má Skipulagsstofnun gera ráð fyrir því að upplýsingar frá borginni og breytingar hafi verið afgreiddar á lögmætan hátt.

Umrætt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hefur verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og ætti því fljótlega að koma í ljós hvort framangreind málsmeðferð er í samræmi við lög.

Á borgarstjórnarfundinum lögðum við fram svohljóðandi bókun:

„Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar um að taka NA-SV flugbrautina af skipulagi var samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 á grundvelli umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014. Tæpum tveimur mánuðum síðar breytti umhverfis- og skipulagssvið umsögninni og sendi hana breytta til Skipulagsstofnunar. Af fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs, borgarráðs og borgarstjórnar verður hvorki ráðið að þau gögn sem fylgdu bréfi umhverfis- og skipulagssviðs til Skipulagsstofnunar, dags. 26. maí 2014, þ.e. minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá Isavia, dags. 23. apríl 2014, bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, hafi verið lögð fram né þær breytingar sem gerðar voru á umsögninni frá 10. mars 2014 hafi verið samþykktar vegna breytingar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Hins vegar var bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, og bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, lögð fram á fundi borgarráðs 5. júní 2014 vegna breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda sem er annað mál. Hafði Skipulagsstofnun engar forsendur til að ætla að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið gætt við afgreiðslu málsins enda má stofnunin gera ráð fyrir því að upplýsingar frá borginni og breytingar hafi verið afgreiddar á lögmætan hátt.“

  

 

Flokkar: Flugvöllur

Miðvikudagur 4.2.2015 - 23:02 - FB ummæli ()

Hroki meirihlutans í borginni

Íslandsmet í lélegri þjónustu

Ef það er eitthvað sem meirihlutinn í borginni stendur fyrir þá er það hroki. Flestir vita hvernig Dagur borgarstjóri brást við þeirri staðreynd að Reykjavíkurborg fékk langverstu einkunnina í þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins. Svör Dags borgarstjóra voru þau að Reykvíkingar séu kröfuharðari. Það er skoðun hans að fólk úti á landi og í nágrannasveitarfélögunum sætti sig við allt a.m.k. miklumiklu minna, geri minni kröfur en Reykvíkingar. Það er mat borgarstjórans sem henti 70.000 undirskriftum út um gluggann.

Í samanburði við önnur sveitarfélög sem tóku þátt í könnuninni var Reykjavík í 19. sætinu, þ.e. neðsta sætinu, varðandi gæði umhverfis í nágrenni við heimilið, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu grunnskóla, þjónustu leikskóla, þjónustu við eldri borgara, þjónustu við fatlaða, aðstöðu til íþróttaiðkunar og það hversu ánægðir íbúarnir væri með þjónustu sveitarfélagsins. Reykjavík var í 18. sætinu af 19 með skipulagsmálin, 17. sætinu af 19 með þjónustu í tengslum við sorphirðu, 16. sætinu af 19 yfir því hversu ánægðir íbúarnir væru með sveitarfélagið sem stað til að búa á og í 15. sætinu með menningarmálin.

Ferðaþjónusta fatlaðra

Meirihluti borgarstjórnar með Sóleyju Tómasdóttur í broddi fylkingar hefur verið að skammast út í minnihlutanum fyrir það að setja tillögur á dagskrá borgarstjórnarfundar með afbrigðum og bókaði meirihlutinn á fundi forsætisnefndar 30. janúar sl. „…nokkuð hefur borið á því að þau hafi verið nýtt án þess að brýn nauðsyn krefji. Forsætisnefnd beinir því til borgarfulltrúa að undirbúa borgarstjórnarfundi vel og rökstyðja óskir um afbrigði þegar svo ber undir.“ Þarna er Sóley og félagar að vísa til þess að á fundi borgarstjórnar 20. janúar sl. lögðu fulltrúar minnihlutans fram tillögur sem sneru að Ferðaþjónustu fatlaðra og lutu að því að grípa nú þegar til aðgerða í þeim málum. Það gat meirihlutinn auðvitað ekki gert enda dregur hann lappirnar í öllu og afleiðingarnar eru skelfilegar eins og sannaðist í dag.

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/olof-fannst-i-laestum-bil-ferdathjonustu-fatladra-liklega-buin-ad-vera-i-bilnum-i-sjo-tima

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.1.2015 - 14:56 - FB ummæli ()

Áhættumatshópurinn og neyðarbrautin

Í fréttum nú í janúar hefur verið sagt frá því að í nokkrum tilvikum hafi einungis verið hægt að lenda á NA-SV flugbraut (06/24) Reykjavíkurflugvallar eða svokallaðri neyðarbraut vegna veðurs. Hafi brautin gert gæfumuninn í annasömu sjúkraflugi fimmtudaginn 8. janúar sl. og tryggt jafnframt að innanlandsflug raskaðist lítið í snarpri suðvestanáttinni sem ríkti á flugvellinum þann dag. Þá kom fram í fréttum að brautin hafi verið notuð síðasta föstudag og sunnudag þegar ekki var hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum. Þá hafa verið umræður undanfarið um áhættumatshópinn sem Isavia leysti upp í desember sl., skýrslur Eflu um nothæfisstuðul og nothæfistíma og þá staðreynd að áhættumat og nothæfisstuðull er ekki sama atriðið.

Síðustu ca 25 árin hafa ýmsar skýrslur og samkomulög verið gerð um þann draum margra stjórnmálamanna að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Gengur Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 m.a. út á það. Fyrsta skrefið í þeim draumi, m.a. fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, er að loka svokallaðri neyðarbraut þrátt fyrir að afleiðingar slíkrar lokunar liggja ekki fyrir.

Í árslok 2013 fór Innanríkisráðuneytið þess á leit við Isavia að það skoðaði afleiðingar lokunar norðaustur suðvestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar fyrir sjúkraflug og þörf á að opna samsvarandi flugbraut á Keflavíkurflugvelli með tilliti til sjúkraflugs. Var því svarað með bréfi forstjóra Isavia, dags. 13. desember 2013. Ýmsar athugasemdir voru gerðar við bréfið og útreikning á nothæfisstuðlinum m.a. af Flugmálafélagi Íslands og Mýflugi rekstraraðila sjúkraflugs á Íslandi þar sem ekki var farið eftir fyrirmælum reglugerðar um flugvelli við útreikning á nothæfisstuðlinum og forsendur lagðar til grundvallar sem ekki stóðust raunveruleikann.

Áhættumatshópurinn

Í kjölfarið eða í janúar 2014 óskaði Isavia eftir fulltrúum frá flugrekstraraðilum, flugskólum, almannaflugi og Landhelgisgæslunni í vinnuhóp til að framkvæma áhættumatið og tók hópurinn til starfa í kjölfarið. Í hópnum sátu m.a. aðilar frá Flugfélagi Íslands, Flugfélaginu Örnum, Mýflugi, Geirfugli, Fluggörðum, Landhelgisgæslunni og Isavia.

Niðurstaða hópsins var einróma sú að lokun flugbrautar 06/24 myndi hafa óásættanlegar afleiðingar á flugöryggi. Var niðurstaðan send Samgöngustofu til yfirferðar 8. apríl 2014. Í júlí 2014 sendi Samgöngustofa athugasemdir við áhættumatið og í kjölfarið hófst vinna hópsins við að fara yfir athugasemdirnar. Haldnir voru tveir fundir í ágúst 2014 en fundi sem vera átti í byrjun september var aflýst. Þrátt fyrir ítrekanir var ekki boðað til fundar fyrr en í lok nóvember sl. Í fundarboði kom fram að á fundinum yrðu kynntar tvær skýrslur sem Verkfræðistofan Efla hefði unnið. Hafði Isavia ekki upplýst hópinn um að slík vinna væri í gangi. Skýrslurnar voru kynntar hópnum á fundinum 2. desember sl. sem innlegg í vinnu hópsins. Fjallaði önnur um nothæfisstuðul Reykjavíkurflugvallar en hin um nothæfistíma. Meðan á fundinum stóð þar sem skýrslurnar voru kynntar sendi Isavia út fréttatilkynningu með einhliða túlkun á niðurstöðum þessara tveggja skýrsla. Sama dag var borgarstjórnarfundur þar sem m.a. var á dagskrá fundarins að afgreiða breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda sem meirihlutinn samþykkti.

Á fundi sem boðað var til tveimur dögum síðar eða 4. desember sl. gerðu aðilar í hópnum athugasemdir við framkvæmd og niðurstöður skýrslanna tveggja m.a. að ýmsar forsendur væru gefnar eða þeim sleppt. Þá kom það hópnum á óvart að við gerð þessara skýrsla hafi fundist mikið af gögnum um veðurfar og brautarskilyrði sem Isavia hafði ekki áður vitað að væru til. Fór hópurinn fram á að fá gögnin afhent en við því var ekki orðið. Á fundinum lýsti verkefnisstjóri Isavia því yfir að tilgangslaust væri að halda þessari vinnu áfram og sleit fundi með þeim orðum að hann myndi leggja það til að hópurinn yrði leystur upp þar sem það væri útilokað að þeir kæmust að sameiginlegri niðurstöðu. Var hópnum tilkynnt það í tölvupósti 11. desember sl. að hópurinn væri leystur upp og Isavia myndi gera nýtt áhættumat með nýjum hóp.

Skýrsla Eflu um nothæfisstuðul

Í skýrslunni er nothæfisstuðull eingöngu reiknaður miðað við tvær forsendur, þ.e. hliðarvind eingöngu og hliðarvind, skyggni og skýjahæð. Sleppt er að reikna með vindhviðum, ókyrrð og bremsuskilyrðum þó svo að slíkt eigi að gera þegar veðurskilyrði kalla á slíkt. Var því sleppt með eftirfarandi rökum: Ekki er talið að sérstakar vindaðstæður séu við Reykjavíkurflugvöll sem kalli á skoðun á vindhviðum. Þó vindhraði sé hár í samanburði við flugvelli í Evrópu þá sýna mælingar að hviðustuðull sé eðlilegur og meðalvindhraði lýsir því aðstæðum vel.“

Þetta stangast á við niðurstöður NLR, sem er hollenskt ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í flugtæknilegri ráðgjöf, en í skýrslu þeirra frá 2006 segir: „In comparison with other European airports the wind climate of Reykjavik Airport is considered extreme, because there exists a very high probability of strong winds from various directions.“

Skýrsla um nothæfisstuðul er góð svo langt sem hún nær, en við gerð hennar er ekki reiknað til fulls hver nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar er með öllum þeim veðurfarsáhrifum sem þar koma við sögu og krafa er um.

Í ljósi þessa má telja undarlegt að ekki hafi verið reiknað með öllum breytum til að fá botn í þetta mál í eitt skipti fyrir öll.

Skýrsla Eflu um nothæfistíma

Í skýrslunni er notað orðið nothæfistími sem virðist vera nýtt hugtak til að sýna fram á að það hefði verið hægt að lenda á öðrum flugbrautum í þeim tilvikum sem lent var á svokallaðri neyðarbraut. Í útreikningum á nothæfistíma kemur fram að í öllum tilvikum sem Fokker eða sjúkraflugvél lentu á svokallaðri neyðarbraut á ákveðnu tímabili hefði verið hægt að lenda á annarri braut. Þessi niðurstaða byggir hins vegar á tveimur forsendum sem ómögulegt er að uppfylla.

Önnur forsendan er sú að í 35% tilfella þar sem skilyrði fara út fyrir þolmörk flugvélarinnar þá líður meira en klukkustund þar til skilyrðin eru aftur komin inn fyrir þolmörk flugvélarinnar.  Með þessu er því gert ráð fyrir að áætlunar- og sjúkraflugvélar geti hringsólað um óákveðinn tíma þar til að veður lægir. Ekki er minnst á að til þess að áætlunarflug og sjúkraflug fari af stað til Reykjavíkur þurfa aðstæður í Reykjavík að vera þannig að hægt sé að lenda vegna þess að annars er ekki farið af stað. Hvergi er minnst á þann fjölda fluga sem hefðu kannski ekki tekið í loftið hefðu lendingarskilyrði á Reykjavíkurflugvelli ekki verið til staðar. Hin forsendan er sú að til þetta megi standast þá verði bremsuskilyrði að vera: gott/þurrt. Þessum forsendum er ómögulegt að mæta en eins og flestir vita eru veðurskilyrði á Íslandi ekki alltaf með besta móti og því oft við að etja hálku og snjó.

Á Reykjavíkurflugvelli ríkja hinar ýmsu veðuraðstæður og lendingarskilyrði er því mismunandi. Einnig geta þættir eins og byggingar við flugbrautir svo sem flugskýli 1 og 2 haft áhrif á flugtaks- og lendingarskilyrði vegna hinna mismunandi sviptivinda sem geta myndast. Þá má setja spurningarmerki við brautarmælingar Isavia sem eru eitt af þeim gögnum sem notuð eru sem forsenda útreikninganna en þær mælingar eru teknar við brautarendanna. Veðuraðstæður eru hins vegar ekki allsstaðar eins á flugvellinum og vindur misjafn t.d. þegar vindur er 30 hnútar getur gustað í 46 hnúta sumstaðar á vellinum t.d í suðvestan átt sem er sú átt sem að svokölluð neyðarbraut er oftast notuð í.

Mikilvægt er að allar mögulegar forsendur sem geta verið til staðar séu lagðar til grundvallar útreikningi á nothæfisstuðli enda verður að tryggja flugöryggi og öryggi sjúkraflugs. Það er staðreynd að núna í janúar hefur í nokkrum tilvikum einungis verið hægt að lenda á umræddri flugbraut en ekki á hinum tveimur brautunum vegna veðurs. Er það ásættanlegt að í einhverjum tilvikum verði ekki hægt að lenda með sjúklinga sem verða að komast strax undir læknishendur í Reykjavík ef brautinni verður lokað. Ef það er minnsti vafi á því að lífi og heilsu fólks sé stefnt í hættu með lokun brautarinnar þá má ekki loka henni.

Flokkar: Flugvöllur

Fimmtudagur 8.1.2015 - 20:30 - FB ummæli ()

Neyðarbrautin gerði gæfumuninn í dag

Neyðarbrautin skiptir máli eins og heldur betur sannaðist í dag. Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur öll að henni verði ekki lokað eins og meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið með Dag B. Eggertsson borgarstjóra í broddi fylkingar.  Meirihlutinn í borgarstjórn hefur samþykkt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir því að neyðarbrautin fari og er ekki lengur gert ráð fyrir neyðarbrautinni á skipulagi. Í dag sannaðist það heldur betur að við sem höfum haldið fram mikilvægi brautarinnar höfum haft rétt fyrir okkur í málflutningi okkar og ekki er um tilfinningaklám að ræða eins og einn borgarfulltrúi Samfylkingarinnar orðaði það:

http://kristinsoffia.tumblr.com/post/84519296200/tilfinningaklam

Neyðarbrautin gerði gæfumuninn í annasömu sjúkraflugi í dag og og tryggði jafnframt að innanlandsflug raskaðist lítið í snarpri suðvestanáttinni sem ríkti á flugvellinum eins og fram kemur á visir.is:

http://www.visir.is/litla-neydarbrautin-hjalpadi-sjukra–og-innanlandsfluginu/article/2015150109212

 

 

Flokkar: Flugvöllur

Miðvikudagur 19.11.2014 - 16:32 - FB ummæli ()

Grensásvegur, þrenging götunnar og hjólastígagerð

Hugmyndir um þrengingu og hjólastígagerð á Grensásvegi hafa verið í umræðunni síðustu daga.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag var samþykkt að fela samgönguskrifstofu umhverfis-og skipulagssviðs að halda kynningarfund um tillöguna þ.e. þrengingu á götu og gerð hjólastígs á Grensásvegi sunnan Miklubrautar, og hefja samráð við hverfisráð, íbúasamtök, samtök hjólreiðamanna, slökkvilið, lögreglu og sjúkraflutninga og aðra hagsmunaaðila.

Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks gerðu ekki athugasemd við að tillagan fari í víðtækt samráð og kynningu en með öllum fyrirvörum enda sé mörgum spurningum ósvarað og tillagan ekki að öllu leyti sannfærandi. Þó sé mikilvægt strax á þessum tímapunkti að fá fram sjónarmið helstu hagsmunaðila.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.11.2014 - 16:50 - FB ummæli ()

Fyrirspurn um kaup á félagslegum íbúðum

Félagsbústaðir áttu á árinu 2009 samtals 1842 félagslegar leiguíbúðir. Í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í sumar við fyrirspurn félags- og húsnæðismálaráðherra kemur fram að fjöldi félagslegra leiguíbúða í eigu Félagsbústaða sé 1804 og um 850 umsækjendur séu á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík þar af um 550 í brýnni þörf.

Sú stefna var hjá Félagsbústöðum að kaupa eða byggja 100 íbúðir á ári. Horfið var frá þeirri stefnu í byrjun síðasta kjörtímabils meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins enda áttu Félagsbústaðir í sumar 38 færri félagslegar leiguíbúðir en á árinu 2009. Ef meirihlutinn í borginni hefði fylgt þessari stefnu og keypt 100 íbúðir á ári á árunum 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014 þá ættu Félagsbústaðir 538 fleiri félagslegar leiguíbúðir í árslok 2014 en félagið átti á árinu 2009. Eins og fram kom á upplýsingafundi Dags borgarstjóra í síðustu viku um kosningaloforðið hans um 2500-3000 leigu- og búseturéttaríbúðir er hluti af því loforði að fjölga félagslegum leiguíbúðum hjá Félagsbústöðum um 500 næstu árin. Kosningaloforðið snýst því um að bæta upp aðgerðarleysi síðustu ára á næstu árum en ekki taka tillit til þess fjölda sem mun bætast við á biðlistann eftir félagslegum leiguíbúðum.

Í desember 2013 var samþykkt í borgarstjórn að kaupa 30 félagslegar leiguíbúðir á þessu ári. Þar sem ljóst er að verulega vantar upp á þau kaup með svari velferðarsviðs í sumar lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram fyrirspurn í borgarráði fyrir um 5 vikum síðan eða 9. október sl. þar sem við óskuðum eftir upplýsingum um það hvort og þá hve margar eignir Félagsbústaðir hafa keypt og selt af almennum leiguíbúðum frá 1. janúar til 1. október 2014. Þar sem fyrirspurninni hafði ekki verið svarað í lok október sl. lögðu við fram viðbótarfyrirspurn 31. október sl. hvort Félagsbústaðir hafi keypt eða selt fasteignir í október 2014. Ennþá hefur ekkert svar borist. Á næsta fundi verðum við væntanlega að leggja fram fyrirspurn hvað hafi verið keypt í nóvember.

Þarf það í alvörunni að taka 6 vikur að svara svona fyrirspurn eða er málið kannski það að Félagsbústaðir hafi stokkið til og keypt eitthvað af íbúðum eftir 8. október sl.

Flokkar: Húsnæðismál

Miðvikudagur 12.11.2014 - 21:03 - FB ummæli ()

Eru 2500-3000 nýjar íbúðir í boði borgarstjóra?

Í morgun var Dagur borgarstjóri með fyrirlestur um „Nýjar íbúðir í Reykjavík“. Glærurnar sem hann fór yfir á fundinum er hægt að nálgast hér:

http://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_frettir/kynningarfundur_sea_november_2014_endanlegt.pdf

Til að glöggva mig betur á slíkum upplýsingum eins og fram koma á glærunum finnst mér gott að setja slíkar upplýsingar upp í töflur til að átta mig betur á þeim. Af glærunum má ráða að flestar þær íbúðir sem byrjað er að byggja eða áformað er að hefja byggingu á næstu árin eru á vegum fasteignafélaga á dýrustu stöðunum í borginni. Skipulagsvinna er skammt á veg komin á mörgum stöðum og fjöldi lóða sem til stendur að skipuleggja og byggja á eru nú þegar í “eigu” fasteignafélaga enda á borgin ekki mikið til af lausum lóðum vestan Elliðaáa. Þá liggur alveg ljóst fyrir að loforðið um 2500-3000 nýjar leigu- og búseturéttaríbúðir eru aðallega ætlaðar námsmönnum og öldruðum, auk svokallaðra Reykjavíkurhúsa. Þá verður ekki annað ráðið af glærunum hans Dags borgarstjóra en að hann telur upp sem hluta af kosningaloforði sínu íbúðir sem Búseti hefur hafið byggingu á í Einholti-Þverholti*, nú kallað Smiðjuholt, en svæðið keypti Búseti af Reginn hf. löngu fyrir kosningabrelluna eða vorið 2012 eins og sjá má á heimasíðu Búseta http://www.buseti.is/einholt/framkvaemdir-vid-einholt-thverholt/um-verkefnid-1

Í glærunum undir 2500-3000 leigu- og búseturéttaríbúðir kemur fram:

  • Nýjar félagslegar íbúðir
    • Félagsbústaðir ehf.                              500 íbúðir
  • Nýjar stúdentaíbúðir
    • Félagsstofnun stúdenta                       750 íbúðir
    • Háskólinn í Reykjavík                         250 íbúðir
    • Byggingafélag námsmanna                 100 íbúðir
  • Nýjar búseturéttaríbúðir
    • Búseti                                                  451 íbúð
  • Nýjar íbúðir fyrir aldraða
    • Grund-Mörkinni                                  80 íbúðir
    • Félag eldri borgara-Mjódd                  50 íbúðir
    • Samtök aldraða-Bólstaðarhlíð             50 íbúðir
    • Hrafnista-Sléttuvegur                         100 íbúðir
  • Ný búsetuúrræði fyrir fatlað fólk                    28 íbúðir
  • Nýjar íbúðir fyrir öryrkja
    • Brynja, hússjóður                                50 íbúðir

Þá er að finna eftirfarandi upplýsingar á hvaða svæðum tiltekið húsnæði verður byggt:

  • Félagslegslegar leiguíbúðir og Reykjavíkurhús: Vesturbugt, Frakkastígur, Stakkholt, Kirkjusandur, Laugarnes, HR – Öskuhlíð og Móavegur.
  • Búseturéttur: Keilugrandi, Smiðjuholt (Einholt-Þverholt)*, Suður Mjódd og Reynisvatnsás.
  • 1.100 Nýjar stúdentaíbúðir: Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Rauðarárholt-Ásholt og Stakkahlíð.
  • Íbúðir aldraðra og fatlaðra: Vesturbugt, Stakkahlíð, Sléttuvegur, Mörkin, Suður Mjódd, Suðurhóla og Hraunbær.

Eins og sjá má af glærunum skipti Dagur borgarstjóri fyrirlestrinum um fyrirhugaða uppbyggingu í þrennt. Í fyrsta lagi fjallar hann um söluíbúðir og leiguíbúðir sem eru í byggingu eða eru að fara í byggingu á vegum einkaðila þó vitað sé að flestar þessara íbúða séu söluíbúðir. Í öðru lagi fjallar hann um 2500-3000 leigu- og búseturéttaríbúðir. Og í þriðja lagi fjallar hann um ný uppbyggingarsvæði. Hér að neðan má finna töflurnar sem ég setti annars vegar um þær upplýsingar sem fram komu á glærunum um sölu- og leiguíbúðir í byggingu á vegum einkaaðila (Tafla 1) og hins vegar um 2500-3000 nýjar búseturéttaríbúðir (Tafla 2).

Tafla 1       Íbúðir í byggingu á vegum einkaaðila/fasteignafélaga
Staður fjöldi íbúða Staða framkvæmda Eigandi
Grandavegur 142 Framkvæmdir hafnar Þingvangur ehf.
Mýrargata 26 68 Tilbúið að mestu
Tryggvagata 13 40 Samkeppni að hefjast um ytra útlit/framkv.áformaðar 2015 Hús og skipulag ehf.
Ingólfstorg 19 Deiliskipulag samþykkt/framkv. áformaðar 2015 Lindarvatn ehf.
Austurhöfn/reitir 1-2 68 Framkv. áformaðar 2015 Landstólpar ehf.
Austurhöfn/reitur 5 70-110 Framkv. gætu hafist 2015 Auro Investments
Skuggahverfi 77 Verklok fyrri áfanga áætluð 2015 og seinni 2016 Skuggi 3 ehf.
Lindargata 28-32 21 Deiliskipulag samþykkt Skuggi 3 ehf.
Hljómalindarreitur 20 Deiliskipulag samþykkt/framkv. komnar af stað Þinvangur ehf.
Brynjureitur 50-90 Deiliskipulag samþykkt/framkv. hefjast 2015 Þinvangur ehf.
Frakkastígsreitur 68 Deiliskipulag samþykkt/Framkvæmdir hafnar Blómaþing ehf.
Barónsreitir Skipulag í endurskoðun, gætu verið um 200 Rauðsvík ehf.
Hverfisgata 96 (Laugavegur 77) 60 Deiliskipulagsvinna að hefjast Upphaf fasteignafélag slhf.
Guðrúnartún 100 Deiliskipulag samþykkt/framkvæmdir hafnar á einni lóð
Stakkholt 140 Framkv. hafnar/1. áfangi tilbúinn til afhendingar Þ.G. Verk
Skipholt 11-13 20 Deiliskipulag samþykkt/framkv.hafnar Upphaf fasteignafélag slhf.
Höfðatorg 80 Deilisk. samþ./fram. 2015./Heimild f. 250 íb. á reitnum skv. AR Eykt ehf.
Mánatún 175 Fyrri áfangi 2015 og seinni 2015-2016 Mánatún hf.
Sigtúnsreitur 108 Í skipulagsferli, framkv. 2015-2018 Helgaland ehf.
Hlíðarendi 600 Þar af 60 námsmannaíb/Undirb.vinna í gangi Valsmenn ehf./Rvk
Bryggjuhverfi 245 Deiliskipulag samþ./ framkv. 2014-2015 Þ.G. verk
Eddufell 8 24 Tilbúið 2015 Rok ehf.
Skyggnisbraut 112 Framkv. 2014-2016 Red ehf.

 

Tafla 2     2500-3000 leigu- og bústuréttaríbúðir
Staður fjöldi íbúða Staða framkvæmda Eigandi
Vesturbugt 128 Nýtt hverfi, til skoðuanr sem Reykjavíkurhús
Reykjavíkurhús við HR 50-80 Skipulag í undirbúningi
Frakkastígur 1 20 Skoðun á frumstigi (til skoðunar sem Reykjavíkurhús)
Kirkjusandur 300 Deiliskipulag í vinnslu/framkv. áformaðar 2016 Íslandsbanki/Rvk
Laugarnes Skipulag á frumstigi
Keiligrandi 1 78 Skipulag í vinnslu, Búseti fengið vilyrði fyrir lóðinni
Smiðjuholt (Einholt-Þverholt)* 203 Famkvæmdir hafnar Búseti
Suður Mjódd 100 Þar af 50 í búseturétti. Íbúðir fyrir aldraða
Reynisvatnsás 18 18 raðhúsalóðir, skipulag tilbúið Búseti
Háskóli Íslands 400-500 Stúdentaíbúðir, nýtt skipulag í vinnslu
Háskólinn í Reykjavík 350 Stúdenta- og starfsmannaíbúðir, framkv. geta hafist 2015
Rauðarárholt- Ásholt 97 Félagsstofnun stúdenta, framkv. Áformaðar 2015
Stakkahlíð 100 50 íb. fyrir aldraða og 50 fyrir stúdenta, skipulag á frumstigi
Sléttuvegur 280 íbúðir fyrir aldraða, búseturéttur
Mörkin 60-80 Á forhönnunarstigi Grund
Suður Mjódd 100 Íbúðir fyrir aldraða, búseturéttur
Hraunbær 103-105 50 Í undirbúningsferli
Móavegur 2-4 100 Í skoðun sem Reykjavíkurhús

 

Flokkar: Húsnæðismál

Fimmtudagur 6.11.2014 - 12:26 - FB ummæli ()

Neyðarbrautin: Vilji er allt sem þarf

Í morgun var haldinn fundur í at­vinnu­vega- og um­hverf­is- og sam­göngu­nefnd­um Alþing­is í kjöl­far þess að um­hverf­is- og skipu­lags­ráð Reykja­vík­ur­borg­ar samþykkti deili­skipu­lag fyr­ir Hlíðar­enda­svæðið í gær. Dagur borgarstjóri og Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs voru boðaðir á fundinn en þeir afboðuðu sig.

Á fundinum sagði Friðrik Pálsson frá sam­tök­un­um Hjart­anu í Vatns­mýr­inni að NA/SV-braut (06-24), eða svokölluð neyðarbraut, mætti nota áfram væri fyrirhugaðum bygg­ing­um á Hlíðar­enda­svæðinu breytt. Ekki hef­ði hins veg­ar verið hægt að opna þá umræðu. Benti Friðrik á að ef full­ur vilji væri til staðar um að kom­ast að sam­komulagi um flug­völl­inn þá væri það hægt. Til dæm­is væri hægt að breyta lög­un þeirra bygg­inga sem fyr­ir­hugað sé að reisa á Hlíðar­enda­svæðinu þannig að hægt yrði að nota braut­ina áfram á meðan unnið væri að lausn­um til lengri tíma.

Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram tillögu þess efnis í borgarráði 23. október 2014 en tillögunni var frestað. Tillagan er svohljóðandi: „Gerð er tillaga um að Reykjavíkurborg hefji án tafar viðræður við félög tengd uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu um að finna lausn á fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi Hlíðarenda þannig að fyrirhugaðar byggingar komist fyrir á reitnum án þess að vera hindrun fyrir flugbraut 06/24 eða svokallaða „neyðarbraut“ svo hún geti áfram haldið hlutverki sínu þrátt fyrir uppbyggingu á Hlíðarenda og allir hagsmunaaðilar geti vel við unað.“

Flokkar: Flugvöllur

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur