Laugardagur 08.10.2011 - 18:28 - Lokað fyrir ummæli

Mannauðsmál ríkisins í kreppu

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 8. október 2011.

Nýútkomin skýrsla Ríkisendurskoðunar dregur fram helstu ógnir og veikleika í mannauðsmálum ríkisins. Ábendingar eru gerðar til fjármálaráðuneytisins í tíu liðum sem segja í stuttu máli þetta:

– Afmarka þarf framtíðarverkefni ríkisins og meta hvers konar mannafla þarf til að framkvæma þau.

– Ríkið þarf að tileinka sér árangursríkari mannauðsstjórn og hlúa betur að starfsfólki sínu.

– Ríkið þarf að laða til sín og halda í hæft og vel menntað starfsfólk.

Þetta hljómar mjög skýrt (auk þess að hljóma eins og BHM hefði skrifað það) en hefur engu að síður reynst erfitt að koma til leiðar.

Tillögur Ríkisendurskoðunar til fjármálaráðuneytisins um leiðir til að laða að og halda í hæft starfsfólk endurspegla þá vankanta sem nú eru á framkvæmd mála. Bent er á mikinn launamun háskólamenntaðra starfsmanna miðað við almennan vinnumarkað, skort á umbun til starfsmanna sem skara fram úr og brotalamir í mannauðsstjórnun hjá stofnunum ríkisins. Einnig er til þess tekið að illa sé fylgst með starfsmannaveltu og veikindafjarvistum, en slíkur sofandaháttur hlýtur að teljast afar varhugaverður á tímum eins og nú, þegar saman fara strangar aðhaldskröfur í rekstri og oft stóraukin eftirspurn eftir opinberri þjónustu.

Stundum kostar fleira fólk minna en færra fólk

Veikindafjarvistir og starfsmannavelta eru mjög kostnaðarsöm fyrirbæri og hvorugt til þess fallið að létta róður stofnana á niðurskurðartímum. Stundum er eflaust ódýrara að fjölga starfsfólki en fækka því, enda skilar vinnandi fólk afköstum í þjónustu sem fjarverandi eða fyrrverandi starfsfólk gerir ekki. Ríkið ætti að gæta að þessu umfram aðra vinnuveitendur, þar sem kostnaður vegna þeirra sem eru veikir eða utan vinnumarkaðar fellur á ríkissjóð, rétt eins og launakostnaður starfsmanna.

Leiðarljós fjármálaráðherra í aðhaldsaðgerðum dýpkaði vandann

Varðandi samkeppnishæfni ríkisins um sérfræðimenntaða starfsmenn tekur skýrsla Ríkisendurskoðunar í sama streng og aðrar sem á undan henni komu, svo sem Rannsóknarskýrsla Alþingis og skýrslan „Samhent stjórnsýsla“ sem nefnd á vegum forsætisráðherra skilaði í árslok 2010. Launamunur milli markaða er til vansa, starfsmannavelta mikil og of lítið gert til að laða að og halda í mannauð.

Veikleikar stofnana ríkisins, ósamkeppnishæf launakjör og atgervisflótti hafa síst batnað í kjölfar aðgerða sem hvatt var til í „Leiðarljósi í aðhaldsaðgerðum“, eins og það birtist í skýrslu fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum sumarið 2009. Leiðarljósið fjallaði m.a. um að lækka laun embættismanna og setja þak á hæstu laun ríkisstarfsmanna byggt á grunnlaunum forsætisráðherra. Laun háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins voru markvisst lækkuð og tilmælum beint til annarra stofnana ríkisins að lækka laun yfir 400 þúsund krónum. Aðgerðir þessar stuðluðu markvisst að því að skerða kjör háskólamenntaðra sérfræðinga hjá ríkinu.

Leiðarljós ráðherra kvað og á um að náttúrleg fækkun starfsmanna skyldi látin viðgangast og nýráðningum haldið í lágmarki. Dregið skyldi úr yfirvinnu og aukagreiðslum um leið og vitað var að annir myndu líklega aukast á öllum sviðum ríkisrekstrar. Skrúfað var fyrir framlög til sí- og endurmenntunar, sem er sérfræðingum nauðsynleg til að geta staðið undir nafni.

Ekki kom beint fram í leiðarljósinu að treyst skyldi á guð og lukkuna í starfsmannahaldi, en nánast má lesa það á milli línanna þegar hliðsjón er höfð af ábendingum fagaðila í mannauðsmálum.

Framtíðarmannafli í óvissu

Það sem ég les á milli lína í áherslum fjármálaráðuneytisins um mannauðsumsýslu á krepputímum er að treysta skuli á þolgæði ríkisstarfsmanna, fórnfýsi, trygglyndi, hugsjónir og brennandi áhuga þeirra á starfi sínu.

Segja má að það hafi gefist nokkuð vel hingað til, félagsmenn BHM í ríkisþjónustu umbáru til dæmis 26 mánaða samningsleysi án launahækkana af nokkru tagi. Sami hópur umbar um leið markvissar launaskerðingar, hækkaða skatta, auknar álögur og tekjutengingar.

Þessi hópur bíður þess nú að ríkið standi við sinn hluta bókana með nýgerðum kjarasamningum og endurskoði forsendur launaákvarðana hjá háskólamenntuðu starfsfólki. BHM telur úrelt að háskólamenn þiggi laun samkvæmt kerfi sem á meira skylt við uppmælingu en mat á vinnuframlagi sérfræðinga.

Háskólamenn eru framtíðarmannafli ríkisins, enda eðlilegt að opinber þjónusta byggist jafnan á nýjustu og bestu fagþekkingu. Enn er óskrifað blað hvernig ríkið ætlar að laða til sín og umbuna framtíðarstarfsfólki sínu fyrir vel unnin störf og brýnt að bætt verði úr þeirri óvissu.

BHM gerir þá kröfu að markvisst verði unnið að verkefnum bókana með nýgerðum samningum hvað varðar samanburð á kjörum milli almenns og opinbers vinnumarkaðar, mannauðsmál, framþróun starfsumhverfis og eflingu sí- og endurmenntunar félagsmanna BHM hjá ríkinu.


Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur