Þriðjudagur 18.10.2011 - 15:56 - Lokað fyrir ummæli

Orðspor um klíkuskap

Lengi hefur það orð farið af ráðningum í opinber embætti á Íslandi að þær einkennist af klíkuskap og vinafyrirgreiðslum.

Það er slyðruorð sem stjórnsýslan þarf að hrista af sér.

Opinber umræða á Íslandi einkennist oftar en ekki af áköfum, en tímabundnum, rifrildum um fólk frekar en málefni.  Jafnvel umræða sem fer málefnalega af stað hefur tilneigingu til að enda í skotgröfum, þar sem mælendur skiptast í fylkingar þeirra sem ýmist herja á – eða verja – tilteknar persónur.

Það er ósiður sem íslensk umræða þarf að losa sig við.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þörf stjórnsýslunnar til að ástunda faglegar og málefnalegar mannaráðningar, með opnum og skýrum ferlum og ríkulegri upplýsingagjöf.  Slík umfjöllun lætur iðulega að því liggja að úrbóta sér þörf, sem dæmi má nefna skýrsluna „Samhent stjórnsýsla“ sem nefnd á vegum forsætisráðherra ritaði í árslok 2010.

Í þeirri skýrslu er meðal annars lagt til að skil verði gerð milli pólitískt ráðinna starfsmanna í Stjórnarráðinu (t.d. aðstoðarmanna ráðherra) og annarra starfsmanna sem óumdeilanlega eigi að meðhöndla án tillits til pólitískrar afstöðu, forsögu eða tengsla.

Meginstefið í umræðum um skil pólitíkur, kunningsskapar og faglegra ráðninga í opinberar stöður er að stjórnsýsla sem ekki nær að hrista af sér orðspor um óeðlilega fyrirgreiðslu, vinaráðningar o.s.frv., gjaldi fyrir með trúverðugleika sínum.

Orðspor um klíkuskap er skaðlegt eitt og sér, þótt ekki sé endilega sannað að hann viðgangist.

Ráðingarferli hefst nefnilega með því að fólk sækir um starf.

Ímynd vinnustaðarins hefur mikið um það að segja hverjir sækjast þar eftir starfi.  Sá sem innst inni trúir því að ráðning muni verða byggð á tengslum frekar en hæfni hugsar sig tvisvar um áður en hann sækir um auglýst starf.

Þegar hið opinbera er annars vegar, mega umsækjendur alltaf búast við því að nöfn þeirra verði birt opinberlega á einhverjum tímapunkti í ráðningarferlinu.  Slík birting getur verið einstaklingnum viðkvæm og mögulegt að orðspor um klíkuskap letji annars hæft fólk til að sýna störfum áhuga.

Athyglisvert er í þessu samhengi að skoða fjölda umsækjenda um opinberar stöður nú á tímum mikils atvinnuleysis og óöryggis á vinnumarkaði. 

Hversu margir sóttu t.d. um starf forstjóra Bankasýslu ríkisins?  Samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar voru umsækjendur fjórir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur