Fimmtudagur 03.01.2013 - 13:44 - Lokað fyrir ummæli

Ríkisstofnun efnir til samskota fyrir aðra ríkisstofnun

Undanfarið hafa heilbrigðis- og umönnunarstéttir hver af annarri stigið fram og krafist úrbóta vegna lélegra launakjara og mikils vinnuálags.

Jafnframt hefur verið bent á slæmt ástand tækja- og húsbúnaðar á sjúkrastofnunum landsins.

Almennt ríkir samstaða um nauðsyn þess að bæta úr hvoru tveggja. Enda gildir jafnt um mannauðinn og aðstöðuna, að ef sinnuleysi varir of lengi verður kostnaðarsamt og erfitt að ná fram úrbótum.

Vandi kvenna?

Að mínu mati er mikil einföldun að halda því fram að erfiðleikar í heilbrigðisgeiranum séu vandamál kvennastétta, eins og gert hefur verið að undanförnu meðal annars af hálfu velferðarráðherra. Það ætti í fyrsta lagi að vera orðið úrelt tungutak að tala um kvennastéttir, enda gerir sú staðreynd að fleiri konur en karlar veljast til starfa í hjúkrun og umönnun heilbrigðisþjónustu ekki að sérstöku málefni kvenna. Mögulega er þarna um smættun vandans að ræða; að tengja hann öðru kyninu fremur en hinu.

Illa starfhæft heilbrigðiskerfi er nefnilega sameiginlegur vandi okkar allra, karla jafnt sem kvenna.

Biskup til bjargar?

Nýleg yfirlýsing biskups Íslands um peningasöfnun til tækjakaupa fyrir sjúkrahús, sem hún sér fyrir sér að hefjist í samskotabaukum við messur og  ljúki svo með sjónvarpssöfnun undirstrikar í mínum huga þann stóra vanda sem heilbrigðisþjónusta – og jafnvel allt starf með fólk – býr við.

Það viðhorf að slík starfsemi þurfi að byggjast á samskotum er auðvitað forkastanlegt.

Sú staðreynd að kirkjan er ríkisstofnun og þiggur sem slík framlög úr sameiginlegum sjóðum landsmanna virkar ekki síður truflandi á mig. Það er eitthvað súrrealískt við það að ein stofnun sem rekin er af almannafé efni til samskota meðal almennings til að fjármagna aðra ríkisþjónustu.

Látum vera ef óháð samtök safna fyrir málefni sem þau telja þarft og mikilvægt.

Og látum vera að heilbrigðisstarfsemi sé almennt svo naumt fjármögnuð að fólki þyki eðlilegt að tækjakaup og byggingar hennar sé fjármagnað með samskotum.

Nei annars, látum það ekkert vera, því þannig á þetta auðvitað ekki að vera.

Ekki frekar en að efna ætti til söfnunar til að endurnýja ljósritunarvélar í stjórnarráðinu.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur