Sunnudagur 17.08.2014 - 15:01 - FB ummæli ()

Leikreglur, hagkerfið… og Landsnet

Einhverjir hafa komið að máli við mig eftir síðasta pistil þar sem ég benti á að „stofnanaleg umgjörð hagkerfisins“ (SUH) skiptir máli fyrir gengi krónunnar – og raunar gengi hagkerfisins alls. Það virðist hins vegar vera á reiki hvað ég er að meina með „stofnanalegri umgjörð hagkerfisins“. Mig langaði því til að notast við nýlegt og ákallandi dæmi til að útskýra hugtakið og mikilvægi þess betur.

Hvað er SUH?

SUH er samansafn „leikreglna“. Eins og allir þeir sem einhvern tímann hafa leikið sér eða stundað íþrótt vita þá skipta leikreglur leiksins/íþróttarinnar höfuðmáli. Leikreglurnar skilgreina hvernig leikmenn eiga að haga sér og þær skilgreina markmið leiksins. Örlitlar breytingar á leikreglum geta gjörbreytt leiknum, jafnvel svo mikið að um nýjan leik er að ræða. Dæmi er t.d. bandarískur ruðningur sem þróaðist út frá rugby í Englandi. Í ensku rugby er bannað að henda boltanum fram og upphaflega var sú leikregla í bandarískum ruðningi – og var munurinn á leikjunum því ekki mikill. Allt breyttist hins vegar þegar slík sending fram á völlinn var leyfð og bandarískur ruðningur varð í raun til.

Annað dæmi er þegar konur fengu kosningarétt, þá breyttust allar leikreglur í bæði stjórnmálum og efnahagsmálum. Eða þegar þrælahald var bannað. Eða þegar almenningur í Bretlandi fékk vald til að hafa aukin áhrif á stefnu stjórnvalda eftir „Glorious Revolution“ í Bretlandi á 17. öld. Eða þegar Ísland átti að taka upp nýja stjórnarskrá – sem var kæft. Allt eru þetta dæmi um breytingar á leikreglum hag- og stjórnkerfisins en oft er línan þar á milli ógreinanleg. Allt eru þetta dæmi um breytingar á SUH.

En hvernig á SUH að vera?

Svarið við þessari spurningu fer eftir því hver þú ert. Ef þú ert aðili sem hefur hag af því að leikreglurnar séu eins og þær séu eða verði breytt þannig að þú fáir aukin efnahagsleg eða pólitísk völd viltu skiljanlega að reglurnar séu þannig. En það er ekki þar með sagt að það sé best fyrir þjóðina alla, þ.e. alla leikmennina. Þótt þú græðir á leikreglunum geta þær verið, svo ekki sé fastar að orði komist, óheppilegar fyrir aðra.

Í eins stuttu máli og ég get ímyndað mér að koma því á blað: grundvallarviðmiðið er að leikreglurnar – SUH – eiga að vera sanngjarnar og siðferðislega réttlátar. Þær eiga að taka á öllum aðilum, stórum sem smáum, á sama hátt og veita öllum leikmönnum (þjóðin) sömu tækifæri (t.d. „einn maður, eitt atkvæði“ sem er brotið á Íslandi). Enginn á að fá pólitíska meðhöndlun vegna þess að hún/hann þekkir einhvern og enginn á að fá aukin völd samkvæmt leikreglunum nema allir aðrir leikmenn (þjóðin) ekki eingöngu samþykki það heldur hafi möguleika á að breyta skoðun sinni hvenær og hvernig sem er. Að hafa framkvæmda-, löggjafar-, dóms- eða einhvers konar ákvörðunarvald innan stjórnkerfisins á ekki að fela í sér aukna möguleika á því að koma sér upp efnahagslegum auði né heldur á slíkt að bjóða upp á að auka auð tengdra aðila viðkomandi á kostnað annarra leikmanna. Þá á efnahagslegur auður ekki að koma fólki til þessara valda. Stofnanir hins opinbera skulu bera hag allra leikmanna í brjósti en ekki sinn eigin, sinna forstöðumanna eða tengdra aðila. Opinberar stofnanir mega aldrei hafa ákvörðunarvald án stöðugs utanaðkomandi aðhalds frá annaðhvort leikmönnum sjálfum eða öðrum opinberum stofnunum því þá er stór hætta á að slíkt vald verði misnotað. Aðgangur almennings að valdhöfum og framkvæmdaaðilum opinberrar þjónustu skal vera skýr, opinber og áhrifaríkur.

Dæmi: Landsnet og fyrirhuguð lagabreyting á raforkulögum

Nú langar mig til að nefna dæmi um fyrirhugaða breytingu á leikreglum hagkerfisins sem brýtur í bága við sum af grundvallarviðmiðunum hér að ofan. Þetta dæmi er fyrirhuguð lagabreyting á raforkulögum. Samkvæmt þessum breytingum mun eftirfarandi gerast:

  • Landsnet fær aukið ákvörðunarvald en minna aðhald frá bæði þjóðinni allri og öðrum opinberum stofnunum (Orkustofnun í þessu tilfelli). Þessu er best lýst með þeirri hugmynd í fyrirhuguðum lagabreytingum um kerfisáætlun sem Landsnet skal gera og framkvæma. Þessi kerfisáætlun verður gerð opinber og opin fyrir athugasemdum aðeins í byrjun en eftir að Orkustofnun hefur veitt leyfið fyrir henni er Landsnet með nánast öll spil á hendi.
  • Orkustofnun getur krafist „þess að [Landsnet] geri  breytingar á kerfisáætlun, eftir því sem stofnunin telur þörf á.“ En ekkert er sagt um forsendur þess hvenær Orkustofnun myndi krefjast þessa. Þess aukin heldur er Orkustofnun ekki beint undir almenning komin heldur ráðherra – sem almenningur nota bene skipar ekki. Áhrifamáttur almennings á Landsnet er því orðinn að svo gott sem engu (sjá einnig síðasta punktinn í þessum lista).
  • „Greining valkosta“ í framkvæmdaáætlun (til 10 ára) er eins og Landsnet sér hana fyrir sér, enginn annar. Miðað við þá staðreynd að Landsnet ofmat kostnað vegna lagningu jarðstrengja um Voga og nálæg sveitarfélög um ca. 300-500% má efast um að Landsnet sé, eitt og óstutt, í stakk búið til að gera þessa „greiningu valkosta“ eins og það sér hlutina.
  • Eftir að framvæmdaáætlun, gerð af Landsneti, hefur verið stimpluð frá Orkustofnun fá sveitarfélög enga möguleika á að breyta henni – nema í gegnum Orkustofnun sem, aftur, lýtur ekki þeirra vilja heldur ráðherra. Raunar er það svo að Landsnet fær hluta ákvörðunarvalds sveitarfélaga í hendurnar samkvæmt drögunum: „Sveitarfélögum ber við næstu endurskoðun aðalskipulags, eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri 10 ára kerfisáætlun.“ Ef þetta hefði verið raunin í Eyjafirði í dag hefði Landsnet getað hunsað óskir íbúa og sveitarfélagsins og lagt háspennulínuna beint fyrir framan Akureyrarflugvöll – því þannig var kerfisáætlunin – með tilheyrandi flugslysahættu (sjá t.d. frétt RÚV um baráttu sveitarfélaga og íbúa í Eyjafirði við Landsnet).

Athugasemdir almennings við gjörðir og áætlanir Landsnets verða takmarkaðar miðað við það sem þær eru í dag. Eftir breytingu er eini möguleiki almennings að hafa áhrif á stefnu Landsnets með athugasemdum við kerfisáætlun. Í dag fær almenningur mun fleiri tækifæri (kerfisáætlun, drög að tillögu að matsáætlun, tillaga að matsáætlun…).

Landsnet verður líka erfiðara að leiðrétta þegar það tekur upp á því að mistúlka lög og reglur sem um það gilda. Frægasta vitleysa Landsnets á þessu sviði er túlkun þess á raforkulögum sem fyrirtækið skal framfylgja. Landsnet heldur því fram að „skylda [sé] lögð á Landsnet að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku.“ En þetta er kolrangt. Sannleikurinn er að skylda er lögð á Landsnet að byggja flutningskerfið upp á þjóðhagslega hagkvæman hátt (1.mgr. 1. gr. raforkulaga, nr. 65/2003) að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku.

Munurinn á „hagkvæmum hætti“ og „þjóðhagslega hagkvæmum hætti“ er stórkostlegur! „Hagkvæmur háttur“ á við Landsnet eitt og sér og má einfaldlega túlka sem hagnað fyrirtækisins. Þjóðhagslega hagkvæmur háttur á við Landsnet og þjóðina alla! Síðara hugtakið innifelur þar með neikvæð og jákvæð áhrif af starfsemi Landsnets á þjóðina alla sem og hagnað Landsnets.

Munurinn á „hagkvæmum hætti“ og „þjóðhagslega hagkvæmum hætti“ er því svipaður og munurinn milli nettó og brúttó. Oft hef ég spurt mig hvernig Landsnet hefur náð að gera þessa grundvallarskissu.

Í heildina á litið er því þessi tillaga að breytingum á leikreglum hagkerfisins þvert á það sem grundvallarviðmiðið ætti að vera. Landsnet fær aukið ákvörðunarvald en þarf að taka minna tillit til sjónarmiða almennings og annarra opinberra stofnana en áður. Landsnet fær raunar svo mikið ákvörðunarvald að það er sett hærra í goggunarröðina en ákvörðunarvald sveitarfélaga þegar kemur að flutningskerfi raforku. Í stuttu máli er leikreglunum breytt til hins verra með tilheyrandi neikvæðum efnahagslegum afleiðingum.

Þetta er bara örlítið dæmi um hversu víðfem áhrif „leikreglnanna“ eru. Það er fátt í hagkerfinu sem er annaðhvort ekki hluti af leikreglunum sjálfum – hluti af stofnanalegri umgjörð hagkerfisins – eða bein afleiðing þeirra. Hagkerfið, þ.e. leikurinn,er skilgreint innan veggja þessara leikreglna. Þess vegna skipta leikreglurnar svona miklu máli fyrir efnahagslega þróun.

Þess má geta að atvinnuvegaráðuneytið tekur við athugasemdum frá almenningi – mér og þér – við frumvarpsdrögin til og með 20. ágúst. Hafiði áhuga á því að leikreglur Íslands séu ekki ósanngjarnar, hygli ekki sumum á kostnað annarra og virði ekki álit almennings að vettugi skuluð þið endilega senda ráðuneytinu línu (postur@anr.is) með athugasemdum varðandi frumvarpsdrögin. Og munið orð Montesquieu:

Harðstjórn prins í fáræðistjórn er ekki jafn hættuleg fyrir velferð almennings og sinnuleysi borgara í lýðræðisríki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur