Miðvikudagur 27.08.2014 - 10:46 - FB ummæli ()

Í tilefni af verðtryggingaráliti EFTA

Blaðamaður hjá 365 hefur fengið leyfi til þess að fjalla um ráðgefandi álit EFTA dómsstólsins um verðtrygginguna sem væntanlegt er á morgun. Ég ætla að segja ykkur frá því strax að ef álitið er á þann veg að verðtrygging sé ólögleg samkvæmt tilskipun um óréttmæta skilmála í neytendasamningum og skoða þarf ca. 1.500 milljarða af verðtryggðum skuldum á Íslandi þá er engin hætta á því að ríkissjóður fari á hausinn.

Ástæðan er sú að ríkissjóður og Seðlabanki Íslands geta skrifað niður eins margar krónur niður á blað og þeim lystir og búið þær til með því einu að stimpla nokkrar tölur inn í tölvu. Þetta var t.d. gert „í massavís“ árið 2008 þegar Seðlabankinn fékk aukið eigið fé „frá“ ríkissjóði upp á 270 milljarða í formi ríkisskuldabréfs (ríkissjóður fékk í staðinn ástarbréf bankanna). En enginn hafði borgað þessa 270 milljarða í skatta. Þeir voru heldur ekki millifærðir si svona frá ríkissjóði til Seðlabankans. Það eina sem var gert var að ríkisskuldabréfið var búið til með því einu að stimpla það inn í tölvu á Kalkofnsvegi 1 og eins og hefur verið rætt má þetta skuldabréf vera með hvaða vöxtum og lánstíma sem er, þar með talið 0% og 1000 ár.

Hið sama yrði upp á teningnum ef ríkissjóður þyrfti að redda t.d. Íbúðalánasjóði út úr sínu gjaldþroti (gefið að svokölluð ríkisábyrgð á þeirri stofnun haldi) vegna ólögmæti verðtryggingar. Ríkissjóður gæti að sama skapi búið til eins margar krónur og hann vildi ef það þyrfti t.d. að bjarga bankastofnunum frá eiginfjárvandræðum vegna ólögmæti verðtryggingar á neytendalánum.

Það er svo önnur spurning hverjar yrðu aðrar efnahagslegar afleiðingar af ólögmæti verðtryggingar á neytendalánum. Blessunarlegar erum við nú þegar með ágætis dæmi til að leiðbeina okkur þegar við hugsum um svarið við þeirri spurningu: ólögmæti gengistryggðu lánanna. Ekki virðist það ólögmæti hafa haft neinar stórkostlegar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar. Almennt má raunar telja afleiðingarnar frekar jákvæðar: minni skuldavandræði einstaklinga og fyrirtækja, meiri vilji til neyslu og fjárfestingar, o.s.frv.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram, þar til annað kemur í ljós, að það yrði blessun fyrir íslenskt efnahagslíf ef verðtrygging á neytendalánum yrði dæmd ólögleg. Mótvægisaðgerðir þyrftu vafalaust að vera einhverjar (ÍLS, hugsanlega einhverjar bankastofnanir, aukin útgáfa verðtryggðra ríkisskuldabréfa) en á heildina litið yrði niðurstaðan vafalaust jákvæð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur