Laugardagur 09.12.2017 - 17:24 - FB ummæli ()

Lánsframboðið og biðraðirnar á 8. áratugnum

*Tvöfalt lengri útgáfa af þessum pistli birtist fyrst á Patreon síðu minni þar sem mínir velunnarar fengu aðgang að honum fyrst. Þú getur styrkt bóka- og greinarskrif mín um íslensk efnahagsmál á Patreon.com. $3 á mánuði veita þér aðgang að öllum pistlum og bætirðu $2 við sendi ég þér eintak af fyrstu bók minni þegar hún verður tilbúin, vonandi á fyrri hluta næsta árs*

——————————————-

Það er tvennt sem virðist vera ofarlega í huga fólks í kjölfarið á greinaröð okkar Ásgeirs Daníelssonar í Kjarnanum (sjá hér, hér, hér, hér, og hér), bæði nátengt hvoru öðru.

Hið fyrsta er hinn meinti skortur á sparnaði sem á að hafa verið ástæða þess hví biðraðir mynduðust eftir lánsfé á 8. áratugnum. Það tel ég rangt og hef bent á hversu hratt útlán bankanna þöndust út á þessum tíma: ef það var skortur á framboði af lánum, hvernig gátu útlán bankanna þanist jafnhratt út og raunin var (nei, svarið er ekki að horfa á svokallað raunmagn útlána)? Hið annað er að ef ég hef rétt fyrir mér um ofgnótt lánsfjár á 8. áratugnum, hvernig gátu þá biðraðirnar myndast?

Skýringin fyrir báðum atriðum liggur í misskilningi um hvernig bankar og markaðurinn með lán virka: bankar eru ekki milligönguaðilar milli þeirra sem vilja spara og þeirra sem vilja taka lán og lánaskömmtun (e. credit rationing) er eðlilegur hluti lánamarkaðar, hvort sem lánamarkaður er frjáls eða ekki.

Skorturinn á sparnaði

Í fyrsta lagi virðist sumt fólk ekki trúa því að mikið lánaframboð á 8. áratugnum hafi verið mögulegt því verðbólga var svo mikil. Vegna verðbólgunnar vildi þá enginn spara og þar sem ekkert framboð af sparnaði var til staðar átti lánaframboðið náttúrulega að vera takmarkað – því sparnaður verður jú að gerast áður en einhver getur tekið lán, ekki satt?

Þetta viðhorf er gamla „loanable funds“ kenningin í nýklassískri hagfræði: einhver verður að spara, t.d. með því að leggja féð í banka, til að einhver annar geti tekið viðkomandi sparnað að láni, t.d. með láni frá banka. Þetta er líka angi af hinni svokölluðu „commodity theory of money“, þ.e. að grundvöllur virðis peninga sé varan sem þeir eru gerðir úr og að best sé að horfa á peninga sem hverja aðra vöru – og markaðurinn með peninga á þá að haga sér eins og hver annar vörumarkaður með framboði, eftirspurn o.s.frv.

Þessar kenningar, þ.e. „loanable funds“ og „commodity theory of money“ eru því miður ekki í sátt við raunveruleikann. Bankar eru ekki milligönguaðilar þeirra sem vilja spara og þeirra sem vilja taka lán heldur búa bankar til bæði útlánið og innlánið á sama tíma. Enginn þarf að leggja fé inn í banka til að viðkomandi banki geti veitt lán. Þetta er hluti af því sem er kallað „credit theory of money“, þ.e. að grundvöllur virðis peninga sé traust.

Það er óþarfi að trúa mér einum í þessu samhengi, hér eru t.d. seðlabanki Englands og seðlabanki Þýskalands að leggja áherslu á að bankar séu ekki milligönguaðilar milli þeirra sem vilja spara og þeirra sem vilja taka lán:

Þannig er það svo að lánaframboð bankastofnana fer ekki eftir því hvort einhver spari (leggi fé í banka) eða ekki. Þess vegna var „skortur á sparnaði“ á 8. áratugnum enginn þegar kom að því að fá lán hjá banka, einfaldlega vegna þess að enginn þörf var á sparnaði til að bankar gætu veitt lánin: skortur á sparnaði getur ekki hafa verið ástæða þess hví biðraðir mynduðust hjá bankastjórum þessa tíma því bankastjórarnir þurftu ekki á sparnaði að halda til að veita útlán.

Löngu biðraðirnar á 8. áratugnum

Í öðru lagi hefur borið á því að vísað sé til þess að skortur hafi verið á framboði af lánum á 8. áratugnum og er t.d., eins og Ásgeir gerir, vísað til löngu biðraðana eftir viðtölum við bankastjóra. Því hljóti að hafa verið skortur á framboði af lánum, ekki satt?

En biðraðirnar eftir viðtölum við bankastjóra á 8. áratugnum voru ekki vegna skorts á lánsfé eða sparnaði heldur vegna þess að bankar stunduðu öðruvísi lánaskömmtun (e. credit rationing) þá miðað við nú.

Það verður að undirstrika að markaðurinn með lánsfé virkar ekki eins og hver annar vörumarkaður. Markaðir eiga að virka þannig að lækki verðið á vörunni munu fleiri kaupendur koma á markaðinn. En lánamarkaður er drifin áfram af lánaskömmtun þar sem aðilar á framboðshlið markaðarins takmarka magnið af lánum sem þeir veita, jafnvel þótt eftirspurnarhliðin sé til í að taka lán á vöxtunum, þ.e. „borga markaðsverðið á vörunni“, sem gilda þann daginn: jafnvel þótt Jón vilji taka lán á 10% vöxtum þá treystir bankinn honum ekki einu sinni til að geta borgað lánið til baka á 2% vöxtum. Þannig er framboðshliðin af lánum það sem kallað er „short side of the market“, sem er dæmi um það sem er kallað markaðsbrestur í nýklassískri hagfræði: verðbreytingar (vaxtabreytingar) nægja ekki til að koma á „jafnvægi“ á markaðinn þar sem framboð og eftirspurn eru jafnt hvoru öðru.

Það er gaman að minnast á að Adam Smith áttaði sig á þessu. Hann kallaði þá sem vildu taka lán á háum vöxtum „prodigals and projectors“ („eyðsluklær og draumóramenn“) og studdi þess vegna 5% vaxtaþakið sem var við lýði á þeim tíma í Englandi: hann áttaði sig á að markaðsbrestur var á markaði með lánsfé og þess vegna studdi hann inngrip hins opinbera.

Lánaskömmtun mun áfram vera til staðar þótt lántakinn væri til í að taka lán á hærri vöxtum en væru í gildi þann daginn því bankinn telur sig ekki græða á því að lána viðkomandi lántaka, einfaldlega vegna þess að bankinn er ekki sammála því að lántakinn geti borgað lánið til baka. Þetta gildir hvort sem um fullkomlega frjálsan lánamarkað er að ræða eða ekki því bankar gera þetta alltaf: á hverjum einasta degi fá fjölskyldur og fyrirtæki sem vilja taka lán hjá banka á verði fjármagns (vöxtum) þann daginn þau svör að bankinn vilji ekki veita þeim lánið. Bankar þannig bæði búa til og skammta lánsfjármagn – sem aftur býr til fróðlegar pælingar um hversu mikil áhrif stýrivaxtabreytingar (verðbreytingar) hafa í raun á lánsfjármarkað og hagkerfið sem heild. En það er önnur saga.

Ástandið á 8. áratugnum og löngu biðraðirnar voru þannig ekki drifnar af skorti af sparnaði sem ekki átti að vera til staðar til þeirra sem vildu taka lán heldur vegna þess að lánaskömmtun bankakerfisins var m.a. byggð á því hvort þú værir í rétta pólítíska flokknum eða ekki.

Lánaskömmtun bankakerfisins í dag er hins vegar meira háð því hvort bankinn telji sig græða á því að búa til útlán og innlán handa þér en lánaskömmtunin er til staðar eftir sem áður. Skorturinn á sparnaði er vitanlega enginn í dag, alveg eins og fyrir 40 árum síðan. En lánaskömmtunin er öðruvísi, þ.e. hún er framkvæmd á annan hátt en fyrir 40 árum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Olafur Margeirsson
Einn af þessum með doktorsgráðu í hagfræði. Skrifar bækur og greinar um efnahagsmál fyrir íslenskan almenning. Þú getur styrkt mína vinnu á Patreon.
RSS straumur: RSS straumur